Verndum bernskuna

Verndum bernskuna

Það eru mörg börn, hér heima og um allan heim, sem búa við báðar þessar aðstæður, von og vonleysi. Bernskan er viðkvæmt æviskeið, bernskan er mótunartími, þar byrjar sjálfsmyndin að mótast og lengi býr að fyrstu gerð. Það er hlutverk okkar að hlúa að bernskunni, búa þannig að henni að öll börn fái notið kærleika og virðingar því þar er uppspretta vonarinnar.
fullname - andlitsmynd Elínborg Gísladóttir
24. desember 2005
Flokkar

En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Ágústus keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gjörð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar. Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs,að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni, sem var þunguð. En meðan þau voru þar, kom sá tími, er hún skyldi verða léttari.Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu, af því að eigi var rúm handa þeim í gistihúsi. En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar.Og engill Drottins stóð hjá þeim, og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir, en engillinn sagði við þá: Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs.Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu.

Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita, sem lofuðu Guð og sögðu:

Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á. Lk.2.1-14

Gleðilega hátíð, gleðileg jól

Það er aðfangadagskvöld, jólanóttin, nóttinn helga er að ljúkast upp, jólaklukkurnar hafa hringt inn jólin.

Kyrrð og friður færist yfir allt.

Og í morgun þegar við vöknuðum fundum við innra með okkur að stundin var að renna upp, eftirvæntingin lá í loftinu og við að leggja lokahönd á undirbúningin. Ilmurinn úr eldhúsinu berst um húsið. Við dekkum borðið með öllu því besta sem við eigum, höldum í hefðina og reynum að hafa allt eins og það hefur alltaf verið um jólin.

Og í öllu þessu skynjum við þessa ólýsanlegu tilfinningu sem lætur okkur finna að heilaga stundin er nærri, að Guð er í nánd, návist hans er allt um kring.

Undirbúningur okkar og öllu amstrinu líkur með því að við heyrum sögu, einfalda sögu sem sem býr yfir meiri leyndardómi en augað fær séð og eyrað nemur og er öðruvísi en aðrar sögur, því hún er upphaf af eilífðinni, þegar himinn og jörð mætast, þegar himinn opnast og englarnir birtast og segja:

sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: yður er í dag frelsari fæddur sem er Kristur Drottinn.

Englarnir bera okkur boðskap sem felur í sér kærleika og von. En er mikilvægt að eiga von?

Ég sé fyrir mér ljóshærðan drenghnokka. Það er sem hann komi hlaupandi á móti mér - brosandi – geislandi af gleði. Bláu augun hans ljóma og mér finnst sem þessi litli kútur búi við öryggi og gott atlæti. Hann ber það með sér að hafa stöðu í samfélaginu, stöðu sem er viðurkennd, það að vera barn og fá að vera barn. Þar sem sjálfsmyndin fær að vaxa, þar sem vonin verður til og gleðin yfir því að taka þátt í lífinu vegna þess að það hefur upp á svo margt að bjóða.

Þessi litli drengur prýðir forsíðu á bæklingi sem heitir Verndum bernskuna. Þessi bæklingur hefur borist inn á hvert heimili og í honum er að finna tíu almenn heilræði fyrir foreldra og uppalendur barna.

Í öðru blaði er dregin upp önnur mynd af öðrum dreng 15 ára gömlum. Hann þekkti lítið annað enn þrælavinnuna í verksmiðjunni. Konan sem segir þessa sögu vinnur við hjálparstarf og fekk hún að fara inn í verksmiðjuna.

Hún segir svo frá; Ég veitti þessum dreng athygli ég gékk til hans og spurði hann, eins og svo marga aðra, hvað hann langaði til að verða í framtíðinni,- Ekkert,- sagði hann, ég á mér enga drauma. Það leyndi sér ekki þunginn sem hvíldi á brjósti hans.

Neistinn og vongleði barnsins hafði slokknað, augun voru döpur og líflaus.

Þessi drengur hefur ekki þá stöðu í samfélaginu sem leggur rækt við að vermda bernskuna og byggja upp sjálfsmynd sem hefur í sér von. Hann veit ekki hvað það er að horfa til framtíðar með væntingar til lífsins. Hann er hræddur, hræddur við það sem bíður hans.

Óprúttnir menn hafa notað bernsku hans, varnarleysi barnsins er algjört við slíkar aðstæður og auðvelt að fara með börn eins og hver annað dýr.

Upp úr þessum jarvegi sprettur sjálfsmynd þessa drengs og undrar engan að þar sé depurð og vonleysi, ekki mikil framtíðarsýn fyrir lítinn dreng sem þarf líklega að berjast fyrir lífi sínu hvern dag.

Hver ætlar að bera fagnaðarboðskap englanna í Betlehem til þessa drengs er þeir segja:

sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: yður er í dag frelsari fæddur sem er Kristur Drottinn.

Sá sem býr við slíkar aðstæður og þessi drengur þarf að fá að heyra fagnaðarboðskapinn eins og hirðarnir forðum.

Fá að finna að hann sé elskaður og sé elskuverður, að Jesús Kristur sé með honum í öllum aðstæðum, því kristin trú byggir á því að öll séum við sköpuð af Guð með eiginleika til að vaxa og verða menn. Guð hefur falið í brjósti okkar fagrar og góðar gjafir og okkar er að rækta þær gjafir.

Ekkert barn getur þroskast og orðið að manni, enginn eiginleiki nær að vaxa og blómstra, nema fyrir kærleika, umhyggju og gott atlæti.

Hvert barn býr yfir möguleikum, hvert og eitt þeirra ber í sér mynd Jesúbarnsins, því hver einstaklingur er skapaður í Guðsmynd og Guðsmyndin birtist okkur í orðum og gjörðum Jesú Krists.

Það eru mörg börn, hér heima og um allan heim, sem búa við báðar þessar aðstæður, von og vonleysi. Bernskan er viðkvæmt æviskeið, bernskan er mótunartími, þar byrjar sjálfsmyndin að mótast og lengi býr að fyrstu gerð.

Það er hlutverk okkar að hlúa að bernskunni, búa þannig að henni að öll börn fái notið kærleika og virðingar því þar er uppspretta vonarinnar.

því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, yður er í dag frelsari fæddur
Okkur hefur verið treyst fyrir því að bera boðskap englanna sem birta okkur óendanlegan kærleika Guðs.

Guð er í heiminn kominn, við skulum ekki úthýsa honum, heldur biðja Guð að gefa okkur náð til að taka við honum og gera hjarta okkar að vöggu hans.

Þá mun hann fylla líf okkar af kærleika og friði, umskapa og hreinsa það burtu sem stendur í vegi fyrir því að við vinnum kærleikans verk.

Kæri söfnuður.

Nú á þessari helgu nótt, hljóðu nótt skulum við leggja við hlustir og syngja með englunum:

Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu með þeim mönnum sem hann hefur velþóknun á.