Að kafna úr stormi

Að kafna úr stormi

Við höfum öll hér inni upplifað storma. Nýliðin jól voru t.a.m. undirlögð af stormum. Við vitum að stormar og ofsaveður geta verið hættuleg. Þau geta orsakað snjófljóð, vonda færð sem getur leitt til bílslysa. Fólk hefur lent í erfiðleikum á fjöllum þegar veðrabrigði eru snögg og óvænt og fólk jafnvel orðið úti við þær aðstæður. Já og svo hefur bæði fólk, bílar húsþök og trambolín tekist á loft og fólk jafnvel slasast í þess konar átökum.
fullname - andlitsmynd Guðrún Karls Helgudóttir
02. febrúar 2014
Flokkar

cf330ad698ab895f8243e435c8ca470d.jpg
Hvers konar Jesús er það sem sefur þegar vinir hans eru hræddir um að þeir muni farast í óveðrinu. Hann er jú með þeim í bátnum. Er honum alveg sama?

Ætli Guð geri ekkert í vandræðum okkar nema við vekjum Guð fyrst? Ætli vandamálin okkar, stormarnir okkar séu of ómerkilegtir fyrir almættið? Er því alveg sama?

Þegar ég var barn þótti mér afar óþægilegt að vera úti í miklum vindi. Ég fékk köfnunartilfinningu og varð stundum ofsahrædd og sannfærð um að nú myndi ég deyja. Ég gleymi aldrei nokkrum atvikum þar sem ég hélt að stormurinn myndi gera útaf við mig. Þetta lagaðist með aldrinum, þegar ég sannfærðist um að enginn hefði kafnað úr stormi.

Við höfum öll hér inni upplifað storma. Nýliðin jól voru t.a.m. undirlögð af stormum. Við vitum að stormar og ofsaveður geta verið hættuleg. Þau geta orsakað snjófljóð, vonda færð sem getur leitt til bílslysa. Fólk hefur lent í erfiðleikum á fjöllum þegar veðrabrigði eru snögg og óvænt og fólk jafnvel orðið úti við þær aðstæður. Já og svo hefur bæði fólk, bílar, húsþök og trambolín tekist á loft og fólk jafnvel slasast í þess konar átökum.

Við eru svo vön þessu að þó við vitum að afleiðingar stormsins geti verið ógurlegar þá lifum við flest í öryggi þess að húsin okkar séu svo sterklega byggð að þau þoli allt. Að þau veiti okkur öruggt skjól fyrir óveðrum er úti geysa.

Þessi vani okkar hefur líka gert okkur að svolitlum töffurum þegar kemur að óveðrum. Okkur finnst ekki vera óveður nema húsið hristist duglega og Kjalarnesinu sé hreinlega lokað. Já og sum okkar láta ekki einu sinni lokanir stoppa okkur frá því að vera á ferðinni. Við leigjum erlendum ferðamönnum bíla á sumardekkjum og segjum lítið þó þeir ferðist um landið í blankskóm. “Þeir eiga bara að kynna sér þessi mál”. Og svo gerum við grín að fávisku þeirra og reynsluleysi.

Við Íslendingar eigum í nokkurskonar ástar – haturs sambandi við hafið. Hafið sem fæðir okkur og klæðir. Hafið sem gefur okkur bæði mat og fjármuni og er líklega ástæða þess að byggð hefur haldist í þessu harðbýla landi hefur líka tekið frá okkur ástvini sem hafa látist á hafi úti og sumir aldrei fundist, en liggja í votri gröf.

Ég bjó um tíma í landi þar sem fólk leit eingöngu á hafið sem vin. Sem gott og fallegt. Þarna var synt í hafinu á hlýjum sumardögum og sjóslys voru löngu komin í gleymsku flestra landsmanna. Ja, nema kanski einstakra eyjabúa sem bjuggu í gömlum fiskiþorpum á eyjunum sem umlykja landið að hluta.

En það eru til annarskonar stormar sem einnig geta orsakað köfnunartilfinnigu. Það eru stormarnir innra með okkur. Áföllin, óttinn, mistökin, reiðin. Já, allt þetta erfiða sem framkallar óróleikann í brjóstinu.

Við þurfum ekki síður á Guði að halda í þessum stormum en þeim sem verða til í náttúrunni.

Ég hef upplifað slíka storma og ég er viss um að flest ykkar hafa gert það líka. Þetta eru svona stormar sem við oft óskum okkur að Guð gæti losað okkur við. Tekið þá frá okkur.

En það er kannski svolítið flókið þegar Guð bara sefur í stað þess að bjarga okkur frá storminum sem er að kæfa okkur. Þegar við erum að kafna úr stormi.

Þurfum við virkilega að hrópa, kalla og hrista ef við viljum fá áheyrn?

Eða fjallar sagan um Jesús sem sofnaði á bátnum um eitthvað allt annað en sofandi Guð og kraftaverk?

Jesús í bátnum Hvernig stóð á því að Jesús sofnaði þarna í bátnum? Það er gott veður þegar þeir leggja af stað. Og sjálfsagt hefur hann verið útkeyrður karlinn og ákveðið að það væri óhætt að leggja sig aðeins. En svo breytist allt og stormur skellur á. Lærisveinarnir óttast um líf sitt. Þeir láta hann vera til að byrja með en að lokum þegar skelfingin hefur náð fullkomnum tökum á þeim, ráða þeir ekki við sig lengur og fara að hrista hann og hrópa á hjálp.

Og þegar Jesús loks vaknar við hrópin og köllin skammar hann þá fyrir að treysta honum ekki. Hann skammar þá eiginlega fyrir að vera hræddir. En hvernig áttu þeir að vita að þeir hefðu ekkert að óttast. Báturinn var við það að hvolfa og þetta voru reynslumiklir sjómenn sem óttuðust nú ekki hvað sem var þegar kom að sjómennsku. Ætli þeir hafi ekki verið tölvert vanari úfnum öldum en Jesús nokkurn tíma.

Var hann kannski bara svona þreyttur og úrillur þegar hann vaknaði að hann stóðst ekki mátið að hreyta í þá smá ónotum.

Að kafna úr stormi Það er vel hægt að líta á viðbrögð Jesú sem áhugaleysi. Á meðan við óttumst um líf okkar sefur hann rólegur.

Eða er þessu kannski einmitt öfugt farið? Getur verið að það sé nálægð Jesú í bátnum sem skiptir máli. Sefur hann kannski vegna þess að hann veit hvað stormur þýðir. Veit að hann kannski að hann mun ganga yfir?

Það sem við þurfum þegar við lendum í óveðrum lífsins er einhver sem er með okkur, einhver sem er til staðar án þess að reyna að gera svo mikið eða segja svo mikið. Einhver sem veit að stormurinn er ekki allt og getur séð leiðir út en segir okkur ekki frá þeim fyrr en við erum tilbúin til að hlusta.

Þetta er eini staðurinn í Nýja testamentinu þar sem sagt er frá því að Jesús sofi. Annars var hann alltaf nálægur, alltaf á verði, alltaf að biðja, segja sögur, hlusta á fólkið eða hjálpa því. Það er því væntanlega einhver ástæða fyrir þessum svefni. Þessi saga minnir okkur sannarlega á að Jesús var líka manneskja og allar manneskjur þurfa hvíld. Líka þessar sem alltaf eru boðnar og búnar að hjálpa. Líka þessar sem hafa helgað líf sitt því að hjálpa öðrum. Þau þurfa líka að hvíla sig, að sofa. Og það er allt í lagi að ná sér í þá hvíld sem í boði er svo að við getum endurnýjað krafta okkar. Meira að segja Jesús náði sér í bjútí blund í óveðrinu miðju.

Kannski sýnir þessi saga okkur mikilvægi þess að þröngva ekki aðstoð okkar upp á annað fólk. Að þegar við hjálpum öðrum þá skoðum við hvers vegna við erum að veita þessa hjálp. Er það vegna þess að manneskjan þarf raunverulega á henni að halda og hefur með einhverju móti gefið okkur þau skilaboð um það eða erum við að því til að hjálpa okkur sjálfum. Að sanna fyrir okkur sjálfum og öðrum hvað við erum góðar manneskjur. Eða jafnvel að tjá okkar eigin þrá um hjálp með því að veita öðrum aðstoð. Jesús kemur okkur til hjálpar þegar við erum móttækileg. Kannski verður það ekki fyrr en við hrópum í eyra hans: Hjálpa okkur við förumst! Kannski verður það fyrr. Hjálpinni verður í það minnsta ekki þröngvað upp á okkur frekar en að við eigum að þröngva hjálp upp á náunga okkar.

Kannski viljum við ekki hjálp fyrr en stormurinn er við það að kæfa okkur. Þegar við erum að kafna úr stormi.

Amen.