Hin verufræðilegu rök: Úr Proslogion eftir Anselm erkibiskup af Kantaraborg

Hin verufræðilegu rök: Úr Proslogion eftir Anselm erkibiskup af Kantaraborg

Því að ég leitast ekki við að skilja svo ég megi trúa; ég trúi svo ég megi skilja. Því þessu trúi ég líka, að án trúar mun ég ekki skilja.
fullname - andlitsmynd Gunnar Jóhannesson
11. september 2007

. . . Það viðurkenni ég, Drottinn, og þakka, að þú hefur skapað í mér mynd þína, svo að ég megi minnast þín, hugsa um þig, elska þig. En svo afmáð er þessi mynd og slitin vegna lasta, og svo dimm vegna reykjarsvælu syndar, að hún getur ekki gert það sem henni var ætlað að gera, nema þú endurnýjir hana og umbætir. Ég reyni ekki, Drottinn minn, að ná til þinna háu hæða, því með engu móti nær skilningur minn þangað. En mig langar til að skilja lítið brot sannleika þíns, þess sannleika sem hjarta mitt trúir og elskar. Því að ég leitast ekki við að skilja svo ég megi trúa; ég trúi svo ég megi skilja. Því þessu trúi ég líka, að án trúar mun ég ekki skilja.

En þú, Drottinn, þú sem veitir trúnni skilning, veit mér nú að mega skilja, að svo miklu leyti sem þú vilt, að þú sért til eins og við trúum að þú sért til og að þú sért það sem við trúum að þú sért. Nú trúum við því, að þú sért eitthvað, sem ekki er hægt að hugsa sér að annað taki fram. Eða má það vera, að eitthvað slíkt geti ekki verið til, þar sem heimskinginn segir í hjarta sínu: Guð er ekki til. En þegar sá sami heimskingi heyrir hvað ég er að segja, nefnilega, „eitthvað, sem ekki er hægt að hugsa sér að annað taki fram“, þá skilur hann vissulega það sem hann heyrir; og það sem hann skilur er í huga hans, jafnvel þótt hann skilji ekki að hið sama sé til í raun og veru. Því eitt er það að hlutur sé til í huga manns og annað er það að skilja að sá hlutur sé til í raun og veru. Eins er það þegar málari hugsar með sér fyrirfram hvað hann ætlar að mála. Þótt hann sjái mynd í huga sér þá heldur hann ekki að hún sé þegar til í raun og veru vegna þess að hann hefur ekki enn málað myndina. En þegar hann í raun hefur málað myndina þá hefur hann myndina bæði í huga sér og skilur að hún er til, vegna þess að hann hefur málað hana. Þannig er jafnvel heimskinginn knúinn til að samsinna því, að „eitthvað, sem ekki er hægt að hugsa sér að annað taki fram“ er til í huga manns, enda skilur hann það þegar hann heyrir það; og það sem maður skilur er [til] í huga manns. Og „eitthvað sem ekki er hægt að hugsa sér að annað taki fram“ getur að sjálfsögðu ekki verið til í huganum einum og sér. En sé það aðeins til í huganum þá má hugsa sér að það sé einnig til í raun og veru, og tekur það hinu fyrrnefnda fram [að vera aðeins til í huganum]. En sé „eitthvað sem ekki er hægt að hugsa sér að annað taki fram“ álitið aðeins til í huganum þá er hið sama „eitthvað sem ekki er hægt að hugsa sér að annað taki fram“ í raun og veru „eitthvað sem hægt er að hugsa sér að annað taki fram“. En þetta er augljóslega ómögulegt. Það er því enginn vafi að „eitthvað sem ekki er hægt að hugsa sér að annað taki fram“ er í senn til í huganum og raunveruleikanum.

Og þessi vera er svo sannarlega til að um hana verður ekki hugsað líkt og væri hún ekki til. Því það má hugsa sér að eitthvað sé til sem ekki er hægt að hugsa sér að sé ekki til og tekur það fram því sem má hugsa sér að sé ekki til. En megi nú hugsa sér að „eitthvað sem ekki er hægt að hugsa sér að annað taki fram“ sé ekki til, þá er „eitthvað sem ekki er hægt að hugsa sér að annað taki fram“ ekki hið sama og „eitthvað sem ekki er hægt að hugsa sér að annað taki fram“, sem er fáránlegt. „Eitthvað sem ekki er hægt að hugsa sér að annað taki fram“ er því svo sannarlega til að um það verður ekki hugsað líkt og væri það ekki til.

Og þú, Drottinn Guð okkar, þú ert sú vera. Þú ert svo sannarlega til, Drottinn Guð minn, að um þig verður ekki hugsað líkt og værir þú ekki til . . .

* * *

Er Guð til? Getum við vitað eitthvað um eðli Guðs? Hvað er sannleikur? Hefur maðurinn frjálsan vilja? Getur maðurinn haft frjálsan vilja í heimi sem Guð skapar?

Þessar spurningar og aðrar líkar tók Anselm erkibiskup af Kantaraborg (1033-1109) og einn mikilsverðasti heimspekingur og guðfræðingur miðalda alvarlega. Hann var sannfærður um sannleika hinnar kristnu trúar en einsetti sér fyrst og fremst að gera grein fyrir sannfæringu sinni með skírskotun til röklegrar hugsunar og skynsemi. Í huga Anselms eru kenningar kristinnar trúar heimboð til spurninga, hugsunar og lærdóms. Rit Anselms og hugleiðingar hans um hið guðlega eðli (divina essentia), einkum þær sem er að finna í höfuðverkum hans Monologion, Proslogion og Cur deus homo, hafa haft afgerandi áhrif á þróun vestræns kristinsdóms.

Anselm var munkur, kennari og síðar ábóti í klaustrinu í Bec í Normandí. Seinustu ár ævi sinnar var hann erkibiskup í Kantaraborg í Englandi. Í Bec var meginhlutverk Anselms að uppfræða munkana við klaustrið. Að þeirra beiðni skrifaði Anselm Monologion, sem hefur að geyma íhuganir hans á eðli Guðs og veru hans, viðfangsefni sem honum var mjög hugleikið og hann hafi rætt lengi og ítarlega við nemendur sína. Proslogion er framhald Monologion og er tilraun Anselms til að draga saman í eina samfellda hugsun (unum argumentum) þá þræði sem hann hafði spunnið í Monologion. Sú hugsun sem Anselm kynnti í Proslogion er þekkt sem hin verufræðilegu rök (the ontological argument) og er Anselm líklega þekktastur fyrir þau í dag. Allt fram til þessa eru þau sígilt umræðuefni heimspekinga og guðfræðinga sem reyna að vega og meta kosti þeirra og galla.

Anselm var einstaklega frjór heimspekingur og frumlegur í hugsun ásamt því að vera stöðugur og vakandi trúmaður. Rit hans veita nútímalesanda einstaka innsýn í heillandi og spennandi heim miðalda og eiga erindi við alla sem vilja nálgast kristna trú og spurningar hennar á hugsandi hátt.