Kæri söfnuður, á þessu aðfangadagskvöldi hef ég umboð til að færa ykkur sérstaka gjöf. Eins og þjóðin veit varð sá hörmungaratburður miðvikudaginn 16. desember sl. að bát hvolfdi úti fyrir mynni Fáskrúðsfjarðar. Um borð voru tveir menn, tengdafeðgar. Sá yngri komst lífs af en sá eldri lést. Eiginmaður minn, sr. Bjarni Karlsson þjónar þessari fjölskyldu í sorg þeirra og við fengum leyfi ástvinanna til að greina frá þeirri lærdómsríku atburðarás sem tengist slysinu, lífbjörg unga mannsins og lífi og dauða tengdaföðurins Guðmundar Sesars Magnússonar. Stundum er lífið sjálft stærra í sniðum en nokkurn hefði órað fyrir og mannleg örlög svo þrungin merkingu að maður gerir rétt í því að staldra við. Hér er slík saga.
Þeir höfðu stofnað útgerð Guðmundur Sesar og tengdasonurinn Ívar Smári Guðmundsson í félagi við mág Sesars sem ekki var þó með í þeirri för sem hér skal greint frá. Bátinn höfðu þeir keypt nýlega og loks var að því komið að sækja hann til Vopnafjarðar og sigla honum heim til Hafnarfjarðar þar sem fjölskyldan býr. Þetta var 15 tonna plastbátur ætlaður á handfæri og snemma morguns þennan miðvikudag var lagt úr höfn í góðu veðri og sjólagi og siglt út Reyðarfjörðinn. Við mynni Reyðarfjarðar lýsti vitinn á Vattarnesi í skammdegismyrkrinu og stefnan var tekin út fyrir eyjuna Skrúð uns stefni var snúið til hásuðurs og siglt sem leið lá við kjör aðstæður. Raunar er það þekkt að úti fyrir Austfjörðum mætast oft miklir hafstraumar og stundum hafa jafnvel stærri skip lent í vanda á þessu svæði austan við Skrúð sem sjómenn nefna Brökur. Þá leita sterkir straumar upp á yfirborðið svo að hafið ólgar og brestur allt í kring. Þeir höfðu haft orð á því hvor við annan hve vel báturinn færi í hafi og hve stöðugur hann væri að sigla honum. Fyrirvaralaust kom stór alda bakborðsmegin á bátinn svo að Sesari og Ívari brá mjög við óvænt höggið uns önnur margfalt stærri reið að stjórnborðsmegin án minnsta fyrirvara og færði bátinn umsvifalaust á hvolf ofan í ólgandi hafið. - Guðmundur Sesar var lífsreyndur maður og um hann má segja að hann hafi marga fjöruna sopið í sínu lífi. Sjálfur hafði hann misst föður sinn tveggja ára að aldri er hann drukknaði í sjó og upp frá því hafði bernska hans orðið að hörmungarsögu er drykkfelldur og erfiður fósturfaðir tók völdin á æskuheimilinu. Frá sjö ára aldri hafði hann verið vistaður hjá góðu fólki norður í Bárðardal uns hann hafði kvatt sveitina 16 ára að gamall og við tekið erfiðir tímar. Árum saman hafði hann lifað í reiði og myrkri og fíkn uns hann náði tökum á tilveru sinni og eignaðist gott líf með eiginkonu sinni, Oddrúnu Kristófersdóttur.
Þá höfðu þeir atburðir orðið löngu síðar að ein dætra hans hélt á vit myrkursins og fíknarinnar rétt 14 ára að aldri og er þeim atburðum lýst í magnaðri bók sem út kom árið 2004 og ber heitið Sigur í hörðum heimi, hvernig Sesar lagði til hliðar vinnu sína og fjárhag heimilisins til þess að bjarga dóttur sinni út úr veröld ofbeldis og eiturlyfja uns rofaði til og hún náði bata og hamingju. Er sú saga átakanleg og vakti verðskuldaða athygli á sínum tíma. Nú hafa árin liðið og í marsmánuði sl. ól þessi dóttir hans son með Ívari manni sínum. - Er bátnum hvolfdi fossaði sjór inn í stýrishúsið og náðu þeir Sesar og Ívar að komast niður í vélarrúmið sem nú snéri upp og finna þar súrefni til að anda að sér á meðan þeir gætu náð áttum í ísköldum sjó og þreifandi myrkri. Þeir fundu hvor annan og ræddu saman í þögninni sem skollið hafði á um leið og vélin drap á sér þar sem báturinn marraði í kafi á ókyrrum haffletinum. Ítrekað skiptust þeir á að leita útgöngu með því að kafa niður í stýrishúsið og leita útleiðar í svarta myrkri og olíumenguðum sjó en allt kom fyrir ekki. Er vatnsborðið hækkaði og náði þeim undir höku héldu þeir uppgefnir hvor í annan og báðu saman Faðirvor. Sesar hafði orð á því að nú væri stund þeirra komin og þeir skyldu þá reyna að deyja eins og menn. Og enn var beðin bæn frelsarans, Faðir vor. Þá segir Ívar við tengdaföður sinn: „Og ég sem hlakkaði til að eiga fyrstu jólin með syni mínum og konunni.”
Það var þá sem það gerðist.
Þar sem þeir héldu hvor í annars hægri hönd með olíubrákað sjóvatnið undir höku en með þeirri vinstri héldu þeir við hnakkann hvor á öðrum. „Og ég sem hlakkaði til að eiga fyrstu jólin með syni mínum og konunni.” mælti Ívar. Þá horfði Sesar inn í augu hans í myrkrinu og sagði: „Þá skaltu líka lifa! Þú getur komist niður gatið, inn í stýrishúsið og út!” Við svo búið setti hann hönd ofan á hvirfil tengdasonar síns og ýtti honum af afli niður í átt að útgönguleiðinni.
Er slysið varð var klukkan 7:15 að morgni og niðamyrkur úti og öll ljós höfðu dáið í bátnum þegar honum hvolfdi. Er Ívar kom svamlandi í 4°C köldum sjónum inn í stýrishúsið þá var þar allt baðað hvítri birtu svo að ratljóst var og hann sá gluggann með lokunni stjórnborðsmegin. Á þeirri stundu fann hann hvorki fyrir kulda né súrefnisskorti, hugsun hans var einbeitt og skýr er hann tók í lokuna og opnaði gluggann sem rétt var nógu breiður svo að hann gæti rennt sér út um hann klæddur í peysu og föðurland. Er Ívar skaut höfðinu upp úr sjónum og dró að sér ferskt loftið fann hann mátt sinn aukast svo að hann hóf að klifra upp á kjöl bátsins og þótt aldan slæi hann ítrekað niður. Komst hann loks upp og gat skorðað sig. Heyrði hann þá nafn sitt hrópað innan úr bátnum og gat svarað og hvatt Sesar til að reyna sömu útgöngu.
Þar sem Ívar beið uppi á kili bátsins fáklæddur og blautur í vetrarmyrkrinu gerði hann sér grein fyrir því að staða hans var síst orðin betri því hér myndi hann krókna úr kulda. Þá hrópaði hann á Guð og spurði hann hvað hann meinti með þessu, og fyrir hvað hann væri þá að refsa sér með því að leyfa honum að komast þetta langt en deyja svo?! Er hann þá skimaði niður að glugganum til að sjá hvort tengdafaðir hans kæmi svo hann gæti tekið í hönd hans kom eitthvað skyndilega á mikill ferð út um gluggann upp úr sjónum og rakleitt í fangið á Ívari svo að honum brá við og hugðist varpa því frá sér uns hann gerði sér grein fyrir því að hann hélt á björgunargalla, sterkri og skjólgóðri flík sem nota skal við aðstæður sem þessar. Veit hann engar hefðbundnar skýringar á þeirri sendingu. Nú tók við atburðarrás þar sem reyndi á lærð handtök er hann klæddi sig í gallann, losaði björgunarbátinn og komst þar um borð til að senda frá sér merki með blysum og neyðarbauju. Frá þeirri stundu er bátnum hvolfdi til þess tíma er kviknaði á neyðarbaujunni liðu 40 mínútur. Alls liðu svo þrír og hálfur tími uns hjálp barst og Ívari var bjargað um borð í fiskibát. Lík Sesars fannst í vélarrúmi bátsins er hann var dreginn til hafnar í Fáskrúðsfirði. - Nú heldur fjölskylda Guðmundar Sesars Magnússonar jól í skugga sorgar. En sorg þeirra er ekki tóm heldur er hún fyllt lífi og yl. Sjálfur hafði Sesar barnungur misst föður í sjó og orðið illa úti við þau umskipti. Síðar hafði hann lagt á sig ómælt erfiði í baráttu fyrir lífi dóttur sinnar andspænis ógnum eiturlyfjaheimsins og raunar goldið það dýru verði sem ekki skal tíundað hér.
Í úrvinda uppgjöf höfðu þeir beðið bæn Jesú, Faðir Vor, eins og Íslenskir sjómenn hafa gert í aldanna rás við sömu aðstæður. Oftar en einu sinni fóru þeir saman með bænina og fólu sig á vald góðum Guði uns orðin féllu í þögn myrkvaðs vélarrúmsins: „Og ég sem hlakkaði til að eiga fyrstu jólin með syni mínum og konunni.”
Við þessi orð hefur Sesari verið hugsað til síns eigin föðurmissis og bernskusorgar um leið og hann heyrði lífsviljann, þrána eftir konu og barni, hans eigin dóttur sem hann áður hafði lagt svo mikið af mörkum til að bjarga. Og af vörum unga mannsins heyrði hann viljann til að eiga líf með henni og syninum nýfædda.
„Verði þinn vilji” höfðu þeir ávarpað gjafara lífsins með orðum frelsarans. Verði þinn vilji. Og er Ívar mælti orðin varð Sesari ljóst hver var vilji Guðs og ætlun. „Þá skaltu líka lifa! Þú getur komist niður gatið, inn í stýrishúsið og út!” Og með endurnýjuðum styrk tók Sesar um höfuð tengdasonarins og sendi hann af stað út í lífið með skýrum leiðbeiningum og fullvissu um árangur. - Ef einhver fjölskylda á Íslandi veit og skynjar nú um þessi jól hve dýrmæt fórnargjöf lífið er, þá er það fjölskylda Guðmundar Sesars Magnússonar. Í dýpsta eðli sínu er lífið fórnargjöf. Þeim sannleika lýsa jólin. Jólaguðspjallið, sagan um sendingu Guðssonarins inn í heiminn, segir okkur einmitt það. Lífið sem við eigum hér á jörð er heilagt og dýrmætt vegna þeirrar fórnar sem færð hefur verið og besta leiðin til þess að lifa er sú að vera þakklátur.
Reynsla þessarar fjölskyldu er einstök og sagan er merk en fjölskyldu Sesars er umhugað um að enginn haldi að hann hafi verið einhver dýrlingur. „Við höfum nú frekar brotna geislabauga prestur minn.” Sagði Oddrún við Bjarna er þau ræddu saman um efni þessarar ræðu.
Já, jólin eru handa okkur öllum sem höfum brotna geislabauga. Gæfa Sesars var sú að hann átti hlutdeild í hugarfari Krists, lífið hafði leitt hann að upprettu sinni, fórninni. Saman fluttu þeir orð frelsarans á ögurstundu og fólu sig á vald Guði; „...verði þinni vilji...þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu.” Og er Ívar lýsti yfir lífsvilja sínum fékk frelsarinn enn að eiga orðið er Sesar mælti fram vilja Guðs og sendi hann að svo mæltu út í lífið þar sem barnið hans beið.
Í kvöld bíður þín nýfætt barn. Þín er beðið. Langar þig að lifa í þágu þess? Þá áttu gleðileg jól.
Amen.