Réttar spurningar og svör

Réttar spurningar og svör

Öll orðræða og orðfæri hafa áhrif á okkur, allt frá blautu barnsbeini og mótar viðhorf og sýn okkar á fólk og hugmyndir. Það sem við segjum skiptir máli og ekki síður það sem við heyrum. Hvernig við notum orðin og málið okkar skiptir gríðarlegu máli.
fullname - andlitsmynd Sigríður Gunnarsdóttir
05. nóvember 2009

Vera jákvæð, ...

Ég hef verið að velta orðum fyrir mér undanfarið. Öll orðræða og orðfæri hafa áhrif á okkur, allt frá blautu barnsbeini og mótar viðhorf og sýn okkar á fólk og hugmyndir. Það sem við segjum skiptir máli og ekki síður það sem við heyrum. Hvernig við notum orðin og málið okkar skiptir gríðarlegu máli. Oft metum við fólk eftir málfari þess, hvernig viðkomandi kemur fyrir sig orði. Það hefur löngum verið talið til merkis um ágæti fólks að það kunni að koma fyrir sig orði, sé þokkaleg mælskt og geti komið hugsunum sínum frá sér þannig að aðrir skilji.

Fyrir skömmu var mér ásamt fleirum fengin spurning til umræðu sem hljómar þannig: Skiptir Guð máli? Sumum fannst spurt einfeldningslega og tæpast viðeigandi á þessum stað. Þarna var fólk sem flest starfaði innan raða kirkjunnar, öll með guðfræðimenntun og mörg vígð til þjónustu. Enda svaraði einn á þá leið: Já, af því að ég er prestur. Þessi einfalda spurning varð uppspretta mikilla vangaveltna um tilvist Guðs, stöðu hans gagnvart manneskjunni og stöðu okkar gagnvart Guði og leiddi af sér fjörugar og gefandi umræður.

Á leiðinni heim af námskeiðinu hélt ég áfram að hugsa um spurninguna og komst endingu að þeirri niðurstöðu að það er vissulega mikilvægt að spyrja sig réttu spurninganna; einmitt einfaldra grundvallar spurninga sem hjálpa okkur að finna okkur sjálfum stað í tilverunni. Allar spurningar eiga rétt á sér, því jafnvel við vitlausum spurning eru til rétt svör svo framarlega sem við týnum ekki sjálfum okkur í flaumi orða og villumst af leið. Við þurfum sífellt að minna okkur á grundvöllinn sem er Jesús Kristur og endalaus elska hans til okkar. Það er leyndardómurinn sem við fáum að njóta án þess að geta nokkurn tíma fundið orð sem skýra það til fulls. En höldum áfram að tala saman, kenna hvort öðru, hjálpa hvort öðru og leggja okkur fram í samskiptum við náungann. Það er rétta svarið.