"Vil ég mitt hjartað vaggan sé"

"Vil ég mitt hjartað vaggan sé"

Fylgjendur Jesú trúðu því að hann væri sá Kristur sem ritning Gyðinga boðaði. Guðspjallamennirnir Matteus og Lúkas tjáðu þennan skilning með fæðingarguðspjöllum sínum sem settu nýfætt Jesúbarnið fram sem andstæðu Ágústínusar keisara og Heródesar konungs. Í ofurviðkvæmum hvítvoðungnum birtist hið sanna eðli guðlegs valds – valds sem ríkir ekki með valdboði heldur með því að höfða til þess besta í hjarta hvers manns.
Mynd
fullname - andlitsmynd Jón Ásgeir Sigurvinsson
25. desember 2020
Flokkar

Prédikun tekin upp í Seltjarnarnesskirkju og flutt á jóladag á vef kirkjunnar.

Lexía: Jes 62.10-12; Pistill: Tít 3.4-7; Guðspjall: Jóh 1.1-14 (Þriðja textaröð jóladag 2020)

Ég heilsa ykkur með kveðju postulans: Náð sé með ykkur og friður. Amen.

Í hinum ástsæla jólasálmi séra Einars í Eydölum kveður hann m.a. svo:

   Þér gjöri' eg ei rúm með grjót né tré,

   gjarnan læt ég hitt í té,

   vil ég mitt hjartað vaggan sé,

   vertu nú hér, minn kæri.

   Með vísnasöng ég vögguna þína hræri.


 „Vil ég mitt hjartað vaggan sé.“ Með þessari setningu fangar séra Einar ef til vill einn meginþátt gyðing-kristinnar trúarhugsunar eins og hún birtist í Biblíunni: að samband manns og Guðs byggir ekki á valdboði heldur á kærleika. Lögmál Drottins dugar skammt ef það er ekki ritað á hjörtu mannanna.

Þó að tengingin liggi kannski ekki í augum uppi, þá kom mér þetta í hug á dögunum þar sem ég var að horfa á heimildaþátt um bresku konungsfjölskylduna. Þar kom fram að í frægu sjónvarpsviðtali, sem olli víst miklu fjaðrafoki í Buckinghamhöll, sagði Díana prinsessa eitthvað á þá leið að hún vildi verða „hjartadrottning“ þjóðarinnar. Með þessum orðum vísaði hún vitanlega til hjartans sem táknmyndar fyrir sæti tilfinninganna í mannssálinni, f. og f. kærleikans. Hún vissi auðvitað sem var að hún var elskuð og dáð – ef ekki hreinlega dýrkuð – af almenningi fyrir þá staðreynd fyrst og fremst að hún gerði sér far um að sína því fólki sem hún mætti virðingu og samúð – og á slíkan hátt að þeim sem reyndu eða á horfðu birtist einlægur kærleikur. En í orðum hennar kann að hafa búið hárfín og hárbeitt gagnrýni. Díana Spencer var ekki Englandsdrottning og hún vissi að hún yrði það aldrei. Með því að vísa til sjálfrar sín sem „hjartadrottningar“ var hún  að beina ansi hvössum spjótum, ef ekki að lögformlegum handhafa konungsvaldsins persónulega, þá að stjórnkerfi einveldisins eins og það birtist við hirðina og gagnvart þjóðinni. Þó svo að þjóðin bæri djúpa virðingu fyrir drottningunni þá var það vald, sem hún stóð fyrir, kaldranalegt og fjarlægt venjulegu fólki og kjörum þess. Með samúðinni og hispurslausri hegðun sinni virtist Díana því hafa snert streng í hjörtum almennings – sem drottningunni hafði ekki tekist að gera.

Að breyttu breytanda – að svo miklu leyti sem samlíkingin er viðeigandi – þá má segja að gróft á litið glími þeir textar Ritningarinnar, sem fjalla um komu Krists með svipuðum hætti við spurninguna um eðli valdsins – um vald sem valdboð ... eða vald sem birtist í áhrifum á hjarta og samvisku manneskjunnar.  „Sjá, hjálpræði þitt kemur. Sjá, sigurlaun hans fylgja honum“ segir í lexíu dagsins úr Jesajabók. Í Jesajaritinu er messíasarkonungurinn, Kristur, settur fram sem andstæða konunga sem ríkja í mætti hervalds og á grundvelli veraldlegra valdakerfa. Það sem einkennir ríki hans er fjarvera hvers kyns ofbeldis og ranglætis. Með komu Krists, sprotans af stofni Ísaí, mun skína ljós yfir þá sem búa í landi náttmyrkranna og „öll harkmikil hermannastígvél og allar blóðstokknar skikkjur skulu brenndar og verða eldsmatur,“ eins og segir í lexíu jólanætur. Þetta er vissulega draumkennd sýn – í ljósi veruleikans – en þetta er sýn sem vitnar um óbilandi von og trú á að allt fari á besta veg að lokum.

Fylgjendur Jesú trúðu því að hann væri sá Kristur sem ritning Gyðinga boðaði. Guðspjallamennirnir Matteus og Lúkas tjáðu þennan skilning með fæðingarguðspjöllum sínum sem settu nýfætt Jesúbarnið fram sem andstæðu Ágústínusar keisara og Heródesar konungs. Í ofurviðkvæmum hvítvoðungnum birtist hið sanna eðli guðlegs valds – valds sem ríkir ekki með valdboði heldur með því að höfða til þess besta í hjarta hvers manns.

Jóhannes guðspjallamaður skrifar enga fæðingarfrásögn heldur byrjar sitt guðspjall á leyndardómsfullan hátt og talar nánast í gátum. Hann talar um Orðið, logos, sem er til frá upphafi vega. Það var í upphafi hjá Guði og er Guð.

Með því að nota orðið logos, orð, tengir Jóhannes við upphaf ritningarinnar, sköpunarsöguna, þar sem Guð notar orðið eitt til þess að skapa heiminn. Orðið er þannig sköpunarmáttur Guðs, orðinn að manneskju í Jesú Kristi. Jóhannes hyggst þannig varpa ljósi á það sem Matteus og Lúkas reyna að tjá með fæðingarfrásögum sínum. Þeir reyna ekki að útskýra eða greina nákvæmlega hvernig tengslin á milli Jesú og Guðs eru; það sem skiptir þá máli er að Jesús er frelsari mannanna, Kristur, messías, hinn heilagi sonur Guðs. Þessi skilningur nægir Jóhannesi ekki; hann sér sig knúinn til þess að skilgreina nákvæmlega hvernig sambandi Jesú við Guð er háttað og notar til þess orð, sem, auk þess að tengja við sköpunarsöguna, var notað í  grískri heimspeki um guðlega skipan heimsins, og var ennfremur fyllilega í samræmi við spekihefð gyðinga og hugmyndir hennar um hina persónugerðu Speki sem var með í ráðum þegar Guð skapaði heiminn, eins og Orðskviðirnir orða það.

Skv. Jóhannesi hafa Guðs eilífa hugsun og speki tekið á sig mannlega mynd í manninum Jesú og því má segja að í Jesú sjáum við hvernig grundvallarlögmál heimsins, sköpunarinnar, birtist í samfélagi manna. Í tveimur orðum mætti tjá það lögmál með orðunum „réttlæti“ og „kærleika“, hugtökunum sem liggja draumsýn Jesaja um messíasarríkið til grundvallar.  Í réttlætinu og kærleikanum rúmast í raun allar helstu dyggðir manna: Traust, trúmennska, ábyrgð, þakklæti og fórnfýsi svo eitthvað sé nefnt. Fyrri hluti tvöfalda kærleiksboðorðsins setur fram eðlilegustu kröfu sem hægt er að hugsa sér, að maðurinn sem sköpuð vera elski skapara sinn, sem felur í sér þakklæti fyrir þá óskiljanlega stórkostlegu gjöf sem lífið er og kröfu um að vera honum trúr. „Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð“ segir Kristur. Öðlist maður þessa náð, að fá elskað Guð í þeim skilningi sem Jesús meinar, þá leiðir óhjákvæmilega af því uppfylling seinna boðorðsins: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig“. Kristur setur ekki tvöfalda kærleiksboðorðið fram sem valdboð heldur höfðar hann til hjarta og samvisku mannsins.

En ef réttlæti og kærleikur er grundvallarlögmál sköpunar Guðs, þá er ljóst að mannleg tilvera er oft og tíðum í mótsögn við það lögmál, þar sem ofbeldi, hatur og óeiningu er að finna á öllum sviðum tilverunnar. Þessa staðreynd kallar biblíuleg trú „synd“ en að syndga merkir í raun „að missa marks“ og getur átt við um ör úr boga bogmanns. Þegar kristin guðfræði talar um að maðurinn eða heimurinn sé syndugur er hún einfaldlega að benda á þá grundvallarstaðreynd að manninum virðist ekki endilega eiginlegt að lifa eftir því lögmáli sem Guð hefur lagt sköpun sinni til grundvallar.

Í Orðinu var líf og lífið var ljós mannanna, segir Jóhannes. Auður Ava Ólafsdóttir lýsir  í bók sinni Dýralíf útsaumsmynd af Maríu með Jesúbarnið og áhorfandum í frásögninni finnst eins og ljósið stafi af barninu. Hér gildir líklega að túlkunin býr í auga áhorfandans. Sumir sjá ljósið lýsa á barnið, aðrir upplifa það stafa af því.  Með fæðingu Krists, lífi hans og boðskap og endanlegum sigri yfir dauðanum, hefur Guð sent okkur ljós sem lýsir upp hörtu mannanna, þeirra sem opna hjarta sitt fyrir því. Og þörfin fyrir ljós Jesúbarnsins er alls staðar söm, því alls staðar er einhvers konar kúgun, einhvers konar ofbeldi að finna, alls staðar eru skúmaskot sem þyrfti að lýsa upp með ljósinu sem stafar af jötu barnsins í Betlehem. Meistari Eckhart, einn  merkasti kennimaður kirkjunnar á 13. og 14. öld, orðaði þetta á einfaldan hátt: „Á því augnabliki, er þú ert tilbúin/n, kemur Guð tafarlaust til þín og án hiks ... Þú þarft ekki að leita hans af eigin mætti, hvorki hér né þar. Hann er jú ekki lengra í burtu en við dyr hjarta þíns.“

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.