,,Ekki með valdi né krafti, heldur fyrir anda minn ...”

,,Ekki með valdi né krafti, heldur fyrir anda minn ...”

Þjónusta við Þingvallakirkju hefur mikla sérstöðu. Helgistaðir eru yfirleitt fyrst og fremst helgistaðir í trúarlegu samhengi, eins og t.d. Hólar og Skálholt. Þingvellir eru helgistaður allrar þjóðarinnar, óháð trúarskoðunum og þó á sama tíma í huga kristinna manna, einstakur helgistaður kristninnar.

Jesús svaraði: Sá sem elskar mig, varðveitir mitt orð, og faðir minn mun elska hann. Til hans munum við koma og gjöra okkur bústað hjá honum. Sá sem elskar mig ekki, varðveitir ekki mín orð. Orðið, sem þér heyrið, er ekki mitt, heldur föðurins, sem sendi mig.

Þetta hef ég talað til yðar, meðan ég var hjá yður. En hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni, mun kenna yður allt og minna yður á allt það, sem ég hef sagt yður. Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist. Þér heyrðuð, að ég sagði við yður: Ég fer burt og kem til yðar. Ef þér elskuðuð mig, yrðuð þér glaðir af því, að ég fer til föðurins, því faðirinn er mér meiri. Nú hef ég sagt yður það, áður en það verður, svo að þér trúið, þegar það gerist. Ég mun ekki framar tala margt við yður, því höfðingi heimsins kemur. Í mér á hann ekki neitt. En heimurinn á að sjá, að ég elska föðurinn og gjöri eins og faðirinn hefur boðið mér. (Jh. 15. 23-31a)

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi.Amen.

Bænin

Guð, sem í árdaga oss reisti bústað á jörðu, kallaði ljósið frá myrkri landið úr sævi, skapaði Ísland með eldi.

Þjóð vor hin íslenska alin hjá Þingvalla bergi kjöri sér leiðsögn og forsjá leidd gegnum aldir valin og kölluð af Kristi.

Guðs andi heilagi heyr þú er kirkja þín biður: Kom þú í Orði og mætti, endurnær börn þín, Umskapa lýð þinn sem landið.

Amen. (KVI 2000/2004)

Gleðilega hátíð heilags anda, gleðilega afmælishátíð heilagrar kirkju.

Kæri söfnuður.

Mér hefur verið falin á hendur þjónusta sóknarprests hér á Þingvöllum komandi mánuði. Ég er biskupi afar þakklátur fyrir að biðja mig um það. Nú um nokkra hríð hef ég verið í ýmsum öðrum störfum fyrir kirkjuna og held þeim nú reyndar flestum áfram. En að verða aftur venjulegur prestur, er líkt og að vera aftur orðinn frískur eftir löng veikindi. Prestsþjónustan er í senn yndislegt og hræðilegt hlutskipti, en fyrir miskunn Guðs er hún framkvæmanleg í krafti heilags anda.

Það verður ekki hjá því komist að þessi predikun taki nokkuð mið af þeim kringumstæðum sem hún er töluð inn í. Það mun að vísu rýra gildi hennar sem predikunar, en ég tel þó nauðsynlegt að fara þessa leið að þessu sinni.

Þó að ég sé nú reyndar ekki byrjandi í prestsþjónustunni, því að ég sé fram á 30 ára vígsluafmæli á komandi hausti, þá er það nú svo að nýjar aðstæður eru ávallt óvenjulegar í einhverri mynd . Og þegar maður byrjar á nýjum stað er hollt að hafa í huga ráðleggingu Ólafs Ketilssonar sem kenndi mér á bíl fyrir 40 árum: Aktu hægt!

Þjónusta við Þingvallakirkju hefur mikla sérstöðu. Helgistaðir eru yfirleitt fyrst og fremst helgistaðir í trúarlegu samhengi, eins og t.d. Hólar og Skálholt.

Þingvellir eru helgistaður allrar þjóðarinnar, óháð trúarskoðunum og þó á sama tíma í huga kristinna manna, einstakur helgistaður kristninnar.

Þessi sérstaða Þingvalla sem helgistaðar var þeim gefin í þeirri sátt sem varð um einn sið við kristnitöku. Hún felst ekki síst í því að þeim sem ekki voru tilbúin til þess að lúta þá þegar inntaki hins eina siðar, var bæði veittur frestur og sýnd þolinmæði. Í stað ofbeldis.

Þetta er ekki aðeins dýrmæt söguleg staðreynd heldur er fátt heppilegra en hún til að hafa að leiðarljósi einmitt nú, þúsund árum síðar, í samtíma samhengi sem gjarna er kennt við postmodernisma.

Þennan boðskap heyrum við með sérstökum hætti á hvítasunnu, á fæðingarhátíð kirkjunnar. Í textum dagsins felst áminning til kirkju þessara daga um að hlusta á raddirnar og heyra samhljóm þeirra.

Hvítasunna á Þingvöllum hefur sérstaka merkingu. Hún er alveg óháð þeirri sögu hvítasunnu á Þingvöllum sem við hin eldri þekkjum og hefur þó aldrei verið rituð þó hún sé kafli í þroskasögu þjóðar.

Hvítasunna á Þingvöllum hefur sérstaka merkingu vegna þess að Þingvellir eru ásamt og til viðbótar því sem þeir eru hinni íslensku þjóð, viðkomustaður þjóðanna, kynkvíslanna, tungumálanna, trúarbragðanna, kynslóðanna. Við þurfum að bregðast við því.

Við getum ekki stillt söng fuglanna eins og við stillum hljóðfæri, eða stillum saman mannsraddir. Söngur fuglanna er annarskonar. Við þurfum að læra að heyra þeirra eigin tónlist. En við heyrum hana ekki fyrr en við hættum að reyna að stilla raddir þeirra eftir okkar eigin tónstigum og tónbilum.

Heyr farfuglanna kvæðaklið, er kría, tjaldur bregða við, með gleðiraust og söngvaseim úr suðurlöndum snúa heim.

Sú fagra fuglaparadís hún flytur Guði lof og prís og syngur ljóð um líf og vor svo léttir yfir hverri skor. (KVI, maí 2004./ 3.og 4. vers í sálminum Nú strýkur vor ...)

Það segir í pistli dagsins um atburð hvítasunnunnar að lærisveinarnir fylltust allir heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, - hver og einn heyrði þá mæla á sína tungu. Þeir voru frá sér af undrun og sögðu: Hvernig má það vera, að vér, hver og einn, heyrum þá tala vort eigið móðurmál?

Móðurmál? Systir mín var unglingur í Finnlandi einn vetur. Undir vor hringdi sendiherrann. Hún sagði: Þegar ég heyrði íslensku gat ég ekkert sagt. Ég fór að háskæla.

Þegar messað var hér á Þingvöllum á kristnitökuhátíðinni, las þáverandi aðalritari Lutherska heimssambandins Ishmael Noko frá Afríku, pistilinn á móðurtungu sinni.

Landi hans var á ferð sama dag með hópi ferðamanna á Þingvöllum. Úr fjarlægð heyrðu þau raddir frá messunni. Ekki veit ég hvernig þær raddir voru kynntar fyrir hópnum, eða tilefni þeirra.En þessi ferðamaður fékk í bókstaflegum skilningi opinberun. Frá himni. Það var talað til hans á móðurmáli hans á Þingvöllum. Og það reyndust vera skilaboð Guðs.

Efni og áherslur hvítasunnudagsins má draga saman í eina áherslu þess að boða Guðs orð og bera vitni um hann á þeirri tungu sem viðmælandinn skilur.

Pistillinn (Post. 2. 1- 11) lýsir ákveðnum atburði sem kallast á við frásögn Gamla Testamentisins um Babelsturninn , - en sú frásögn er tilraun til skýringar á því hvers vegna hinn eini lýður Guðs um alla jörð, talar ekki eitt og sama tungumál, - móðurmál. Gamla Testamentið svarar því þannig að tilraun mannsins til að setjast sjálfur í sæti Guðs hafi orðið til þess að hann ruglaði tungum þeirra.

Guð setti þeim sundrungu svo að þeir þyrftu að hafa fyrir því að læra að skilja hver annan. Markmið skaparans er ekki að byggja upp svo sterkt kyn mannanna, að það geti byggt sér turn sem nær til himna í þeim tilgangi að taka völdin af skapara sínum. Markmið hans að manneskjan læri að hlusta og skilja og elska. Ég kenni þér mitt tungumál með því að ég læri þitt.

Hvítasunnuundrið er eins og framkvæmd þessa svars. Tungumálakennarinn er heilagur andi, andi sameiningar, skilnings og elsku. Það er andi Jesú Krists og nálægð hans, andinn sem leysir fjötra. Því að það er sundrungin sem fjötrar, ekki sameiningin.

Við erum vön að snúa þessu á hvolf, eins og sameining fjötraði. Við tökum dæmi um hjónabandið. Það er talað í spaugi um hnappeldu, sem sagt fjötur, af því að þú vilt þar með bindast einu bandi, einni manneskju. En í sameiningu tveggja manneskja í hjúskap eru þau leyst úr fjötrum einsemdarinnar. Í þeim fjötrum er maðurinn, karl og kona, ekki heill.

Og þó að þjóðskáldið sem hvílir hér austan við kirkjuna hafi ekki verið að hugsa um hjón heldur frekar hest og knapa þegar hann orti Fáka, þá hefur hann sannarlega rétt fyrir sér þegar hann yrkir:

Maðurinn einn er ei nema hálfur með öðrum er hann meiri en hann sjálfur. (Einar Benediktsson, Fákar)

Með þessu er okkur vísað á eitt af mörgum hlutverkum kirkjunnar og kristninnar á afmælisdegi. Það er að leita að sátt og efla sameiningu og samstöðu.

Það getur að sjálfsögðu þýtt að benda verði á það sem spillir sátt og eindrægni og vara við því, en það er sannarlega ekki markmiðið að benda á það með þeirri aðferð sem veldur í sjálfri sér meiri sundrungu en sameiningu.

Þess vegna er svo erfitt og spennandi að vera predikari í kirkjunni og keppa eftir því að vera trúr sínu heilaga hlutverki, að boða Guðs sístæða, sínýja, eilífa Orð í síbreytilegum heimi.

Það er aðeins hægt vegna þess að heilagur andi; Guðs heilagi andi, sér um að hið predikaða orð heldur áfram að verka. Það hrærir tunguna, það opnar eyrun og hjörtun og það ber ávöxt.

Kæri söfnuður.

Í því að vera falið predikunarembætti við Þingvallakirkju felst ákveðin freisting predikarans. Hún birtist í sérstöðu Þingvalla sem jafnframt því að vera helgistaður og vagga kristninnar í landinu er vagga þingræðisins og þar með pólitískasti staður á Íslandi.

Efni guðspjallanna hverju sinni snertir öll svið mannlegs lífs. Hvernig umgengst predikarinn pólitísk álitamál og hávær dægurmál í ljósi guðspjallanna?

Persónulegar skoðanir predikara eru í besta falli aukaatriði, stundum beinlínis fyrir og stundum sundrandi og valda hinu predikaða orði truflun. Þó er það að sjálfsögðu ekki mögulegt að orðið sem kemur til predikarans geti sleppt því að fara gegnum þennan farveg sem predikarinn sjálfur er.

En það er sama áhætta og Guð tók þegar hann lét son sinn, sigrara dauðans, fæðast sem lítið ósjálfbjarga barn í þennan heim. Hann tekur mikla áhættu að mannlegum skilningi.

Hann kallar til margar barnfóstrur, karla og konur. Hann gerir alla kristna menn að barnfóstrum síns eigin sonar - hann þorir það, - til þess að þeir megi síðar sitja í skjóli hans. Kristur er orð Guðs. Í orði Guðs er kraftur Krists.

Þú þarft að taka við orði Guðs eins og barn, en meira en það - eins og orðið sjálft væri barn, sem þú fóstrar. Það vex upp hjá þér undra fljótt, til þess að skýla þér og vernda þig.

Þessu orði lýtur predikunin og predikarinn og það stöðvar hann í því að flytja í stað predikunar einhverskonar heimsósómaræður á Þingvöllum.

En orðið kallar ávallt til ábyrgðar. Einnig í pólitísku samhengi. Richard von Weizäcker, fyrrum forseti Þýskalands, var forseti kirkjuþings evangelisku kirkjunnar meðan hann sat á þingi. Í mörgum ræðum frá forsetatíð hans gengur hann beinlínis út frá því hvernig kristin trú verkar eins og innra eftirlit á pólitíska afstöðu.

Helmut Schmitt, fyrrum kanslari Þýskalands dró aldrei dul á þá að hann væri kristinn maður. Hann sat 17 ár á kirkjuþingi sem fulltrúi kirkjunnar í Hamborg, áður en hann varð kanslari. Hann skrifaði litla bók sem heitir: Als Christ in der politischen Entscheidung: Að taka pólitíska afstöðu sem kristinn maður. Þar segir hann á einum stað eitthvað á þessa leið: ,,Einstaklingurinn, ... aðeins einstaklingur hefur samvisku. Það er ekki til nein sameiginleg samviska. Einstaklingur stendur frammi fyrir spurningunni um það hvort hann eða hún geti samræmt ákveðna pólitíska skoðun, ákveðið pólitískt markmið, í borg og sveit eða í landspólitík, eigin samvisku, eða eigin trú, eða hvort viðkomandi telur sig skyldugan til að grípa inn í mál eða freista þess að hafa áhrif á ákvörðun í samræmi við trú sína eða samvisku.“

Og svo segir hann: ,,Það er kirkjunnar að kalla eftir viðbrögðum samvisku og trúar hjá þeim sem taka þurfa ákvarðanir, stórar eða smáar“.

Kæri söfnuður.

Hver svo sem dagleg verkefni okkar eru gildir þetta fyrir okkur öll. Þess vegna tökum við bara eitt lykilorð út úr guðspjalli dagsins, eins og minnisvers eða nesti.

Jesús segir: . Orðið, sem þér heyrið, er ekki mitt, heldur föðurins, sem sendi mig.

Þetta, sem Jesús segir um sína eigin predikun er áminning til predikara allra tíma. Ekki bara þeirra sem stilla sér upp í predikunarstólum þessarar jarðar, heldur til allra þeirra sem orð Guðs hefur náð til og heilagur andi hefur lokið upp: Við höfum tekið á móti erindi og erum send með það.

Og þótt við bregðumst daglega eða kiknum undan þessari byrði, og klúðrum því erindi sem hann hefur fengið okkur, sendir hann okkur samt strax aftur af stað.

Hversvegna? Boðskapur hvítasunnunnar er þessi: Guð treystir þér vegna þess að andi hans, huggarinn heilagi, er með þér og fer með þér hvert sem þú ferð. Þú ert sjálf og sjálfur hluti hvítasunnuundursins. Það settist á þig eldtunga í heilagri skírn að lýsa þér.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda um aldir alda. Amen.

Kristján Valur Ingólfsson er prestur á Þingvöllum. Flutt í Þingvallakirkju á hvítasunnudag, 30. maí 2004