Hógværum misboðið

Hógværum misboðið

Eru það aðeins öfgarnir og hávaðasamair þrýstihópar sem móta fréttaflutninginn? Verður það ekki fyrr en hinum hógværu er nóg boðið og grípa þá til sinna ráða?

Sæluboðin, sem eru guðspjallið á allra heilagra messu, eru okkur kær og hugstæð. Sælir eru. Kveðjan er svo sérstök, eins og þvert á allt hið hefðbundna.

Samt hefur þessi kveðja fest dýpri rætur inn í íslenskan sið og málhefð en nokkur önnur. Við heilsumst og segum: Sæll og blessaður, sæl og blessuð, og kemur beint úr sæluboðum og blessunarorðum. Þannig hefur tungutak Biblíunnar og guðsþjónustunnar fest rætur í daglegu máli, og er enn einn vitnisburðurinn um hvernig trúin og dagsins önn eru samofin, enda er lífið samkvæmt kristnum skilningi samfelld þjónusta við Guð og mann.

En hingað í helgidóminn komum við reglulega til þessa að auðga andans líf, taka kúrsinn, nærast af Guðsorði, sameinast í bæn, rækta fagra menningu og njóta samvista hvert með öðru. Guðsþjónustan í kirkjunni er því eins og ræktin við andann sem þráir hið fagra og góða í Jesú nafni.

Á allra heilagra messu minnumst við látinna. Virðing og þökk er þá efst í huga. Það fela einmitt sæluboðin í sér sem af stafar svo mikil virðing fyrir lífinu, mennskunni, einstaklingnum og lífsbaráttunni. Fátækir, sorgbitnir, hógværir og ofsóttir, og þau sem berjast fyrir réttlæti, miskunnsamir, hjartahreinir og friðflytjendur. Á bak við öll þessi orð getur verið svo mikil saga af lífi fólks, var og er, og gjarnan eru minningar þínar um látna ástvini einmitt tengdar slíkri sögu.

9. nóvember n.k. eru 25 árliðin síðan Berlínamúrinn féll, þessi skelfingar múr sem staðið hafði í 28 ár. Við, sem komin erum yfir miðjan aldur, finnst í minningunni þetta hafi gerst fyrir svo stuttu síðan. Í raun gerðum við okkur hér á Íslandi aldrei grein fyrir því við hvers konar kúgun og neyð almenningur í Austur-Þýskalandi og víðar í Austantjaldsríkjum bjó við. En blasir nú við t.d. á söfnum í Þýskalandi og í frásögnum fólks. Við þekkjum ekkert annað en málfrelsi, skoðanafrelsi og frjálsar kosningar og getum ekki hugsað okkur lífið öðruvísi, líka athafna- og ferðafrelsi og siðað réttarfar. Ekkert af þessu var til staðar hjá milljónum manna rétt við bæjardyrnar okkar og er enn í mörgum löndum heims.

Einn frjáls staður naut sérstakrar stöðu í Austur Þýskalandi. Það var kirkjan. Stjórnvöld þorðu aldrei að ganga á milli bols og höfðuðs á kirkjunni af ótta við, að þá risi fólkið loks upp og segði Nei,- og þó líf væri í húfi. Þó var verulega að kirkjunni þrengt og lagðir margir steinar í götu hennar.

Og um prestinn var sagt, að væri einasta persónan sem þorandi var að tala við hreint út, vegna óttans um njósnir allt um kring. Hann var bundinn af trúnaði sálgæslunnar við Guð. Enda var presturinn ókeypis, þegar stjórnvöld Austur-og Vestur Þýskalands prúttuðu um verð á flóttafólki, en talið er að keyptir hafa verið yfir 30 þúsund austurþýskir flóttamenn yfir landamærin á þessum árum. Þegar á reyndi þá var kirkjan bjargið, og ekki í fyrsta skipti í baráttusögu mannsins á jörðinni, þegar kirkjan reyndist hið heilaga griðarskjól. Og meira en það.

Það var einmitt í kirkjunni sem réttlætisþráin blómgaðist. Í lúthersku dómkirkjunni í Leipzig fór fólk að koma reglulega saman til bænastunda kl. fimm síðdegis á mánudögum þar sem beðið var fyrir réttlæti og friði. Það var ekki tilviljun, að þessi tími var valinn, því á sama tíma voru einmitt reglulegir samráðsfundir opinberra eftirlitsstofnanna haldnir og því voru njónsnir með borgurunum akkúrat þá ívið minni en ella.

Fyrst voru það örfáir sem mættu til bænastundanna, en þeim fjölgaði ört. Stjórnarherrarnir stóðu ráðlausir hjá. Svo var bænastundin orðin að troðfullu húsi og margir stóðu utandyra og að lyktum að fjölmennri bæna-og friðargöngu sem barst út um allt landið þar til múrinn féll og ofríki kúgunar og ofbeldis hrundi til grunna.

Sælir eru hógværir, því að þeir munu jörðina erfa. Það voru hinir hógværu, hinn þögli meirihluti fólks, sem úrslitum réð í skjóli heilagrar kirkju. Sælir eru þeir sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir, því þeirra er himnaríki.

Hinir hógværu. Hvar eru þeir í nútímanum? Fjalla fjölmiðlar á Íslandi um þetta fólk í fréttum sínum? Eru það aðeins öfgarnir og hávaðasamir þrýstihópar sem móta fréttaflutninginn? Verður það ekki fyrr en hinum hógværu er nóg boðið og grípa þá til sinna ráða? Þegar fréttir berast af því, að niðurskurður í opinberum rekstri kunni að bitna á börnum í skólanum í fámennu byggðarlagi eins og á Stöðvarfirði með róttækum skipulagsbreytingum, er þá líklegt að hinu hógværa fólki sé misboðið?

Munum að orðið barn merkir eitthvað sem borið er á örmum sér. Börnin eiga alltaf skilið það besta sem í boði er. Þess vegna eiga börnin og velferð þeirra að vera í forgangi. Um það hefur verið breið samstaða á Íslandi. Öfgar eða hvers konar gerræði má aldrei sundra þeirri samstöðu með afdrifaríkum afleiðingum.

Ráðamenn hafa oft farið flatt á því að vanmeta mátt hinna hógværu. Sagan um örfáa og ofsótta lærisveina Jesú, sem komu saman af hógværð í heimahúsum á laun eftir krossfestingu hans, varð síðan að fjöldahreyfingu og síðar formelgri kirkju. Við þekkjum sögu hennar og áhrif. Af sömu rót spruttu bænahóparnir í Austur Þýskalandi.

Og hinir hógværu hafa líka sagt sitt á Íslandi og láta til sín taka, þegar á reynir.

Dæmi um það er þjóðaratkvæðagreiðslan um stjórnarskrána, þegar stjórnlagaráðið lagði til að Þjóðkirkjan yrði máð út úr stjórnarskrá og taldi það í samræmi við tíðarandann í þjóðlífinu. En þá risu hinir hógværu upp og vildu hafa sína Þjóðkirkju á sínum stað. Það kom mörgum háværum álitsgjöfum í opna skjöldu og vafðist þá tunga um tönn. Og ýmsum fjölmiðlum líka.

Sömuleiðis er stöðugt klifað í fréttaflutningi um umfangsmiklar úrsagnir úr Þjóðkirkjunni, sérstaklega í Ríkisútvarpinu, og nánast til þess hvatt með áróðri í fréttum að segja sig úr kirkjunni. Ef litið er yfir þennan öfgafulla fréttaflutning í gegnum tíðina, þá ætti kirkjan að vera orðin því næst tóm af fólki. Eigi að síður tilheyra 75% þjóðarinnar Þjóðkirkjunni og langtum fleiri sækja til hennar þjónustu, m.a. fara 95% allra útfara í landinu fram á vegum Þjóðkirkjunnar.

Kirkjan er heilagt skjól. Það hefur reynsla aldanna staðfest. Saga hennar er eigi að síður enginn samfeldur dýrðarljómi. Þar á falla margir skuggar og svartir. Kirkjan hefur ekki farið varhluta af brestum mannsins og misgjörðum. En mennirnir koma og fara, en grundvöllur kirkjunnar lifir og er tær og skír og breytist ekki og þar skilur á milli. Það er Guðsorðið þar sem Jesús Kristur stendur í miðju og máttur Heilags anda yfir öllu vakir og glæðir og gefst aldrei upp.

Í kirkjunni komum við saman til að minnast og þakka. Og þar má sín einhvers hið hógværa og látlausa. Minningin umvefur lífið eins og það er í raun og veru. Það reynum við svo innilega í fari, orðum og verkum Jesú Krists.

Við viljum feta í fótspor hans, njóta náðar hans og kærleika og láta móta verkin okkar í staðfastri von um eilíft líf. Það var engin tilviljun, að Jesús skyldi einmitt hefja Fjallræðu sína á sæluboðunum, þá frægustu og mest lesnu ræðu fyrr og síðar, en engin ræða hefur haft meiri áhrif á gildismat og lífshætti.

Fjallræðan og verk Jesú undirstrika, að hver einasti maður er óumræðilega dýrmætur, lífsrétturinn er heilagur og allir eru jafnir frammi fyrir Guði. Því breyta engar tilskipanir manna, hvorki háværir öfgar né upphafin frægð samkvæmt boði tíðarandans.

Þess vegna er hver einasta minning sem við eigum um látinn ástvin ekki einvörðungu dýrmæt í okkar minningarsjóði, heldur hjá Guði. Það er kjarni málsins og eilíf sæluboð, að enginn er gleymdur Guði, hvorki lífs eða liðinn. Þessi trú nærir sæla von, bregður birtu sinni yfir lífið og gefur mátt til að halda áfram, vona og elska, því sælir eru hógværir, því að þeir munu jörðina erfa. Amen.