Þetta snýst ekki um okkur: Aðventuhugleiðing

Þetta snýst ekki um okkur: Aðventuhugleiðing

Það er eins og við séum búin að finna þar ákveðna miðju. Hún er þó ekki borin fram af þunga auðs og valda heldur þvert á móti í öllu látleysi fátækrar fjölskyldu sem varð vitni að viðburði sem er í senn ofur hversdagslegur og risastórt kraftaverk. Allir hafa jú einhvern tímann fæðst en um leið er fæðing barns á einhvern hátt stórbrotin og engu öðru lík.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
04. desember 2017

Sú var tíðin að við töldum að þetta snerist allt um okkur, í orðsins fyllstu merkingu. Við vissum ekki betur en að hnettirnir og allt það annað sem er fyrir „ofan” okkur, væru á sífelldri hringrás um kjarna alls, jörðina og mennina sem þar búa.

Þessi afstaða birtist okkur í margvíslegri mynd og mikið hafa menn lagt á sig í gegnum tíðina til að staðsetja sjálfa miðjuna. Steinaldarmenn drösluðu ógnarstórum björgum frá einum stað til annars sem líklega hafa táknað sjálft hjarta heimsins. Í kristnum sið var Jerúsalem löngum talin vera í miðjunni og reyndar má rekja upptök hennar til þess er Jakob reisti stein á þeim stað þar sem hann glímdi við Guð. Hjá Múslímum var það borgin Mekka og þar ganga pílagrímar í kringum steininn svarta. Egyptar slógu upp mögnuðum steinturnum eða óbelískum með oddhvössum enda sem benti ákveðið upp til himins: Já, þetta er miðjan! Sumar þeirra voru um síðir fluttar yfir Miðjarðarhafið til Evrópu þar sem þær fengu sess á áberandi stöðum í borgum. Eitt er í Vatíkaninu við hlið Péturskirkjunnar, rækilega rammað inn af hringlaga formum. Það var eins og páfinn hafi viljað sýna fram á að ferðalangar sem þangað kæmu þyrftu ekki að leita lengra að sjálfum kjarna alls: Hérna er hjarta alheimsins.

Engan skyldi undra að margur hafi orðið ókyrr þegar hugmyndir komu fram um að að miðjuna sé hvergi að finna og að allt sé á fleygiferð. Þótt fjarlægar stjörnur komi okkur í sjálfu sér ekki mjög mikið við (nema ef við erum spennt fyrir stjörnuspeki) þá höfðu þeir Kópernikus, Bruno, Galilei og aðrir frömuðir vísinda og frjálsrar hugsunar ekki bara áhrif á það hvernig við litum á hringi, leiðir og hnetti uppi á himinhvolfinu. Verk þeirra breyttu mestu um það hvernig við litum á okkur sjálf. Í raun sendu þeir manninn út á ómælisdjúpið, stefndu honum fjarri kjarna alls þar sem hann fann sér ekkert fast land undir fótum. Verst kom það sér fyrir valdhafana sem höfðu markað sér stað í miðju alls. Starf þessara vísindamanna var fyrir vikið áhættusamt og sumir fórnuðu lífinu fyrir sannfæringu sína.

Miðjan skiptir greinilega máli.

Senn gengur í garð þessi mikla hátíð sem er á margan hátt ákveðinn upphafspunktur. Við miðum jú tímatal okkar við atburðinn sem guðspjöllin lýsa. Jólafrásögnin greinir frá því þegar af barn var lagt í lágan stall. Mitt í öllu því látleysi umhverfist líf okkar og saga. Atburðurinn hefur síðan verið endurfluttur í málverkum, tónlist, leikritum og með öðrum þeim hætti sem mannsandinn kann til að tjá það sem er stórt og merkilegt.

Það er eins og við séum búin að finna þar ákveðna miðju. Hún er þó ekki borin fram af þunga auðs og valda heldur þvert á móti í öllu látleysi fátækrar fjölskyldu sem varð vitni að viðburði sem er í senn ofur hversdagslegur og risastórt kraftaverk. Allir hafa jú einhvern tímann fæðst en um leið er fæðing barns á einhvern hátt stórbrotin og engu öðru lík.

Fæðingarfrásögnin er okkur hugleikin á jólum og þá er jafnvel eins og við finnum til samhljóms með liðnum kynslóðum. Séra Einar í Heydölum orti á 16. öld tímalaust ljóð um vísnasönginn sem hrærir vöggu Jesúbarnsins. Í allri þeirri rósemd er ekki fjallað um himintungl sem svífa um geiminn eða frekjulegar yfirlýsingar um að þessi staður sé kjarninn, miðjan og hjartað. Í sinni vaggandi hægð tekur skáldið líkingu af kjarna hvers manns, já sjálfu hjartanu sem í brjósti okkar býr og hvetur okkur til að gera það að bústað hins nýfædda barns. Og til að undirstrika að miðja þessi er ólík öðrum þeim sem veröldin þekkir og standa sem minnisvarðar um yfirburði og völd yrkir skáldið:

Þér gjöri’ eg ei rúm með grjót né tré,
gjarnan læt ég hitt í té,
vil ég mitt hjartað vaggan sé,
vertu nú hér, minn kæri.
Með vísnasöng ég vögguna þína hræri

Við ættum að leita miðjunnar í eigin hjarta og halda áfram að spyrja okkur stórra spurninga um tilgang, líf og tilvist. Við vitum ekki betur en að í öllu þessu stóra rými óreiðu, þenslu og aðdrætti sé ekkert annað til sem kann þá list að spyrja, trúa og leita að lífinu.

Ef við öxlum ekki það hlutverk, þá verður alheimurinn svo óendanlega miklu snauðari fyrir vikið. Og sá sem lagður var í jötu á hinum fyrstu jólum benti staðfastlega á það að hið sanna og góða líf birtist í störfum okkar fyrir náungann. Sífellt minnti hann á þetta og sagðist sjálfur að við gætum átt með honum samfélag í okkar minnstu systkinum. Þar er kjarni hins góða lífs.
Með öðrum orðum: Þetta snýst ekki um okkur.

Pistillinn birtist í Vesturbæjarblaðinu