Krispínsmessa Krists

Krispínsmessa Krists

Þeir eru, í Guðspjalli dagsins, við síðasta kvöldverðarborðið, á yfirborðinu er ólga, undir niðri kraumar óvissa og jafnvel ótti. Jesús hefur sagt þeim að einn muni svíkja, hann gefur líka til kynna að annar muni frá hverfa – afneita.

Algóði himneski faðir, megi það sem ég tala hér í húsi þínu í dag, vera þér þóknanlegt og fólki uppbyggilegt. Minnstu þess Guð minn að ég, þjónn þinn, er aðeins maður.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

i.
Eitt af mörgum margfrægum verkum Williams Shakespare er leikritið Hinrik V. Leikrit sem margir þekkja af kvikmyndaversjónum sem gerðar hafa verið, árið 1989 lék t.d. Kenneth Branagh þennan merka kóng í bíómynd, enn frægari er kannski túlkun Laurence Olivier á sama hilmi árið 1944.

Verkið segir, að stórum hluta, frá herför Hinriks þessa til Frakklands – það er stríð; reyndar er það hið svokallað 100 ára stríð sem þarna er í gangi. Englendingum gengur illa, þeir eru fáliðaðir, staddir með tættan her við Agincourt. Árið er 1415, dagurinn 25. október. Messudagur heilags Krispíns.

Ósigur blasir við í þessari lokaorrustu, og Jarlinn á Vesturmærum saknar þeirra Englendinga sem eru heima, því liðið er fáliðað, hann segir: „Ó. væri hér / aðeins eitt þúsund þeirra, er heima sitja / verklausir nú.“ Hinrik V. kemur þar að, heyrir þessi orð; og þau laða fram eina frægustu ræðuna í verkum skáldjöfursins frá Stratford on Avon:

Hinrik:
Hver vildi það minn kæri frændi
á Vesturmærum? Nei nei, elsku frændi;
séum vér dauða merktir nú, er nóg
að land vort glatar oss; og ef vér lifum,
því færri menn, því meiri skerf af sæmd!
Fyrir guðs skuld, biddu´ekki´um einn í viðbót.
Ég sver, að ég er ekki gjarn á gull,
og hirði lítt hver etur á minn kostnað,
ellegar hverjir bera fatnað minn;
hégómi slíkur gistir ei mitt geð.
En ef það væri synd að girnast sæmd,
væri ég heimsins mesti brotamaður,
Nei, frændi, óskaðu´einskis manns að heiman;
síðast alls vil ég verða af heiðri þeim
sem maður einn að auki fengi í hlut.
Þú mátt ekki´óska eins manns, kæri jarl;
láttu það heldur vitnast voru liði,
að hver sem ekki er albúinn að berjast,
skal snúa heim; hann hlýtur fararleyfi,
og í hans pyngju kæmi ferðafé.
Vér kjósum ekki að falla í flokki þeirra
sem óttast mest að falla í vorri fylgd.
Dagurinn þessi kallast Krispínsmessa;
þeir sem lifa þennan dag, og komast
heilir heim, munu tilla sér á tá
og rétta úr hrygg að heyra daginn nefndann;
og hver sem lifir framá gamals aldur,
mun hvert ár veizlu gera sínum grönnum
og segja: „Krispínsmessan er á morgun“;
svo strýkur hann upp ermi, og sýnir ör,
og segir: „Ég hlaut sár á Krispínsmessu“.
Öldungar gleyma; gleymist allt um síð;
og þó man hann, og það með nokkrum vöxtum,
sín afrek daginn þann. […]
Þetta mun góður faðir segja syni;
og Krispínsdagur kemur aldrei svo,
héðanaf allt til enda veraldar,
að ekki verði á oss minnzt, hina fáu,
oss fáa, því fer betur, bræðra-hópinn;
því sá sem við mig blandar blóði í dag,
er bróðir minn; hve vesall sem hann er,
mun þessi dagur aðla líf hans allt.
Þeir aðalsmenn sem heima blunda á beði,
formæla sínum fjarvistum frá oss
og drúpa höfði af hneisu, ef einhver talar
sem með oss hóf sinn hjör á Krispínsdag.
(Þýð. Helgi Hálfdanarson)

ii.
Þeir eru, í Guðspjalli dagsins, við síðasta kvöldverðarborðið, á yfirborðinu er ólga, undir niðri kraumar óvissa og jafnvel ótti. Jesús hefur sagt þeim að einn muni svíkja, hann gefur líka til kynna að annar muni frá hverfa – afneita. Sem og varð. Hann segir:

„Símon, Símon, Satan krafðist að fá að sælda yður eins og hveiti svo að hismið kæmi í ljós. En ég hef beðið fyrir þér að trú þín þrjóti ekki. Og styrk þú trúsystkin þín þegar þú ert snúinn við.““

Já, einn hleypur frá borði og svíkur í orðsins fylltu merkingu, það var Júdas. En Pétur afneitaði á ögurstundu meistara sínum – hann er hér nefndur Símon af Frelsaranum líklega vegna þess að í þetta sinn var hann ekki sá klettur sem Pétursnafnið krafðist, og táknaði. Tvítekning nafnsins minnir okkur meðal annars á mikilvægi þessa postula sem þó brást – um stund.

Mikið skelfing er ég nú hræddur um að þeir hafi margir, lærisveinarnir, litið hver til annars þetta kvöld og hugsað mér sér – líkt og Jarlinn á Vesturmærum við Agincourt:

„Bara að við værum ögn fleiri“.

En það er nú svo að það skiptir engu hve margir mennirnir eru ef hugurinn er ekki réttur, það er viljinn og ástin á verkefninu sem skipta mestu máli. Enda segir Jesús:

„En það eruð þér sem hafið staðið með mér í freistingum mínum.“

Það vill segja, þeir, sem þarna eru með honum – ekki hinir sem ekki mættu, ekki þeir sem efuðust, ekki þeir sem létu sér fátt um finnast. Hann er að tala sérstaklega til þeirra – sem þarna eru; ekki annarra. Og þannig eru sterk líkindi með Kristi og Hinriki V. í samnefndu verki Shakespeares.

Lærisveinar Krists höfðu yfirgefið allt og fylgt honum, þeir höfðu séð þjáningar hans, orðið vitni af freistingum þeim sem lagðar voru fyrir hann, þeir höfðu séð kraftaverkin og þeir höfðu upplifað það aftur og aftur að leiðtogi þeirra stóð með þeim sem minna máttu sín. Þeir höfðu þráfaldlega séð að hann spurði ekki um stétt eða stöðu, spurði ekki um völd eða valdleysi, spurði ekki um fjölda eða herstyrk. Nei, þeir höfðu lært að þeir þyrftu aðeins tvennt: Að ganga fram í kærleika og trú.

Jesús vill minna þá á að ekki séu síðri atburðir fyrir höndum; eitthvað sem þeir verði að vera búnir undir og getað tekist á við. Einir án hans – í raunheimi. Og hvað á þá að vera drifkraftur þeirra og afl til boðunnar og trúarlegra átaka?

Jú, það að hafa verið með Kristi, hafa velþóknun hans í farteskinu og bæn hans í hjartastað. Þeir eiga nánast að „lifa á því“ að hafa verið með honum, hjá honum, lifað og barist trúarinnar baráttu við hlið hans. Hann er að brýna þá með fáum orðum líkt og Hinrik V. brýnir sína menn til dáða – með mörgum orðum – en líka fögrum. Þeir hafa hans blessun. Hermenn Hinriks V. hafa blessun síns baráttuglaða kóngs sem vísar þeim veginn með því að benda til framtíðar.

Og það gerir Jesús líka, hann segir við Símon Pétur:

„Og styrk þú trúsystkin þín þegar þú ert snúinn við.“

Snúinn frá afneituninni frægu, kominn aftur til liðs við hin fámenna hóp sem ætlar sér að sigra ekki bara eitt virki – heldur heiminn. Ekki bara Agincourt – heldur veröldina alla. Og aldrei fyrirverða sig fyrir að hafa verið í liði með Jesú Kristi – heldur berja sér á brjóst, tylla sér á tá, rétta úr hrygg og segja: „Ég var þar, ég var með honum – ég reið inn í Jerúsalem, ég stóð á Golgata, ég sá hann upprisinn.“

iii.
Og enn býðst okkur það sama, við getum sagt: „Við höfum einnig verið með Jesú í hans freistingum, við höfum einnig séð þjáningar hans, við höfum fundið mátt hans.“

Vopnlaus erum við ekki því við höfum orð hans að halda okkur við og kenningu hans að breyta eftir; við höfum náðargjafirnar sem hann veitti okkur og við höfum lærdóm þann sem hann lagði til svo við gætum notað okkur þær náðargjafir. Við höfum trú og fullvissu – við höfum náð hans og kærleik. Og því mun sá dagur koma – kærum við okkur um – að við líka getum tyllt okkur á tá, rétt úr hrygg og barið okkur á brjóst og sagt: „Ég var þar, ég var með honum – ég reið inn í Jerúsalem, ég stóð á Golgata – og ég sá hann upprisinn.“

Aðferðin er sú sama og áður og viðfangsefnin eru ærin, Agincourt er við hvert fótmál og fjendurnir ávallt fleiri.

Göngum út og setjum okkur upp á móti óréttlæti og rangindum dagsins í dag; ráðumst ekki að þeim sem flýja lönd og biðjast griða og skjóls, smánum ekki þá sem berjast við fátækt, líknum þeim sem glíma við sjúkdóma, réttum hjálparhönd fíklum og föngum, tökum jafnt tillit til og virðum alla kynþætti – mælum allstaðar og við hvert tækifæri gegn kynþáttníði, verum málsvarar þeirra sem líða fyrir kynhneigð sína eða kenndir, tölum ávallt máli þeirra sem lakast standa og látum engu skipta trú þeirra eða trúleysi. Flettum upp í sjálfum okkur og finnum í okkur mennskuna; samlíðunina og réttlætiskenndina. Með allt þetta að vopni til viðbótar við tæran boðskap Jesú Krists – mun ekkert fyrir okkur standa.

En, hinir sem ekki koma með, en sitja heima, munu síðar „blunda á beði“ og „formæla sínum fjarvistum frá oss og drúpa höfði af hneisu.“ Því okkar mun verða sigurinn, réttlætið og eilífa lífið – og hver dagur sem Krispínsmessa.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda, Amen.