Sannleikur og ímyndun

Sannleikur og ímyndun

Sannleikur og ímyndun renna saman í eitt á helgum jólum.

Hátíð er gengin í garð og við syngjum aftansöng í kirkjunni á því kvöldi sem er engu öðru kvöldi ársins líkt. Á jólum horfum við djúpt og langt. Við rýnum inn í hjörtun, við horfum út yfir víðáttuna og spyrjum stórra spurninga. Þegar glaumurinn hljóðnar og við finnum vonandi fyrir ríkidæmi kærleika og nándar, gefst tóm til að hugleiða það hvernig lífinu sjálfu er lifað. Jólin rúma svo margt. Þau eru stund sannleikans. Þau eru líka vettvangurinn þar sem við hleypum ímyndunaraflinu á kreik.

Að setja sig í spor Í jólaguðspjallinu leynist sú taug er vísar til þess sem sjálfsagt eru mannkostirnir mestu, að geta sett sig í spor annarra. Þar mætast sannleikur og ímyndun. Það að geta ímyndað sér, eins og Lennon söng svo eftirminnilega, geymir lykillinn að draumunum, hugmyndum okkar um betri heim. Jólin eru nátengd þeim draumum og hinu sem við getum kennt við töfra ímyndunaraflsins - þegar við setjum okkur í spor annarra. Jólaguðspjallið færir okkur fréttir af hlutskipti fólks í fjarlægu landi og að endingu þá er eins og hvítvoðungurinn liggi í kjöltu okkar. Þetta viðkvæma líf sem krefst einskis af okkur kallar á móti fram í okkur það sem er kjarni allrar mennsku - samhygðin og hin skilyrðislausa ást. Með þeim hætti mætir Guð okkur á jólunum.

Einn af mínum eftirlætis jólasálmum framkallar myndir í hugskot okkar - ímyndir sem við skulum nú dvelja við stundarkorn. Hann fjallar um þessar andstæður, myrkurs og ljóss, kulda og yls, hörku og mýktar. Í þýðingu Matthíasar Jochmussonar á sálmi Pretoriusar eru jólin hvergi nefnd þó fátt sé jólalegra en þessi óður, þegar aldin ilmar móti sólinni og hefur þann þrótt að vekja von og yndi þótt dimm vetrarnóttin grúfi yfir öllu.

(Það aldin út er sprungið…)

Hlekki brýt ég hugar

,,Hlekki brýt ég hugar” yrkir Jónas í Ferðalokum og dregur okkur inn í magnaðan heim náttúru og ástar. Þessi forni sálmur er ríkur að myndmáli og þar er vísað í margar áttir. Jesse rót, vísar til föður Davíðs konungs sem nefndur er í jólaguðspjallinu.

Hin ljúfa liljurós er hún María sem í kristinni kirkju hefur verið farvegur huggunar, umhyggju og mildi. Blómið endurvarpar litum í hinu svarthvíta vetrarumhverfi. Það lífgar við helið kalt rétt eins og boðskapur þess sem fæddist á hinum fyrstu jólum birtir okkur allt það sem nærir sál og hug og líkama. Þar finnum við birtingarmynd gleðinnar og vonarinnar. Þó fjalla jólin ekki um liðinn afvikinn atburð heldur okkur sjálf, hvert og eitt okkar og að endingu beinist ljósið að okkur sjálfum: ,,Ó, Guð og maður greið oss veg frá öllu illu svo yfirvinnum deyð.”

Já, það að geta litið í augu annarrar manneskju og séð okkur sjálf er kjarni vitundar okkar um rétt og rangt. Það er í raun ekki lítil list að geta yfirfært hlutskipti annarra á okkur sjálf já að geta ímyndað sér við sjálf séum þau. Gullna reglan byggir á þessari hugsun. Það er ekkert minna.

Jólahátíðin snertir við hjörtunum og er stór áfangi í því lífsverkefni hvers og eins okkar að vinna ljóssins verk á meðan okkur gefst til þess tími. Sá er jú bakgrunnur jólafrásagnarinnar sem brýtur hlekki huga okkar og sendir okkur á vængjum ímyndunaraflsins á fjarlægar slóðir. Þar sitja hirðar í nóttinni og fá tíðindin frá sendiboðum himinsins.

Hátíðin á að skilja eitthvað eftir fyrir þá tíð sem framundan eru, gefa okkur veganesti fyrir ókomna dagaa svo við tökum með okkur birtuna og ylinn. Liljurósin horfir mót sólu og breytir vetrarmyrkri í bjartan og hlýjan dag.

Á þessum tengslum byggir kristin trú. Hún hlúir að sannleika og ímyndun. Hún skapar tengsl við æðri veruleika og stöðugt minnir hún okkur á skyldur okkar og köllun, samlíðan með náunganum. Hún miðlar okkur samkennd Guðs með manninum. Frásögn er yfirfærð á aðstöðu lesandans og viðtakandans. Og allt ber þar að sama brunni: við setjum okkur í spor náungans og gerum kjör hans að okkar kjörum.

Jatan

Krossinn er ein sterkasta mynd þessa. Þar mætir Guð manninum í allri sinni þjáningu og einsemd og býður honum fram hjálpræði sitt í gegnum aldir og kynslóðir. Hann er áberandi hér í Neskirkju en er þó annað tákn enn sterkara þegar kemur að jólunum. Það er sjálf jatan. Einar Sigurðsson í Heydölum yrkir um jötuna sem hjarta hvers kristins manns og þegar hjartað slær þá hrærum við jötu ungabarnsins. Jatan verður staðurinn þar sem hið viðkvæma líf liggur og er í hjarta sögunnar um hin fyrstu jól.

Jólaguðspjallið flytur okkur þann boðskap. Það geymir þann frásagnarmáta sem er svo algengur í Biblíunni þar sem við erum ekki uppfrædd að hætti heimspekinga um hið góða líf. Nei, Biblían segir sögu og við látum okkur varða líf og hlutskipti annarra. Í kjarna sínum er hún svo tær og einföld að engir túlka hana betur en börnin. Þess fengum við að njóta hér í Neskirkju á aðventu og nú á samveru barnanna fyrr í dag.

„En það bar til um þessar mundir…“ svo hefjast þau orð í látleysi sínu og við lesum svo sögu andstæðna – af stórkörlum og smáfólki, erli og kyrrð og svo er það atburðurinn sjálfur, fæðingin þegar aldinið springur út. Á jólum erum við samferðafólk Maríu og Jósefs. Við ímyndum okkur, setjum okkur í spor fólks sem kom að luktum dyrum. Við hugleiðum kjör þeirra sem þurftu að leita út fyrir veggi mannabústaða að skjóli þegar fæðingin var í nánd.

Leyfum birtunni og hlýjunni að lýsa upp jólin. Vont er það húm sem myrkrar okkur þá sýn og napur sá kuldi sem herðir svo hjörtun að þau hrærast ekki með okkar minnstu systkinum. Sannleikur og ímyndun renna saman í eitt á helgum jólum. Ljósið lætur okkur greina það sem annars var hulið og ylurinn mýkir. Allt snýst það um þá lífsins list sem kann að geyma leyndardóma alls þess sem gott er og blessað í okkar fari. Eiginleikinn að geta séð heiminn með augum annarra, að geta sett sig í spor, að geta lifað og fundið til, svo við yfirvinnum deyð og leyfum Guði að greiða okkur þann veg sem leiðir til farsældar.