Sú hugmynd að fresta jólunum er stundum rifjuð upp og þá iðulega tengd við byltingarforingjann Kastró á Kúbu. Og af hverju skyldi það rifjað upp hér? Enn lifum við í eftirköstum efnahagshrunsins, atvinnuleysi er töluvert, skuldavandi heimila og fjölskyldna er umtalsverður, þörf fólks fyrir mataraðstoð frá hjálparsamtökum fer vaxandi. Á meðan fáir útvaldir virðast geta makað krókinn rækilega í rústum hrunsins horfir þorri almennings upp á skert lífskjör. Í framhaldi af svona upptalningu mætti spyrja: Væri ekki bara eðlilegt að fresta jólunum?
Megin ástæða frestunar væri þá hreinlega að við hefðum ekki efni á jólunum og svo hins vegar að hátíðahöld séu stílbrot á stemningunni sem við blasir í samfélaginu. Vert er að staldra við þessar pælingar. Jólin hafa þróast hratt í að verða stærsta neysluhátíð ársins. Engin jól nema þú komist á flottustu jólatónleikana fyrir jólin og á glæsilegustu jólahlaðborðin, gefir dýrar og stórar jólagjafir, sparir hvergi við þig í mat og drykk. Þannig er stemningin iðulega fyrir jólin og byrjað er að mata okkur um miðjan október á því hvernig við eigum að haga okkur, hvar eigi að versla og hvers eigi að njóta. Komdu til okkar, annars engin jól!
En jólin snúast í eðli sínu ekki um taumlausa neyslu, mat og dýrar gjafir heldur um gleði og frið. Og gleði og friður verða ekki keypt fyrir aur. Jólunum er ætlað að beina sjónum okkar inn á við. Að við hlúum að börnunum okkar, ástvinum og fjölskyldu. Gefum þeim tíma og væntumþykju, gjafir frá hjartanu. Leggjum lið þar sem handa okkar er þörf og nærveru. Aðventa og jól vísa leið að að barni í jötu. Að barni sem varð maður og hafði hugrekki til að breyta hugsun fólks. Hann gaf lítið fyrir hefðir og venjur ef þær stóðust ekki mælikvarða réttlætis og kærleika. Hann mætti fólki í störfum sínum og braut niður múra og girðingar sem okkur mannfólkinu hættir svo oft til að reisa á milli okkar. Hinum veiku og vanmáttugu mætti hann af nærgætni og umhyggju. Hann breytti lífi fólks, uppörvaði, læknaði og leiðbeindi. Og engan greinarmun gerði hann á því hver átti í hlut; kynferði, þjóðerni, stétt, staða eða uppruni skiptu ekki máli – því öll skulum við vera jöfn frammi fyrir Guði og mönnum.
Úrelt hugsun sem á ekkert erindi við okkur? Ef já, þá skulum við fresta jólunum. Ef nei, þá skulum við fagna jólunum.
Barnið í jötunni er Guð á meðal okkar, afl sem er þess megnugt að breyta okkur, samfélagi okkar og heiminum öllum. Þess vegna legg ég til að við tökum barnið í fangið og leyfum því að móta líf okkar. Þá verða jólin og jólaundirbúningurinn að því sem þeim er ætlað að vera, vonarrík hátíð sem gefur fyrirheit um frið, réttlæti og kærleika inn í líf okkar og samfélag manna.
Að því sögðu teldi ég glapræði að fresta jólunum – gleðilega aðventu!