Reiðin og Íslandshrun

Reiðin og Íslandshrun

Trúnaður rofnar, reiði magnast og traust minnkar. Ólánið er ótrúlegt, en mesti skaðinn er menningarlegur, varðar innrætið í samfélagi okkar. Hvað er til ráða?

Dósirnar? Í síðustu viku var Íslendingur á fundi í Þýskalandi. Félagar hans í fjölþjóðlegu fyrirtæki og frá mörgum Evróplöndum voru samankomnir til vinnudags. Allt gekk vel, okkar maður tók fullan þátt dagskrá og málum. Svo var komið að vinnulokum og ekkert eftir annað en ganga frá kaffibollum og henda gosdósunum. Þá gall við athugasemdin: “Er ekki best að Íslendingurinn hirði dósirnar.” Allir hlógu en Íslendingurinn, sem hafði verið gildur þáttakandi allan daginn var allt í einu í hlutverki sem hann hafði aldrei verið í áður. Hann var fátæklingurinn í hópnum, sem var í lagi að henda dósum í og hlægja að um leið. Hann hafði aldrei verið svo niðurlægður opinberlega áður og allt í einu dagaði á hann smán hans, smán Íslendinga, gildishrun baklands hans, hins íslenska sem hann var fulltrúi fyrir. “Er ekki best að Íslendingurinn hirði dósirnar?”

Hvers er ábyrgðin? Hver vill dósirnar? Hver vill vera aðhlátursefni? Heimsbyggðin hefur fylgst grannt með hruninu, ferlið er þegar orðið uppáhaldsdæmi í hagfræðikennslu í háskólum um allan heim. Dósirnarnar hringla okkur til háðungar í spaugstofum veraldar. Saklausir landar okkar villa jafnvel á sér heimildir til að koma sér ekki í bobba, við erum orðnir útkjálkamenn og spaugspænir heimsins. Íslendingurinn í Þýskalandi kom til baka niðurlútur með vonda reynslu, sem hann hafði orðið fyrir þótt hann hefði ekkert gert rangt. Hann var látinn gjalda fyrir áföll, sem hann átti enga sök á.

Hrun og tilfinningar Afleiðing útrásar Glannanna er hrun. Virðing þjóðarinnar hefur beðið hnekki erlendis eins og öryggisráðskosningin sýndi klárlega og þúsundir blaðagreina og fréttaskota enduóma. Við getum búið við fyrirlitningu ef við eigum sjálfsvirðingu og traust. En þar er kannski dýpsti vandi hrunsins: Við höfum sem einstaklingar og þjóð orðið fyrir menningarskaða og trúnaður í þjóðfélaginu er rofinn. Það er ægilegur skaði, sem þarf að viðurkenna. Traustið hefur rofnað og brostið gagnvart afar mörgu og mörgum. Traustið hefur hrunið gagnvart mikilvægum stofnunum, bankakerfinu öllu, stjórnmálamönnum og ýmsum opnberum stofnunum og einstaklingum. Þegar reiðin magnast minnkar traust. Hvað er til ráða?

Reiðin Stöldrum við og íhugum hvernig fólk bregst við í skelfilegu ferli og í áfallsaðstæðum. Fyrsta skrefið er oftast doða- og afneitunar-skeið þegar fólk trúir vart að áfallið sé raunverulegt: “Þetta getur ekki verið rétt, þetta hlýtur að vera blekking.” Doðann má oft og líka þess daga túlka sem æðruleysi. Þetta höfum við séð og fólk hefur hlúð að og umfaðmað fólkið sitt og reynir bara að þreyja þar til martröðinni lýkur og allt skánar. Næsta skref á eftir er tími hinna miklu tilfinninga. Það skeið er komið nú í lífi okkar.

Núna gýs reiðin upp. Fjöldinn vill ekki láta bara segja sér að búa bara til slátur og knúsa sitt fólk. Fólkið, sem hefur verið gott við börnin sín, foreldra sína, hefur knúsað sitt fólk og þjónað – og ekki tekið þátt í neinu sukki og farið vel með fé er bara ævareitt og þarf að fá útrás fyrir reiði sína. Þetta er ekki bara fólkið, sem fór með fermingarpeninga barna sinna og lagði inn á peningareikninga, sem eru orðnir verðlitlir eða fólk, sem trúði ráðgjöfum sínum að það ætti að kaupa hlutbréf, sem nú eru orðin að engu. Það er líka fólk, sem er bara foxillt vegna þess víðtæka skaða sem orðinn er og hve margir, sem hafa átt að bera ábyrgð, hafa ekki axlað hana með sæmd – hvað sem verður þegar skaðinn dagar á hina dofnu.

Það er ekkert óeðlilegt við stóru spurningarnar. Það er ekkert óeðliegt, að traust á fólki og stofnunum dofni og jafnvel deyji þegar stærð brotanna er slík, að börnin okkar verða kefluð við skuldaklafann í áratugi, við gapastokk, sem fólk á enga sök á, hefur ekki til unnið og neitar að axla ábyrgð á. Það er ekkert óeðlilegt að menn spyrji hver eigi að axla ábyrgð og hvort gerðarmennirnir hafi bara haft réttindi en engar skyldu. Það á að ræða í alvöru ábyrgð opinberra aðila. Hverja á að reka og hverja á að setja á er ekki guðfræðilegt úrlausnarefni mitt – og verður því ekki rætt með viti í prédikun. Það er verkefni samfélags og dómarnir eiga að vera í samræmi við lög og réttlæti.

Innrætið Annað þurfum við að muna. Eitt er að vinna með peninga en annað er að vinna með innrætið í menningu okkar, stjórnmálum okkar og gildum. Fjámunir eru mikilvægir en vermætara er inntakið í menningu okkar og mennsku. Okkar er að vinna með eigin gildi en samfélagsins er að vinna með framtíðarmenningu. Nú er komið að manndómsraun þjóðarinnar, hvaða mann höfum við að geyma, hvernig vinnum við með áföll og hvernig við eigum að vinna með reiði okkar, sem er kraftur til visku, ef rétt er með farið.

Ég hef oft horft á og margar fjölskyldur glíma við stórkostleg vandræði. Ég hef oft átt samleið með líðandi fólki í ægilegum kringumstæðum og séð hve mikilvægt er að vinna með ofurvanda með heiðarleika. Í vanda okkar Íslendinga núna duga ekki kattaþvottar. Það dugar ekki, að hver láti reiði sína bara binta á umhverfinu, þegar fólk keyrir innkaupakerrur í Range Roverana til að hefna sína. Það eru hræðileg mistök að láta ofsann dynja á maka, lemja börnin og sparka í hundinn. Reiði þarf að fá útrás en í réttan farveg. Reiðinni á ekki að sleppa alveg lausri því þá sópar hún burt og eyðileggur. Reiðina þarf að virkja til góðs.

Ekki benda á mig Vandi okkar er ekki afleiðing náttúruhamfara, ekki eldgos sem við ráðum ekki við, ekki flóð sem dynur óvænt á okkur án okkar tilverknaðar. Vandinn er mannaverk, misráð, misgerðir, sem lenda ekki aðeins á þeim sem bera ábyrgð heldur lenda á fólki sem ber enga ábyrgð, er ekki meðvirkt, ekki hryðjuverkamenn, ekki sekt vegna fjárglannaskap af neinu tagi. Þau, sem lenda í þessu, erum við öll, ef ekki vegna fjártaps, þá vegna þess að við höfum tapað æru, trausti, virðingu og tiltrú. Við erum fæst sek en erum öll í rústunum og áfallinu.

Ljóst er af fjölda viðtala við ábyrgðarmenn, að fæstir viðurkenna nokkra sök. Sökin er alltaf í útlöndum eða í ófyrirsjáanlegum aðstæðum. Sökin er hjá “hinum.” Sökin er landflótta frá Íslandi. Umræðan verður þar með eins og í leikskóla hjá vanþroskuðum börnum, sem hafa ekki lært ábyrgð, að ganga í sjálf sig og iðrast, sem er það að úthverfa iðrum, innri manni, til að vinna með sín mál til uppgjörs.

Þjóðir og einstaklingar lenda í skelfilegm málum en öllu skiptir að opna fyrir sannleikann um okkur sjálf, um gildi okkar, um brot okkar og um vonir okkar. Við verðum í aðstæðum okkar nú að opna og iðka sannleikann. Sjálfsréttlætingarstælar sjálfhverfra unglinga eru ekki boðlegir. Við, sem þjóð höfum farið á dýrasta námskeið sögunnar, sem er reyndar crash-kúrs. Hvað lærum við á slíku? Vandaða og faglega rannsókn á hrunferlinu verður að gera svo að sem flestir séu sannfærðir um að allt sé sagt. Fólk verður að fá vettvang til að tala opinberlega og án þess að það sé kúgað eða keflað. Okkur er lífsnauðsyn að þekking og mannvit fái ráðið meiru í framtíð en pólísk átök og valdapot. Við verðum að skoða skólakerfi okkar og spyrja okkur raunverulegra spurninga um hvað vanti til að bæta siðferði okkar, lífsgæði og lífshæfni. Það vantar ljóslega meiri hagnýta gagnrýni, skynsemi, visku og sjálfstæði.

Hverjum hvað? Í texta dagsins erum við minnt á að íhuga hverjum við gjöldum tolla í lífinu. Hvað viljum við greiða til hins opinbera og hvað til hins eiginlega og inntakslega. Keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er. Við þurfum að fara yfir forganginn. Hið trúarlega og guðfræðilega í öllu þessu hruni er, að við höfum orðið vitni að því að hversu óskaplegan skaða hroki mannsins veldur. Oflæti í útrásinni, allt sem er ofur í lífi okkar og okkar víkinga veldur óbærilegum skaða. Þetta ofur heitir hroki á máli trúarinnar. Bankahrunið, menningaráfallið, hrun Íslands er afleiðing hrokans, sem við þurfum að horfast í augu við. Sá hroki hefur stýrt of mörgu og á sér afleggjara víða og skemmir alltaf traust og samfélag.

Hvað um Guð í þessu öllu? Guð er nærri, Guð er hin algera nánd þegar þú líður, þegar þú ert reið eða reiður, þegar depurðin hellist yfir þig og þú ert í vanda. Þú mátt æpa til Guðs og þú mátt úthella allri þinni reiði líka. Guð hefur mjög bæði gott eyra og samúð með stórum og miklum tilfinningum. Þú þarft að tala sem mest, við þína nánustu, við okkur prestana, við vini þína, við sem flesta. Og þú þarft að gæta þín, að láta ekki reiði þína dynja yfir fólkið þitt, vandamenn þína, þótt þeir hafi lagt inn alla fjármuni þína eða þinna á peningareikninga eða keypt hlutabréf sem hurfu í svelginn.

Komdu til sjálfs þín, farðu yfir líðan þína, yfir gildi þín, yfir vonir þínar. Beittu þér í uppgjöri Íslands á gildum og framtíð. Taktu þátt í fæðingu framtíðar. Allt er að láni, en líka allt til reiðu gagnvart fólki sem er kallað til heiðarleika.

Má bjóða þér dósirnar? Nei, dósirnar mega fara í endurvinnsluna og til góðra málefna. Við skulum bregðast við þegar einhver grínist með niðurlægjandi hætti, bregðumst við ákveðið og með fullum styrk og líka þegar einhver ætlar að hlaupa undan ábyrgð. Mestu skiptir hvað við viljum með gildin, mennskuna, rétttlætið og traustið. Það varðar að gefa Guði það sem Guðs er. Guð vill efla traust milli fólks, í samfélaginu og gagnvart sér. Okkar er að vinna að því trausti, sem síðan litar og smitar út í samfélagið. En traust er dóttir heiðarleika og réttlætis. Allir brjóta af sér og bregðast, en traustið getur lifað ef brotin eru viðurkennd og gerð upp. Traustið lifir ekki af nema í heiðarleika og alls ekki í sambúð með þrælsótta. Keisaranum það sem keisarans er, en ekki meira. Guði það sem Guðs er og það verður til bóta samfélagsins.

Amen

26. Október, 2008, tuttugasta og þriðja sunnudag eftir þrenningarhátíð.

Lexía: 1Mós 18.20-21, (22b-33) Drottinn sagði: „Neyðarópin frá Sódómu og Gómorru eru mikil og synd þeirra mjög þung. Ég ætla að stíga niður og gæta að hvort þeir hafa aðhafst allt sem neyðarópin, sem borist hafa til mín, benda til. Ef ekki vil ég vita það.“ Abraham stóð enn frammi fyrir Drottni. Hann gekk fram og mælti: „Ætlarðu að tortíma hinum réttláta með hinum óguðlega? Vera má að fimmtíu réttlátir séu í borginni. Ætlarðu þá að tortíma þeim og þyrma ekki borginni vegna hinna fimmtíu réttlátu sem þar eru? Fjarri þér sé að gera slíkt, að deyða hinn réttláta með hinum guðlausa. Fer þá hinum réttláta eins og hinum guðlausa. Fjarri sé það þér. Mun dómari allrar jarðarinnar ekki gera rétt?“ Drottinn svaraði: „Finni ég fimmtíu réttláta í Sódómu þá þyrmi ég borginni allri þeirra vegna.“ Þá sagði Abraham: „Ég hef dirfst að eiga orðastað við sjálfan Drottin þótt ég sé duft eitt og aska. Nú kann fimm að skorta á tölu fimmtíu réttlátra. Ætlarðu þá að tortíma allri borginni vegna þeirra fimm?“ Hann svaraði: „Ég mun ekki tortíma borginni ef ég finn þar fjörutíu og fimm.“ Og enn sagði Abraham við hann: „Vera má að þar finnist ekki nema fjörutíu.“ Hann svaraði: „Vegna hinna fjörutíu mun ég ekkert aðhafast.“ Þá sagði Abraham: „Nú má Drottinn ekki reiðast mér, að ég tek aftur til máls. Vera má að þar finnist ekki nema þrjátíu.“ Hann svaraði: „Ef ég finn þar þrjátíu aðhefst ég ekkert.“ Þá sagði Abraham: „Enn gerist ég svo djarfur að ávarpa Drottin. Vera má að þar finnist ekki nema tuttugu.“ Hann svaraði: „Vegna hinna tuttugu tortími ég ekki borginni.“ Abraham mælti: „Nú má Drottinn ekki reiðast mér þótt ég taki til máls aðeins í þetta eina skipti. Vera má að þar finnist ekki nema tíu.“ Hann svaraði: „Vegna hinna tíu tortími ég ekki borginni.“ Og Drottinn fór er hann hafði lokið að tala við Abraham en Abraham hvarf aftur heimleiðis. Pistill: Fil 3.17-21 Systkin, breytið öll eftir mér og festið sjónir ykkar á þeim sem breyta eftir þeirri fyrirmynd er við höfum gefið ykkur. Margir breyta - ég hef oft sagt ykkur það og nú segi ég það jafnvel grátandi - eins og óvinir kross Krists. Afdrif þeirra eru glötun. Guð þeirra er maginn, þeim þykir sómi að skömminni og þeir hafa hugann á jarðneskum munum. En föðurland okkar er á himni og frá himni væntum við frelsarans, Drottins Jesú Krists. Hann mun breyta veikum og forgengilegum líkama okkar svo að hann fái sömu mynd og dýrðarlíkami hans því hann hefur kraftinn til að leggja allt undir sig. Guðspjall: Matt 22.15-22 Þá gengu farísearnir burt og tóku saman ráð sín hvernig þeir gætu flækt Jesú í orðum. Þeir senda til hans lærisveina sína ásamt Heródesarsinnum og þeir segja: „Meistari, við vitum að þú ert sannorður og kennir Guðs veg í sannleika, þú hirðir ekki um álit neins enda gerir þú þér engan mannamun. Seg okkur því hvað þér líst? Leyfist að gjalda keisaranum skatt eða ekki?“ Jesús þekkti illsku þeirra og sagði: „Hvers vegna leggið þið snöru fyrir mig, hræsnarar? Sýnið mér peninginn sem goldinn er í skatt.“ Þeir fengu honum denar. Hann spyr: „Hvers mynd og nafn er á peningnum?“ Þeir svara: „Keisarans.“ Hann segir: „Gjaldið þá keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er.“ Þegar þeir heyrðu þetta undruðust þeir, yfirgáfu hann og gengu burt.