Þú gætir þurft að stela

Þú gætir þurft að stela

Einhver gæti lent í því að þurfa að stela lyfjum til að bjarga mannslífi eða slíta öll tengsl við foreldra sína til að hlúa að heilbrigði sinnar eigin fjölskyldu
fullname - andlitsmynd Hildur Eir Bolladóttir
07. október 2012
Flokkar

Satt best að segja þá get ég aldrei munað boðorðin tíu í réttri röð. Ég kann þau öll utanbókar en að ég muni alltaf hvaða borðorð er númer sjö og hvað er númer sex er jafn líklegt og að ég muni hvar ég setti bíllyklana mína. Ég man að fyrst þegar ég fór að kenna fermingarbörnum í kirkjunni, þá enn nemi við guðfræðideild Háskóla Íslands þá þótti mér þetta frekar vandræðalegt, ekki síst þegar kom að því að hlýða börnunum yfir að vori og ég fylgdist með þeim skjálfandi, þylja lögmálið í réttri röð, telja á fingrum sér hvert þau væru komin og eina sem vantaði var talnaband, fangabúningur og kvikmyndavél. Loks kom að því að samviskan bar mig ofurliði ef ekki yfirliði og ég tók að viðurkenna fyrir börnunum að ég myndi þetta ekki alltaf sjálf í réttri röð og nú skyldu þau bara segja þetta einhvern veginn, svo framarlega sem merkingin kæmist til skila að ég tali nú ekki um viljinn til að fylgja boðorðunum eftir. Ég fæ alltaf smá verk í miltað þegar fólk talar um að menn verði nú bara að huga að sjöunda boðorðinu í einhverju samhengi, af því að þá fer ég alltaf að telja í huganum og sit með kindarsvip yfir því að vera ekki alveg viss um hvaða borðorð ræðir. Það er ekki eins og Guð hafi gefið fyrirmæli um að menn kynnu þetta í réttri röð, í raun ætti enginn að kunna þetta í ákveðinni röð heldur í þeirri röð sem verkefni lífsins berast. Sá sem stendur frammi fyrir þeirri freistingu að taka eitthvað ófrjálsri hendi, ætti á þeirri stundu að rifja upp boðorðið: Þú skalt ekki stela, en að hann þurfi að vita hvar í röðinni það stendur, það getur hreinlega rænt hann dýrmætum siðferðilegum tíma. Ég held nú raunar að það sé þess vegna sem Jesús „einfaldar“ okkur málið með tvíþætta kærleiksboðorðinu, því það liggur víst fyrir að sá sem elskar Guð og náungann eins og sjálfan sig er mjög líklegur til að halda boðorðin tíu, jafnvel án þess að kunna þau í réttri röð. En hvort að það sé svo einfalt að elska Guð og náungann eins og sjálfan sig, það er aftur á móti allt annað mál. Það er vissulega auðveldara að muna í orðum tvíþætta kærleiksboðorðið en á móti kemur að boðorðin tíu eru mjög auðskilin á meðan kærleiksboðorðið krefst þess að þú vitir hvað það merkir að vera manneskja með öllum þeim krókaleiðum sem þeirri vegferð fylgir . Tvöfalda kærleiksboðorðið getur verið virt á svo margvíslegan máta á meðan það er ekkert flókið við skipunina: Þú skalt ekki stela. Kannski getur tvöfalda kærleiksboðorðið einmitt knúið þig til að stela, komi upp aðstæður sem hafa bara vonda kosti til að bera. Einhver gæti lent í því að þurfa að stela lyfjum til að bjarga mannslífi eða slíta öll tengsl við foreldra sína til að hlúa að heilbrigði sinnar eigin fjölskyldu. Menn greinir á um réttmæti líknardráps en flestir eru sammála um mannúðargildi líknardauða sem felur í sér að meðferð til lengingar lífs er hætt en lífsgæði sjúklingsins á hinstu stundum lífs hans eru bætt með verkjameðferðum og kærleiksríkri umönnun. Lífið er flókið og lífið er fyrirhöfn, þess vegna talar tvöfalda kærleiksboðorðið svo vel inn í það, það krefst hugsunar í öllum mögulegum og kannski ómögulegum aðstæðum daglegs lífs. Guðspjall síðasta sunnudags fjallaði einmitt um það að brjóta reglu til að mæta þörfum. Þá segir frá því þegar Jesús læknaði vatnssjúkan mann á hvíldardegi og farísearnirn fylgdust hneykslaðir með, sannfærðir um að Guðs sonur myndi aldrei „brjóta“ lögmál föður síns á himnum, ekki undir neinum kringumstæðum, jafnvel þótt lífið lægi við. Við skulum ekkert hlæja að því, þetta viðhorf viðgengst enn á vorum dögum. Bara í annarri mynd. Við erum oft svo upptekin af hefðum og reglum að við gleymum hreinlega kjarna málsins að ég tali nú ekki um kjarna tvíþætta kærleiksboðorðsins sem er að elska af hugrekki. Gleymum því ekki að mannlífið er of margbreytilegt til að það geti rúmast innan hefðarrammans, sem er vissulega ágætur svo langt sem hann nær. Þegar við skoðum og metum mannlegar þarfir þá þurfum við fyrst að opna rammann, hleypa erindinu út viðra það og sjá svo hvar best er að finna því stað. Tvöfalda kærleiksboðorðið er ekki bara krefjandi vegna þess eins að það er eilífðarverkefni að læra að þekkja og elska sjálfan sig, náungann og Guð, heldur vegna þess að það krefst þess að maður taki sjálfstæðar ákvarðanir í ferlega flóknum heimi. En það segir okkur líka það að Jesús hefur trú á fólki að hann hefur trú á því að við getum á hverjum tíma fundið farsælar leiðir, þetta boðorð hefur fylgt okkur í rúm tvö þúsund ár og enn er það þekkt um gjörvallan heim. Það er oft talað um að tvíþætta kærleiksboðorðið sé gagnvirkt, að sá kærleikur sem við berum til annarra eigi sér stað vegna þess að við virðum og elskum okkur sjálf og að við virðum og elskum okkur sjálf vegna þess að við sjáum okkur í samhengi við annað fólk. En ef við höfum ekki heilbrigða sýn á okkur sjálf, fáum við þá notið þess að sjá okkur í samhengi við aðra? Við vitum að um leið og sjálfsmynd okkar skekkist þá brýst um leið aukin neikvæðni fram gagnvart öðrum. Og þá komum við að spurningunni stóru, hvernig elskar maður sjálfan sig? Í fyrsta lagi myndi ég segja, með því að þekkja sjálfan sig og horfast í augu við fortíð sína. Ég held að hvatningin um að staldra ekki um of í fortíðinni sé á vissan hátt vanhugsuð, vegna þess að ástæðan fyrir því að fólk á oft erfitt með að hvíla í núinu og njóta líðandi stundar er sú að það hefur ekki gert upp fortíð sína. Depurð, kvíði eða þunglyndi stafar mjög oft af því að fólk lifir við sektarkennd sem það jafnvel gerir sér ekki grein fyrir, af hverju stafar. Margir lifa þá tilfinningu þegar lífið fer upp á við að þeir eigi ekkert gott skilið eða að hið góða sem þeir lifa þá stundina geti alls ekki varað lengi. Sumir brotna fyrst niður einmitt þegar allt fer að ganga þeim í haginn, það er óttinn við refsingu lífsins, óttinn við að leyfa sér að njóta. Að skoða fortíðina með augum tvöfalda kærleiksboðorðsins er ákveðin leið til að sættast við sjálfan sig, vegna þess að dómharka okkar er í grunninn mest gagnvart okkur sjálfum, við horfum á það sem er liðið og dæmum ákvarðanir okkar út frá þeim stað sem við stöndum á í núinu. Samt er engin sama manneskjan í dag og fyrir tíu árum þegar hún reyndi að taka ákvörðun sem hún taldi sér eða öðrum fyrir bestu. Að því leyti er lífið hér og nú, ákvörðunin sem þú tekur í dag er líka tekin út frá þeim forsendum sem þú lifir í dag. Út frá þessu sjónarhorni hefur mér persónulega reynst best að takast á við fortíðina, að reyna láta mér þykja vænt um þá manneskju sem ég var áður, a.m.k að reyna að skilja hana. Þetta er ekki leið til að frýja sig ábyrgð heldur einmitt hvatning um að sýna ábyrgð á líðandi stund í von um að það skili einhverju góðu til framtíðar. Tvöfalda Kærleiksborðið er svo magnað vegna þess að það hvetur okkur til að sýna sjálfstæð vinnubrögð í lífinu og vanda okkur, um leið og það er hvatning um miskunnsemi, gagnvart náunganum og okkur sjálfum. En síðast en ekki síst er það hvatning um að elska Jesú Krist sem gaf líf sitt svo að þú mættir þrátt fyrir allt lifa og njóta, vera elskaður, gera mistök en eiga samt von. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen,