Fortíðin eins og jólaskraut

Fortíðin eins og jólaskraut

Umhverfið allt þessa stundina er mettað af eftirvæntingu. Eftirvæntingu sem hefur verið boðið til samsætis við okkur. Ilmur alls er sætur og spenntur og sækir okkur öll heim. Ungir sem aldnir hrífast með. Meira að segja fortíðin er sveipuð ljúfum minningum liðinna jóla – hún fær sitt sæti í huga okkar við jólaborðið.
fullname - andlitsmynd Þór Hauksson
24. desember 2005
Flokkar

En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Ágústus keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gjörð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar. Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs,að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni, sem var þunguð. En meðan þau voru þar, kom sá tími, er hún skyldi verða léttari.Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu, af því að eigi var rúm handa þeim í gistihúsi. En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar.Og engill Drottins stóð hjá þeim, og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir, en engillinn sagði við þá: Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs.Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu.

Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita, sem lofuðu Guð og sögðu:

Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á. Lúk 2.1-14

Gleðileg jól.

Yfirtaka fagnaðar

Umhverfið allt þessa stundina er mettað af eftirvæntingu. Eftirvæntingu sem hefur verið boðið til samsætis við okkur. Ilmur alls er sætur og spenntur og sækir okkur öll heim. Ungir sem aldnir hrífast með. Meira að segja fortíðin er sveipuð ljúfum minningum liðinna jóla – hún fær sitt sæti í huga okkar við jólaborðið. Þverslaufur minninga hnýttar fast þannig að helgin fái að hríslast um huga og líkama aldrei sem fyrr. Bergmál liðinna jóla endurkastar minningu um að gæta að því að ljósin væru ekki slökkt þegar gengið var til náða seint á aðfangadagskvöld eða á jólanótt með bók er bar með sér ilm nýrra tíma, staða og stunda. Ókunnug orð sem bókin faldi í síðum sínum upplukust blaðsíðu eftir blaðsíðu og ferðin hófst á ókunnar slóðir spennandi ævintýra um stund og kvöldmyrkrið og nóttin voru hljóð sveipuð dulúðugum blæ fyrir utan. Óróleiki myrkursins náði ekki að smeygja sér inn um glufur gluggatjalda og setjast að í ungum huga og sálu – ekki á jólum.

Myrkrið kúrði á glugga og komst ekki lengra. Ljósið sem alls ekki mátti slökkva á jólanótt brosti sínu breiðasta á móti eins og það vildi segja að máttur myrkursins væri ekki um mun ekki verða-aldrei. Ljósið glaðvakandi lýsti upp hvern krók og kima þögult sagði ekki neitt þegar í ljós kom að seilst var í Nóa–Síríus konfektmola uppi í rúmi og kámugir fingur léku um hvort heldu blaðsíður bóka eða og eða hrein jólarúmfötin - kámug að morgni jóladags.

Ævintýri bókarinnar sem lesin var fyrr um nóttina vaknaði með stýrur í augum fékk að víkja fyrir veruleika heitum súkkulaðibolla og smákökum sem þangað til höfðu þolinmóðar beðið í freistandi jólasmákökukössum geymdir á vísum háum stað. Þá gilti það sama og á fínum söfnum bara horfa - ekki snerta. Bönd þess leysti jóladagsmorgunn úr læðingi og helgi jólanna skælbrosandi horfði á og tók þátt í gleði þeirri sem gengið hafði inn í mannheima – velkomin-hrópaði veröldin öll.

Jólin eru orðin að veruleika meðal okkar og við getum fundið fyrir þeim þótt að við sjáum þau ekki - en á sama tíma skynjum við nærveru hátíðarinnar sem við þráum svo mjög innst inni til að lýsa upp skammdegi hugans og ekki aðeins hugans heldur og gráan veruleika þann sem við stöndum frammi fyrir á stundum lífs okkar.

Já – jólin eru gengin inn í mannheima og ekkert hefur breyst frá því sem var í minningunni. Það er nefnilega þannig að á jólum, að fortíðin er eins og jólaskrautið innpakkað í geymslu hugans sem var. Hún er tekin upp um hver jól og við mátum okkur í henni þótt við vitum að hún - fortíðin er nokkrum númerum minni í dag heldur en þá. Ekkert má breytast á jólum því er haldið fast í það sem var. Stundir minninga fortíðar jóla og augnablik nútíðar ná aldrei sem fyrr höndum saman einmitt á jólum. Myrkrið kúrir enn fyrir utan. Jólatréð heima í stofu í “sparifötunum” leyndardómsfullar gjafir hvíla undir slúttandi trénu. Yfirtaka fagnaðar, ekki yfirtökuskylda fagnaðar breiðir úr sér og fyllir hvern krók og kima tilveru okkar – ilmur þess svo sætur að blessuð börnin vita vart í hvorn fótinn þeir eiga að stíga af kitlandi spenningi.

Á jólum erum við öll börn. Þeir fullorðnu leyfa sér aldrei sem áður að hleypa að -að finna barnið í sjálfum sér og leyfa því að dveljast í hjarta á jólum því á jólum er vitjunarstund. Drottinn allsherjar vitjar barna sinna. Aldrei sem á jólum erum við tilbúin að hlusta á og leyfa okkur í erli og áhyggjum dagana að hlusta og taka á móti jólabarninu í okkur sjálfum og við verðum feimin eins og börn. Drögum djúpt andann og höldum honum í okkur djúpt í iðrum þess sem við óskum okkur helst. Kyrrðin svo kyrr að af ótta við að feykja henni um koll látum við andan líða hjá í rólegheitum.

Óttaleg jól

Það er sem heimurinn allur haldi niðri í sér andanum í kvöld og þá nótt sem hvíslar í vitund þeirra sem skima út í mjúkt myrkrið – “Verið óhræddir – sjá ég boða yður mikinn fögnuð…” Hljómur og inntak þessara orða engilsins á Betlehemsvöllum er sem ljós í myrkri sem aldrei slokknar á. Hræðslan og óttinn eru í heiminum og bregður fæti fyrir hverjum þeim sem þeim sýnist. Það verður seint breyting á því.

Ótti okkar er af margvíslegum toga. Á meðan einhver óttast að finna ekki frið og helgi jólanna og annar það að sósan og meðlæti hátíðarinnar verði ekki nógu gott og enn aðrir í fyrsta sinn halda jólin ekki heima og óttast að jólagleðin hafi misfarist og hún hafi orðið eftir á æskuheimilinu. Þá eru aðrir sem óttast að geta ekki horfst í augu við sjálfa sig vegna þess að ástvinur sem var og er - er ekki lengur við hátíðarborðið. Hræðsla við að allt sé breytt frá því sem var fyrr á jólum sækir margan heim í kvöld og næstu daga. Einhverjum kann að þykja það smávægilegt, en er það alls ekki í huga þess sem þessi ótti hefur tekið sér bólfestu hjá.

Jólin, jólahátíðin er stórfengleg, talar til okkar, snertir okkur hvernig sem ástatt er fyrir okkur. Við lítum við og leggjum við hlustir. Leggjum frá okkur amstur og hversdagsleika dagana.

Ómur radda liðinna jóla beiðist inngöngu og við aldrei fúsari opnum gistihús hjartna okkar. Einfaldleiki hjartna okkar er í samræmi við þann einfaldleika og látleysi sem frelsari heimsins fæddist í. Í því látleysi talar jólaguðspjallið við okkur hvert og eitt - óháð aldri, óháð stöðu. Það lætur ekki hátt í röddu jólanna. Myrkrið var yfir og allt um kring þegar frelsari heimsins, ljós heimsins fæddist í lágreistu fjárhúsi og lagður var í jötu eins og jólaguðspjall Lúkasar greinir frá. Heimurinn varð ekki samur aftur. Það er þessi kennd sem grípur okkur á jólum. Það er allt öðruvísi en venjulega er.

Veraldlegur kraftur jólanna er ekki mikill. Hátíðleiki jóla og kyrrð þess er vissulega í engu samræmi við dagana á undan. Undirbúningur okkar er í raun og sannleika okkar tjáning á því sem við viljum helst hvísla í eyru jólanna. Að við fáum að hleypa helgi þeirra og kyrrð ekki aðeins inn í híbýli okkar heldur og inn í vitund okkar.

Jata vitund okkar þarf ekki að afklæðast hversdagsleikanum til að íklæðast hátíðaklæðnaði til að taka á móti frelsara heimsins.

Frelsari heimsins fæddist í þennan heim. Á jólum minnumst við ekki þessa atburðar heldur tökum á móti gestinum sem stendur við dyrnar og knýr á. Hann knýr ekki fast á, því hann er hógvær eins og aðstæður fæðingarstaðar hans gaf fyrirheit um. Megi góður Guð gefa þér kirkjugestur góður og fjölskyldu þinni nær og fjær gleðiríka jólahátíð.

Friður Guðs, sem æðri er öllum skilningi, varðveiti hjörtu yðar og hugsanir í Kristi Jesú.