Saga af broti og merkum sýknudómi

Saga af broti og merkum sýknudómi

Sagan af hórseku konunni er ein skýrasta birtingarmynd þess að Jesú frá Nazaret var kominn til að leysa og frelsa en ekki að dæma.

(Jóh. 8.2-11)   Landakirkja 17. júlí 2011

Sagan af hórseku konunni, sem Jesús sýknar og bjargar, er ein af þekktari sögum veraldar. Hér er ekki dæmisaga heldur saga úr samtíð þessara Gyðinga, en umfram allt saga af örlögum og hjálpræði.

Á alla kanta í þessari sögu eru siðir og venjur og lög og hlutverk, sem virðast rekast hvað á annað. Og með djúpum skilningi á lögmáli Gyðinga tekst Jesú að gera málið óleysanlegt að skilningi manna en leysir það upp með speki Guðs.  Hann vísar í grundvallarstöðu mannsins frammi fyrir Guði sínum og sækir þaðan rök sem slá öll vopn úr höndum lögvitringanna og öldunganna. Hann stendur öruggum fótum í skilningi sínum á manninum gagnvart Guði, þar sem maðurinn er syndari og Guð er frelsari. „Allir menn hafa syndgað og skortir Guðs dýrð,“ segir Páll í Rómverjabréfinu og byggir þar á mjög merkilegri hefð sem telst vera annar af megin straumum gyðinglegrar spekihefðar. Hann byggir þar á speki Prédikarans sem er andsvar við meginstraumi gyðinglegrar spekihefðar en þessi meginstraumur nær einmitt hápunkti hjá höfundum Jóhannesarguðspjalls. „Ekki er neinn réttlátur, ekki einn.“ Þetta segir Páll í Rómverjabréfinu í þessum frægu köflum þess er tekur á réttlæti og trú. Og það er engin tilviljun að í pistli dagsins er einmitt tekinn kafli úr Rómverjabréfinu til að víkka þann grundvöll sem við getum sannarlega haft til að skilja á dýpri hátt hvað Jesús er að gera og segja þarna í helgidóminum þegar þeir koma með hórseku konuna til hans. Í pistli dagsins segir Páll postuli einmitt í bréfi sínu til safnaðarins í Róm að „Um leið og þú dæmir annan dæmir þú sjálfan þig því að þú, sem dæmir, fremur þú hið sama.“

Þetta setur okkur óneitanlega í nokkra klemmu og ég reikna með að þessi kafli úr Rómarbréfinu liggi ekki á náttborðum héraðsdómara sem þeirra uppáhalds lesning þótt þeir hljóti oft að hafa þurft að standa frammi fyrir þessari klemmu. En það er þó alveg öruggt að verstu blaðamenn  okkar samtíma haga sér oft einsog þeir hafi aldrei heyrt af þessum fræga úrskurði spekinnar og sannarlega ekki heyrt af varnaðarorðum Páls sem hann byggir á svo djúpri þekkingu. „Hvatir eru þeir í spori að úthella blóði. Tortíming og eymd er í slóð þeirra,“ segir Prédikarinn í þeim kafla sem Páll þekkir vel. En það er til happs að reiði Guðs mun opinberast af himni yfir öllu guðleysi og rangsleitni þeirra manna er kefja sannleikann með rangsleitni. Er það á okkar tímum enn gert í þeim venjulega tilgangi að nota lygina í hæfilegu magni svo hægt verði með þægilegu móti og smeðjulega dýrka hið skapaða í stað Skaparans, dýrka dauðlega synduga yfirborðslega menn í stað þeirrar djúpu visku, fegurðar og fagnaðarerindis sem birtist í nærveru Guðs.  Það þarf ekki að hafa áhyggjur af því að synd mannsins verði ekki opinberuð því hún er afhjúpuð í hvert sinn er menn mæta Guði sínum. Hún er afhjúpuð í bæninni, samtali mannsins við Guð og syndin er ævinlega sett undir dóm og fyrirgefningu Guðs. Þetta kemur meðal annars fram á hvað skýrastan og frægastan hátt í sögunni af Kain og Abel, sem þið þekkið vel. En þar reynir Kain samt að komast hjá dómi og reynir að réttlæta sig með hinni frægu spurningu, rétt eftir að hann hefur myrt bróður sinn, þegar Guð spyr hann: „Hvar er Abel?“ Og Kain spyr keykur á móti, rétt einsog þeir séu jafn dýrðlegir, hann og Guð: „Á ég að gæta bróður míns?“

Ég fullyrði að enginn getur komist í gegnum lífið nema á hundavaði í yfirborðinu ef hann þekkir ekki þessa sögu og samhengi hennar og ef hann þekkir ekki um leið stöðu mannsins frammi fyrir almáttugum Guði. Og það er mikil misnotkun að slíta þessa gagnspurningu Kains úr þessu samhengi og líta svo á að maðurinn sé jafn Guði eða að maðurinn sé svona rétt einsog hver annar guð í eigin ríki. Allir menn hafa syndgað og skortir Guðs dýrð. Við skulum byrja að kyngja því.

Hættan hjá hverju valdi í okkar þjóðfélagsskipan er að taka sér vald sem á að liggja hjá öðru valdi. Þess vegna höfum við þrískiptingu valdsins og um það er meðal annars rætt á þingum og í ráðum þessi misserin, hvernig tryggð verði skipting í löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald. Hættan hjá hinu svokallaða fjórða valdi þjóðfélagsins, fjölmiðla, er einmitt sú sama, að það vald taki sér vald annarra, setji sér lögmál, rannsaki svo og dæmi að lokum, allt  í sömu blaðagreininni. Á góðri ráðstefnu í Skálholti í gær, á Skálholtshátíð, var einmitt rætt um hættu þess að allt vald færist á eina hendi. Fjallað var mjög ítarlega um hvað gerðist í kirkju Krists í ríki Hitlers og nokkur önnur dæmi úr sögunni, jafnvel úr samtíð okkar, þar sem mjög mikil líkindi er nú að finna með því sem gerðist í þriðja ríki Hitlers. Þar gerðist það sem Lúther varaði eindregið við með tveggja ríkja kenningun sinni. Þar átti hann við að andlega valdið og hið veraldlega þyrfti ævinglega að vera á sitt hvorri hendinni. Vald ríkisins má ekki undir neinum kringumstæðum ná taki á kennivaldi kirkju eða annarra trúfélaga líkt og gerðist á miðöldum og reynt er aftur og aftur að koma í kring, meira að segja á tuttugustu öldinni og á þessari 21. sem er rétt að byrja hér. Við þessu ber ævinlega að vara og við þurfum að vera á verði því tilhnegingin er rík hjá þeim sem vilja ríkja yfir öllu. Og þetta kemur fram í guðfræði og kenningum sem síðan geta leitt miklar hörmungar yfir mjög marga. Kenningar kirkju voru meðal annars sveigðar til að hægt yrði að ofsækja Gyðinga með ömurlegum afleiðingum útrýmingarinnar. Kenningar íslamista hafa líka verið sveigðar til að réttlæta stríð gegn samborgurum og réttlæta hryðjuverk. Þar ræður ekki hin hefðbundna kenning íslam heldur hin ömurlega valdagræðgi manna á borð við stofnenda Al Qaida eða leiðtoga Bræðalags múslíma. Það liggur allt í eðli mannsins sem er syndugur og vill ráða, setja lög og dæma sér í hag. Þarf hann að gæta bróður síns, segir hann við sjalfan sig, þegar hann valtar yfir náungann og allt réttlæti. Maðurinn hefur syndgað og manninn skortir Guðs dýrð. Þess vegna þarf hann einmitt á því að halda að njóta leiðsagnar frá þeim Guði sem er réttlátur, frelsar og bjargar, leysir og gefur líf.  Hann er miskunnsamur þessi Guð, sem veit allt um sök Kains og tekur að lokum syndajátningu hans með skilningi þegar morðinginn mælir, einsog fyrir munn margra: „Synd mín er meiri en svo að ég fái borið hana.“ Á þetta hlýðir Drottinn og dómur hans er þannig að hann sér til þess að Kain fær lifað. Hann fær sinn dóm sem vera ber en hann lifir. Synd Kains er þess háttar synd sem kalla mætti skýringarsaga um upprunasyndina, hina frumlægu synd sem maðurinn er einhvern veginn fæddur inní af því að hann er breyskur maður, en er á endanum nauðsynlegt að skoða sem skýringarsögu á því hvernig maðurinn er í raun og veru.

En þrátt fyrir að þessi beyskileiki liggur enn í eðli mannsins hefur honum verið fyrirgefið. Hann hefur fengið í hendur nýtt lögmál lífsins sem kallast fagnaðarerindi af því að það leysir manninn út úr vítahring syndarinnar. Það er búið að greiða syndina upp með dauða Jesú og dauðinn var síðan sigraður með upprisunni.

Sagan af hórseku konunni er ein skýrasta birtingarmynd þess að Jesú frá Nazaret var kominn til að leysa og frelsa en ekki að dæma. Hún hafði verið staðin að hórdómi og það var sannarlega brot á lögmálinu. En Jesú féll ekki í þá gildru og lagaflækju að gera lítið úr bókstaf lögmálsins sem sagði að hórdómur væri ólöglegur. Þeir hefðu ekki tekið því vel sem skrifuðu Stóra dóm sem gilti hér á landi um skeið og olli því að konum var drekkt í hylnum í Öxará. Það var þó á árum eftir Krist.

Þessi kona, sem leidd var fram fyrir Jesú, var ekki endilega skækja að atvinnu, en það er algengur misskilningur sem gætir þegar menn vitna í þessa frásögn. Hún var ekki endilega vændiskona að skilningi þeirra laga sem við höfum á Íslandi í dag. Hún gæti hafa verið gift kona sem staðin var að framhjáhaldi, en það var í flestum tilfellum þannig sem konur voru dæmdar til dauða eftir Stóradómi hér á landi. Hér á landi er ekki dæmt þannig lengur og það er heldur ekki refsivert að lögum að vera vændiskona eða selja sig, sem er nokkuð umhugsunarvert og hefur verið umdeilt, heldur er það orðið refsivert að kaupa vændi og hafa milligöngu um það, með því sem löngum var kallað hórmang. Ranglæti Stóradóms var mikið því aðeins konunni var drekkt en ekki þeim er lokkaði hana, keypti hana eða misnotaði hana, jafnvel þótt það væri með grófu ofbeldi. Við ættum að sjálfsögðu að stuðla að auknu réttlæti og aukinni vakningu gegn misnotkun og kynbundnu ofbeldi, en vinna ötullega að aukinn virðingu fyrir manngildinu og aukinni virðingu fyrir jafngildi manna. Það byggjum við fyrst og fremst á því hvernig við sjáum manninn frammi fyrir Guði – alla menn jafna þar, konur, karla, aldna sem unga, hvern eftir sínum litarhætti eða kynþætti, lífsskoðun eða getu til að lifa. Allir menn eru jafnir. Það er kenningin í bréfinu til Rómar og það er því bréfið til okkar.

En það er ekki bara það að menn misnota stöðu náunga síns og misnota jafnvel kenningar og sögur af Jesú til að lítillækka aðra og upphefja sjálfan sig. Ein lúmsk en útbreidd misnotkun á sögunni af hórseku konunni er sú að þetta hafi verið sú kona sem síðar var þekkt sem María Magdalena, ein af þeim konum sem fylgdu Jesú sem lærisveinn. Hér er konan án nafns líkt of væri hún fulltrúi allra kvenna í sögunni.

Það er heldur ekkert í þessari sögu sem bendir til þess að María Magdalena eigi þessa forsögu áður en hún kemur til fylgdar við Jesú. Til dæmis er ekki sagt að hún hafi eftir þessa frægu sýknu ákveðið að fylgja Jesú sem lærisveinn. Á öðrum stöðum er einmitt tekið sérstaklega fram varðandi suma af lærisveinunum að þeir hafi yfirgefið allt og fylgt honum. Hann segir heldur ekki við þessa konu: „Fylg þú mér.“ Hér kveður hann meira að segja konuna og segir: „Far þú. Syndga ekki framar.“

En það er einsog menn hafi ekki viljað hafa stöðu Maríu Magdalenu svo sterka í lærisveinahópnum sem hún þó var. Ef til vill var það vegna stöðu kvenna sem karlar vildu viðhalda öldum saman á árunum eftir Krist löngu eftir að guðspjallið var skrifað. Við getum ekki rakið það allt hér, en þó er það vitað með góðri skoðun á textanum og samtíð Jesú að líklegra er að María Magdalena hafi verið fjárhagslega sjálfstæð kona sem gæti t.d. hafa verið ekkja, en í öllu falli vel menntuð og heilsteyptur einstaklingur. Hún hafði í það minnsta með sjálfa sig að gera og gat varið tíma sínum eftir því sem hún sjálf hugði, en hennar hugur er hins vegar alveg klár og hún hefur sannarlega verið dygglynd. Hún vildi vera þar sem hún fann uppsprettu speki og vísdóms og fann skilning sinn vaxa í hverju spori eftirfylgdar Jesú Krists. Hún gæti jafnvel hafa verið mun betur að sér en margir af lærisveinunum tólf og hún er staðföst. Það sýnir sig við píningu og dauða meistarans. Það sýnir sig í Markúsarguðspjalli að hún er ein af þeim þremur sem koma að gröfinni á páskadagsmorgni. Hún er eins mikill frumvottur að upprisu Jesú og hugsast getur og er til frásagnar, því hún mætir englinum í gröfinni, sem segir: „Hann er ekki hér. Hann er upprisinn.“

Það er ekki sek kona sem fengin er til þessa vitnisburðar eða kona með skerta þjóðfélagsstöðu. Það er manneskja með virðingu og um leið fulltrúi allra þeirra sem standa undir því að lifa og starfa og trúa í ríki Guðs. Hórseka konan er fulltrúi þeirra kvenna sem reistar hafa verið við og leystar undan synd og verið bjargað.

Alla menn skortir Guðs dýrð en þeir eru menn. Og þeir eru heilir menn frammi fyrir Guði hjálpræðis og afturhvarfs. Þeir eru heilir af því að Drottinn hefur leyst þá og rétt þá við, veitt þeim fyrirgefningu og aflausn allra upprunalegra synda, en kallaðir til þess að lifa óaðfinnanlega og syndga ekki framar. Allir lærisveinar Drottins eru kallaðir til að þiggja þessa endurlausn en við erum um leið send út á meðal fólksins með þessum orðum, sem konan fékk, sem Drottinn sýknaði: „Ég sakfelli þig ekki. Far þú. Syndga ekki framar.“ Það er mikið að þakka þegar málið er skoðað svona með afturhvarfið í huga og það líf sem því fylgir. Verkefnið er ærið sem við fáum núna í hendur, að vera send. Fyrir það sé Guði dýrð, föður og syni og heilögum anda. Amen.