Jesús mettar. Jesús læknar. Jesús lífgar. Um það tala guðspjöllin. Í dag mettar Jesús. Manni finnst að svona kraftaverk geti ekki gerst. Ef þau hafa gerst eins og segir hér í Markúsarguðspjalli, þá hlýtur það að vera bundið stað og stund. Síðan er ekki meir um það að segja. Frásögnin lifir þrátt fyrir það og því getum við ekki mótmælt. En við erum undrandi og oft efins. Þá er líka gott að minnast þess að efinn, og allar hans spurningar, er viðurkenndur í NT og um leið í kristinni guðfræði. Hann getur meira að segja verið hjálplegur og mikilvægur, því annars spyrðum við ekki nauðsynlegra spurninga.
Jesús mettar hér 4 þúsund manns. Það byrjaði á athyglisverðri setningu. “Jesús kenndi í brjósti um mannfjöldann”. Þannig var það líka þegar ekkjan frá Nain, fylgdi syni sínum til grafar, “Jesús kenndi í brjósti um hana”. Líka þegar Lazarus vinur hans dó og systur hans syrgðu hann sárt, þá “komst Jesús við í anda”. Í framhaldi þessara heitu og mannlegu tilfinninga-viðbragða gerir Jesús kraftaverk. Forsenda þeirra er elska hans og samkennd gagnvart fólkinu sem hann umgengst eða mætir á vegi sínum og einlæg umhyggja, sem hann auðsynir í viðbrögðum sínum. Það er ótrúlegt, hvað elskusemi, samkennd og umhyggja geta komið á miklum umbótum í kring um okkur. Slík orð lýsa því, hvað manneskjan getur tileinkað sér til góðs. Ef hægt er að kalla elsku, samkennd og umhyggju, eiginleika, þá verður maður að átta sig á því, að þeir eru ekki meðfæddir eiginleikar, heldur áunnir fyrir atbeinan þeirra, sem hafa haft með manneskjuna að gera, sem barn, ungling, nemenda eða skjólstæðing í einhverri mynd. Enginn verður góður af sjálfum sér. Heldur enginn vondur af sjálfum sér. Þetta verður allt til á löngum tíma, rétt eins og þegar sáðkorni er sáð og það skýtur rótum og nær að vaxa upp hægt og hljóðlega. Í fyllingu tímans ber það ávöxt. Þess vegna er það áhyggjuefni hvers foreldris, hvernig standa skuli að uppeldi og umönnum barnsins. Hvernig á að styðja og leiðbeina, þannig að úr verði góður einstaklingur, en ekki vondur. Hvernig á samræmið milli eftirlætis og ögunar að vera. Hvernig er rétt að bregðast við, þegar á reynir um heimilisreglurnar, eða á unglingsárunum, þegar siðfræðileg álitamál verða í hnotskurn, miklu fyrr, en nokkurn grunaði. Þá er gott að eiga ráðgjafa, t.d. í ömmu og afa, eða systkinum eða góðum vinum eða almennum gildum samfélagsins, sem eiga stuðning í skólanum, góðum og gegnum kennurum og skynsömum skólastjórum. Mér finnst það ekkert skrýtið að hinn ágæti rektor Kennaraháskóla Íslands vilji lengja lærdómstíma kennarans. Markmiðið er ekki að gera einhverjum erfitt fyrir eða auka á útgjöld samfélagsins, heldur er markmiðið að þjóðin eignist enn betri kennara, leiðbeinendur og uppalendur, já, góða samferðamenn barna okkar, sem verða þeim vinir, fyrir það, að vilja þeim vel og vera heilir í ráðgjöf sinni og leiðsögn. Gott menntakerfi seður huga og hjarta í þroska og þekkingarleit, og stuðlar að því að einstaklingurinn standist þann aðsúg sem vargöld sölumennskunnar og siðspilling hvers konar gerir að frelsi og manndómi einstaklinganna, ekki síst barna og unglinga. Vaxandi kynslóð þarf að öðlast persónulegan styrk og kærleiksríka nærveru, - andlega næringu- , til þess að hún nái að þroskast og geti tekist á við hinn ásækna heim nútíma gerviþarfa.
Jesús kenndi í brjósti um mannfjöldann og hann brást við með því að láta alla staldra við. Og hann spyr úr hverju höfum við að vinna? Hvað er til staðar? Hvað er á boðstólum? Það er allt mjög skynsamlegt. Það er meira að segja mjög hversdagslegt, nefnilega að setjast að sameiginlegri máltíð. Það sem Kristur gerir þessari máltíð í krafti anda síns er auðvitað kraftaverk. En það er einmitt slíkt kraftaverk, sem á sér stað, þar sem hann fær að vera með í hinu daglega lífi. Hvarvetna þar sem við biðjum hann um að blessa stundina með nærveru sinni og lifandi og kærleiksríkum mætti, þar er friður og þar er saðning, mettun. Fyrir hans tilstuðlan snýst skorturinn í gnægð, hungrið í fyllingu og fíknin í frið. Það er þá til einhvers að vinna.
Úr hverju höfum við að moða? Hvað er það í umhverfi okkar, í samfélaginu, í menningu og þjóðararfi, í hugsunarhætti fólksins í landinu, já, í okkur sjálfum, sem við getum notað samtímanum til hjálpar. Börnum okkar og barnabörnum til stuðnings og þroska. Er það ekki djúpstæð löngun okkar, þrátt fyrir allt, að vera upplýsandi í leiðtogahlutverkinu, og geta verið svölun þeim heitu tilfinningum, sem byltast um í brjósti hvers einstaklings og leitar öryggis, friðs, elsku og gleði og svo þess umfram allt, að vera í góðum tengslum við sína nánustu og eiga trausta vini.
Lífið gengur út á það að eiga samfélag við aðrar manneskjur og leita eftir því sem vel er gert. Það er lífslistin sjálf. Fáfengilegir hlutir svala ekki þessari grundvallarþörf manneskjunnar. Steingeldur tölvuskjár er kannski dæmi um það eða tískustraumar, sem svelta módelin sín, þ.e. fyrirmyndir sínar, og gera raunveruleikann ranghverfan hverri heilbrigðri manneskju. Ekki það heldur að neyta einhverra fjörefna, sem í fallvaltleika misnotkunarinnar verður dauðagildra eiturlyfja. Í þessi lífsmunstri slævist skarpur hugur, eða gerir hann vitstola og hamslausan. Tölvan er prýðis verkfæri, stórkostlegt, en hún veitir aldrei saðningu hryggu hjarta. Lyf eru að sjálfsögðu góð til síns brúks, en í ofneyslu og misnotkun verða þau víti hverjum og einum og brjóta niður persónustyrk og möguleika og flétta hengingarsnöru að hálsi neytandans.
Jesús kenndi í brjósti um mannfjöldann. Það er okkar björg, það er okkar möguleiki, því það getur leitt til þess að sú örþyrsta og kviðstrekkta kynslóð, sem við erum hluti af í dag, öðlist einhverja raunverulega næringu, hjarta sínu og sál. Mér rennur oft til rifja einmanaleiki ungs fólks og fjarlægðin sem skapast hefur milli kynslóða. Fjölmargir aldraðir eru afskiptir, ungt fólk getur furðu oft naumast haldið uppi samræðum og sú kynslóð, sem er í svokölluðum blóma lífsins, samlokukynslóðin, eins og eitt sinn var sagt, er svo hlaðin vinnu og skyldustörfum, og svokölluðum áhugamálum, að enginn tími gefst til innilegra og djúpstæðra samræðna og samverustunda. “Ef við látum þá fara frá okkur fastandi, örmagnast þeir” segir Jesús.
Ég held að okkur sé þörf á því að gera eins og þeir gerðu þarna í túninu forðum. Nema staðar og huga að einhverri næringu. Huga að því sem raunverulega skiptir máli. Því sem gefur lífinu gildi, en ekki því sem er eingöngu yfirborðsflatneskja og byggir á hávaða og illa orðuðum fyrirsögnum. Við þurfum að skyggnast um og skoða, hugsa vel og velja. Hvetja og gefa. Hvað nærir? Hvað yljar um hjartarætur? Hvað styrkir bönd kærleikans? Hvað mettar vannærða sál? Hvað viljum við kenna börnunum okkar. Hvers konar brauð viljum við leggja þeim í munn?
Margir velta því fyrir sér í fullri alvöru, hvort firring og einsemd og vanmáttur hvers konar hjá yngra fólki, stafar af því að kynslóðirnar hafi gliðnað í sundur. Sá lífsmáti að alast upp við samfléttað fjölskyldu- og samfélagsmunstur er næstum úr sögunni. Æ fleiri lifa sjálfum sér, í eigin herbergi, við eigin tölvuskjá, við eigin sorg, við eigin örorku og við eigin vanrækslu og vannæringu sálar.
Í sumar hafa nokkrir, já, margir organistar, innlendir og erlendir, komið í Hallgrímskirkju og haldið tónleika. Hver öðrum betri, sem allir eiga það sameiginlegt að sækja svölun og lífsfyllingu í tónlistina. Það er auðvitað gott, frábært. Ég hafði heyrt að það þætti betra á spila á þetta stóra Klais orgel hérna niðri en uppi á orgelpallinum og spurði einn listamannanna, hvort honum fyndist það ekki líka. “Nei, reyndar ekki. Ég heyrir að vísu betur, en snertingin við lyklaborðið er öðruvísi, ég finn ekki hjartslátt orgelsins í fingurgómunum, ég skynja ekki eins vel fínhreyfingar þess og andardrátt.” Æ, já. Hvernig nálgumst við hvert annað. Hvernig hlustum við eftir hjartslætti ástvinarins eða samferða-mannsins.
Ættum við sem þjóð, eða bara sem einstaklingar, að staldra við? Ættum við að hlusta eftir því, þegar Jesús segist kenna í brjósti um mannfjöldann? Ættum við að læra á samstarf Jesú og lærisveinanna?
Það sækir að mér sá ótti að íslensk þjóð nálgist stöðugt, í gnægð sinni og ríkidæmi, þau mörk sem eingöngu geta skilgreinst sem andlegt lystarstol. Ef svo er, þá er það dauðans alvara.
Horfumst í augu við það og biðjum í Jesú nafni að brauð kærleikans sem við þörfnumst og fiskur vonarinnar, sem við þráum, margfaldist í anda hans og megni að vinna gegn örmögnuninni. Látum orð hans og anda, ráðgjöf og umhyggju, fylla okkur gleði og friði, samkennd og hluttekningu. Þá mun okkur líða betur og þá mun næsta kynslóð hlakka til að vaxa úr grasi og njóta þess að taka við. Yrkjum land og þjóð. “Guð hylur himininn skýjum og býr regn handa jörðinni”. (Ds147:8). Amen.