Þér eruð meira virði en margir spörvar

Þér eruð meira virði en margir spörvar

Einn er sá farvegur miðlunar sem er kannski sá flóknasti, þ.e. hvernig við komum fram í okkar hversdagslífi. Það er auðvelt að tala um kærleika, frið og mildi, en kannski erfiðara að lifa þannig að kærleikur, friður og mildi sé einkenni á framgangi okkar í hversdagslífinu, úti í búð, í umferðinni, vinnu, skóla og fjölskyldulífi. Þar reynir kannski mest á, og sérstaklega þegar áskoranir lífsins sækja okkur heim. En þá er það einmitt þessi boðskapur sem Jesús miðlar okkur í dag, sem getur skipt miklu máli: Óttist ekki, þið eruð meira virði en margir spörvar.

Biðjum:

 

Góði Guð.

 

Heyr þú bænir barna þinna,

blessun lát þau ætíð finna,

yfir þeim um aldir vak.

Þú sem ríkir öllu ofar,

eilífð himna nafn þitt lofar

:,: eins og minnsta andartak. :,: (sb. 294:4) Amen.

 

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

 

Eðli mannsins

 

Textarnir sem við heyrðum á þessum næst-síðasta sunnudegi kirkjuársins tala inn í grundvallareðli mannsins. Það er þetta eðli mannsins að óttast. Óttinn er grundvallartilfinning í mannlegu hjarta. Það að finna til óöryggis um það sem skiptir manninn mestu í lífinu, óttast jafnvel um að lífið sé merkingarlaust, tilviljunum háð og hafi enga stefnu eða markmið.

 

Spörvar og aðrir fuglar

 

Orð Jesú miðla öryggi, trausti og að maðurinn sé dýrmætur og að tilgangur sé með öllu lífi. Að það sé tilgangur með lífinu, að það sé hægt að finna tilgang í öllum þrautum, merkingu í allri lífsreynslu, því að baki lífinu sé skapandi og elskandi hugur, sem ætlar sér góða hluti með okkur hvert og eitt og lífið allt.

 

Orð Jesú eru mjög jarðbundin, hann vísar til viðskipta samtímans, þess samfélags sem hann lifði í fyrir 2000 árum, þar sem spörvar voru seldir fyrir smápeninga og segir m.a.: Eru ekki fimm spörvar seldir fyrir tvo smápeninga? Og þó gleymir Guð engum þeirra. Hárin á höfði yðar eru jafnvel öll talin. Óttist ekki, þér eruð meira verðir en margir spörvar.

 

Er Jesú mettaði fjöldann í einni kraftaverkafrásögunni voru brauðin fimm og fiskarnir tveir. Hér er talað um fimm spörva og tvo smápeninga. Fimm og tvo, eins og í kraftaverkafrásögunni.

 

Á öðrum stað biður Jesús viðmælendur sína að líta til fugla himinsins og segir: “Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? Og hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn?”

 

Ótti og áhyggjur eða traust og öryggi?

 

Þetta eru skemmtilegar líkingar hjá Jesú um fuglana, að taka slík dæmi af fuglunum. Fuglarnir eru tákn frelsis, áhyggjuleysis, lífs og gleði. Við manneskjurnar erum einnig hönnuð til að njóta slíkra lífsgæða, frelsis, trausts, lífs og gleði.

 

Þræðirnir í lífinu

 

Eðli mannsins er ofið úr ýmsum þráðum. Vont er ef óttinn er þar megin liturinn í þeim vefnaði. Betra er ef öryggið fær að vera megin þráðurinn.

 

Getum við ræktað slíkt?

 

Getum við ræktað með okkur öryggi og traust, trú?

Er hægt að hlúa að öryggi og trausti með einhverjum hætti?

 

Er hægt að vefa lífsþræðina þannig að þræðir öryggis, trausts og trúar, verði þræðirnir sem bera lífsvefnaðinn uppi?

 

Já, lífsþræði trúar er hægt að styrkja með iðkun. Trúarlegri iðkun sem veitir öryggi og traust frammi fyrir áskorunum lífsins.

 

Við getum reynt að taka þannig ábyrgð á okkar eigin lífi og lagt stund á andlega mannrækt, iðkað trúna, bænalífið, samfélaginu og okkur sjálfum til heilla og blessunar.

 

Það krefst áræðni og ábyrgðar að ætla sér góða hluti á því sviði, en sú leið er opin öllum. Maður þarf sjálfur að stíga skrefið, það er eins með það og margt annað að hálfkæringur veitir ekki á gott. Uppskeran er gjarnan í takt við ásetninginn og ætlunina. Það er nefnilega rétt sem Jesú segir síðan á enn öðrum stað: Biðjið og yður mun gefast. Það er nefnilega svo merkilegt að með iðkun, þolinmæði og þrautseigju á þessu sviði, gerast kraftaverkin, sem við getum fundið fyrir í okkar eigin lífi.

 

Svo á vettvangi kirkjunnar fáum við tækifæri til að eiga í sameiningu samfylgd við hið góða. Kirkjan er vettvangur fyrir mildi Guðs og kærleika, og þér er boðið með í það ferðalag.

 

Hlutverk og samhengi

 

Í skírninni biðjum við barninu og skírnarþeganum þess að hann megi eiga samfylgd við hið góða í lífinu. Ef við höfum fengið skírnina að gjöf er okkur boðið það hlutverk í heiminum að vera friðflytjandi, það hlutverk að boða gæsku með framferði okkar og lífi, miðla kærleika til náungans.

 

Farvegir miðlunarinnar eru margir. Hér stend ég í prédikunarstólnum, sem er einn af þessum farvegum miðlunarinnar á hinum góða boðskap, og ég reyni hér að miðla þeim kjarna sem blasir við mér í textum dagsins. Svo stundum skrifum við greinar í blöð eða skrifum bækur, förum í viðtöl á ljósvakamiðlum, tölum hvert við annað undir fjögur augu eða í stærri hópum, leggjum okkar að mörkum í gegnum hjálparsamtök eins og Hjálparstarf kirkjunnar, og reynum að vera þannig friðflytjendur og ljósberar öðrum til heilla, og þannig mætti áfram telja.

 

Evangelísk, lúthersk kirkja byggist síðan á því að ekki bara prestarnir og djáknarnir og starfsfólk kirkjunnar hafa þetta hlutverk, heldur allir kristnir og skírðir, allir eru í raun vígðir til hins almenna prestsdóms, þ.e. að vera í þjónustu við náungann. Þar höfum við öll verkefni og hlutverk, líf okkar hvers og eins getur þannig skipt óendanlega miklu máli og við getum lagt gott til.

 

Einn er sá farvegur miðlunar sem er kannski sá flóknasti, þ.e. hvernig við komum fram í okkar hversdagslífi. Það er auðvelt að tala um kærleika, frið og mildi, en kannski erfiðara að lifa þannig að kærleikur, friður og mildi sé einkenni á framgangi okkar í hversdagslífinu, úti í búð, í umferðinni, vinnu, skóla og fjölskyldulífi. Þar reynir kannski mest á, og sérstaklega þegar áskoranir lífsins sækja okkur heim.

 

En þá er það einmitt þessi boðskapur sem Jesús miðlar okkur í dag, sem getur skipt miklu máli: “Óttist ekki, þið eruð meira virði en margir spörvar.

 

Þið eruð meira virði, segir Jesús. Meira virði í huga hvers? Jú, í huga Guðs. Jesús vísar til þess að það sé Guð sem lítur á þig og mig og alla menn, allt líf, sem ómetanlega dýrmætt.

 

Óttist ekki, er eitt af því sem ítrekað er boðað á síðum Biblíunnar. Óttast þú ekki.

Lífið er fullt af hættum, og einmitt vegna þess er það mikilvægur þráður í boðskap kirkjunnar og Jesú sjálfs, að við þurfum ekki að óttast því Guð sjálfur hefur gott í hyggju með þig og mig og allt líf.

 

Við höfum hlutverki að gegna, við eigum okkur samhengi í hópi allra skírðra og kristinna sem vilja eiga hlutdeild í samfylgd við hið góða.

 

Tilgangur og merking

 

Með slíku hlutverki verður tilgangurinn skýr. Með slíku hlutverki er þörf fyrir okkur öll á þeirri vefstofu sem vefar glitþræði ljóssins og blessunarinnar út í hversdaginn. Það er ávallt þörf fyrir fólk sem hefur tekið að sér það hlutverk og sett sér það markmið að boða með lífi sínu frið. Það er þörf fyrir fólk sem hefur það að marki að elska náungann. Það er þörf fyrir fólk eins og þig og mig, til að gera heiminn að ennþá fegurri og betri stað.

 

Að taka að sér slíka köllun og að sinna slíkum verkefnum veitir lífsfyllingu og merkingu. Það er manninum mjög merkingarbært að finna að hann skiptir máli, að framlag okkar hvers og eins skiptir óendanlega miklu máli.

 

Frelsunarsagan

 

Svo er það samhengið. Samhengið við hið góða.

 

Hverri manneskju er boðið að taka á móti þeirri gjöf að þiggja samfylgd við hið góða. Hver manneskja getur tekið við þeirri gjöf að fá að tilheyra þeirri frelsunarsögu sem Biblían miðlar, sem er enn í gangi og mun halda áfram um eilífð.

 

Frelsunarsagan fjallar um að Guð sé til. Og ekki nóg með að það sé til Guð heldur lætur Guð sig varða um mann og heim, og þar með þig og mig.

 

Þessi Guð sem býr að baki öllu sem er, elskar manninn og heiminn og hefur markmið og stefnu fyrir allt líf. Þér er boðið að taka þátt í því frelsunarverki sem Guð vinnur í heiminum, sem Guð er stöðugt að vinna hér og hvarvetna, þar sem fólk kemur saman í hans nafni.

 

Verkefnið er að vera öðrum ljós, verkefnið er að vera öðrum líf, verkefnið er að elska Guð og náungann, eins og okkur sjálf.

 

Við eigum nefnilega einnig að elska okkur sjálf. Bera virðingu fyrir okkur og lifa lífinu þannig að við miðlum þeirri virðingu og ljósi út til annarra.

 

Slíkt er líf þar sem blessun streymir. Þannig líf er Guði til dýrðar.

Megi það vera einkenni á umhverfi okkar, lífi og samhengi.

Megi Guð styrkja þig á þeirri vegferð, á þeirri ljóssins vegferð.

 

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

 

Samskotin - Hjálparstarf kirkjunnar!

 

Takið postullegri kveðju: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé og veri með yður öllum. Amen.

 

 

Þér friður af jörðu fylgi nú

og friðurinn himni frá.

Og lækjanna friður sé með þér

og friður um höfin blá.

Djúp kyrrð komi yfir þig,

Guðs frið gefi Drottinn þér. (Sb. 296)


Prédikun flutt í Grensáskirkju, sunnudaginn 17. nóvember kl. 11