Þjóðkirkjan – framtíðarsýn óskast! 2. grein

Þjóðkirkjan – framtíðarsýn óskast! 2. grein

Í þessari grein sem er framhald af greiningu á stöðu kristin-dómsins í hinum vestræna heimi er sjónum beint að stöðu þjóðkirkjunnar á Íslandi.
fullname - andlitsmynd Halldór Reynisson
27. nóvember 2018

Í þessari grein sem er framhald af greiningu á stöðu kristin-dómsins í hinum vestræna heimi er sjónum beint að stöðu þjóðkirkjunnar á Íslandi.
Segja má að sama þróun sjáist hér á landi og í Evrópu en þó má halda því fram að hraðar hafi fjarað undan þjóðkirkjunni hér af tveimur ástæðum: Í fyrsta lagi má nefna ýmis hneykslismál er snúa að vígðum þjónum kirkjunnar. Hæst ber þar vitaskuld mál Ólafs Skúlasonar. Í annan stað má vera að viðbrögð kirkjunnar við kröfunni um jafna stöðu samkynhneigðs fólks hafi grafið undan trausti á henni.

Hverjar sem skýringarnar eru á erfiðari stöðu þjóðkirkjunnar þá tala tölurnar sínu máli. Á vef Hagstofunnar er að finna þróun meðlima í þjóðkirkjunni meira ein 20 ár aftur í tímann. Þar kemur fram að 1998 tilheyra 89,91 prósent Þjóðkirkjunni eða 244.893 einstaklingar. Árið 2018 er hlutfallið komið niður í 67,22 prósent eða 234.215 einstaklingar. Þá kom fram í nýlegum þjóðarpúlsi Gallup að traust á Þjóðkirkjunni stendur nú í 33 prósentum en var 61 prósent árið 1999. Ef heldur fram sem horfir styttist í að helmingur þjóðarinnar tilheyri kirkjunni og þá vakna efasemdir með sjálft nafnið „þjóðkirkja“.

Íslenska vandamálið - peningar

Peningar skipta hér einnig máli en þeir virðast vera meira vandamál kirkjunnar en víða annars staðar – ekki vegna þess að of lítið hafi verið af þeim – heldur kannski of mikið!
Dagana sem nýliðið Kirkjuþing stóð var því t.a.m. slegið upp hversu marga milljarða þjóðkirkjan er búin að fá út úr kirkjujarðasamkomulaginu í kjölfarið á fyrirspurn frá þingmanni Pírata. Þjóðkirkjan hefur haldið því fram frá því eftir hrun að hún hafi ekki fengið það sem henni bar eftir þessu samkomulagi – með réttu eða röngu. Hver sem rök málsins eru þá eru upphæðirnar í peningum venjulega blásnar upp til skaða fyrir orðstír kirkjunnar.
Þá var til þess tekið að prestar og biskupar Þjóðkirkjunnar fengu síðustu hækkun Kjararáðs sem ýfði upp óánægju verkalýðsfélaga. Auk heldur sem hlunnindi presta á sumum kirkjujörðum (laxveiðitekjur sérstaklega) hafa þótt undarleg. Sem betur fer sér fyrir endann á þeim forréttindum sem engin eðlileg rök lágu fyrir.

Til skamms tíma hefur æðsta samkunda þjóðkirkjunnar Kirkjuþing verið undirlagt af umfjöllun um fjárhagslega hagsmuni meðan mál sem lúta að starfsemi og stöðu kirkjunnar hafa þar oft mætt afgangi. Fyrrverandi kirkjuþingsmaður úr röðum leikmanna orðaði þetta svo: „Á Kirkjuþingi eru prestar að tala um peninga“ (þó vekur nýkosið kirkjuþing þar sem ungt fólk og konur eru áberandi von um breytta tíma).
Fleira mætti tína til þegar versnandi staða Þjóðkirkjunnar síðustu 20 ár er skoðuð.

Frá fjölmiðlum hafa blásið neikvæðir vindar. Sem gamall blaðamaður hef ég stundum skynjað neikvæðan „kúltúr“ meðal fjölmiðlamanna gagnvart kirkjunni miðað við t.d. fyrir 20 árum. Ég minnist þess þegar mál Guðrúnar Ebbu kom upp og málinu var haldið gangandi vikum saman m.a. af RÚV með svo miklum látum að tveimur kunningjum mínum þar innanhús blöskraði og höfðu orð á því við mig.

Þá hefur starfsmannavandi Þjóðkirkjunnar oft ratað í fjölmiðla en kannski ekki síst vegna þess hve erfiðlega hefur gengið að leysa þau mál innan stofnunarinnar. Stundum er það vegna þunglamalegs skipulags, stundum vegna lögverndunar starfsfólks, sérílagi presta. Fyrir vikið hafa þessi mál orðið sjálfsagður fjölmiðlamatur sem hægt hefur verið að smjatta á í langan tíma.

Talandi um skipulag; þrátt fyrir aukna yfirbyggingu í kirkjustjórninni hefur vandræðagangurinn farið þar vaxandi. Gott dæmi eru vígslubiskupskosningarnar í Skálholti á s.l. ári. Það virðist vera flóknara að velja vígslubiskup heldur en þjóðhöfðingja svo að dæmi sé tekið. Hér hefur reglugerðarvæðingin farið úr hömlu þannig að kirkjuleg stjórnsýsla hefur orðið að athlægi.
Oft heyrast þær raddir innan kirkjunnar að ráða þurfi fjölmiðlafulltrúa og fræðinga til að bæta úr lélegri ímynd þjóðkirkjunnar. En sem gamall blaðamaður og fjölmiðlafræðingur veit ég það að „fegrunaraðgerð“ skilar litlu ef það er ekki heilbrigð húð undir. Það eina sem lagar ímyndina eru gæði – góð þjónusta í hvívetna.

Því miður verður ekki horft fram hjá að stundum er starfsfólk þjóðkirkjunnar að veita ófullnægjandi þjónustu á tímum þegar góð þjónusta er eina ráðið til að endurvekja glatað traust. Þá á ég sérstaklega við þær lífskreppur, t.d. erfið dauðsföll þegar fólk þarf virkilega á stuðning prests að halda. Oft er sú þjónusta sem veitt er mjög góð – en stundum gerist það, því miður að hún er slæm. Hún þarft alltaf að vera góð! Í vinnu minni með syrgjendum síðustu áratugi hef ég heyrt of margar sögur af vondri þjónustu.
Hér má svo bæta við að þjóðkirkjunni hefur mætt virk andstaða úr ýmsum áttum en kannski er það ekki síst vegna þess að hún hefur ekki tekið til í eigin ranni. Þótt víða sé vel unnið þá er of mikið að. Eða eigum við ekki að byrja á bjálkanum í eigin auga?

Hvert viljum við stefna?

Af hverju erum við að þessu? Af hverju starfrækjum við kirkjustarf? Til hvers kirkja?

Í mínum huga snýst kirkjustarf um að þjóna fólki með fagnaðarerindi kristinnar trúar. Flóknara er það ekki. Ég heyrði eitt sinn haft eftir Sigurjóni Björnssyni sálfræðingi að trúin þyrfti að vera liðsmaður í baráttunni við raunveruleikann. Það er kannski svona trú fyrst og fremst sem við þurfum að vera að rækta með okkur sjálfum og öðrum.

Og þó þurfum við ekki að vera að finna upp fín orð til að útlista tilgang starfs okkar. Er þetta ekki allt að finna í orðum Jesú sjálfs?

Sælir eru fátækir í anda
því að þeirra er himnaríki.
Sælir eru syrgjendur
því að þeir munu huggaðir verða.
Sælir eru hógværir
því að þeir munu jörðina erfa.
Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu
því að þeir munu saddir verða.
Sælir eru miskunnsamir
því að þeim mun miskunnað verða.
Sælir eru hjartahreinir
því að þeir munu Guð sjá.
Sælir eru friðflytjendur
því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.
Sælir eru þeir sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir
því að þeirra er himnaríki. Mt.5.3-10

Mér hefur löngum fundist sem stefnu Jesú væri að finna í sæluboðunum. Þau segja okkur að hverju við þurfum að stefna. Það er nokkuð merkilegt að hreyfing vestur í Bandaríkjunum sem kallast „Reclaiming Jesus“ er þarna býsna nærri þegar hún vill, berjast gegn því að trúin sé notuð (af íhaldssömum kristnum mönnum) til að réttlæta kynþáttafordóma, kvenhatur, andúð á flóttafólki og misskiptingu auðs. Þessi hreyfing vill hverfa til þeirrar róttæku kirkjusýnar sem fólst í baráttu manna eins og Martin Luther King fyrir mannréttindum og að styðja þau sem standa verst.

En við erum að tala um stefnu og framtíðarsýn. Þegar stefnumótun fyrir þjóðkirkjuna 2004-2010 var unnin á sínum tíma var sett fram þessi framtíðarsýn:
• Þjóðkirkjan er lifandi og kröftug hreyfing fólks sem á samleið í trúnni á Guð sem Jesús Kristur birtir og boðar.
• Þjóðkirkjan er sýnilegt, litríkt og vaxandi samfélag sem vekur og nærir kristna trúariðkun og andlegt líf.
• Þjóðkirkjan mætir sérhverri manneskju þar sem hún er stödd á lífsleiðinni, veitir liðsinni og skjól.
• Þjóðkirkjan er vettvangur samtals í þjóðfélaginu um þýðingarmikil málefni í ljósi kristinnar trúar og siðferðis.
• Þjóðkirkjan virkjar fólk í starfi sínu og eflir það til þjónustu við Guð og náungann.

Sannarlega falleg sýn og hægt að taka undir hana í hvívetna en þó kannski frekar óljós og almenn. Sjálfsagðir hlutir. Kannski þurfum við að taka Jesú Krist á orðinu í sæluboðunum og stefna að slíkum heimi.

Og hvað eigum við að gera?

Hver er svo aðgerðaráætlunin? Hvernig ætlum við að raungera sýn Jesú frá Nasaret í sæluboðunum? Hvað sagði hann sjálfur að þetta allt snérist um?
Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera. Því að þetta er lögmálið og spámennirnir. Mt. 7.12

Orðað aðeins öðru vísi:
Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.’ Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð.
Annað er þessu líkt: ‘Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.’ Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir. (Mt 22.37-40)
Kristnin er ekki flókin trú eða lífssýn þótt hún kunni að reynast erfið í framkvæmd. Við vitum oftast hvað við eigum að gera – þótt við gerum að ekki alltaf. Kannski þurfum við fyrst og fremst í sýn okkar á framtíðina og hvernig við hrindum henni í framkvæmd að rifja upp okkar eigin grunngildi og halda okkur við grunnþætti í boðskap Jesú Krists. Það hefur þó gjarnan reynst erfitt eins og saga kirkjunnar greinir frá. Þar hefur svo oft farið meira fyrir sérhagsmunum og spillingu, - oft hinna vígðu þjóna. Vegna þess að síngirnin virðist liggja nærri mannlegri náttúru varð snemma til þetta latneska ráð: Ekklesia semper reformanda – kirkjan þarf alltaf að vera að siðbæta sjálfa sig!

(framhald í grein 3. Framtíðarsýn óskast – skipulag þjónustunnar)