Andlegur auður

Andlegur auður

Kærleikur og réttlæti þurfa ávallt að fara saman. Um það eru margir fremstu siðfræðingar heims sammála. Réttlætinu hættir til að snúast í andhverfu sína án kærleikans, og kærleikurinn verður fljótt marklaus án réttlætis.

Meðan Jesús var í Jerúsalem á páskahátíðinni fóru margir að trúa á hann því þeir sáu þau tákn sem hann gerði. En Jesús gaf þeim ekki trúnað sinn því hann þekkti alla. Hann þurfti þess ekki að neinn bæri öðrum manni vitni. Hann vissi sjálfur hvað í manni býr. (Jóh 2.23-25)

Gleðilegt ár, kæri söfnuður, gleðilegt ár og þakkir fyrir liðna árið. Við áramót bærast ýmsar tilfinningar innra með okkur, eftirsjá eftir hinu liðna ef til vill, kanske kvíði fyrir því sem framundan er, en vonandi bæði þakklæti og eftirvænting einnig.

Það breytir öllu að hefja nýtt ár í Jesú nafni. Með því að fela Guði allt okkar, bæði hið liðna og það sem framundan er fær tilveran öll nýjan grundvöll. Mistök og vandamál verða ekki lengur óyfirstíganlegar hindranir heldur viðfangsefni sem hægt er að leysa með Guðs hjálp. Veraldleg gæði, auðsöfnun og eiginhagsmunagæsla missa gildi sitt og í staðinn koma varanlegri gildi með náungakærleikann í fyrirrúmi.

Nafn Guðs Blessunarorðin flytja slík varanleg gildi, orð um blessun, varðveislu, náð og frið fyrir augliti Guðs. Móse var falið að flytja orð Guðs til Arons og prestanna, sem síðan skyldu leggja nafn Guðs yfir fólkið allt.

Nafn Guðs merkir veru hans, eins og við munum frá samtali þeirra Móse og Guðs í hinum logandi þyrnirunna (sbr. 2Mós 3.13-14):

Móse sagði við Guð: „Ef ég kem til Ísraelsmanna og segi við þá: Guð feðra ykkar hefur sent mig til ykkar, og þeir spyrja mig: Hvert er nafn hans? hverju á ég þá að svara þeim?” Guð svaraði Móse: „Ég er sá sem ég er.” Og hann bætti við: „Ég er” sendi mig til ykkar.”

„Ég er.” Nafn Guðs er fólgið í veru hans. Og hver er hún? Hún er meðal annars kærleikur (1Jóh 4.8) og réttlæti (Jer 12.1). Þær eigindir Guðs koma fram í syni hans Jesú, en nafnið Jesús merkir Guð frelsar. Kærleikur og réttlæti þurfa ávallt að fara saman. Um það eru margir fremstu siðfræðingar heims sammála. Réttlætinu hættir til að snúast í andhverfu sína, gleymist kærleikurinn, og kærleikurinn verður marklaus án réttlætis.

Í Orðskviðum Salómons er talað um vörnina sem felst í nafni Drottins:

Nafn Drottins er sterkur turn, þangað hleypur hinn réttláti og er óhultur (Okv 18.10).

Og nafn Guðs færir blessun, varðveislu, náð og frið. Þvílíkt veganesti inn í nýtt ár! Við eigum áreiðanlega öll okkar reynslu af því hvernig Guð hefur lagt blessun yfir líf okkar, hvernig hann hefur varðveitt okkur og umlukið okkur náð sinni og frið. Hann veit hvers við þörfnumst, veit hvað í okkur býr, hverju og einu okkar. Felum líf okkar handleiðslu hans í trausti þess að hann mun vel fyrir sjá.

Fégirndin er rót alls ills Undanfarna daga hafa mér verið hugleikin orð Páls postula í fyrra bréfinu til Tímóteusar þar sem hann ræðir um nægjusemi andspænis fégirnd og hvernig trúin getur verið okkur andlegur gróðavegur. Páll segir (1Tím 6.6-10):

Já, trúin samfara nægjusemi er mikill gróðavegur. Því að ekkert höfum við inn í heiminn flutt og ekki getum við heldur flutt neitt út þaðan. Ef við höfum fæði og klæði þá látum okkur það nægja. En þér sem ríkir vilja verða falla í freistni og lenda í snöru alls kyns óviturlegra og skaðlegra fýsna er sökkva mönnunum niður í tortímingu og glötun. Fégirndin er rót alls ills. Við þá fíkn hafa nokkrir villst frá trúnni og valdið sjálfum sér mörgum harmkvælum.

Þetta er hörð ræða og örugglega ekki alls staðar vel séð. Fyrir rúmu misseri datt fáum í hug að gagnrýna hinn veraldlega gróðaveg. Miklu fremur var hagvöxtur og aukinn kaupmáttur hafinn upp til skýjanna og lítið hlustað á þær raddir sem vildu benda á önnur og varanlegri gildi. Okkur þótti það orðið sjálfsagt að vöxtur væri í fjármálunum og skeyttum því engu að fjárfestingum fylgi alltaf áhætta. Og mikið vill meira, það er því miður lögmál heimsins. Gróði kallar á fíkn í meiri gróða. Þar hefur postulinn sannarlega á réttu að standa.

Nú er tími til kominn að við hefjum nægjusemina til vegs og virðingar að nýju. Því að ekkert höfum við inn í heiminn flutt og ekki getum við heldur flutt neitt út þaðan. Manneskjan hefur að sönnu ákveðnar grunnþarfir, sem þarf fjármuni til að uppfylla. Þarfapýramídi Maslows er mörgum kunnur og þar liggja til grundvallar nauðsynjaþarfirnar, fæði og klæði eins og Páll postuli skrifar, ásamt þörfinni fyrir húsaskjól og öryggi.

Við erum væntanlega flest sammála um að við verðum að tryggja að allir þegnar þjóðfélagsins njóti þessara grundvallarþarfa, þó við kunnum að vera ósammála um þær leiðir sem bestar eru til þess. Eitt er þó alveg víst, að réttur hverrar manneskju til viðunandi lífskjara (sbr. 25. gr. Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu Þjóðanna) verður ekki tryggður með auðsöfnun á fárra hendur, eins og víða sér stað í löndum heims.

En þú, Guðs maður... Páll postuli heldur áfram umfjöllun sinni um fégirndina og andhverfu hennar, líf í trú, og beinir orðum sínum til viðtakanda bréfsins, Tímóteusar:

En þú, Guðs maður, forðast þú þetta en stunda réttlæti, guðrækni, trú, kærleika, stöðuglyndi og hógværð. Berstu trúarinnar góðu baráttu, höndla þú eilífa lífið sem þú varst kallaður til og þú játaðist með góðu játningunni í viðurvist margra votta.

Orð Páls til Tímóteusar eiga erindi til okkar allra sem viljum leggja Guðs ríki lið. Þau eru okkur brýning til að vera það sem við erum kölluð til, vitnisburður um kærleika Guðs til heimsins. Við áramót sem endranær er okkur hollt að skoða stöðu okkar sjálfra, hvort fégirndin hafi náð tökum á okkur eða hvort við njótum náðar nægjuseminnar.

Náð nægjuseminnar. Já, nægjusemin er náðargjöf, lausn undan þeirri byrði að þurfa sífellt að eiga meira, borða meira, ferðast meira, kaupa meira, vinna meira. Því fylgir mikill léttir að geta látið sér nægja það sem maður hefur – og vera þannig umkominn þess að gefa með sér í auknum mæli.

Páll hvetur okkur til að stunda réttlæti, guðrækni, trú, kærleika, stöðuglyndi og hógværð. Réttlæti – að vera okkur sjálfum samkvæm í orði og verki. Guðrækni – að rækta samband okkar við Guð hverja stund. Trú – að treysta Guði í hverju málefni. Kærleika – að koma fram við náunga okkar eins og við kjósum að komið sé fram við okkur. Stöðuglyndi – að geta notið jafnvægis og friðar í daglega lífinu. Hógværð – að ætla sér ekki meira en maður á innistæðu fyrir á öllum sviðum.

Að höndla hið sanna líf Í lok kaflans um trúarinnar góðu baráttu segir Páll (1Tím 6.17-19):

Vara ríkismenn þessarar aldar við að hreykja sér og treysta fallvöltum auði, bjóð þeim heldur að treysta Guði sem lætur okkur allt ríkulega í té sem við þörfnumst. Bjóð þeim að gera gott, vera ríkir að góðum verkum, örlátir, fúsir að miðla öðrum, með því safna þeir handa sjálfum sér fjársjóði sem er góð undirstaða til hins ókomna og munu geta höndlað hið sanna líf.

Aðstæður fólks í þessum heimi eru mismunandi. Ríkismenn eru til og verða til. Það er í sjálfu sér ekkert athugavert við að sumir hafi meira á milli handa en aðrir. Að því liggja ýmsar ástæður. En það er hugarfarið sem gildir, hvort peningahyggjan er það afl sem öllu ræður eða hvort góðsemin og gjafmildin fær að vera við stjórnvölinn. Hinn veraldlegi auður er fallvaltur, það dylst okkur varla, Íslendingum, á þessum Herrans vetri. Hinn andlegi auður, traustið á Guði, er hið frelsandi afl sem léttir af byrði græðginnar og leysir úr læðingi löngun til að miðla öðrum af því sem þegið hefur verið úr hendi skaparans.

Og hvort sem við erum beinlínis ríkismenn eða ekki erum við líklega flest aflögufær og hvatning postulans er til okkar: Gerum gott, verum rík að góðum verkum, örlát, fús að miðla öðrum. Með því söfnum við handa sjálfum okkur fjársjóði til hins ókomna og getum höndlað hið sanna líf, líf í trausti til Guðs.

Að taka lífinu eins og það kemur – í Jesú nafni Þegar við nú horfum fram til nýs árs skulum við leyfa trausti og eftirvæntingu að ráða. Látum ekki áhyggjur af veraldlegri afkomu heltaka okkur, en segjum með sálmaskáldinu: Þegar áhyggjur þjaka mig hressir huggun þín sál mína (Sálm 94.19) Felum okkur blessun Guðs á vald, blessuninni sem lætur okkur allt ríkulega í té sem við þörfnumst. Orð Páls postula í Filippíbréfinu eru áhrifamikil í þessu samhengi:

Ég hef lært að láta mér nægja það sem ég hef. Ég kann að búa við lítinn kost, ég kann einnig að hafa allsnægtir. Ég er fullreyndur orðinn í öllum hlutum, að vera mettur og hungraður, að hafa allsnægtir og líða skort. Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir (Fil 4.11-13).

Lærum að taka lífinu eins og það kemur í nafni hans sem veitir styrkinn, í Jesú frelsandi náðarnafni. Amen.