Núll

Núll

Núllið, sem ekkert er, er þó andartakið þegar við bara erum.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
26. desember 2012
Flokkar

Hver er sú uppgötvun sem mestu hefur breytt fyrir mannkyn á leið þess til þroska og vitundar? Svörin við þeirri spurningu eru jafn mörg og ólík og mennirnir. Mér verður þó staðnæmst við eitt þessara svara sem ég heyrði nú á dögunum. Það er uppgötvun núllsins.

Minna en lítið

Núll er þó vart nokkur tala því núll er ekki neitt. Þessi hringur utan um gapandi tómið hefur þó gefið okkur tækifæri til þess að tjá skilning okkar á umhverfi okkar og náttúru. Indverjar fengu hugmyndina, arabar lærðu af þeim og bættu núllinu inn í tölurnar sínar og þegar Evrópubúar kynntust núllinu skiptu þeir óðara út hinum rómversku tölustöfum, sem eru jú bara bókstafir með tölugildi, og tóku upp þá arabísku sem við notum enn í dag.

Núllið breytti miklu þó ekkert sé. Þórarinn Eldjárn yrkir í bók sinni um tölurnar:

Núll er ekkert nema plat núll er minna en lítið. Núll er hvergi, núll er gat núll er svona skrítið.

Árið núll

Hvers vegna að helga núllinu slíkt rými nú á helgum jólum? Jú, þá leiðum við hugann að þeim atburði sem við kennum tímatal okkar við. Það segir mikið um þau áhrif sem Kristur, líf hans og boðskapur hefur haft á heiminn að sá atburður sem við minnumst á helgum jólum er sjálft upphafið að tímatali okkar. Sá sem lagður var lágt í jötu í Betlehem lifði og starfaði í hernumdu landi í útjaðri heimsveldisins, var tekinn af lífi á grimmilegan hátt – sá hinn sami breytti svo miklu að þegar við nefnum ártal, setjum dagsetningu á blað þá tengjum við hana við þann merkilega atburð þegar Kristur fæddist inn í þennan heim.

Árið núll er þó jafn órætt og tölustafurinn. Þótt ónákvæmni gæti vissulega í þessum efnum þá ætti árið eitt að hafa tekið við af árinu eitt fyrir Krist. Núllið leynist þarna á milli, eins og andartakið sjálft sem fæðist og deyr. Það stendur á milli fortíðar og framtíðar svo hverfult að við veitum því ekki athygli fyrr en það er liðið.

Núllpunkturinn

Og þó er það svona merkilegt. Tómið sem stendur í upphafi talnarununnar óendanlegu er að margra mati einhver sú mesta snilld sem fólki hefur dottið í hug. Það er núllinu að þakka að við getum búið til tölur svo ógnarstórar að hugmyndaflug okkar þrýtur. Já, og gefur okkur tilfinningu fyrir hinu eilífa og óendanlega enda hafa margir stærðfræðingar þóst skynja nærveru guðdómsins í rúnum talnanna. Það eru rökin handan alls þess sem er.

Jólaguðspjall Jóhannesar sem hér var lesið er óður til þessarar hugsunar. „Í upphafi var Orðið“. En arkhe en hó logos eins og þar stendur á frummálinu. Orðið sem letrað er hástöfum er heiðarleg tilraun til þess að þýða á íslensku gríska orðið logos, sem birtist í svo margvíslegri mynd í alþjóðlegum orðum. Hvað er það nú fyrir nokkuð? Það er hugsunin að baki veruleikanum, rökin mitt í óreiðunni, nokkuð sem ekki verður fest hendi á en er þó þegar öllu er á botninn hvolft kjarninn að baki tilverunni. Festan sem spyr ekki að smekk eða skoðun, stund eða stað, en er stöðugt og óbreytanlegt.

Texti Jóhannesar er einmitt óður til núllsins – Upphafið, er það ekki núllpunkturinn sjálfur. „Núll er hvergi, núll er gat“ yrkir Þórarinn en um leið skiptir núllið sköpum við að hjálpa okkur að festa hendi á tilveru okkar og efnisheiminum. Núllpunkturinn sjálfur sem guðspjallamaðurinn hugleiðir kallast á við upphafsorð Biblíunnar: „Í upphafi skapaði Guð himin og jörð.“ Þessi setning þykir okkur í dag eiga vel við þekkingu okkar á alheiminum sem kennt er að eigi upphaf sitt í miklahvelli. Löngum töldu þó heimspekingarnir að allt væri eilíft, ætti sér hvorki upphaf né endi. Nú þykjumst við vita betur og finnum það að Biblían stóð löngum framar þeirri vitneskju sem fólk taldi rétta.

Aftur stöndum við frammi fyrir hinu óræða tómi. Hvað var á undan öllu? Hvenær var árið núll?

Núllið í lífi okkar

Ef til vill eru þessar hugleiðingar ekki eins jólalegar og þið, kæru kirkjugestir, áttuð von á. En núllið birtist okkur víða í tilverunni. Það er ekki bara hringirnir í ártölum og öðrum talnarunum sem gefa þeim þó gildi. Núllið birtist líka í lífi okkar og hefur þar ekki minna að segja þótt það láti eðli málsins samkvæmt ekki mikið yfir sér. Núllið eru andartökin sem standa á milli allra þeirra sem við fyllum með hávaða og hlutum. Núllið er tíminn þar sem við drögum inn andann, tíminn þar sem við hvílum hugann, tíminn þar sem við hvílumst, þegjum.

Núllið, sem ekkert er, er þó andartakið þegar við bara erum.

Hversu þýðingarmikið er það nú mitt í þeim tíma þegar við sækjum í áreitið hverja vökustund? Hversu mikilvægt er það nú á helgum jólum þegar við erum umkringd þeim sem okkur eru dýrmæt, nýir munir blasa við hvert sem litið er. Fögur klæði og fögur tónlist fyllir umhverfi okkar. Hversu þýðingarmikið er þá að kunna að dvelja í kyrrðinni og bara vera.

Jólin eru ekki aðeins tími ofgnóttar, lita og hávaða. Jólin eru tíminn þegar við hugleiðum hið fábrotna og látlausa sem allt er þó miðað við. Þau eru tíminn þegar við þökkum fyrir það að Guð elskar okkur og samþykkir okkur eins og við erum, eins og postulinn segir:

En er gæska Guðs, frelsara vors, birtist og elska hans til mannanna, þá frelsaði hann okkur, ekki vegna réttlætisverkanna, sem við höfðum unnið, heldur frelsaði hann okkur af miskunn sinni.

Framlag okkar er núll

Þetta er kjarni jólanna. Við fáum hjálpræðið að gjöf. Jesús mætir okkur í mynd hins saklausa barns sem kveikir kærleikann allt í kringum sig og hann sagði sjálfur að sjálf tækjum við á móti Guðs ríkinu eins og börn. Eins og börn sem þiggja dásamlega gjöf sem sprettur af kærleikanum. Framlag okkar þar á móti er eins og núllið. Engin verk, engin borgun, ekkert sem réttlætir – nema það eitt að kunna að taka á móti. Að kunna að þiggja í trú og kærleika.

Það var árið núll, þegar við fengum þessa gjöf inn í heiminn og öll ár síðan taka mið af þeim atburði. Hið óræða talar til okkar á helgum jólum. Þar sem skilning okkar kann að þrjóta er þó að finna undirstöðu alls sem er. Sá er einmitt boðskapur jólanna. Við tökum á móti hinni stórkostlegu gjöf frá Guði sem stendur vissulega ofar skilningi okkar og vitund en er þó þegar á allt er litið kjarninn í tilveru okkar og lífi.