Íslendingar vingjarnlegir og kærleiksríkir

Íslendingar vingjarnlegir og kærleiksríkir

Það hefur verið einstök lífsreynsla að fá að koma til Íslands. Við höfum nú verið hér á landi síðan 23. september – heimsótt um 2000 fermingarbörn um allt land og sagt frá lífi okkar og aðstæðum í landinu okkar Malaví.
Innocent Kaphinde
06. október 2012
Meðhöfundar:
Donia Phiri

Það hefur verið einstök lífsreynsla að fá að koma til Íslands. Við höfum nú verið hér á landi síðan 23. september – heimsótt um 2000 fermingarbörn um allt land og sagt frá lífi okkar og aðstæðum í landinu okkar Malaví. Við erum hér  til að segja frá og staðfesta hvernig vatnsverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar hefur gert kraftaverk fyrir fólk sem býr við erfiðar aðstæður og vatnsskort í Chikwawa-héraðinu í Suður-Malaví. Hvernig brunnur með hreinu vatni gjörbreytir aðstæðum og bætir lífið á svo margan hátt. Að fá hreint vatn bætir heilsuna ekki síst fyrir yngstu börnin og allir hafa meiri orku og getu til að sinna störfum og daglegum verkum. Þar sem það eru konur og stúlkur sem oftast sækja vatn breytir brunnurinn enn meira fyrir þær en aðra, ekki bara að þær fái betri heilsu heldur geta stúlkur nú þar sem það tekur ekki svo langan tíma að sækja vatn í næsta brunn líka farið í skóla eins og strákarnir. Áður fór svo mikill tími í að sækja vatn að þær misstu af skólanum.

Krakkarnir áhugasamir 

Krakkarnir sem við höfum hitt hafa verið einstaklega vingjarnlegir og áhugasamir. Ekki síst um stöðu kvenna í Malaví. Þau eru mjög hissa yfir að sumstaðar í Malaví sé þrýstingur frá fjölskyldunni, oft vegna fátæktar, að stúlkur giftist ungar, jafnvel 14-15 ára. “Hvernig er hægt að breyta þessu?” spurðu sumir þeirra. Svar okkar er að þessu verður breytt fyrst og fremst með menntun. Lögin í Malaví eru skýr um að fullorðinsaldur er 18 ár og ekki megi þvinga neinn til að ganga í hjónaband. En þegar maður fer ekki í skóla og kann ekki að lesa er erfitt að standa á rétti sem maður veit ekki um. Þess vegna er menntun stúlkna svo mikilvæg. Þar skiptir brunnurinn sköpum.

Við þekkjum árangurinn og hvetjum til þátttöku í söfnuninni

Við erum snortin af kærleika og fórnfýsi fermingarbarnanna sem árlega standa fyrir söfnun fyrir vatnsverkefni Hjálparstarfsins í Afríku og gjafmildi Íslendinga. Við hvetjum alla til að taka þátt og gefa næstu daga þegar fermingarbörn um allt land banka upp á með bauka.

Innocent Kaphinde og Donia Phiri