Sjá himins opnast hlið

Sjá himins opnast hlið

Sjá himins opnast hlið, heilagt englalið- Sálmurinn hefst á þeim gleðitíðindum sem himneskar englaverur boða þessum heimi okkar: Yður er í dag frelsari fæddur. Með þeirri fæðingu hefur opnast hlið til himins og við fáum að kíkja inn fyrir, himinn og jörð mætast og því fylgir blessun okkur til handa.
fullname - andlitsmynd Bolli Pétur Bollason
24. desember 2005
Flokkar

En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Ágústus keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gjörð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar. Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs,að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni, sem var þunguð. En meðan þau voru þar, kom sá tími, er hún skyldi verða léttari.Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu, af því að eigi var rúm handa þeim í gistihúsi. En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar.Og engill Drottins stóð hjá þeim, og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir, en engillinn sagði við þá: Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs.Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu.

Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita, sem lofuðu Guð og sögðu:

Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á. Lk.2.1-14

Gleðileg jól!

Við þessa kunnu kveðju kemur upp í huga okkar allra helgimyndin af stoltum foreldrum, sem dást að barni í bænum Betlehem. Það fór ekki mikið fyrir þessum atburði í gripahúsinu. En þvílík áhrif, sem hann hefur haft. Það þarf ekki að hafa hátt til þess að hafa áhrif. Enn þann dag í dag hugsum við um þessa fæðingu frelsarans, sem hafði svona afgerandi áhrif á þennan heim okkar.

Þvílíkur fjöldi bóka, þvílíkur fjöldi listaverka, þvílíkur fjöldi tónverka og sálma, sem hafa orðið til og verða til út frá þessari látlausu helgimynd hina fyrstu jólanótt. Það er eitthvað svo mikið satt við jólaatburðinn í Betlehem og þess vegna hefur hann veitt mannkyni allan þennan magnaða innblástur.

Hér við þessa athöfn verður sunginn sálmur, Sjá himins opnast hlið. Þetta er sálmur sem er okkur öllum að góðu kunnur. Það var sr. Björn Halldórsson prestur í Laufási, sem samdi þennan sálm og kveðskapurinn sá ber skýrt vitni um þá andagift sem jólasagan hefur veitt.

Af mörgum góðum jólasálmum að þá er umræddur sálmur mér sérlega kær, bæði vegna þess að hann er einstaklega fallegur, sérlega vel ortur og svo má segja að sálmaskáldið hafi nánast verið uppeldisbróðir minn, þar sem faðir minn Bolli Gústavsson fyrrum prestur í Laufási, fjallaði mjög mikið um sr. Björn í ræðu og riti og lagði ríka áherslu á að kveðskapur hans yrði ávallt í hávegum hafður.

Í bók sem faðir minn tók saman og nefnist Ljóðmæli Björns Halldórssonar segir hann í formála er nefnist upprisuskáld:

“Þegar Björn sat við skrifborð sitt að kvöldi 19. desember, er næsta líklegt, að hann hafi verið að undirbúa guðsþjónustu á þeirri hátíð, sem honum var hjartfólgið vonarljós í dimmu skammdegi.

Þeirri hátíð hafði hann gefið þann sálm, sem eykur þekkan svip þjónustunnar í kirkjunni á jólum, Sjá himins opnast hlið. Helgi hátíðarinnar, sem brátt gengi í garð, fyllti sál hans unaði og friði, þrátt fyrir líkamleg mein”.

Sterkum áhrifum helgrar hátíðar á mannssál í þreyttum líkama er þarna vel lýst og segir mikið til um það að það er koma Guðs í þennan heim, sem veitir innblástur og stuðlar fyrst og fremst að innri friði okkar mannfólks umfram allar aðrar þær aðferðir, sem í boði eru.

Við skulum nýta okkur hollan sálminn til þess að opna hug og hjörtu á þessari stundu svo við megum finna hinn raunverulega frið og hina raunverulegu angan, sem af jólunum leggur.

Sjá himins opnast hlið, heilagt englalið- Sálmurinn hefst á þeim gleðitíðindum sem himneskar englaverur boða þessum heimi okkar: Yður er í dag frelsari fæddur. Með þeirri fæðingu hefur opnast hlið til himins og við fáum að kíkja inn fyrir, himinn og jörð mætast og því fylgir blessun okkur til handa. Við slíkan samruna er ekkert óeðlilegt að heimurinn verði fyrir áhrifum og að þeirra áhrifa gæti enn í dag tveimur árþúsundum síðar.

Í heimi er dimmt og hljótt, hjarðmenn sjá um nótt- Ljós heimsins Jesús Kristur lýsir upp veröld alla, barnið kemur í heiminn að nóttu þegar allt er dimmt og hljótt og gleðitíðindin lýsa upp tilveru hjarðmanna sem og okkar og það þekkjum við mörg þegar húmar í lífi okkar að þá er það Guð í Jesú Kristi sem breytir dimmu í dagsljós eins og brosið og huggunin verður að veruleika. Guð valdi hjarðmenn, það lýsir visku Guðs, Guð valdi þá sem fóru með mikla ábyrgð en bárust ekki á, þeir komu stóru fréttunum áleiðis til fólksins, til almennings, það er mikið ábyrgðarstarf og við þurfum stöðugt að vera vakandi fyrir því starfi eins og hjarðmennirnir, sem vöktu yfir sauðfénu á degi sem á nóttu.

Með fegins fregn ég kem: Fæðst í Betlehem- Það er feginleikatilfinning að taka hinn nýfædda konung lífs og ljóss inn í hjartað sitt. Þar verður að vera pláss, þar má ekki allt vera fullt eins og í gistihúsunum í Betlehem.

Það er ótalmargt, sem vill komast að í hjörtum okkar og fylla þau, margt er algjörlega ónauðsynlegt, þannig höfum við aðventutímann, til þess að undirbúa, til þess að tæma hjörtun svo hin stóra gleðifregn megi fylla þau gleði á ný. Guð gefi að vel hafi tekist til.

Já, þakka sál mín þú, þakka og lofsyng nú- Við megum þakka fyrir mikið á jólum. Okkur berast kveðjur og gjafir. Verum dugleg að þakka, ef við kunnum það ekki að þá kunnum við ekki að meta það sem við höfum þá þegar. Þökkum af einlægum hug, ekki af einhverri skyldu. Það auðveldar okkur að þakka af einlægni þegar við bjóðum Jesú velkominn, hann vekur okkur nefnilega til meðvitundar um það að það er alveg ótrúlega mikil gjöf að eiga líf og heilsu, slíkt er ekki sjálfgefið, það er virkilega hollur boðskapur inn í krefjandi neysluheim samtímans.

Líf okkar er sannarlega Guðs gjöf og með komu Guðs í heiminn og þá sterku tengingu, sem verður milli himins og jarðar að þá fáum við öll að eignast hlutdeild í hinu eilífa lífi sem er æðra skilningi okkar en byggir á trú okkar og von. Það er hin mesta og besta gjöf.

Ó, Guðs hinn sanni son, sigur, líf og von- Guð faðir og mannssonur koma saman í barninu í Betlehem, á því byggist hin kristna trú okkar og von, vegna þess að sem mannssonur tók Guð sér stöðu með mannkyni, þannig gat hann skilið þrár okkar og vonir, þannig gat hann skilið ólíkar aðstæður okkar, þannig gat hann skilið gleði okkar og sorgir, áhyggjur, fátækt og einsemd og vanmátt sérhverra manneskju. Í því ljósi sigraði hann myrkur og dauða og í trú á hann bætist allt okkar angur eins og vel er kveðið í sálminum.

Og það er þess vegna sem sr. Björn lýkur sálminum góða á þessum nótum: “Á hæstri hátíð nú, hjartafólgin trú, honum fagni og hneigi, af himni kominn er, sál og tunga segi með sælum englaher: Dýrð sé, Drottinn, þér”.

Það má vera bæn okkar allra að mannkyni öllu lánist að taka undir englasönginn á helgri jólahátíð: “Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu, þeim mönnum sem hann hefur velþóknun á”.