Manngildi og grænt guðspjall

Manngildi og grænt guðspjall

Fólk, sem þú mætir, er guðlegar verur, sem tala til þín og biðla til hins guðlega í þér. Það er ekki spurt um stöðu þína, samfélagsskoðanir, afstöðu til velferðarmála og hvaða gildi þú verð í orði. Þegar þau, sem fara í pirrurnar á þér, mæta þér spyr Jesús um hvað þú sért. Prédikun í Neskirkju 7. ágúst 2005, 11. sunnudag eftir þrenningarhátíð, fer hér á eftir.

Farísei nokkur bauð honum að eta hjá sér, og hann fór inn í hús faríseans og settist til borðs. En kona ein í bænum, sem var bersyndug, varð þess vís, að hann sat að borði í húsi faríseans. Kom hún þá með alabastursbuðk með smyrslum, nam staðar að baki honum til fóta hans grátandi, tók að væta fætur hans með tárum sínum, þerraði þá með höfuðhári sínu, kyssti þá og smurði með smyrslunum. Þegar faríseinn, sem honum hafði boðið, sá þetta, sagði hann við sjálfan sig: Væri þetta spámaður, mundi hann vita, hver og hvílík sú kona er, sem snertir hann, að hún er bersyndug.

Jesús sagði þá við hann: Símon, ég hef nokkuð að segja þér. Hann svaraði: Seg þú það, meistari.

Tveir menn voru skuldugir lánveitanda nokkrum. Annar skuldaði honum fimm hundruð denara, en hinn fimmtíu. Nú gátu þeir ekkert borgað, og þá gaf hann báðum upp. Hvor þeirra skyldi nú elska hann meira?

Símon svaraði: Sá, hygg ég, sem hann gaf meira upp.

Jesús sagði við hann: Þú ályktaðir rétt. Síðan sneri hann sér að konunni og sagði við Símon: Sér þú konu þessa? Ég kom í hús þitt, og þú gafst mér ekki vatn á fætur mína, en hún vætti fætur mína tárum sínum og þerraði með hári sínu. Ekki gafst þú mér koss, en hún hefur ekki látið af að kyssa fætur mína, allt frá því ég kom. Ekki smurðir þú höfuð mitt olíu, en hún hefur smurt fætur mína með smyrslum. Þess vegna segi ég þér: Hinar mörgu syndir hennar eru fyrirgefnar, enda elskar hún mikið, en sá elskar lítið, sem lítið er fyrirgefið. Síðan sagði hann við hana: Syndir þínar eru fyrirgefnar.

Þá tóku þeir, sem til borðs sátu með honum, að segja með sjálfum sér: Hver er sá, er fyrirgefur syndir?

En hann sagði við konuna: Trú þín hefur frelsað þig, far þú í friði. Lk 7.36-50

Hver skipa botnsætið í samfélaginu?

Listi skattakónga Íslands birtist fyrir nokkrum dögum. Á þenslutímum eru fjármunir tuðran sem allir hlaupa á eftir á grænu engi möguleikanna. Þegar peningar stýra lífi fólks eru þau því væntanlega flottust sem mest bera úr býtum. Ég fór að velta vöngum yfir hvernig okkur er raðað í virðingarstiga samfélagsins og kannski ekki síst hver séu á botninum. Það er vitaskuld alls ekki víst, að þau sem borga mesta skatta séu hinir samfélagslegu sigurvegarar því viðmiðin eru mörg og ekki einhlít.

Hvar er botninn í íslensku samfélagi? Pólitíkusarnir geta snarlega romsað upp úr sér röðinni og við vitum hvað nefnt mun verða allt eftir því hvar viðkomandi stendur í flokki. Við þekkjum flest klisjurnar. Við vitum að pólitískar stefnuskrár eru eitt, viðmið í fátækraumræðu félagsfræðinga annað og svo okkar eigin viðmið enn annað. Eiginlega skiptir mestu í augnablikinu hvað þér sýnist? Hver sýnist þér vera botninum í metastiga samfélagsins?

Hvað var hvers, hvurs var hvað var næsta skýrt í samfélagi kyrrstöðu og stéttaaðgreiningar. Betlararnir, þrælar, fatlaðir og sjúklingar voru neðsta þrep, ofar var vinnufólkið, þar ofan við voru konur eignamanna, síðan þeir, sem eitthvað áttu. Ofar voru yfirstéttir og efst trónuðu furstar, kóngar og keisarar. Einstaka kirkjuhöfðingjar voru svo í toppliðinu. Nú hefur verið hrist upp í kerfinu og gildaröðin er eitthvað flóknari.

En hver eru á botninum? Það er ekki einfalt að svara en mikilvægt engu að síður, ekki til að skila niðurstöðu hér við útganginn úr kirkjunni, sem þú færð svo einkunn fyrir. Tilgangur þess að svara er ekki að skilgreina aðra og umhverfi, heldur óvænt nokk til að þú verðir öflugri og betri manneskja. Taktu þér núna tíma. Hverjir eru á botninum? Kannski þú þurfir að íhuga svolítið og spyrja hliðstæðna: Hver eru fyrirlitnust? Hver eru verst? Geymdu svörin með þér þangað til á eftir. Þá komum að þeim síðar.

Grænt guðspjall

Allir sunnudagar tímans eftir þrenningarhátíð eru grænir sunnudagar. Altarið er grænklætt, líka prédikunarstóll og lektarinn. Stóla prestsins er græn og hökull sömuleiðis. Af hverju? Jú, þetta er tími vaxtarins. Söfnuði er ætlað að huga að næringu hins innri manns. Vissulega eru ekki allir textar um sól og sumar heldur jafnvel harkalegir og stuðandi, eins og textar síðasta sunnudags. Textarnir hafa þó ávallt að markmiði að efla þig á dýptina, opinbera fordóma þína eða annað það sem heftir þroska og visku og benda til vegar. Guðspjall þessa 11. sd. eftir þrenningarhátíð vísar til hins innri manns.

Eins og í mörgum Lúkasarfrásögum er Jesús í samkvæmi. Þetta er flott boð, fjöldi prúðbúinna gesta – hið besta fólk. Jesús er umtalaður og áhugi gestanna einbeittur. Hann er ekki þessi venjulegi einfeldningslegi alþýðuprédikari, með einstrengingslegan, fyrirsjáanlegan og augljósan boðskap. Hann er lesinn, skynugur viðræðuaðili um trúarleg efni. Vissulega ögrar hann hefðbundnu siðferði, er skringilegur í ýmsu, mathákur og drykkjurútur, eins og einhver orðaði það, sem sé lífsnautnamaður en jafnframt þroskaður vitmaður og góður guðfræðingur.

Veislustjórinn og höfðinginn Símon hefur opnað hús sitt og boðið til umræðna um trúna. Veislugleðin mikil – ríkuleg andleg fæða og góð líkamleg saðning. Þá ryðst kona inn. Hún er þekkt í samfélaginu og samkvæmt almannarómi afgerandi skilgreind sem bersyndug. Flestir hafa nú talið að hún hafi verið gleðikona. En hún gæti líka hafa verið kona einhvers vantrúarmanns, sem var jafnslæmt. Stundum hefur hún verið talin María frá Magdölum, en það er ekkert í textanum sem segir að svo hafi verið.

Boðflennur eru hvimleiðar og verst þegar þeim tekst að spilla gleðinni. Konan yfirtekur partíið. Ekki batnar þegar aðalboðsgesturinn leyfir henni að fanga sína athygli líka. Hún hefur aðeins áhuga á Jesú, lýtur niður, grætur yfir fætur hans sem verða blautir af. Tekur síðan upp smyrslaker með dýrusta kremi þess tíma. Svo hefst fótanudd, sem veitti svo sem ekki af því fætur Jesú voru skorpnir af göngum. Jesús var ekki lengur til viðræðu, guðfræðin rann burt þegar lífsnautnin byrjaði, eða hvað? Bros færðist yfir andlit hans. Kurr gestanna magnaðist, þeim líkaði ekki athæfi konunnar né viðbrögð meistarans.

Persónurnar í sögunni - týpur

Jesús var enginn kjáni, auðvitað var þetta gjörningur. Hann þekkti smásálir allra þjóða og alda, vissi hvað þær hvísluðu. Hann vissi að með því að þiggja þjónustu konunnar tefldi hann í tvísýnu orðsporinu sem fór af honum sem spámanni. Málið var einfalt, bersyndug kona má ekki snerta mann Guðs.

En þennan morgun ákvað þessi kona að óhlýðnast boðum samfélagsins. Hún ætlaði að hefja nýtt líf, hafði heyrt um þennan mann sem hikaði ekki við að fyrirgefa, líkna þeim sem voru lægst sett, mann sem var óhræddur við að umgangast þau sem voru talin dreggjar samfélagsins, óhræddur við að horfa til, hlusta á, snerta og tala við hin fyrirlitnu. Konan vissi, að allt lífið hafði hún verið á niðurleið. Hún hafði tapað gildi sínu, verið vanhelguð. Hún hafði fórnað öllu, gefið allt og nú yrði endir á. Nú ætlaði hún að taka lífið í eigin hendur. Hún hafði engu að tapa, hún var úrhrak. Kannski myndi þessi Jesús gefa henni lífið, ekki fékk hún séns hjá þorpsbúunum.

Gestgjafinn er svo persóna nr. 2 í sögunni. Hann var á toppnum, kunni hlutverk sitt, líf hans gekk snurðulaust fyrir sig. Hann var vandur að virðingu sinni, kunni hlutverk sitt í borgarlegum, félagslegum og trúarlegum efnum. Hann var fullkomlega réttlátur.

Þarna eru því tvær týpur, tveir fulltrúar manna, annars vegar toppur og hins vegar botn.

Jesús sér ekki bara hina bersyndugu heldur líka í gegnum Símon. Hann veit að maðurinn er staðnaður. Símon hefur jafnvel Guð í vasanum. Jesús skilur, að maðurinn hefur í raun engan áhuga á að kynnast Guði þótt hann skemmti sér við góðar umræður um trúmál.

Sókratesarsamræðan

Þá er allt tilbúið fyrir fræðslu Jesú, græna tímabilið í lífi Símonar. Samræðan er af því tagi sem við kennum við Sókrates, algengur samræðuháttur meðal grískra menntamanna en líka gyðinglegra. Andstæðingur ber fram fyrirspurn. Vitringurinn svarar með gátu, sögu eða fyrirspurn á móti, sem andstæðingur svarar síðan. En vitringurinn leysir gátuna með því að opinbera fyrir andstæðingnum, að hann hafi svarað eigin spurningu, en þó með öðrum hætti en hann ætlaði sér.

Símon var æfur yfir að guðsmaðurinn Jesús skyldi leyfa borgarskömm, alræmdri konu að þjónusta sig. Jesús segir honum því söguna um tvo skulduga menn, sem fengu skuldaniðurfellingu. Tveir aðilar, annar fær niðurfelldar “fimm milljónir” en hinn “fimmtíu.” Hvor ætli sé þakklátari? Símon var hlutfallsþenkjandi og svaraði því ákveðið reikningsdæminu. Þá kemur snúningur Jesú, sem bendir honum síðan á að konan hafi verið stórskuldug við Guð en hún iðrist einlæglega, henni sé því fyrirgefið og því sé hún þakklát og bregðist við með svona látum. En hann bendir Símoni veislustjóra á, að hann hafi lítið þakkað, gert lítið fyrir boðbera himins, lítils vænst, verið algerlega innan marka hins venjulega. Hann sé því ekki auðmjúkur gagnvart gjöfum lífsins.

Auðvitað var þetta hastarlegt af Jesú. Símoni er vorkunn. Hann er bara venjulegur maður sem vill gera vel, efna til gagnlegra viðræðna sem geti orðið til að upplýsa fólk og hann vill halda vitleysunni í skefjum, láta ekki alræmda konu valda usla og ekki heldur skaða prédikarann sem var á heimili hans og því á ábyrgð húsráðanda.

Væntanlega hefur orðið uppþot. Gestgjafinn fær ádrepu, hann er borinn saman við konuna á botni samfélagsins og hún fær betri dóm. Boðflennu fyrirgefið, hún borin saman við gestgjafa og fær að launum fyrirgefningu himins. Hvers konar réttlæti er þetta? Og hvers konar grænka er í þessu guðspjalli?

Manneskjan er guðdómleg

Hérna náum við botninum, komin á kaf í guðspjall dagsins. Þú situr í boðinu hjá Símoni, þér er boðið þangað. Þú verður vitni að þessu öllu saman og nú er þitt að svara. Hvernig metur þú fólk, á hvaða forsendum og með hliðsjón af hverju? Hverjar eru dreggjarnar í samfélaginu, hverja fyrirlítur þú og hverja þolir þú ekki? Eru ekki mörg, sem þú getur ekki hugsað þér að bjóða heim til þín og er jafnvel meinilla við að komi hér í hverfið og jafnvel inn í þessa kirkju!

Hvað finnst þér um það að Jesús snúi sér að þessu fólki, leyfi því að faðma sig, grátbólgið og illa til haft? Hvað finnst þér um að siðsamlegt samkvæmi sé rústað af liði sem kemur utan af götu óboðið? Þú þarft ekki að fyrirverða þig fyrir að bregðast svona við, því við erum öll í þessum hópi. Við höfum okkar skoðanir, okkar félagslegu viðmið og gildi. En eru þetta góð gildi og eru þetta ekki bara lélegir fordómar sem misvirða fólk? Í því er hin stóra ögrun dagsins fólgin og inntak í gjörningi Jesú. Hann vill að við íhugum gildi okkar, afstöðu til manngildis fólks og hvernig Guð elskar.

Símon er á villigötum í afstöðu sinni því hann skilur ekki að jafnvel bersyndug kona er heilög þó hún sé brotin. Konan er ljósblik himinsins, hvati til að venjulegt fólk staldri við. Þannig er allt í þessari veröld þegar við förum að skoða með augum trúarinnar, með augum Jesú. Allt fólk, sem þú mætir eru guðlegar verur, sem tala til þín og biðla til hins guðlega í þér. Hvaða mennsku berðu í þér, hvaða gildi iðkar þú? Það er ekki spurt um stöðu þína, samfélagsskoðanir, almenna heimspekisýn, afstöðu til velferðarmála, hvaða gildi þú verð í orði. Þegar þau, sem fara í pirrurnar á þér mæta þér, spyr Jesús um hvað þú sért.

Fólk er guðdómlegt, hefur eilíft gildi. Manneskjur eru stórkostlegar, líka þau sem hafa ráfað í ræsunum, þau sem hafa farið á botninn, þau sem eru lítilvirtust, hötuðust og hræðilegust.

Fólkið botninum eru þau sem fara mest í pirrurnar á þér og þú þarft að bregðast við. En hver eru viðbrögð þín? Þegar þú hneykslast ertu að bregðast við Guði, fulltrúa Guðs, engli Guðs. Það er nefnilega svo að allar mannverur eru ásjóna Guðs í þessum heimi, portkonan er líka erindi Guðs sem höfðar til mennskunnar í okkur, opinberar afstöðu okkar og opnar okkur. Ekki gagnvart mælikvörðum velsældar svo nöfn okkar birtist í Frjálsri verslun, heldur gagnvart grunngildunum. Manneskjan er heilög, í öllum birtist Jesús og við þurfum alltaf að æfa okkur í þessu partíi sem mannlífið er, að sjá Guð birtast á óvæntan hátt.

Í menntaskólaslagaranum var spurt: Ertu sjálfur Guðjón inn við beinið? Við getum spurt: Ertu Símon inn við beinið? Ef við trúum lítið á fólk og litla guði sitjum við að snæðingi með Símoni og sjáum bara lítilsiglda drós, algeran “looser” við fætur Jesú, smáveru án framtíðar. En ef við trúum á kærleiksríkan Guð, sem stöðugt vill fyrirgefa, veita nýjan séns, hjálpar fólki til að rísa upp, þá sjáum við dýrmæta manneskju. Þetta er græn þruma fyrir vaxtarskeið trúarinnar. Þegar þú ferð út úr kirkjunni í dag skaltu gera þessa Jesúlegu tilraun að horfa á fólk með nýjum hætti, fyrirgefa því og gefa þeim himneskan séns.

11. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Textar dagsins eru: Lexían er Sl. 32. Pistill: 1. Jóh. 1.5ff og guðspjall Lúk. 7.36-50. Prédikunin var flutt 7. ágúst 2005. Ef þú vilt senda mér línu er netfangið s@neskirkja.is