Hugleiðing út frá því þegar Jesús lægði vind og öldur

Hugleiðing út frá því þegar Jesús lægði vind og öldur

Fram til þeirrar stundar er Jesús lægði vind og öldur höfðu lærisveinarnir fylgt Jesú út af því að þeir höfðu kannski eitthvað upp úr því. Að láta sjá sig með næsta konungi Ísraels var mikill heiður. Hann var kominn til að frelsa Ísrael undan ánauð, og jafnvel fengju þeir að taka þátt. Sumir yrðu ráðherrar og sumir prestar. Aðrir óskuðu bara eftir fríðindunum.

eða Mómentið sem lærisveinarnir áttuðu sig á því að Jesús væri meira en sonur Guðs

Fram til þeirrar stundar er Jesús lægði vind og öldur höfðu lærisveinarnir fylgt Jesú út af því að þeir höfðu kannski eitthvað upp úr því. Að láta sjá sig með næsta konungi Ísraels var mikill heiður. Hann var kominn til að frelsa Ísrael undan ánauð, og jafnvel fengju þeir að taka þátt. Sumir yrðu ráðherrar og sumir prestar. Aðrir óskuðu bara eftir fríðindunum.

Og Jesús hafði sýnt sig: staðið í hárinu á valdsmönnum, læknað sjúka og sagt fallegar sögur um ríki Guðs.

Þannig er það enn með sum af okkur. Við fylgjum Jesú út af því að við teljum að það sé eitthvað handa okkur fyrir vikið. Og okkur finnst fínt að láta sjá okkur með Jesú en við höfum ekki enn farið yfir vatnið með honum.

Jesús sagði við lærisveinana: ,,Förum yfir um vatnið!“ Og þeir fóru í bát og af stað, og fleiri bátar fylgdu. Og það brast á stormhrina mikil – mitt í þægindum þess að fylgja Jesú – og öldurnar féllu inn í bátinn svo lá við að hann fylltist.

Lærisveinarnir voru vakandi en Jesús var sofandi. Hann var í skutnum og svaf á kodda. Í hræðslu sinni vöktu þeir Jesú og sögðu: ,,Meistari, hirðir þú ekki um að við förumst?“

,,Jesús, er þér alveg sama um okkur? Þú bara sefur á meðan við glímum við öldurnar. Þú bara sefur á meðan við höfum áhyggjur af ástandinu. Við vitum að þú getur reddað okkur en þú bara sefur.

Jesús, þetta er óábyrgt af þér. Eigum við að gera allt? Þú bara sefur á meðan stormar guðleysis bylja á kirkjuskipinu. Er þetta kannski ekki kirkjan þín lengur? Er þér alveg sama um okkur? Týpískt af þér, að flýja sökkvandi skip og láta okkur farast. Við reynum að halda þessu skipi gangandi. Satt að segja er þetta handónýtt brak sem lætur ekki að stjórn, það míglekur og allur farmurinn er íþyngjandi. Jesús, eigum við ekki að gera eins og skipsfélagar Jónasar gerðu, og varpa öllum þessum óþarfa farmi fyrir borð. Þá má vera að við björgumst.

Jesús, þú sefur vært eins og Jónas svaf vært á meðan skipverjar reyndu að bjarga skipinu. Þú hlýtur þá að eiga sökina eins og Jónas. Strákar, eigum við kannski að kasta Jesú fyrir borð? Nei, þó aðrir kasti þér fyrir borð þá gerum við það ekki.

Jesús, eins biðjum við og það er að þú bjargir sjálfum þér og okkur með. Ef þér þóknast.“

Þá vaknaði Jesús, hastaði á vindinn og sagði við vatnið: ,,Þegi þú, haf hljótt um þig!“

Þá lægði vindinn og það varð stillilogn. Og Jesús spurði þá hvort þeir skildu ekkert enn. ,,Skiljið þið ekki enn að ég er meira en einhver reddari fyrir ykkur. Skiljið þið ekki að ég á ekki bara að vera konungur Ísraels heldur konungur alls heimsins, þar með talinn konungur frumefna, veðurs, sólar og akuryrkju.

Þið eruð ekki orðnir hluti af einhverri klíku. Þið eruð börn Guðs, eins og sérhver annar maður er barn Guðs.“

Og Jesús spurði: ,,Hví eruð þið hræddir, hafið þið enn enga trú?“

En þeir urðu miklum ótta lostnir, þeir urðu enn hræddari við lognið en storminn. Allar hugmyndir þeirra um Jesú brustu á því augnabliki.

Þeir sögðu hver við annan: ,,Hver er þessi? Jafnvel vindur og vatn hlýða honum.“

,,Hver er þessi maður sem við héldum að væri kominn til að hjálpa okkur? Hann virðist hafa meira vald en bara til að snúast í kringum okkur? Getur verið að allt snúist um hann?“

Getur verið að þetta hafi verið augnablikið sem lærisveinarnir áttuðu sig á því að þessi maður Jesús frá Nasaret væri meira en bara sonur Guðs?

Að hann væri spámaðurinn sem Móse sagði að Drottinn myndi láta fram koma, að hann væri friðarhöfðinginn, undraráðgjafinn, guðhetjan, eilífðarfaðirinn, að hann væri Mannssonurinn sem Esekíel og Daníel tala um að muni færa heiminum Guðs ríki og endurnýja alla hluti?

,,Getur það verið að þessi maður sem fyrir örfáum andartökum svaf vært á kodda í skutnum sé sá sem skapaði alla hluti og er núna að chilla með okkur?“

Getur verið að þessi Jesús sem er svo skringilega skeytt inn í allt sem gert er hér í kirkjunni sé skapari himins og jarðar og hann sé viðstaddur, æ nálægur, í okkur og með okkur?

Hvað þýðir það?

Er þetta ekki ofar okkar skilningi? Hvernig getum við mögulega gert okkur grein fyrir þeim leyndardómi sem Guð í Jesú og Guð í okkur er?

Mannlega séð þá er það ómögulegt, menn geta ekki nálgast Guð. En í því er leyndardómur kristninnar fólginn að Guð nálgaðist okkur í Jesú Kristi og hefur birt okkur þennan leyndardóm í náð sinni og elsku til okkar.

Við setjumst ekki niður og reynum að fatta þetta með okkar takmarkaða skilningi. Það er Heilagur andi Guðs sem blæs okkur skilningi, speki, visku, kjarki, dirfsku, gleði, friði og elsku í brjóst. Ó, að við mættum leyfa honum að blása. ,,Vindurinn blæs þar sem hann vill og þú heyrir þyt hans. Samt veistu ekki hvaðan hann kemur né hvert hann fer. Svo er um þann sem af andanum er fæddur.“

Í því er fylgd okkar við Krist fólgin, að berast með vindinum sem blæs frá munni Guðs, að vera góðilmur þekkingarinnar um Krist, að boða fagnaðarerindið um Guðs náð, að opna augun fyrir verki Guðs í heiminum og taka þátt í því, að láta réttlæti flæða fram úr hverju handtaki okkar.

Og þegar við förum yfir um vatnið með honum þá göngum við inn til hvíldarinnar með honum. Mitt í öldunum erum við örugg á koddanum með Jesú. Og á því augnabliki áttum við okkur á því að Jesús er eitthvað meira en hugsanleg persóna sem lifði fyrir 2000 árum og boðaði kærleika á milli manna. Hann er drottinn heimsins sem hvert kné mun beygja sig fyrir og hver tunga mun játa nafn hans.

Í þeirri fullvissu hvílum við og út frá þeirri hvíld stígum við á land og leyfum líknandi anda Jesú að græða allt sem við snertum með lækningu, fyrirgefningu og elsku. Við skuldum ekki neinum neitt nema það eitt að elska hvert annað. Við gerum náunganum ekki mein heldur uppfyllum lögmálið með kærleikanum sem flæðir í gegnum okkur.