Pabbi, þú ærir allan bæinn

Pabbi, þú ærir allan bæinn

Þegar ég var að kveikja á kaffivélinni og raula, að ég hélt í hálfum hljóðum, hátíðartón séra Bjarna barst rödd yngri dóttur minnar frá herbergi hennar: „Pabbi þú ærir allan bæinn.“
fullname - andlitsmynd Sigfús Kristjánsson
11. maí 2011

Páskalilja ;)

Páskarnir eru dásamlegur tími og fátt gleðilegra en að mæta til messu á páskadagsmorgni og upplifa sigur lífsins. Á mínu fyrsta ári var ég víst svo morgunhress að foreldrar mínir ákváðu að bera mig til skírnar við messu kl. 8 á páskadagsmorgni í Neskirkju. Ég væri þá hvort sem er búinn að halda fjölskyldunni vakandi í nokkurn tíma.

Síðan þá eru liðin nokkur ár og aðrir hafa tekið við hlutverki mínu við að koma fjölskyldumeðlimum á fætur á réttum og jafnvel nokkuð fyrir réttan tíma. Nú í ár fór ég til messu á páskadagsmorgni eins og undanfarin ár. Vaknaði vel fyrir sjö til að sinna morgunverkunum áður en lagt var af stað til kirkju. Þegar ég var að kveikja á kaffivélinni og raula, að ég hélt í hálfum hljóðum, hátíðartón séra Bjarna barst rödd yngri dóttur minnar frá herbergi hennar: ,,Pabbi þú ærir allan bæinn” kallaði sú stutta til mín úr rúminu og kom svo syfjuleg fram, með snuðið í munninum og snéri upp á hárið á kollinum. Ég komst að því seinna að þær stöllur Skoppa og Skrítla eiga heiðurinn af þessum orðaforða barnsins.

Hvað um það, eftir að hafa ært allan bæinn heima hjá mér lá leiðin í Hjallakirkju þar sem upprisu var fagnað í samfélagi kirkjunnar. Á stað sem er frátekinn til þess að eiga samfélag með bræðrum og systrum og samfélag við Guð. Það er auðvitað tilgangurinn með því að reisa kirkju að skapa stað fyrir slíkt samfélag. Þegar foreldrar mínir fóru til Neskirkju, fyrir ekkert svo mörgum árum, með lítinn dreng í fanginu var tilgangurinn sá sami. Að fagna upprisunni og gleðjast á sama tíma yfir því að geta fært nýjasta fjölskyldumeðliminn í samfélag kirkjunnar.

Samfélag sem kemur saman í gleði og sorg, samfélag þar sem við deilum byrðum og samgleðjumst. Þar er eðlilegt að koma saman í gleði. Ungur drengur sem eignast sinn fyrsta bíl fer strax út og sýnir hann vinum sínum, sá sem fær góðan vitnisburð deilir honum með vinum og fjölskyldu. Það er jafneðlilegt að koma saman í sorg og erfiðleikum. Finna að það er til fólk sem lætur sig okkur varða, sem er ekki sama. Kirkjan er vettvangur fyrir slíkt samfélag þeirra sem koma saman til að styrkja samband sitt við aðra og við Guð. Þar hafa allir sitt hlutverk.

Sætin í kirkjunni eru sæti þeirra sem eru komnir til að taka þátt í stundinni. Þau eru ekki áhorfendasæti eða varamannabekkir. Þau eru fyrir þátttakendur. Við komum þangað til að taka þátt í upprisunni, fagna því að í upprisunni hefur lífið sigrað. Ég kom í slíkt samfélag í Neskirkju, eftir að hafa ært allan bæinn á bernskuheimilinu mínu á Reynimelnum og til þess kom ég í Hjallakirkju eftir að hafa, eins og dóttir mín sagði: Ært allan bæinn.