Hver er móðir mín?

Hver er móðir mín?

Og þar eigum við ekki aðeins fjársjóð lífsins í Kristi, böðuð elsku Guðs, heldur líka fjársjóðinn hvert í öðru. Það er heillandi að vita að þó tengslanet okkar líffræðilegu fjölskyldu bresti fyrir einhverjar sakir þá erum við hluti af svo margfalt stærri og öflugri fjölskyldueiningu, sem er kirkja Krists um víða veröld.

31. Nú koma móðir hans og bræður, standa úti og gera honum orð að koma. Mikill fjöldi sat í kringum hann, og var honum sagt: Móðir þín, bræður og systur eru hér úti og spyrja eftir þér. Hann svarar þeim: Hver er móðir mín og bræður? Og hann leit á þá, er kringum hann sátu, og segir: Hér er móðir mín og bræður mínir! Hver, sem gjörir vilja Guðs, sá er bróðir minn, systir og móðir. Markúsarguðspjall 3:31-35

Hver er móðir mín? Ef frumburðurinn minn, drengurinn minn, sem ég bar undir hjarta mér mánuði langa, fæddi með þraut og mylkti við brjóst mitt í hátt á annað ár, svaraði mér í þessa veru, yrði ég sár. Blæðandi hjarta sár. Hver væri hann að vísa móður sinni á bug, svo mjög sem hún hefur liðið hans vegna? Og hver er sá sonur sem gæti lagt hvaða konu sem er að jöfnu við móður sína, gefið ókunnu fólki vægi systkina sinna?

Snérum við orðunum við yrðu særindin ekki minni: Hver er sonur minn, hver er dóttir mín? Slík hugsun ætti ekki að eiga sér stað í huga nokkrar móður eða föður – en blasir þó við jafnt í skáldskap bóka og kvikmynda sem í veruleikanum sjálfum. Dætur og synir uppskera vanþóknun foreldra sinna, eru gerð arflaus, mismunað, úthýst. Þess eru fjölmörg dæmi.

Okkur finnast ef til vill orð Jesú birta nokkuð kæruleysislega afstöðu til umhyggjusamrar fjölskyldu hans, sem vill honum aðeins vel. Getur verið að móðir hans og systkini hafi ekki átt sérstakan stað í hjarta hans, umfram annað fólk?

Orð Jesú benda á æðri sannleika Við þeirri spurningu er ekki gefið svar hér, enda spurt að öðru í þessu samhengi. Annarsstaðar kemur fram hinn djúpi kærleikur Jesú til móður sinnar og nægir að minna á hvernig hann felur hana í umsjá Jóhannesar fyrir dauða sinn.

En eins og alltaf notar Jesús hversdagslegar aðstæður til að benda á æðri sannleika. Hann gerir það iðulega með afgerandi hætti, til að vekja áheyrendur sína, fá okkur til að hrökkva aðeins við, ná dýpri merkingu. Jesús höfðar til tilfinninga sem við þekkjum betur en flestar aðrar, væntumþykjunnar til fólksins okkar. Þótt ýmislegt gangi á í fjölskyldum þykir okkur þó yfirleitt allra vænst um mömmu, pabba og systkini okkar – ásamt auðvitað eigin maka og börnum þegar því er að skipta.

Skilaboð Jesú eru að það eru slíkar tilfinningar sem liggja til grundvallar viðhorfi Guðs til okkar. Eins og fínasti þráðurinn sem spunnin er í okkar innsta kjarna, hjartanu, þannig er ást Guðs til okkar. Hjarta Guðs blæðir þegar við höfnum honum. Við eigum hvert og eitt sérstakan stað í huga Guðs og hann þráir að vera okkur faðir.

Fjársjóður elskunnar Því við, sem leitumst við að líkjast Jesú, gera vilja Guðs, erum fjölskylda hans, öll jafn hátt metin. Guð þekkir okkur öll með nafni, þekkir persónu okkar, líf okkar. Það skiptir hann engu hver við erum í augum manna eða hvort nafn okkar er þekkt í þjóðlífinu. Lykillinn að hjarta Guðs er einfaldlega það að vera manneskja, sköpuð í hans mynd – en hann bíður einnig og biður þess að við séum reiðubúin að gera vilja hans, leita hins góða, fagra og fullkomna, hönd í hönd með einkasyni hans, Jesú Kristi.

Og þar eigum við ekki aðeins fjársjóð lífsins í Kristi, böðuð elsku Guðs, heldur líka fjársjóðinn hvert í öðru. Það er heillandi að vita að þó tengslanet okkar líffræðilegu fjölskyldu bresti fyrir einhverjar sakir þá erum við hluti af svo margfalt stærri og öflugri fjölskyldueiningu, sem er kirkja Krists um víða veröld. “Sjá, hversu fagurt og yndislegt það er, þegar systkini dvelja saman... Því að þar hefir Drottnn boðið út blessun, lífi að eilífu” (Sl. 133.1,3).

Fögnum þeirri blessun, blessun systkinasamfélagins og finnum um leið til auðmýktar yfir því að Jesús Kristur skuli leggja okkur að jöfnu sinni eigin móður og systkinum. Njótum þess að dvelja í nálægð Drottins, umvafin elsku hans, sem öll mein græðir og er þess megnugur að endurreisa líf okkar, líka samskiptin við okkar nánustu þegar þau eru komin í ógöngur.

Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu, að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu? Og þó að þær gætu gleymt, þá gleymi ég þér samt ekki. Jes 49.15

Lof sé þér Kristur! Amen.