Þjóðkirkjan – framtíðarsýn óskast! 1. grein

Þjóðkirkjan – framtíðarsýn óskast! 1. grein

Það dylst víst fáum að Þjóðkirkjan er í kreppu og hefur tapað miklu af fyrri stöðu meðal landsmanna. Á sama tíma hefur lítið farið fyrir umræðu um stöðuna né stefnu og framtíðarsýn innan vébanda kirkjunnar. Í þessari grein og tveimur öðrum sem byggja á innleggi á málfundi í Háteigskirkju um málið 1. nóvember s.l. eru settar fram hugleiðingar um stöðu kirkjunnar, ástæður hennar en einnig hugmyndir að framtíðarsýn og verkefnum í anda þeirrar sýnar.
fullname - andlitsmynd Halldór Reynisson
20. nóvember 2018

Það dylst víst fáum að Þjóðkirkjan er í kreppu og hefur tapað miklu af fyrri stöðu meðal landsmanna. Á sama tíma hefur lítið farið fyrir umræðu um stöðuna né stefnu og framtíðarsýn innan vébanda kirkjunnar. Í þessari grein og tveimur öðrum sem byggja á innleggi á málfundi í Háteigskirkju um málið 1. nóvember s.l. eru settar fram hugleiðingar um stöðu kirkjunnar, ástæður hennar en einnig hugmyndir að framtíðarsýn og verkefnum í anda þeirrar sýnar.

Grundvallarspurningar

Eitt sinn lenti ég í þeirri lífsreynslu að vera í gönguhópi sem villtist uppi á hálendi Íslands um miðja nótt. Við þurftum að átta okkur á tvennu: Hvar vorum við stödd? Hvar var áfangastaðurinn? Þetta eru líka grundvallarspurningar í allri stefnumótun og eru yfirleitt lagðar til grundvallar þegar fyrirtæki, hreyfingar eða stofnanir reyna að átta sig á stöðu sinni. Hvar erum við stödd – hvert eigum við að stefna? Um leið er kúrsinn tekinn með s.k. SVÓT-greiningu; hverjir eru styrkleikar og veikleikar starfseminnar; og hvaða tækifæri – eða ógnanir felast í ytra umhverfi starfsins.

Ytra umhverfi

Skoðum fyrst ytra umhverfi kirkjunnar, þ.e.a.s. samfélagsaðstæður á Íslandi og á Vesturlöndum og það sögulega samhengi sem kirkjan hefur starfað í.
Það má velta því fyrir sér hvort sögulegur tími kristin-dóms (þ.e. þessum sérstaka samruna ríkis og kristni sem rekja má allt aftur til Konstantínusar mikla Rómarkeisara á 4. öld) sé ekki liðinn undir lok. Þegar Konstantínus háði úrslita orrustu sína við andstæðing sinn við Milviusarbrúna í Róm segir sagan að hann hafi séð kross á himni og þessi orð: „undir þessu merki skalt þú sigra“. Þar með hófst sú saga að krossinn sem hafði verið tákn um dauða og niðurlægingu varð að valdatákni í gunnfánum margra Evrópulanda, m.a. í þjóðfána Íslands. Táknfræði krossins hafði sumpart verið snúið á haus.

Frá og með upplýsingunni hófu menn að vinda ofan af þessu nána valdasambandi ríkisvalds og kristin-dóms þar sem valdið réð oftast ferðinni á kostnað hinna kristnu gilda. Eftir stendur þó mikil menning, siðir og venjur sem litað hafa allt líf vestrænna manna allt til okkar daga. Þó svo að grunngildi kristninnar (hér notað um hina kristnu frásögn og þau gildi sem af henni eru dregin) hafi oftast verið mönnum kunn hafa þau oft hafa þó ekki verið mjög áberandi í lífi kristin-dómsins eða hins kristna siðar (religio). Siðbót Lúthers var í öndverðu að snúa aftur að hinum klassísku gildum kristninnar hvað sem síðar varð þegar nýtt valdakerfi varð til undir yfirskini mótmælendatrúarinnar.

En nú er öldin önnur. Svo virðist sem undanfarnar kynslóðir, og þá ekki síst ungt fólk dagsins í dag kjósi í auknum mæli að standa utan þessarar hefðar og siðar sem við nefnum kristnin-dóm. Um leið ríkir víða lítið traust á kirkjunni sem og öðrum rótgrónum stofnunum og þær oft sakaðar um að hafa misbeitt valdi sínu og brugðist þeim sem þær áttu að þjóna. Nýjum hreyfingum, s.s. anarkisma og allrahanda aktívisma hefur vaxið fiskur um hrygg; slíkar hreyfingar ungs fólks hafa það oft að markmiði að vinna gegn mismunum, spillingu, ofbeldi og umhverfisvanda þar sem stofnanir samfélagsins, þ.á.m. kirkjan hafa brugðist að þeirra mati. Um leið hefur lífsskoðunum vaxið ásmegin sem stundum hafa orðið til sem andóf gegnum kristin-dómnum.
„Imagine“ - lag John Lennon er kannski tákn um þessa umpólun (á enskum er oft talað um „paradigm shift“) þar sem hann reynir að ímynda sér heiminn án trúarbragða sem að hans mati drepur fólk í dróma. Ungdómsmenningin (youth culture) hafði fram að þeim tíma verið frekar vinsamleg í garð Jesú frá Nasaret en verður svo stöðugt andsnúnari trúarbrögðum og kirkju í Evrópu, jafnvel Ameríku. Nú tala menn jafnvel um óþol gagnvart kristin-dómnum.
Þá skipa trúarbrögð ekki lengur sama sess í lífi fólks og á fyrri öldum vegna þess sem kallað hefur verið afhelgun (secularization) síðustu tvö – þrjú hundruð árin. Þá virðist menning hinna ungu nánast alls staðar í heiminum vera ótengdari hefðum og siðum fyrri kynslóða. Samfélagsmiðlar hafa líklega mjög ýtt undir þessa þróun að ungt fólk miðar lífsstíl sinn við ungt fólk annars staðar en ekki hefðir og siði feðra og mæðra. Ég minnist þess þegar ég var á Indlandi fyrir um 10 árum og Indverji einn kvartaði yfir þessari tilhneigingu unga fólksins þar.

Þá gætir nú um stundir lítils traust á helstu stofnunum samfélagsins og virðist það útbreytt í hinum vestræna heimi. Víða hafa komið upp spillingarmál og valdníðsla innan þessara stofnana, ekki síst kynferðislegs eðlis. Kirkjurnar eru þarna ekki undanþegnar. Viðbrögðin hafa víða verið að fólk hefur sagt sig frá þeim stofnunum sem það gat, t.d. gömlum stjórnmálaflokkum eða kirkjum. Sjálf samfélagsskipan Vesturlanda sem varð til eftir Seinni heimstyrjöld á undir högg að sækja.
Þá sjáum við með auknum innflytjendastraum vaxandi fjölhyggju þar sem fæstir tilheyra ríkjandi trúar brögðum hins nýja heimalands.
Loks má nefna þá skoðun meðal ungs fólks að börnin þeirra eigi sjálf að ákveða sína lífsskoðun en ekki foreldrarnir.

Þróun búsetu hefur ýtt undir þróunina. Sífellt fleiri kjósa að búa í borgum en að sama skapi fækkar í dreifbýli. Unga fólkið hefur flykkst til borganna síðustu áratugi í leit að tækifærum en eftir situr gamla fólkið með sínar hefðir.
Lýðfræðilega virðast þetta vera einkenni þeirra sem tilheyra kirkjunum; það fólk er eldra, býr frekar úti á landi, fleiri konur, eru minna menntuð með lægri tekjur og íhaldssamari í lífsstíl og stjórnmálaskoðunum.
Þau sem lýðfræðilega tilheyra ekki kirkjum og trúfélögum virðast vera; yngri, búa frekar í borgum, eru betur menntuð og með hærri tekjur, eru oft frjálslyndari, jafnvel róttækari en hinn hópurinn.

Allt annað er uppi á teningnum í öðrum heimsálfum; kristnin hefur sótt í sig veðrið í Afríku, jafnvel sum staðar í Asíu og íhaldssamur kristindómur mótmælenda hefur vaxið hratt í S-Ameríku. Á sama tíma hafa hægri öfgaöfl nuddað sér utan í kristindóminn í Evrópu undir því formerki að verja þurfi hina kristnu Evrópu fyrir Islam og innflytjendum. Þá virðist oftast átt við þennan valdabræðing kirkju og ríkis sem ég nefni hér kristin-dóm – enn eitt dæmið þar sem menn nota kristnina í hugmyndafræðilegum tilgangi sem oft er öndverður við grunngildi kristninnar.

Kynlíf og öfgatrú

Ýmislegt hefur óneitanlega flýtt fyrir afhelgun Vesturlanda. Þarf ekki annað en fylgjast með fréttum og oftar en ekki eru það sömu hlutirnir sem koma á daginn.
Fyrir nokkrum misserum las ég ágæta yfirlitsgrein í Guardian um stöðu kirkju og kristni á Vesturlöndum. Höfundur greinarinnar kaus að fella flest vandamál kirknanna undir einn hatt: Kynlíf! Hélt hann því fram að kirkjurnar settu sig gjarnan upp á móti því almenna siðferði sem var að þróast á Vesturöndum í kjölfar kynlífsbyltingarinnar. Nefndi hann kynlíf utan hjónabands, fóstureyðingar og samkynhneigð og taldi svo dæmi um oft vandræðalega afstöðu kirknanna í þessum málum. Þær vildu jafnvel enn teygja sig inn í svefnherbergi fólks sem og plagsiður var hjá valdhöfum fyrri alda.

Ofan í kaupið eru svo hin fjölmörgu dæmi sem upp hafa komið, bæði hérlendis og erlendis um kynferðislega áreitni kirkjulegra þjóna, jafnvel hreint kynferðisofbeldi. Nú um stundir er hart sótt að rómversk-kaþólsku kirkjunni víða um heim vegna þeirra fjölmörgu mála er snerta barnaníð kaþólskra presta.

Þá hefur bókstafstrú vaxið fiskur um hrygg síðustu áratugi víða um heim og í flestum trúarbrögðum. Ef islamisti drepur fjölda fólks í Afganistan hrópandi „Allah akbar“ þá bitnar það á trúuðu fólki uppi á Íslandi. Í bókinni „The Golden Compass“ eftir Philip Pullman er „Kirkjan“ með stóru kái illvirkinn og Guð heldur veiklulegur karakter með uppdráttarsýki. Þegar bókstafstrúarfólk, hvort sem það er hér á Íslandi eða annars staðar telur sig þekkja vilja Guðs og beitir þeim „vilja“ á andstæðinga sína þá grefur það undan trúnni á Guð. Þegar bókstafstrúaðir hvítir Ameríkanar segja að Trump sé Guðs útvaldi kemur það óorði á alla trú enda maðurinn nokkurn veginn eins fjarri kristnu siðferði og hugsast getur.

Kannski getum við sagt að bókstafshyggjan hafi mjög ýtt undir það óþol sem nútímafólk margt hvert hefur á orðtáknunum guð, kirkja og trú.

(Framhald í grein 2. Framtíðarsýn óskast – staðan á Íslandi)