Í siðbótarstarfi sínu stóð Lúther ekki einn, heldur naut hann stuðnings fjörlmargra. Þar bar óneitanlega hæst stuðning eiginkonu hans, nunnunar Katarínu frá Bóra. Lútherska kirkjan minntist 500 ára afmælis hennar 1999, en hún var fædd 29. janúar 1499 í Lippendorf. Hlutverki Katarínu frá Bóra í siðbótinni hefur verið lítill gaumur gefinn og á það ekki síst við um þá öld sem nú er nýliðin. Í þessari grein verður fjallað um hjónaband þeirra Marteins og Katarínu og hvernig þau börðust saman fyrir framgangi siðbótarinnar.
Munkur verður eiginmaður
Hversur afdráttarlaust líf Lúthers breyttist á fáeinum árum getum við vart gert okkur í hugarlund. Hann yfirgaf öryggi munklífsins og steig inn í hringiðu þjóðmála og varð að vissu leyti með áherslu sinni á réttlætinguna af trú að miðpunkti sem allt snerist um. Lúther tókst nefnilega það sem keisarar og umbótasinnar fyrri alda gátu aðeins látið sig dreyma um. Hann umbylti miðaldasamfélaginu frá grunni, ekki með stöðugri gagnrýni, heldur tókst honum með kenningum sínum að leggja nýjan grundvöll fyrir þjóðfélagið í heild og líf einstaklingsins. Því má með nokkrum sanni segja að hann sé upphafsmaður þess tímabils er kallast nútími. Að einn maður í krafti kenninga sinna geti áorkað svo miklu er erfitt skilja. En það er eins og samtíðarmenn hans hafi gert sér fulla grein fyrir þessu því þeir reyndu að safna saman öllu sem hann skrifaði og sagði. Það gerðu þeir svo þeir sjálfir og komandi kynslóðir gætu gert sér sem skýrasta mynd af atburðum og áttað sig á þeim nýja grundvelli sem þeir byggðu líf sitt og þjóðfélag á. Það er því mjög spennandi að vita hvernig Lúther sjálfur mat líf sitt og hvað honum þótti mest til koma við þau umskipti sem áttu sér stað. Í einni borðræðu sinni frá júní 1532 sker hann úr um þetta þegar hann segir: Guð veit að ég ætlaði ekki að setja svo mikið á stað, eins og orðið hefur. Ég vildi einungis gagnrýna aflátssöluna. Ef einhver hefði sagt mér að ég færi á ríkisþingið í Ágsborg og eignast eiginkonu og heimili sex árum síðar hefði ég aldrei trúað honum.
Það er athyglisvert að Lúther telur starf sitt sem prófessor, brautryðjandi siðbótarinnar eða ráðgjafi furstans ekki byltingarkenndustu þættina í lífi sínu, heldur þá staðreynd að Guð hafði gefið honum konu og heimili. Þessum einlæga munki! Það stendur upp úr og er í augum hans kraftaverk. Þetta skref var með öllu óhugsandi í samtíð Lúthers áður en siðbótin ruddi sér braut í Evrópu. Í annarri borðræðu ítrekar Lúther þetta enn frekar og segir: „Guð gaf mér konu og heimili.“ Í þessum orðum kemur fram kjarni kenningarinnar um réttlætinguna af trú sem mótar, eða réttara sagt opnar, manninum nýja sýn á heiminn og lífið. Lúther fær að reyna í ljósi réttlætingarinnar að líf hans er í hinu smæsta sem hinu stærsta gjöf Guðs. Og hann sér einna skýrast innan fjölskyldu sinnar, sem eiginmaður og faðir, hve dýrmætar gjafir Guðs eru. Við skulum aðeins fara yfir sögu Lúthers út frá þessum sjónarhóli og athuga aðdragandann að því að hann kvæntist Katarínu frá Bóra og hvernig fjölskydulífi þeirra var háttað.
Kenning Lúthers um hjónabandið
Það var engin skyndiákvörðun hjá Lúther að kvænast. Ákvörðun sína byggði hann á áralangri íhugun og ritskýringu á textum ritningarinnar. Rannsóknir hans á hjónabandinu og það sem hann skrifaði um það efni tengdist ekki persónulegum vanda hans, heldur var hann að bregðast við þeirri raunverulegu neyð sem hjónabandið bjó við í samtíð hans sem stofnun samfélagsins. Þessi neyð kom meðal annars fram í þeirri almennu vanvirðingu sem hjónabandinu og fjölskyldunni var sýnd á miðöldum. Ástæðna þessa er að leita í þeirri líkamsfyrirlitningu sem ríkti í kenningu miðaldakirkjunnar um hjónabandið og kynlífið. Áhrif grískrar heimspeki, bæði nýplatónismans og Aristótelesar, voru mikil innan kirkjunnar og kom m.a. fram í þeim skilningi að hið veraldlega líf, með öllum sínum holdlegu gæðum, væri einungis skuggi þeirrar andlegu sælu sem biði manna að lífi loknu. Menn áttu að undirbúa sig fyrir hana og einn meginþátturinn í þeim undirbúningi var að forðast allt sem tengdist holdinu, þar á meðal samlífi kynjanna. Hjónabandið var að vísu lofað af kirkjunni í ljósi nauðsynjarinnar, enda gegndi það mikilvægu hlutverki í viðhaldi þjóðarinnar og uppeldi barna. Hin andlega stétt var hins vegar yfir hjónabandið sett; samlífi hjóna féll undir synd og var jafnvel gert að inntaki hennar. Auk þess var hjónabandið skilgreint sem sakramenti og í ljósi þess voru bundnar við það ýmsar forskriftir sem kirkjan notfærði sér til að ná taki á samvisku fólks. Við þetta allt bættist að margir prestar bjuggu með konum sínum í óvígri sambúð, oft í sárri fátækt. Konur þeirra og börn voru réttindalaus í sambandi við framfærslu og erfðir. Prestarnir voru síðan þjakaðir af samviskubiti í allri þjónustu. Í ljósi skilnings ritningarinnar á hjónabandinu hafnaði Lúther allri slíkri tvíhyggju og öllum tilraunum til að hefja meinlætið yfir daglegt líf fólks. Hann hvatti m.a. presta til þess að kvænast sambýliskonum sínum og létta þar með af samvisku sinni. Lúther sagði við prest sem átti við þennan vanda að glíma að hann skyldi „kvænast konu sinni og búa með henni sem eiginkonu hvort sem páfi leyfði það eða ekki“. Hið sama ráðlagði hann þeim ungu nunnum og munkum sem vildu ekki né gátu haldið skírlífisheit sitt.
Lúther hafnaði alfarið þeim skilningi að meinlætalíf væri hafið yfir hjónabandið og benti á þá blessun sem Guð hefur gefið því. Á einum stað segir hann að Guð hafi skapað karl og konu til þess að þau drægjust hvort að öðru og að það sé vilji hans að þau njóti hvort annars. Þessi löngun er svo sterk sem raun ber vitni af því að Guð hefur bundið hana við sköpunarorð sitt. Og orð Guðs stendur og blessun þess þótt maðurinn sé fallinn. Að karl og kona dragist hvort að öðru og njóti samlífs samræmist góðum vilja Guðs. Og þar sem þetta er vilji hans getur maðurinn ekki sett nokkur lög eða reglur um eilífi sem hindra hann. Lúther benti þó á að vissulega væru til undantekningar frá þessu, en þær væru sjaldgæfar.
Aðdragandi að hjónabandi
Lúther skrifaði vini sínum, Spalatín, árið 1524 að sjálfur gæti hann lítt staðið í hjónabandshugleiðingum, maður sem á hverri stundu gat átt von á því að verða brenndur sem trúvillingur. Það er því ekki að undra að ákvörðun Lúthers um að kvænast Katarínu frá Bóra hinn 13. júní 1525 hafi komið eins og þruma úr heiðskíru lofti. Þó var þetta ekki eins óvænt og ætla mætti. Lúther hafði skipulagt flótta þrettán nunna úr klaustri í Nimbschen og ein úr hópi þeirra var Katarína frá Bóra. Þar sem nunnurnar áttu í engin hús að venda bjuggu þær í Ágústínusarklaustrinu í Wittenberg og með tíð og tíma fundu þær sér nýjan starfsvettvang og gengu margar í hjónaband. Katarína frá Bóra var orðin ein eftir og gekk illa að koma henni fyrir. Þessu olli stolt hennar, sögðu menn, og hversu ákveðin hún var og ósveigjanleg. Lúther reyndi eftir mætti að finna mannsefni handa henni og mælti með hinum og þessum, en hún hafnaði þeim öllum og skrifaði að lokum eigin lista yfir hugsanleg mannsefni. Á honum voru tvö nöfn, þ.e. Lúthers og vinar hans. Til eru ýmsar sögur um það að Katarína hafi ávallt ætlað sér að giftast Lúther, en hér vitum við góðu heilli minna en við vildum. Lúther skrifar í bréfi til vinar að hann líti svo á að það sé vilji Guðs að hann taki Katarínu að sér og biður Guð að veita sér hamingjusamt hjónaband.
Hér verðum við að huga að sögulega samhengi til þess að skilja þann jarðveg sem hjónaband þeirra Katarínu og Marteins er sprottið úr. Bændauppreisnin geisaði um allt Þýskaland. Lúther var mjög áhyggjufullur vegna hennar og reyndi að tala um fyrir bændum og furstum. Hann varð að sætta sig við að orð sín um að halda frið og semja féllu í grýtta jörð. Í ljósi þessa varð hann ákveðnari í að kvænast. „Ég ætla að storka djöflinum og áður en ég dey ætla ég að kvænast Kötu minni sama hvernig djöfullinn lætur.“ Mitt í ófriðnum vildi Lúther undirstrika að Guð væri góður og sköpun hans öll þótt veruleikinn virtist um stund mæla gegn því. Katarína frá Bóra sýndi mikið hugrekki. Hún, nunnan, gekk að eiga munk, sem var í banni! Með því kallaði hún sömu bannfæringu yfir sjálfa sig, sem bættist ofan á þá bölvun sem almennt hvíldi í hugum fólks yfir hjónabandi munks og nunnu (og var bannað samkvæmt kononískum rétti). Það var almannarómur að afkvæmi munks og nunnu yrði antíkristur. Það eitt var nóg. Hjónaband þeirra hafði því mikilvægt játningargildi og um leið mótandi áhrif fyrir kirkjudeild mótmælanda. Einmitt þessi þáttur varð þess valdandi að þau urðu fyrir svívirðilegum árásum og rógburði öll hjónabandsárin. Var jafnvel samið háðsleikrit um hjónalíf þeirra, veggspjöldum af þeim dreift á götum úti og þeim send nafnlaus níð- og hótunarbréf. Þau hjónin létu þó ekki þessar árásir eða varnirnar gegn þeim ná tökum á hjónabandi sínu, heldur létu þau leiðast af þeirri þekkingu sem fólst í réttlætingunni af trú og þeirri nýju lífssýn sem hún veitti. Lúther tók á gagnrýni með kímni og lét rógburð ekki skyggja á gleði þeirra hjóna. Þegar þau gengu í hjónaband var Lúther 42 ára og Kataría var 14 árum yngri, eða 26 ára. Í borðræðu segir hann síðar: „Þegar þú situr við eldhúsborðið: Sjá, hugsar þú, þú varst um tíma einn, en nú er hún þar. Og í rúminu lítur þú til hliðar og við hliðina á þér sérð þú tvær fléttur, sem voru ekki þar áður.“
Heilög stofnun
Í bréfum Lúthers er Katarína ávallt nærri. Hann skilar ætíð kveðju „frá Kötu, Evu minni“, eða kallar hana ýmsum gælunöfnum eins og „kveðjuna sína“, „mína elskulegu Kötu, „drottningu og stjórnanda“, „keisaraynju“ eða „herra minn Katarínu“. Fallegasta kveðjan er líklega þegar hann nefnir hana „morgunstjörnu Wittenbergs“. Þegar hann skrifar vini sínum bréf í tilefni fæðingar sonar síns hættir hann í miðjum klíðum með orðunum: „Þegar ég skrifa þessa stafi, kallar Kata, sem er máttfarin, á mig.“ Hjónabandið varð Lúther tilefni stöðugs þakklætis og trúarvitnisburðar um að þessi stofnun væri heilög, guðleg og dásamleg. En vissulega mæta okkur einnig í bréfum og borðræðum Lúthers margar frásagnir um erfiðleika og streð sem fylgir fjölskyldulífinu. Þannig segir hann á einum stað: „Guð hefur búið hjónabandinu kross og heldur honum yfir því,“ en bætir síðan við: „Ég mun samt elska og lofsyngja hjónabandið, jafnvel á dauðastundinni.“
Á sama hátt og Lúther skilgreinir hjónabandið í ljósi trúarinnar skilgreinir hann líf sitt og hlutverk sem faðir barna sinna út frá trúnni. Börn eru ekki einungis afleiðing getnaðar samkvæmt Lúther, heldur gjöf Guðs. Börn gera hjónabandið að merkustu stofnun sköpunarinnar. Þeim hjónum varð sex barna auðið á rúmlega átta ára tímabili; þau eignuðust þrjár dætur og þrjá syni. Í júní 1526 fæddist Jóhannes, síðan Elísabet, þá Magdalena (kölluð „Lenchen“), Marteinn, Páll og loks Margareta í desember 1534. Tvö barnanna létust ung. Elísabet dó rétt átta mánaða en Magdalena, sem var augasteinn þeirra hjóna, lést 13 ára. Öll voru börnin gjöf Guðs í augum foreldra sinna og þannig umgengust þau börnin og gerðu ekki upp á milli dætra og sona. Í bréfum sínum getur Lúther yfirleitt þungunar Katarínu snemma á megðgöngutímanum, enda eru gleðitíðindin samofin beiðni um fyrirbæn til handa móðurinni og þeim báðum um að allt gangi að óskum. Þegar Lúther greinir svo frá fæðingu barna sinna er fregnin ætíð bundin þökk fyrir þá miklu náð sem Guð hefur sýnt þeim hjónum. Og hann segir: „Þökk sé Guði og dýrð,“ eða: „Lof sé Kristi og dýrð fyrir að Guð hefur stækkað fjölskyldu okkar.“ Hér er nauðsynlegt að hafa í huga að á þessum tíma var meðganga og fæðing lífshættuleg konum og það er því ekki að undra að Lúther hafi verið þakklæti efst í huga fyrir að halda Kötu sinni og börnunum. Þegar börn Lúthers og Katarínu fæddust hvert af öðru varð hjónalíf þeirra eins og opinberun. Í bréfum sínum og borðræðum vekur Lúther oft máls á því hve ólík veröldin sé í augum barna og fullorðina. Hegðun barananna varð honum endalaus uppspretta dæmisagna um náð Guðs og hvernig menn eiga að taka við henni. Börnin lifa eins og þau séu nú þegar í Paradís og hafa óendanlegan hæfileika til að læra af umhverfi sínu. Þau ganga í sjálfsögðu trausti inn í lífið og taka fullan þátt í lífi hinna fullorðnu. Þeim er það einfaldlega sjálfgefið. Þannig gefur „Lenchen“ rétt fjögurra ára mikilvægar ráðleggingar um efnahagsmál á sama tíma og Hans hægir sér í áhyggjuleysi sínu úti í horni í vinnuherbergi Lúthers.
Lúther var mjög vökull gegnvart börnum sínum og það má teljast aðdáunarvert hve næmur hann var á veruleika þeirra. Í athugunum sínum fylgdi hann ekki hugmyndum fornmenntastefnunnar um uppeldismál. Fylgismenn hennar litu á barndóm og æsku sem vanþróað stig menskunnar. Þessi mennsku næði ekki fullum þroska nema hjá fullvaxinni manneskju. Þessu hafnaði Lúther og sagði að barnið hefði fulla mennsku og eigin virðingu. Lúther horfði á börnin með augum trúarinnar og skynjaði að þau eru manninum gefin af Kristi til að vera leiðbeinendur fullorðinna um hvað felst í því að vera Guðs elskað barn (Matt 18.3). Hinir fullorðnu eiga að læra af hegðun þeirra: Þau deila ekki, heldur treysta orði Guðs í hreinni trú sem gamlir þverhausar eiga svo erfitt með að tileinka sér! Ást og umhyggju foreldra sinna taka börnin sem sjálfsögðum hlut; allt fellur þetta þeim í skaut fyrir það eitt að fæðast í heiminn. Þau borða, dekka, sofa og gera í bleiu í fangi móður sinnar, allt í fullkomnu trausti. Þannig eru þau fullorðnum eilíf fyrirmynd um hvernig maðurinn á að taka við náð og kærleika Guðs. Lúther snýr þessu dæmi einnig við og horfir á manninn í hlutverki barnanna. Hann lætur Guð spyrja manninn eins og foreldri: „Hvað hefur þú gert sem veldur því að ég elska þig svo mikið að ég geri þig að erfingja mínum? Þú sem skítur, mígur og fyllir húsið með gráti og öskrum!“ Og við þessari spurningu er bara til eitt svar, sem er kærleikurinn sem Guð ber til mannsins, eins og foreldri til barns síns.
Lúther var störfum hlaðinn alla sína ævi og margir kröfðust starfskrafta hans. Hann var því oft að heiman, en í fjarveru sinni var hann iðinn við að skrifa heim til konu og barna. Mörg af þeim bréfum sem varðveist hafa eru einmitt skrifuð við slíkar aðstæður. Því miður hafa flest bréf Katarínu glatast og verðum við því að skoða líf þeirra í ljósi bréfa og borðræðna Marteins Lúthers. Af þeim heimildum sem við höfum virðist Lúther hafa verið eins og flestir feður, eftirlátssamari við dætur sínar en syni. Þegar þau hjón missa Magdalenu, eða „Lenchen“, var það mikið áfall fyrir alla fjölskylduna. Lúther greinir frá því að hann hefði ekki getað gert sér í hugarlund hve missir barns gengur nærri hjarta mansins og rænir hann öllum lífsvilja nema vegna þess að þau hjónin misstu tvö af sínum eigin börnum. Lengi eftir dauða „Lenchen“ fjallar Lúther um hryggð sína og hve erfitt þau hjón eiga með að sigrast á sorginni. Þau gráti þótt þau viti að dóttir þeirra búi í gleði í ríki lífsins hjá Guði. Hér lokast hringurinn, segir hann: Það er ekki verk foreldranna að kalla börnin til lífsins, heldur þiggja þau barnið úr hendi Guðs. Þannig hverfur barnið aftur til þess sem gaf það. Og í þessari trú er tekist á við sorgina og allt endanlega falið í hendur Guði. Mörg bréf sem Lúther skrifaði gagngert til þess að hugga fólk sem misst hafði ástvini sína hafa varðveist. Hvernig hann ber sig við að hughreysta aðra í ljósi eigin hryggðar í bréfunum, og hversu einarðlega hann bendir á Krist í sorginni, lætur engan ósnortinn.
Fjölskyldulíf innan klausturveggja
En kjarni fjölskyldulífsins var samband þeirra hjóna, Marteins og Katarínu. Hjúskaparár þeirra urðu samtals tuttugu og eitt. Lúther skrifar á einum stað: „Margir eiga konur, en fáir finna konu.“ Hér varar hann við að blanda saman ást og fyrstu hrifningu. Ástin er meira en slík hughrif, hún er eitthvað sem vex og nærist af áralangri tryggð og vináttu. Hjónaband þeirra Katarínu var mótað af samspili trúar og reynslu, en það gekk ekki átakalaust. Hér verður aftur að hafa í huga þær aðstæður sem þau bjuggu við. Þegar þau gengu í hjónaband áttu þau ekkert nema hvort annað. Lúther var févana munkur og prófessorslaun hans nægðu rétt til að framfleyta honum. Þau hjónin fengu til umráða klaustrið sem nú hafði verið yfirgefið af munkunum – öllum nema Lúther! Þetta er gríðarlega stór bygging og viðhaldskostnaður mikill. Að afhenda þeim þetta hús til umráða er líkt og að láta févana hjónum eftir litla skólabyggingu til heimilisnota nú á dögum.
Siðbótin hafði margar afdrifaríkar afleiðingar. Mótmælendur voru oft reknir í burtu eða þurftu að flýja heimili sín. Stöðugur „flóttamannastraumur“ var til Wittenbergs. Leituðu margir á náðir Lúthers og bjuggu lengri eða skemmri tíma hjá þeim hjónum. Katarína gerði sér fljótlega grein fyrir því að fjárhagsleg staða heimilisins yrði að batna ef ekkert átti undan að láta. Hún tók það ráð að leigja stúdentum herbergi og sjá þeim fyrir fæði. Þannig rak hún svo að segja stúdentagarð í klaustrinu. Auk þess tóku þau hjónin að sér mörg fósturbörn um skemmri eða lengri tíma og þau opnuðu hús sitt fyrir sjúklingum og hlúðu að þeim. Slíkt lá í eðli þeirra þar sem klaustrin voru frá fornu fari einnig sjúkrahús, sértaklega nunnuklaustrin. Þegar mest var um að vera bjuggu um 40 til 50 manns hjá Lúther og Katarínu, en að meðaltali voru um 30 manns í heimili. Þess ber að geta að Katarína naut hér dyggs stuðnings nunnu sem flúið hafði úr sama klaustri og var hún hjá þeim hjónum alla tíð. Þá má reikna með að upp undir tíu vinnukarlar og -konur hafi starfað undir stjórn hjónanna. Katarína var því „húsmóðir“ og húsrekstrarstjóri á heimilinu. Hún tók síðar á leigu bóndabýli og hóf svínarækt og margt fleira. Það var því ekki bara góðlátlegt grín þegar Lúther kallaði hana „Drottin sinn og Herra“. Heimilið sem hún rak jafngildir meðalstóru fyrirtæki nú á dögum, en fjármálin voru jafnan í höndum hennar. Ekki svo að skilja að Lúther hafi setið úti í horni með hendur í skauti og horft á konu sína leysa vandamál. Lúther hafði sem munki verið falin fjármálastjórn og mörg stjórnunarstörf innan sinnar reglu og þannig voru þau bæði vön að stjórna. Mikið hefur verið látið með hversu gjafmildur Lúther var og höfðu sumir á orði að hann hefði hagðað sér eins og fransiskanamunkur og gefið allt frá sér í ábyrgðarleysi. Hér ber að gera skýran greinarmun á ábyrgðarleysi og gjafmildi. Lúther talar að vísu oft um að hann eyddi meiru en þau hjónin þénuðu, en hafa ber í huga umfang þess rekstrar sem þau báru ábyrgð á. Ekki má heldur gleyma að klaustrið var hálfgert byggingarsvæði öll hjúskaparár þeirra. Gera þurfti umtals¬verðar breytingar á klausturbyggingunni til þess að aðlaga það heimilis¬rekstrinum.
Að sjálfsögðu var verkaskiptingin nokkuð skýr, en það er mikill misskilningur að álíta sem svo að daglegt heimilislíf og uppeldi barnanna hafi alfarið fallið Katarínu í skaut. Svo var ekki. Lúther talar um það sem sjálfsagðan hlut að skipta á börnunum sínum og þvo bleiur: „Þegar einhver skiptir á barni eða þvær bleiur og annar hæðist að því, þá skal sá vita að Guð, englar og öll sköpun hans hlæja og gleðjast yfir því verki. Því þeir sem hæðast sjá bara verkið, en ekki þá staðreynd að hér er verið að sinna ábyrgðarmesta starfi í heimi.“ Vegna anna ber að gera ráð fyrir að Lúther hafi ekki verið „á kafi“ í barnauppeldinu, en óneitanlega bregður oft fyrir tilvísunum í heimilislífið í ritum hans. Lesandinn fær á tilfinninguna að börnin hafi setið við fætur hans á skrifstofunni þegar hann vann þar. Í skrifum hans má sjá innskot þar sem hann segir „nú kallar Kata“ og því verði hann að gera eitt og annað sem tilheyrði daglegu heimilishaldi. Í bréfum sínum getur hann þess líka oft hvað það er sem skorti helst og hvernig best sé að útvega það. Stundum biður hann um hluti beinum orðum. Þá talar hann oft um deilur þeirra um húshaldið, en segir svo að Kata sé mun lagnari í röksemdum en hann, hún sé herra sinn og Móse, sjálfur sé hann aðeins Aron. Þegar Katarina lagði í stórframkvæmdir við klaustrið enn einu sinni varð Lúther nóg um framkvæmdagleðina. En hann vissi vel hvern hann átti í henni og sagðist ekki myndu skipta á „Kötu sinni fyrir allt Frakkaríki eða Feneyjar“. Í einni borðræðu sinni segir hann: „Kata, þú átt trúaðan mann sem elskar þig; þú ert keisaraynja. Viðurkenndu það og þakkaðu Guði.“
Bréfaskriftir
Eins og áður er getið eru ekki margar heimildir til um líf þeirra hjóna eftir Katarínu, fyrir utan nokkur bréf. Eitt þeirra skrifar hún systur sinni stuttu eftir andlát Lúthers þar sem hún kemst svo að orði: „Ég er sannarlega svo slegin djúpri hryggð að ég get ekki trúað neinum manni fyrir sorg hjarta míns. Og ég veit ekki hvað ég á af mér að gera, ég kem engu í verk og get ekki fest hugann við neitt. Ég get hvorki borðað né sofið.“ Það er erfitt að gera sér fulla grein fyrir því hve stór þáttur Katarínu er í lífsverki Lúthers, einkum siðbótarstarfi hans. Vissulega var hjálp hennar háð vissum annmörkum, en hér ber samt að hafa í huga að hún hafði notið góðrar menntunar í klaustri og var vel að sér. Hún gerði sér líka fulla grein fyrir því hvað siðbótin stóð fyrir. Nægir bara að minna á að það var fyrir rit Lúthers, sem smyglað hafði verið inn í nunnuklaustrið, að hún snerist til liðs við siðbótina. Og þegar hún gekk að eiga Lúther tók hún, eins og áður er sagt, á sig þá bannfæringuna sem hvíldi yfir honum að vissu leyti. Siðbótin var því hjartans mál hennar. Ef að líkum lætur hefur hún lesið yfir handrit Lúthers og komið með ábendingar. Í þessu samhengi er rétt að geta þess að fyrir hennar orð skrifaði Lúther andsvar við riti Erasmusar frá Rotterdam, „Um hinn frjálsa vilja“, og reit eitt merkasta guðfræðirit sem skrifað hefur verið, „Um ánauð viljans“. Lúther skrifaði og hélt einnig húslestra eða prédikanir og til eru margar frásögur af því þegar hann átti í rökræðum við konu sína. Það er því ekki allskostar rétt að álíta að guðfræðin og starf Lúthers hafi ekki fallið undir starfssvið hennar. Ég leyfi mér að fullyrða að siðbótin var baráttumál þeirra beggja og það er leitt hversu lítið hefur verið gert úr hlut kvenna í siðbótinni að undanförnu. Konur siðbótarmannanna voru oft nunnur og þær vissu vel að með því að ganga í hjónaband stefndu þær lífi sínu í hættu. Hjónaband þeirra var játning sem byggðist á samfæringu þar sem allt var lagt undir. Og margar hverjar veittu siðbótinni lið með guðfræðiskrifum sínum og sömdu m.a. sálma sem eru allt til þessa dags í sálmabók lúthersku kirkjunnar í Þýskalandi. Nægir hér að nefna sálma Elísabetar Cruciger (1500–1535), en hún var eiginkona aðstoðarmanns Lúthers. Þessi hefð sálmakveðskapar hefur haldist og nægir að líta í sálmabók íslensku þjóðkirkjunnar því til staðfestingar. Þetta átti líka við um Katarínu Lúther enda skrifaði hún systur sinni í áðurnefndu bréfi eftir lát eiginmannsins:
Að þú finnir til með mér og börnum mínum veit ég vel, því hver væri ekki hryggur og sorgbitinn vegna fráfalls svo dýrmæts og trausts manns sem minn elskulegi húsbóndi var. Hann sem þjónaði ekki bara borginni eða landinu, heldur öllum heiminum. Þess vegna er ég full hryggðar.
Síðar segir:
Og þótt ég hefði furstadæmi eða keisaradæmi, eða allan heiminn, þá gæfi ég það allt til að fá aftur þennan elskulega og dýrmæta mann. Það er athyglisvert að Katarína Lúther lýsir með þessum orðum lífsverki bónda síns á svipuðum hátt og Melankton gerði þegar hann hermdi fráfall Lúthers. Katarína grípur einnig til svipaðra líkinga og Lúther hafði notað um hana. Þau kölluðu hvort annað „drottin sinn“, „keisaraynju“ eða „keisara“. Af því sem ég hef lesið styrkist sá grunur minn æ meir að það verði að huga betur að hlut Katarínu í siðbótinni og horfa á þau hjón sem samstarfsmenn.
Lúther hafði lengi átt við vanheilsu að stríða og veikindi hans má að miklu leyti rekja til þess harða meinlætalifnaðar sem stundaður var í klaustrinu forðum. Hann gerði sér því fulla grein fyrir því að hann færi á undan Katarínu. Hann sá því til þess – og þvert á ríkjandi hefðir – að Katarína ein erfði hann svo hún þyrfti ekki að leita til barna sinna, heldur börnin til hennar. Lúther reyndist raunsær í mati sínu og tókst Katarínu að halda heimili og fjölskyldunni saman á meðan hún lifði. Þegar Lúther hélt til Eisleben í febrúar 1546 til þess að miðla málum milli tveggja deiluaðila var heilsa hans svo slæm að hann átti ekki afturkvæmt. Þau hjón skiptust eins og ætíð á bréfum og greinilegt er af þeim að Katarína hefur verið mjög áhyggjufull. Lúther skrifar henni því í næstsíðasta bréfi sínu til hennar: Náð og friður í Kristi! Allra heilagasta! Frú doktor! Ég þakka þér fyrir alla þína umhyggju […] en áhyggjur mínar eru þær að þú gerir þér svo miklar áhyggjur að þær gleypi alla jörðina. Hefur þú ekki lært fræðin og trúarjátninguna? Þú skalt biðja og láttu Guð um áhyggjurnar, það er ekki þitt verk að sjá endanlega um mig eða hafa áhyggjur. Segir ekki í sálminum: „Varpa áhyggjum þínum á Drottin, hann mun bera umhyggju fyrir þér“? (Slm 55.24).
Og í öðru bréfi skrifar Lúther:
Þú hefur slíkar áhyggjur að ætla mætti að Guð væri ekki almáttugur og gæti ekki skapað tíu aðra doktora Martínusa. Hættu þessum áhyggjum, ég hef einn sem sér um áhyggjur mínar, hann liggur í jötu og er við brjóst móður sinnar, en situr um leið til hægri handar Guði föður almáttugum.
Lúther kveður Katarínu með orðunum „náð og friður í Kristi sé með þér, mín gamla ást, og drottning“ og hann ritar undir: „Marteinn Lúther, þín gamla ást.“ Það er vissulega hægt að benda á, þegar rúm fimm hundruð ár eru liðin frá fæðingu Katarínu frá Bóra, að nú á dögum hafi menn aðra sýn á tilveruna en þau hjónin. En í breyttum heimi verðum við líka að ryðja hinu kristnu frelsi leið, bæði inn í lífi okkar og samfélagið. Og í þessu samhengi hefur inntak þessa frelsis, sem er trú og kærleikur, – og þakklæti, þar sem það virkar, ekkert breyst. Af lífi þeirra hjóna getum við nútímamenn því lært ýmislegt og umfram allt það hvernig þau tókust á við líf sitt í spennu milli trúar og óvissu. Þau tókust á við lífið í ljósi þess að maðurinn réttlætist ekki fyrir verk, heldur trúna á Krist. Þau létu þá trú móta líf sitt og í þessu efni eru Katarína og Marteinn Lúther ennþá fyrirmyndir.
--- Greinin birtist fyrst í Orðinu, Riti Félags guðfræðinema, 36. árg. 2001, bls. 51–63. Hér hefur efni verið bætt við í nokkrum neðanmálsgreinum. Fyrsta útgáfan af verkum Lúthers var gefin út í Wittenberg 1539. Í tilefni af 400 ára afmæli Lúthers var 1883 byrjað að vinna að Weimar-útgáfunni (Weimarer Ausgabe, skammstafað WA) og var henni lokið 2009. Í Weimar-útgáfunni eru alls 127 bindi og um 80.000 blaðsíður. WA var upphaflega verkefni sem leitt var af nefnd á vegum prússneska menntamálaráðuneytisins, en síðan af Heidelberger Akademie der Wissenschaften. Útgáfan skiptist í eftirfarandi fjögur ritsöfn: 1. Borðræður Lúthers, 6 bindi (skammstafað WA TR); 2. Þýska Biblían, 15 bindi (skammstafað WA DB); 3. Bréf Lúthers, 18 bindi (skammstafað WA BR). 4. Rit Lúthers, 80 bindi (skammstafað WA). Öllum ritsöfnunum fylgir ýtarleg hugtaka- og nafnaskrá. Aðgengilegt yfirlit yfir verkið má m.a. finna á Wikipedia: https://de.wikipedia.org/wiki/Weimarer_Ausgabe_(Luther). Berhard Lohse, Martin Luther – Eine Einführung in sein Leben und Werk, 3. útgáfa München 1997, 221–226. D. Martin Luthers Werke. Kritische Gesamtausgabe – Tischreden [framvegis skammstafað WA TR], Hermann Böhlaus Nachfolger, Weimar 1883–2009, 2, 165 (nr. 1654). Sjá einnig: WA TR 3, 211 (nr. 3177). WA TR 4, 432 (nr. 4690). Um hjónabandsskilning miðaldakirkjunnar, sjá: Ranke-Heinemann, Eunuchen für das Himmelreich. Katolische Kirche und Sexualität, 50–67, 81–104, 158–222; Henri Crouzel, „Ehe/Eherecht/Ehescheidung V. Alte Kirche“, Theologische Realenzyklopädie, 9. bindi, Walter de Gruyter, Berlín 1982, 325–330; Leendert Brink, „Ehe/Eherecht/Ehescheidung VI. Mittelalter,“ Theologische Realenzyklopädie IX, Walter de Gruyter, Berlín 1982, 330–336; Hermann Ringeling, Theologie und Sexualität. Das private Verhalten als Thema der Sozialethik, Gütersloher Verlagshaus Gerd Mohn, Gütersloh 1968, 9–47. Luthers Werke in Auswahl [framvegis skammstafað Cl], útg. Otto Clemen, Verlag von Walter de Gruyter & Co, Berlín 1933–1936, 2, 340–345. Sigurjón Árni Eyjólfsson, „Ágrip af kristnum hjónabandsskilningi,“ Skírnir, haust 1998, 307–338. Cl 2, 397. „Eine christliche Schrift an H.W. Reißenbusch, [...] sich in den ehelichen Stand zu begeben,“ WA 18, 275 (1525). D. Martin Luthers Werke. Briefwechsel [framvegis skammstafað WA Br.], Hermann Böhlaus Nachfolger, Weimar 1883–2009, 3, 394 (nr. 800 til Spalatíns 30. 1. 1524). WA Br. 3, 482 (nr. 860 til Jóhanns Rühls 25. 4. 1525). WA Br. 3, 541 (nr. 900 til Nicolas frá Amsdorf). Kurt Aland, Die Reformatoren, 3. útg., Gütersloh 1983, 38. T.d. WA Br. 3, 650 (nr. 956. 28. 12. 1525, bréf Herzogs Georgs til Lúthers). WA TR 2, 165 (nr. 1656). WA Br. 4, 87 (nr. 1017, frá 8. 6. 1525). WA TR 1, 506 (nr. 1007) og WA TR 1, 493 (nr. 974). Karin Bornkamm, „Gott gab mir Frau und Kinder,“ Wartburg-Jahrbuch, Sonderband Eisenach 1996, 75. WA 29, 190 (Predigum 27. 12. 1529). WA TR 1, 505 (nr. 1004). Cl 2, 351 (Vom ehelichen Leben 1522). Cl 2, 352. WA TR 1, 17 (nr. 49). WA TR 1, 554 (nr. 1110). Martin Treu, Katarina von Bora – Biographien zur Reformation, Wittenberg 1995, 70. Martin Treu, Katarina von Bora, 70. WA Br. 11, 298 (nr. 4206). WA Br. 11, 275–276 (nr. 4195 og nr. 4201).