Kirkjan sem björgunarhringur

Kirkjan sem björgunarhringur

Við spyrjum: Hefur safnaðarstarfið orðið virkara s.l. tíu ár? Er kristileg starfsemi almennari og áhrifaríkari nú en áður? Er hægt að bæta og gera núverandi starfshætti og stjórn kirkjunnar árangusríkari þannig að hún geti komið til móts við þær væntingar sem gerðar eru til hennar voru til hennar?
fullname - andlitsmynd Pétur Pétursson
04. ágúst 2009

Jón Sigurðsson skrifar í leiðara Fréttablaðsins 14. júlí: "Þjóðrækni, samvinna og kristni hafa ekki verið í tísku um langt skeið. Þau gleymast í græðginni og efnishyggjunni. En í þeim eru ómetanleg verðmæti. Þau eru bjarghringir." Kirkjan og þjóðarsagan

Undir þessi orð skal heils hugar tekið enda byggja þau á reynslu liðins tíma. Því verður ekki með rökum andmælt að kirkjan hafi verið íslenskri menningu og þjóðfélagi björgunahringur; að prestarnir fyrrum hafi verið fremstir í flokki þeirra sem unnu að framfaramálum sveitanna á grundvelli samvinnu, samábyrgðar og umhyggju fyrir velferð náungans. Þeir hafa í ræðum sínum, sálmum og biblíuskýringum varað við skaðræði græðginnar og efnishyggjunnar. En þessar raddir hafa ekki heyrst sem skyldi, verið hjáróma eða kafnað og e.t.v. hefur ekki verið sami krafturinn á bak við þær og áður.

En viljinn og hugsjónin er fyrir hendi og þá vaknar spurningin hvaða fyrirkomulag henti best til þess að hún fái að njóta sín. Hvernig getur kristilegt safnaðarstarf orðið björgunarhringur þjóð sem er í kreppu, fólki sem skimar eftir leiðarljósi og einstaklingum sem vilja vinna sig saman út úr ógöngum. Nú er verkefnið að bjarga þjóðinni sem heild, efla samstöðu hennar og umhyggjuna fyrir þeim sem standa höllum fæti.

Kristnin í fangi ríkisvaldsins

Fólk ber mikið traust til evangelísku-lúthersku þjóðkirkjunnar og það leitar til presta og í kirkjurnar þegar erfiðleikar steðja að. Flestir bera börn sín til skírnar og biðja með þeim bænir til algóðs Guðs og sonar hans sem er Jesú, bróðir besti. Stjórnvöld gera sér grein fyrir mikilvægi þeirra gilda sem knýja kirkjuna áfram sem félagslegt afl. Þau vilja styðja hana og vernda svo hún geti sem best innrætt hinum ungu kristin gildi og verið farvegur fólks sem hefur ríka réttlætiskennd og þörf fyrir að sem láta gott af sér leiða.

Lengi fannst kirkjunni hin nánu tengsl við ríkisvaldið hindra hana í að ná fram tilgangi sínum. Alþingi fór með löggjafarvald í málum kirkjunnar og setti lög um starfsfólk hennar og ráðherra fór með ákvörðunarvald í flestum málum. Þessir aðilar voru oft áhugalitlir og svifaseinir svo kirkjan taldi sig ekki geta nýtt tækifæri sín sem skyldi til að hafa áhrif á samfélagið og láta til sín taka.

Ríkisvaldið hlustaði á talsmenn kirkjunnar og gaf henni aukið sjálfstæði og frelsi. Það gerðist með samningi ríkis og kirkju um kirkjujarðir og lögum um þjóðkirkjuna sem sjálfstæðs trúfélags sem alþingi samþykkti fyrir 12 árum síðan.

Stjórn, staða og starfshættir dagsins í dag

Síðasta kirkjuþing sendi frá sér til alþingis tillögu að nýjum rammalögum um þjóðkirkjuna sem það vill að komi í staðinn fyrir lögin um stjórn, stöðu og starfshætti þjóðkirkjunnar frá 1997. Ýmislegt er þar til bóta, en annað þarf að skoða betur og kanna nánar í ljósi reynslu umliðins áratugar og með nýjar aðstæður í íslensku þjóðfélagi í huga. Nýja frumvarpið miðar um of að því að viðhalda því fyrirkomulagi sem fest hefur í sessi undanfarinn áratug. Við spyrjum: Hefur safnaðarstarfið orðið virkara s.l. tíu ár? Er kristileg starfsemi almennari og áhrifaríkari nú en áður? Er hægt að bæta og gera núverandi starfshætti og stjórn kirkjunnar árangusríkari þannig að hún geti komið til móts við þær væntingar sem gerðar eru til hennar voru til hennar? Hefur þjóðkirkjan þróast í átt til frekara lýðræðis eins og vonir stóðu til þegar lögin lágu fyrir?

Það er rík ástæða til að hvetja til opinnar og almennrar umræðu um stjórn, stöðu og starfshætti kirkjunnar svo hún megi verða virkari þjóðkirkja. Við tökum undir með Jóni Sigurðsyni í áðurnefndum leiðara þegar hann ræðir um þjóðrækni, samvinnu og kristni og segir: "Einmitt núna er þörf á að brýna þessar hugsjónir fyrir Íslendingum."

Pétur Pétursson er prófessor í guðfræði við Háskóla Íslands. Skúli Sigurður Ólafsson er sóknarprestur í Keflavík.