Reiði

Reiði

Hér er á ferð máttug og frelsandi reiði. Reiði sem gleður. Hvernig má það vera? Svarið er einfalt, reiði Jesú Krists er borin uppi af umhyggju.
fullname - andlitsmynd Jóna Hrönn Bolladóttir
26. október 2008
Meðhöfundar:
Bjarni Karlsson
Flokkar

Þá gengu farísearnir burt og tóku saman ráð sín hvernig þeir gætu flækt Jesú í orðum. Þeir senda til hans lærisveina sína ásamt Heródesarsinnum og þeir segja: „Meistari, við vitum að þú ert sannorður og kennir Guðs veg í sannleika, þú hirðir ekki um álit neins enda gerir þú þér engan mannamun. Seg okkur því hvað þér líst? Leyfist að gjalda keisaranum skatt eða ekki?“

Jesús þekkti illsku þeirra og sagði: „Hvers vegna leggið þið snöru fyrir mig, hræsnarar? Sýnið mér peninginn sem goldinn er í skatt.“

Þeir fengu honum denar. Hann spyr: „Hvers mynd og nafn er á peningnum?“

Þeir svara: „Keisarans.“ Hann segir: „Gjaldið þá keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er.“

Þegar þeir heyrðu þetta undruðust þeir, yfirgáfu hann og gengu burt.Matt 22.15-22

I

Þegar við tökum eitthvað sem er á okkar eigin valdi og gerum það að æðstu uppsprettu allra gilda þá höfum við goldið keisaranum það sem Guðs er. Á hinu forna tungutaki Bibliunnar heitir slíkt atferli skurðgoðadýrkun en á nútímamáli er það stundum kallað að baka sjálfum sér vandræði. Hvort heldur það eru peningar eða þjóðerni eða hæfileikar einstaklingsins eða lögmál markaðarins eða hvaða aðrir þættir tilverunnar sem vera skulu sem við setjum á þann stall að vera æðsta uppspretta allra gilda þá erum við búin að baka okkur vandræði.

Í guðspjalli dagsins er Jesús að takast á við samtíð sína og er að segja einmitt þetta: Ekki gera það sem er takmörkum háð að guði. Gjaldið keisaranum bara það sem honum ber en Guði það sem Guðs er. Gætið þess að gera ekki dauðlega hluti að æðstu uppsprettu allra gilda vegna þess að þá eruð þið að dýrka skurðgoð, baka vandræði.

II

Ein er sú hugmynd sem orðið hefur viðtekin í samvitund okkar Íslendinga sem ég hygg að nú sé rétt að kannast við og taka af stalli sínum svo að hún skapi ekki frekari vandræði. Það er trúin á hinn sterka einstakling. Við höfum trúað því að það sé einstaklingurinn sem lifi og sigri, einstaklingsframtakið sem ráði úrslitum. Jafnframt höfum við treyst því að sérhagsmunir muni leiða til hagsældar fyrir fjöldann, fái þeir að njóta óhikaðs forgangs. Þar höfum við m.a. stuðst við hugmyndir um þróun tegundanna þar sem hæfasti einstaklingurinn hefur völdin og nær að dreifa erfðaefnum sínum en horft markvisst framhjá þeirri staðreynd að það sem ræður úrslitum um viðgang og vöxt í ríki náttúrunnar er ekki fælingarmáttur einstaklinga heldur samstaða hjarðarinnar, hópsins. Það er umhyggjan fremur en getan til árása sem mestu ræður um viðgang tegunda þegar náttúruhamfarir, uppskerubrestir, drepsóttir og utanaðkomandi hótanir ögra. Hæfni hópsins til að deila gæðum, skipta verkum og sætta andstæð sjónarmið ræður því hvort eitt samfélag nái að semja sig að nýjum aðstæðum hverju sinni. Eða hvað? Bíðum við Íslendingar núna eftir einhverjum sterkum leiðtoga, auðmanni eða ofurmenni sem leysa muni efnahagskreppuna? Nei, svo heimsk erum við ekki, við vitum vel að trúin á yfirburði einstaklingsins eru bara öfgar, trúaröfgar. Sagan um sigurvegarann, ofurmennið sem hlýtur ofurlaunin, er goðsögn. Markaðurinn og hans köldu lögmál var eftir allt ekki uppspretta lífsins. Nú þegar nauðsyn ber til snúm við okkur frá ævintýrum og tökumst á við veruleikann, kveðjum skurðgoðin, þökkum þessum þrjátíu aðalleikurum sem við lyftum á stall og drögum lærdóm af atburðum.

III

Önnur hugmynd þarf líka að falla af stalli sínum svo að þjóðfélag okkar megi vaxa til heilbrigðis. Það er trúin á þjóðernið. Þar höfum við mikla lærdóma að draga sem við megum ekki fara á mis við. Þjóð sem talar um hreindýr og tæjur og notar hugtakið pólverji sem regnhlífarhugtak yfir flest sem þykir ögrandi í fari útlendinga hefur goldið keisaranum það sem Guðs er. Hún hefur gert eigið þjóðerni að uppsprettu mannréttinda á annarra kostnað. Líka þetta heitir að baka sjálfum sér vandræði, dýrka skurðgoð. Útlendingar hafa ekki komið hingað til þess að ræna okkur heldur til þess að hreinsa upp skítinn okkar, leggja fyrir okkur gangstéttir, grafa skurði, sinna öldruðum og hverju öðru sem við höfum álitið lítils virði. Við höfum gengið að því sem gefnu að vera stolt af þjóðerni okkar og talið það sjálfsögð réttindi en jafnframt neitað öðrum blákalt um þann rétt. Fyrirlitningin og háðungin sem við nú þurfum að þola er léttvæg í samanburði og hún er heimasmíðuð. Trúin á þjóðernið er ávísun á vandræði rétt eins og trúin á hinn sterka einstakling sem í okkar tilviki hefur orðið að athyglisverðum sambræðingi þar sem þjóðernis- og einstaklingshyggja hefur tvinnast saman og ekki orðið til góðs.

Hin forna hugsun Gamlatestamentisins um skurðgoðadýrkun varar við þessari gildru og bendir á þá vitneskju í sameiginlegu minni mannkyns að æðsta uppspretta gilda má undir engum kringumstæðum vera í höndum manna heldur verðum við að staðsetja hið æðsta, réttlætið sjálft, utan við getusvið okkar sjálfra. Þess vegna heldur trúararfurinn því alltaf fram að Guð einn sé réttlátur og að ekki skuli leggja nafn hans við hégóma. Gullkálfurinn í gamlatestamentinu er ímynd þess gagnstæða, hann er frummynd skurðgoðsins í sagnaminni Biblíunnar. Hér blasir við hverjum sem vill sjá og skilja að Guðsþekking er hagnýt þekking. Það að gjalda keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er, er hagnýt lífsafstaða sem leiðir til farsældar. Það að geta tekið undir með postulanum þegar hann skrifar orðin sem hér voru lesin úr Filippíbréfinu “Föðurland vort er á himni” er vitnisburður um þá visku sem þekkir lífið og þau rök sem til friðar heyra.

IV

Og nú erum við öll svo reið. Og nú erum við öll svo áhyggjufull. Reið og áhyggjufull þjóð.

Í Guðspjalli dagsins er Jesús líka reiður. “Hversvegna leggið þið snöru fyrir mig, hræsnarar!” svarar hann andstæðingum sínum áður en hann biður þá að sýna sér skattpeninginn. Jesús birtist okkur merkilega oft reiður og áhyggjufullur í frásögnum guðspjallanna. Reiði er líkt og brunatilfinning. Hún er lífsnauðsynlegur eiginleiki sem gerir okkur fær um að varðveita heilsu okkar og hag. Sá sem ekki kannast við reiði sína er líkur manni sem verður að láta lyktarskynið duga í stað tilfinningarinnar fyrir því að vera að brenna. Það er ekki gott. En reiðin er þó flóknari en almenn taugaboð. Hún er mikið afl og hún sækir sér orku á ýmsa lund.

Þekktasta reiðfrásögnin af Jesú er sú er hann rak út úr musterinu í Jerúsalem alla þá sem þar guldu keisaranum það sem Guðs er, en sögurnar eru margar fleiri og allar eiga þær einn sameiginlegan tón sem hjálpar okkur til að skilja eðli reiðinnar. Sterk er myndin úr 21. kafla Matteusarguðspjalls er Jesús hefur reiðst í musterinu og orðin þungu hafa fallið: “Hús mitt á að vera bænahús, en þið gerið það að ræningjabæli!” Þá koma blindir og haltir til hans og börn syngja í gleði og áhyggjuleysi í návist hans. Augljóst er að sú reiði sem Jesús tjáir er aðlaðandi. Hér er á ferð máttug og frelsandi reiði. Reiði sem gleður. Hvernig má það vera? Svarið er einfalt, reiði Jesú Krists er borin uppi af umhyggju. Sú reiði sem á rætur í umhyggju er máttug og aðlaðandi. Hún hýrgar augun og gerir okkur glöggskyggn á aðstæður. En reiðin sem sækir kraft sinn í ótta er lamandi og fælandi og gerir menn niðurlúta og ringlaða.

V

“Gjaldið þá keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er” mælti Jesús í reiði sinni, daginn eftir að hann hafði hreinsað musterið, samkvæmt frásögn Matteusar. “Þegar þeir heyrðu þetta undruðust þeir, yfirgáfu hann og gengu burt.” er skrifað. Reiði Jesú frá Nasaret var máttug og vitur. Ég hef hins vegar rekið mig á það iðulega þegar ég hef reiðst að þá er engu líkara en að greindarvísitala mín sé í frjálsu falli. Almenn og hversdagsleg heimska er einkenni þeirrar reiði sem á rætur í ótta. Það þekki ég vel í eigin fari. En ég þekki líka þá reiði sem gerir mig máttuga(n) og skyggna(n) á aðstæður. Ég trúi því að svipað sé ástatt um okkur öll. Mér virðist það vera regla að að því leiti sem reiði mín og áhyggjur eru bornar uppi af umhyggju sé hvorttveggja af hinu góða. En þegar óttinn er drifkraftur reiði minnar og áhyggja mín er vakin af skelfingu, þá er ekki á góðu von.

Hér er komin ein höfuðástæða þess hve mikils virði það er að eiga innra líf. Að eiga augu sem sjá út fyrir þennan heim og greina um leið hönd Guðs að verki í veröldinni. Samfélagið við Jesú Krist, lofgjörðin, þakklætið, feginleikinn sem við megum snúa að honum í öllum aðstæðum er lífgefandi og frelsandi afl. Í trúnni á þann Guð sem einn er réttlátur og einn er góður finnum við þann frið sem æðri er öllum skiningi og varðveitir hjörtu okkar og hugsanir í Kristi Jesú Drottni okkar. (Fil. 4.7)

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi er og verður um aldir alda. Amen.