Vatn og vín

Vatn og vín

Hver veit nema að einhverjir lærisveinanna hafi flissað í fyrstu þegar Kristur skipti svo rækilega um takt í atburðarrásinni, yfirgaf hina gildishlöðnu og dularfullu athöfn við borðið og bjó sig undir það að fara að þvo á þeim fæturna?
Flokkar

Hátíð páskanna var að ganga í garð. Jesús vissi að stund hans var komin og að hann færi burt úr þessum heimi til föðurins. Hann hafði elskað sína, þá sem í heiminum voru. Hann elskaði þá uns yfir lauk. Kvöldmáltíð stóð yfir. Djöfullinn hafði þegar blásið því í brjóst Júdasi, syni Símonar Ískaríots, að svíkja Jesú. Jesús vissi að faðirinn hafði lagt allt í hendur honum, að hann var frá Guði kominn og var að fara aftur til Guðs. Hann stóð upp frá máltíðinni, lagði af sér yfirhöfnina, tók líndúk og batt um sig. Síðan hellti hann vatni í mundlaug og tók að þvo fætur lærisveinanna og þerra með líndúknum sem hann hafði um sig. Hann kemur þá að Símoni Pétri sem segir við hann: „Drottinn, ætlar þú að þvo mér um fæturna?“ Jesús svaraði: „Nú skilur þú ekki hvað ég er að gera en seinna muntu skilja það.“ Pétur segir við hann: „Aldrei að eilífu skaltu þvo fætur mína.“ Jesús svaraði: „Ef ég þvæ þér ekki áttu enga samleið með mér.“ Símon Pétur segir við hann: „Drottinn, ekki aðeins fætur mína, líka hendurnar og höfuðið.“ Jesús segir við hann: „Sá sem laugast hefur þarf ekki að þvost nema um fætur. Hann er allur hreinn. Og þið eruð hreinir, þó ekki allir.“ Hann vissi hver mundi svíkja hann og því sagði hann: „Þið eruð ekki allir hreinir.“ Þegar hann hafði þvegið fætur þeirra, tekið yfirhöfn sína og sest aftur niður sagði hann við þá: „Skiljið þér hvað ég hef gert við yður? Þér kallið mig meistara og Drottin og þér mælið rétt því það er ég. Fyrst ég, sem er herra og meistari, hef nú þvegið yður um fæturna, þá ber yður einnig að þvo hver annars fætur. Ég hef gefið yður eftirdæmi að þér breytið eins og ég breytti við yður. Jóh 13.1-5

Hér í kirkjunni fáum við gjarnan fregnir af merkilegum atburðum. Stundum eru þeir slíkir að það er eins og náttúrulögmálin hafi verið sveigð eða jafnvel brotin. Þær frásagnir greina frá kraftaverkum, atburðum sem standa handan skilnings okkar og þekkingar. Margar slíkar sögur eru í heilagri ritningu og hafa þær hvatt marga til dáða. Fólk bregst við slíkum sögum með ólíkum hætti. Margir álíta þær fela í sér skilaboð, dýrmætan boðskap til Guðs barna um vilja Guðs með lífi okkar. Þegar blindir fá sýn, eyru ljúkast upp og lamaðir ganga – þá vísar það til áhrifamáttar trúarinnar á líf mannsins sem stundum er eins og daufblindur og vanmáttugur til þess að lifa í anda þess tilgangs sem hann er skapaður til. Stundum er túlkunin öll önnur.

Ofurhetjan

Í barnastarfi kirkjunnar fá börnin stundum blað og liti í hendurnar eftir að hafa heyrt kraftaverkafrásagnirnar lesnar. Það bregst þá ekki að sum börnin, oftast strákarnir, teikna Krist sem ofurhetju. Þar hafa þeir fyrirmyndirnar. Ofurhetjuna sem við köllum svo því þær eru ekki venjulegar hetjur sem bjóða hættum byrginn, nei þær búa yfir einhverjum mætti sem er yfir því sem dauðlegir menn ráða yfir og það skýrir töfra þeirra og aðdráttarafl. Víst er það enn ein myndin sem draga má upp af frelsaranum og bætist þar í hóp fjölbreyttra listforma þar sem hver setur hann inn í sitt samhengi.

En nú eru bænadagarnir gengnir í garð og þá fáum við að hlýða á annars konar frásagnir af Kristi. Nú er það ekki hinn sigursæli Jesús sem sigrast á mótlæti með hjálp guðlegra krafta. Á þessum dögum mætir hann okkur í allri mennsku sinni og hógværð. Það er skýr boðskapur með þessum frásögnum sem hefjast á innreiðinni í Jerúsalem og enda þar sem konurnar leggja af stað upp að gröfinni að morgni páskadags eftir ósigurinn og vonbrigðin stóru á föstudeginum langa. Eina kraftaverkið sem Kristur vinnur þessa daga er þegar hann læknar einn af ofsækjendum sínum í garðinum Getsemane eftir að Pétur hafði höggvið til hans með sverði. En jafnvel þar birtist hann okkur ekki sem gerandinn og sá sem valdið hefur – heldur fremur sem þolandinn – hinn passívi þolandi enda er passían ein yfirskrift þessara daga. „Tak þennan kaleik frá mér“ biður hann í garðinum eins og hvert annað fórnarlamb óréttlætis og grimmdar.

Tákn

Kraftaverkin hafa margvíslegan tilgang og í guðspjallinu sem lesið var úr hér áðan, Jóhannesarguðspjalli, eru þau oftast nefnd „tákn“. Kristur vinnur nokkur tákn í því riti – það fyrsta í Brúðkaupinu í Kana þar sem hann breytti vatni í vín. Já, það var fyrsta táknið í þeirri frásögn og nú er eins og sagan nái að umfaðma sjálfa sig. Vínið kemur jú sannarlega við sögu hér á skírdag þegar við minnumst kvöldmáltíðarinnar hinnar síðustu. Bæði vatnið og vínið tengjast þessum dögum. Það er eins og lokist eitthvert ferli í guðspjallinu og okkur mætir tvenns konar veruleiki: Í upphafinu var það jú hátíðin og gleðin. Og „táknið“ vísaði til þess hvernig hið forgengilega vatn umbreyttist í vín sem varðveittist mun betur við þær aðstæður sem menn bjuggu við þá en gruggugt vatnið. Í lokin er það kveðjustundin en um leið orðin mögnuðu sem lukust upp fyrir þeim löngu síðar að vísuðu til stofnunar samfélags kristinna manna á jörðu.

Vatn, vín og blóð

Vatnið og vínið eiga sannarlega sinn sess hér. Nú er það vínið sem umbreytist ef svo má segja. Kristur talar um það sem blóð sitt. „Þetta er blóð mitt sem fyrir yður er úthellt gjörið þetta í mína minningu“. Þannig eru innsetningarorðin og þau tökum við beint úr frásögnum af þessum degi. Nei, vökvinn höfugi og hátíðlegri öðlast nú enn dýpri og varanlegri sess. Hann verður að „tákni“ fyrir fórnina stóru sem Kristur færir okkur með dauða sínum og upprisu. Og um leið verður blóð hans og líkami að tákni fyrir það samfélag sem við hér í kirkjunni eigum. Þetta er líkami minn, þetta er blóð mitt.

Allar götur síðan, já allt frá fyrstu samkomum þeirra safnaða sem kenndu sig við Krist, hafa fylgismenn hans gengið saman að borðinu og tekið við brauði og víni. Þeir ganga að borðinu með veikleika sína og styrkleika, vonir sínar og ótta, samkenni og margbreytileik. Allir eins og ein fjölskylda: Þetta er blóð mitt, þetta er líkami minn. Nú síðast var það í fermingarguðsþjónustum þar sem á annað þúsund manns gekk til altaris með fermingarbörnunum. Við gengum öll fram fyrir altarið eins og vinahópur eða fjölskylda sem safnast til máltíðar. Fyrirmyndin að því var kvöldmáltíðin síðasta.

Flissað að fótaþvotti

Já, svo er það auðvitað vatnið sem dagur þess dregur heiti sitt af: skírdagur. Af viðbrögðum lærisveinanna að dæma er þessi atburður þó engu minni furða heldur en aðrir þeir sem meistari þeirra hafði unnið. Og þar er vatnið í aðalhlutverki. Frásögnin af því þegar Kristur þvær fætur lærisveina sinna vekur stundum upp hlátrasköll í einu og einu fermingarbarni þegar hópurinn fær að heyra þá sögu. Ég játa það að í þágu athyglinnar reyni ég að byggja upp svolitla spennu þegar ég segi þeim frá atburðum skírdagsins. Segi þeim frá því hversu þrungin sú atburðarrás var en skipti svo í einni hendingu yfir í það að Jesús hafi skyndilega þvegið á þeim lappirnar. Og eins og oft vill verða þegar endir góðrar sögu kemur á óvart verður einhverjum skemmt.

Já, það er þessum lærisveinum okkar – fermingarbörnunum – jafn mikil fjarstæða eins og það var lærisveinum Krists á sínum tíma. Hver veit nema að einhverjir þeirra hafi flissað í fyrstu þegar Kristur skipti svo rækilega um takt í atburðarrásinni, yfirgaf hina gildishlöðnu og dularfullu athöfn við borðið og bjó sig undir það að fara að þvo á þeim fæturna. Og ekki bara urðu þeir steini lostnir, Pétur harðneitaði í fyrstu að gangast undir þá athöfn. Þetta var ekki sæmandi leiðtoga. Þessu átti að vera öfugt farið: lærisveinarnir áttu að þvo fætur meistarans.

Áhrifamesta táknið

Ef til vill varð þetta „tákn“ sem þó er hvergi nefnt svo, áhrifameira en mörg þau önnur „tákn“ sem virtust stríða gegn öllum heimsins lögmálum. Þetta var ekki ofurhetjan Kristur sem sum börn draga upp á blað eftir að hafa heyrt sögurnar í Biblíunni. Nei, en sannarlega annars konar ofurhetja. Hetjan sem brýtur öll skráð og óskráð lög ef það verður til þess að skilaboðin dýrmætu komist frekar til skila. Hann vísar til fortíðar og framtíðar. Hann sýnir þeim hvernig hann hafði unnið hjálpræðisverkið fyrir mennina og bendir fram til hins komandi – þegar hann vann sigurinn á dauðanum þeim öllum til handa sem tilheyra hans hópi.

Síðan höfum við í kirkjunni sem kennir sig við fagnaðarerindið, tvö „tákn“ – tvo leyndardóma – tvö sakramenti, sem tengjast þessum tveimur efnum er guðspjallið fjallar um: vatni og víni. Í skírninni erum við lauguð vatni og þá gjarnan sem lítil börn. Því eins og Kristur sagði sjálfur: „Ef ég þvæ þér ekki áttu enga samleið með mér.“ Í skírninni vinnur Guð verkið fyrir okkur og þann skilning undirstrikum við með því að færa ómálga börn fram fyrir skírnarlaugina. Þar erum við send út í lífið með orðin góðu í vegarnesti: „Farið því og gjörið alla að lærisveinum“ Og svo höfum við samastað frammi fyrir altari Guðs á ýmsum tímamótum í lífiu þegar við komum saman eins og ein fjölskylda þar og tökum við hinni hjálpsamlegu gjöf.

Ofurhetjan Kristur, sem börnin teiknuðu svo mörg, sýndi okkur með þjónustu sinni hvar hinn æðsti styrkur liggur. Hann býr í auðmýktinni og fórninni – með því að skapa samfélag í stað þess að sundra því. Og hinn sanni máttur felst í því að geta skapað slíkan veruleika. Þess vegna minnumst við kvalar hans og pínu í dymbilviku. Og í krafti þess höldum við svo páska í minningu þess hvernig lífið sigraði dauðann og kærleikurinn reyndist hatrinu yfirsterkari.

Í Jesú nafni. Amen.

Slm 116.12-19; Pistill: 1. Kor 11.23-29 og Guðspjall Jóh 13.1-15