Sæluboðin og sjálfsmyndin

Sæluboðin og sjálfsmyndin

Sæluboðin fjalla um það sem er ekta, djúpt og hreint í lífinu. Þau eru nefnilega laus við alla yfirborðsmennsku og koma beint að kjarnanum. Þau fjalla um langanir okkar og þrár eftir einhverju dýpra og merkilega. Einhverju sem gefur okkur sanna fyllingu.
fullname - andlitsmynd Guðrún Karls Helgudóttir
02. nóvember 2014
Flokkar

Engin sérstök sæla Þau eru svolítið erfið þessi sæluboð. Þau er bæði falleg og erfið um leið. Það hljómar eitthvað svo undarlega að segja: “Sælir eru syrgjendur því þeir munu huggaðir verða”. Það er sárt að syrgja og ekki veit ég til þess að sorginni fylgi sæla. Og er eitthvað víst að allir syrgjendur verði huggaðir? Hvað með þau sem festast í sorg og biturleika og komast aldrei út úr honum?

Eða, sæl eru fátæk í anda því þeirra er himnaríki. Afhverju munu þau sem eru fátæk í andanum frekar sjá himnaríki en þau sem eru rík í andanum. Já og hvað þýðir það eiginlega að vera fátæk í anda?

Eða, sæl eru þau sem ofsótt eru fyrir réttlætissakir því að þeirra er himnaríki. Ekki get ég séð að það sé neitt sælt við það að vera ofsótt og sér í lagi ef þú er réttlætismegin í lífinu.

Sumt er reyndar skiljanlegra og auðveldara að fallast á eins og, sæl eru hógvær því þau munu jörðina erfa. Ég vona svo sannarlega að það uppfyllist.

Og, "sælir eru friðflytjendur því að þeir munu Guðsbörn kallaðir verða".  Já, því trúi ég.

Já og, sæl eru hjartahrein því að þau munu Guð sjá. Það hljómar bæði fallega og sanngjarnt.

En hvað merkja þessi sæluboð og af hverju erum við að lesa þau upp hér?

Allra heilagra messa Í dag er allra heilagra messa og þá minnumst við þeirra sem látist hafa. Sum okkar fara í kirkjugaðinn í dag og kveikja á kertum á leiðum fólksins okkar sem þar hvílir. Á eftir kl. 14 verður einmitt guðsþjónusta í Grafarvogskirkju þar sem við nefnum nöfn þeirra sem við höfum jarðsungið á árinu, minnumst þeirra og biðjum fyrir fjölskyldum þeirra.

Og á þessum degi, þegar við minnumst þeirra sem við höfum misst lesum við í kirkjunni: “Sælir eru syrgjendur því þeir munu huggaðir verða”.

Gríska orðið sem þýtt er sem sæla á íslensku þýðir guðleg sæla eða blessun sem kemur frá Guði og er ekki hægt að taka frá þér því að Guð hefur snert þig. Þetta er einhverskonar dýpri gleði sem hefur ekki svo mikið með aðstæðurnar að gera. Heldur er eitthvað sem býr í þér þegar Guð hefur snert þig.

Sæluboðin og sjálfsmyndin Það þýði ekki að þú verið alltaf glöð og kát ef þú hefur eignast þessa guðlegu sælu. Ég held að það sé frekar átt við að ef þú ert sátt við sjálfa þig, líður vel í eigin skinni þá ertu sáttari manneskja í grunninn en ef þú ert óörugg og óviss um hver þú ert.

Ef sjálfsmyndin þín er svo veik og brothætt að þú þarft sífellt að sækja staðfestingu á því að þú sért í lagi, til annars fólks þá er voðinn vís.

En á meðan við enn erum börn eða unglingar þá erum við stöðugt að sækja okkur viðurkenningu frá umhverfinu. Ef við fáum heilbrigða svörun við þessari þörf, komumst við smám saman að því að við erum í lagi eins og við erum. Að við þurfum ekki að sækja okkur viðurkenninguna út fyrir okkur sjálf, nema að litlu leyti.

Reyndar tel ég ekki að nokkur manneskja geti byggt upp svo fullkomna sjálfsmynd að hún byggi aldrei líðan sína á áliti annarra. Það getur jafnvel verið dagamunur á sjálfsmyndinni. En við getum þó komist nokkuð langt í að byggja upp góðan grunn. Enda er þessi vinna með sjálfsmyndina stöðug. Við þurfum að vinna með hana allt okkar líf.

Ég held að sæluboðin snúist um sjálfsmynd. Um það að þroskast þannig að við verðum sátt við okkur sjálf og þurfum ekki á stöðugri viðurkenningu annars fólks að halda.

Var Jesús kannski að stappa stálinu í fólk þegar hann kom með sæluboðin?

Var hann kannski að segja að ef þú ert sátt við sjálfa þig og finnur fyrir innri ró og friði, já og trúir því að Guð sé með þér, þá eigir þú auðveldra með að takast á við það sem lífið hefur upp á bjóða. Bæði það góða og það sem er vont og erfitt.

þá verður auðveldara að takast á við sorgina. Þá verður auðveldara að takast á við alla innri vanlíðan. Þá verður auðveldara að vera hógvær og friðsöm. Þá verður auðveldara að láta ofsóknir, öfund og illt umtal sem vind um eyru þjóta.

Sæluboðin fjalla um það sem er ekta, djúpt og hreint í lífinu. Þau eru nefnilega laus við alla yfirborðsmennsku og koma beint að kjarnanum. Þau fjalla um langanir okkar og þrár eftir einhverju dýpra og merkilega. Einhverju sem gefur okkur sanna fyllingu.

Og kannski eignumst við ekki sanna fyllingu fyrr en við höfum fundið til, þráð eitthvað mjög heitt, barist fyrir einhverju sem er okkur kært.

Sæluboðin fjalla um dýptina í manneskjunni og tengsl hennar við sjálfa sig, við Guð og umhverfi sitt. Þau segja okkur eitthvað um hvað það er að vera sönn manneskja. Amen.