Til skýjanna nær trúfesti þín

Til skýjanna nær trúfesti þín

Hvaðan kemur krafturinn? Hann stafar m.a. af þeirri óbilandi trú að byggðin eigi framtíð fyrir sér. Að mannlífið geti blómstrað nú og í framtíðinni.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
19. júlí 2011

Sumarið er tíminn söng Bubbi Mortens. Á sumrin breytist lífstaktur frá því sem er á veturna og við sinnnum garðverkum og fleiru sem tilheyrir sumrinu. Margir kjósa að ferðast um landið og við sem búum úti á landi fáum heimsóknir sem aðeins tilheyra sumrinu.

Frá Bolungarvík er stutt að fara upp á Bolafjall og þegar himininn er heiðskýr er hægt að sjá inn allt Djúp og yfir í Jökulfirði og fyrir Rit. Það er stórkostlegt að standa þar og horfa yfir Djúpið og ósjálfrátt reikar hugurinn til fólksins sem bjó í Sléttuhreppi og Grunnavíkurhreppi, en Sléttuhreppur fór í eyði árið 1952 og Grunnavíkurhreppur árið 1962. Það var háð barátta til að halda byggð þarna og því lýsir t.d. Hallgrímur Jónsson frá Dynjanda í bók sinni „Saga stríðs og starfa“ sem kom út hjá bókaútgáfunni Skjaldborg árið 1983. Og stundum hvarflar að manni að sú lýsing sem dregin er þar upp eigi við í dag, svo mjög eiga byggðir landsins í vök að verjast. Það er reyndar ótrúlegur kraftur sem í landsbyggðarfólki býr því sífellt fækkar þeim sem bera uppi samfélagið og meira reynir á þau sem eftir eru.

Hvaðan kemur krafturinn? Hann stafar m.a. af þeirri óbilandi trú að byggðin eigi framtíð fyrir sér. Að mannlífið geti blómstrað nú og í framtíðinni. Og ekki spillir fyrir stórkostleg náttúra og fjöll sem geta vissulega verið hættuleg en mynda skjól fyrir hvössum vindinum. Hún amma mín, sem fór aldrei út fyrir Vestfjarðakjálkann orti fyrir margt löngu.

Aftanskinið indæla oft mitt gladdi sinni. fjallakyrrðin friðsæla fer mér ei úr minni.

En fyrst og fremst er það trúin á almáttugan Guð sem hefur gefið Vestfirðingum óbilandi kjarkt og kraft til að takast á við dagana. Veraldlegt ríkidæmi var ekki fyrir hendi í hinum horfnu byggðum handan Djúps en þeim mun meira var andlegt ríkidæmi. Þegar börnin fóru að heiman fylgdi þeim bæn um blessun Guðs og trúarvissan um að Guð myndi vel fyrir sjá. Fólkið nærðist af Orði Guðs og treysti því að allt myndi blessast þrátt fyrir harðbýli vetrarins, enda vissi það sem var að eftir vetur kemur vor eins og fram kemur í eftirfarandi vísu eftir ömmu mína:

Sumardagur fyrsti sólskin færir ér, áður grimmur gisti gustur á húsum hér. Eftir vetrar harða hríð kemur sumar sælu með og seður allan lýð.

Allt þetta kemur upp í hugann þegar horft er af Bolafjalli yfir Djúpið og einnig hugsunin um miskunn Guðs, sem þá eins og nú er til staðar. Í hugann koma orð úr 36. Davíðssálmi:

Drottinn, til himna nær miskunn þín, til skýjanna trúfesti þín. Réttlæti þitt er sem hæstu fjöll, dómar þínir sem reginhaf. Mönnum og skepnum hjálpar þú, Drottinn. Hversu dýrmæt er miskunn þín, ó Guð, mannanna börn leita hælis í skugga vængja þinna. Þau seðjast af nægtum húss þíns og þú lætur þau drekka úr lækjum unaðssemda þinna því að hjá þér er uppspretta lífsins, í þínu ljósi sjáum vér ljós.

Já, orð Drottins er uppspretta sem aldrei þrýtur. Þó fólki fækki og á móti blási er þar alltaf styrk að fá. Kraft og kjarkt til að takast á við verkefni daganna og texta til að lofa Drottin fyrir miskunn hans. Njótum sumarsins og sköpunar Guðs og þökkum fyrir að fá að tilheyra honum og sjá ljósið í hans ljósi.