Þjóðkirkja í vari?

Þjóðkirkja í vari?

Hvorki ríkið né kirkjan geta breytt eða slitið núverandi tengslum þessara stofnana. Þetta geta kirkja og ríki ekki einu sinni gert í samvinnu. Það er þjóðin ein sem getur skorið úr því hvort lútherska kirkjan skuli áfram vera þjóðkirkja eða ekki eins og kemur fram í 79. gr. stjórnarskrárinnar.
fullname - andlitsmynd Hjalti Hugason
02. desember 2010

Að kvöldi s.l. þriðjudags ræddi Kastljós við væntanlegan forseta (!) og varaforseta (!) Stjórnlagaþings 2011. Þeim tókst vel að slá tóninn fyrir komandi þingstörf og skapa þinginu traust meðal þjóðarinnar eftir lélega kjörsókn. Nú þarf þjóðin að standa með þingi sínu gegn stjórnmálastéttinni í landinu. Aðeins þannig tekst sú áhugaverða tilraun sem í Stjórnlagaþinginu felst: Að leggja grunn að nýju Íslandi. Snúist fjölmiðlar og/eða þjóðin gegn þinginu missir það marks. Alþingi hefur þá frítt spil með frumvarpið sem frá þinginu kemur. Ef svo fer verður verr af stað farið en heima setið.

Skammgóður vermir

Líklega hafa margir sem láta sig málefni þjóðkirkjunnar varða hlustað grannt eftir því sem fulltrúarnir tveir höfðu um kirkjuskipanina að segja. Bæði virtust sammála um að hún væri ekki eitt af stóru málunum sem fyrir þinginu lægju enda hefði þjóðkirkjan ekki leikið stórt hlutverk í aðdraganda Hrunsins. Ugglaust er það rétt. Samt hefðum við vissulega mátt standa miklu betur í ístaðinu á veltiárunum.

Ugglaust hafa margir andað léttar og litið svo á að þjóðkirkjan væri komin í var fyrir ágjöfinni sem vissulega reið yfir í haust m.a. í aðdraganda kosninganna til Stjórnlagaþings. Þetta var þó skammgóður vermir. Verðandi þingforseti (!) benti nefnilega á næsta mögulega leik í stöðunni er hann nefndi að bera ætti undir þjóðina í sérstakri þjóðaratkvæðagreiðslu hver framtíð þjóðkirkjunnar ætti að vera. Vart þurfti mikið hugmyndaflug til að sjá fyrir sér slíkt þjóðaratkvæði í tengslum við kosningar um frumvarp Stjórnlagaþingsins í hverri mynd sem þær verða og hvenær sem til þeirra verður efnt.

Kórrétt en slæm hugmynd

Þetta er auðvitað alveg kórrétt hugmynd. Samkvæmt 62. gr. stjórnarskrárinnar styður og verndar ríkisvaldið evangelísk-lúthersku kirkjuna „að því leyti“ sem hún er kirkja þjóðarinnar. Hvorki ríkið né kirkjan geta breytt eða slitið núverandi tengslum þessara stofnana. Þetta geta kirkja og ríki ekki einu sinni gert í samvinnu. Það er þjóðin ein sem getur skorið úr því hvort lútherska kirkjan skuli áfram vera þjóðkirkja eða ekki eins og kemur fram í 79. gr. stjórnarskrárinnar.

Hugmyndin um sérstaka þjóðaratkvæðagreiðslu um þjóðkirkjuna er líka mjög praktísk hugmynd fyrir þau sem senn setjast á Stjórnlagaþing og ekki síst þau sem leiða eiga þingstörfin til farsælla lykta á fáum mánuðum. Út frá öllum öðrum sjónarmiðum er hugmyndin hins vegar fráleit. Það væri galið að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um mál af þessum toga án stefnumarkandi umræðu.

Ef 3/4 hlutar þjóðarinnar greiða atkvæði á sama veg og þeir hafa svarað skoðanakönnunum Gallup undanfarin ár vaknar spurningin: Hvaða skipan á að taka við í íslenskri trúmálapólitík? Eiga ein lög að gilda um öll trúfélög hvort sem þau ná til eins prósents þjóðarinnar eða upp undir 80 af hundraði? Þar ekki að setja trúarlega stórveldinu þrengri skorður en öðrum? Eiga e.t.v. engin lög að gilda og trúmál alfarið að vera persónulegt og einstaklingsbundið málefni? Það telja ýmsir. En er það örugglega farsælasta leiðin?

Ef þjóðin hins vegar hrekkur í íhaldsamri gír vaknar önnur spurning: Á þá óbreytt ástand að ríkja e.t.v. langt fram á 21. öldina? Það eru til margs konar afbrigði af tengslum ríkis og trúfélaga. Við verðum að velja það sem best er talið henta samtíðinni. Hvenær er eðlilegra að gera það en í tengslum við Stjórnlagaþing jafnvel þótt niðurstað þess kunni að verða að leggja til status quo?

Stjórnlagaþing 20. eða 21. aldar?

Íslenskt samfélag stefnir hraðbyri í átt til fjölmenningar. Í íslenska fjölmenningarsamfélaginu koma ólíka trúarskoðanir til með að skerpast líkt og gerst hefur í löndunum umhverfis okkur. Þar er hvarvetna tekið að ræða um endurkomu trúarbragða. Ný eða endurskoðuð stjórnarskrá verður að setja leikreglur á þessu sviði samfélagsins eins og á öllum öðrum mikilvægum sviðum og tryggja að þar ríki virðing og janfræði hvort sem um algera jafnstöðu verður að ræða eða ekki.

Stjórnlagaþing verður að búa vel um hnútana þegar um trúfrelsi og stöðu trú- og lífsskoðunarfélaga er að ræða. Það verður líka að tryggja rétt þeirra sem standa utan allra slíkra félaga. Stjórnlagaþing kemst heldur ekki hjá því að gera tillögu um hvort afnema skuli núgildandi kirkjuskipan, breyta henni — t.d. á þann veg að henni verið fyrir komið í lögum en ekki stjórnarskrá — eða afnema með öllu. Taki þingið ekki afstöðu í þessu efni verður það áframhald af 20. öldinni í þessu efni en markar ekki upphaf þeirrar 21. Viljum við þannig Stjórnlagaþing?