Flutt 3. desember 2017 · Hallgrímskirkja (útvarpað á Rás 1)
Jes. 62:10-12; Róm. 13:11-14; Matt. 21:1-9.
Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Í dag er nýjársdagur í kirkjunni. 1. sunnudagur í aðventu markar upphaf kirkjuársins sem hefur sínar árstíðir, helgar og hátíðir. Það er því við hæfi að í kirkjum landsins sé lesið guðspjallið um innreið Jesú í Jesúsalem en þangað streymdi fjöldi fólks á sama tíma til að taka þátt í páskahátíðinni. Við gengum ekki inn í borgina helgu í morgun en við gengum inn um dyrnar Hallgrímskirkju og sem leið lá inn í helgidóminn. Við höfum gengið til móts við Guð og samferðafólk okkar sem komið er hingað í þeim tilgangi að lofa Guð og ákalla og til að heyra hvað hann vill tala við okkur í orði sínu.
Á aðventu og jólum lítum við gjarnan til þeirra sem búa við kröpp kjör og erfiðar aðstæður. Fyrsti sunnudagur í aðventu markar upphaf árlegrar jólasöfnunar Hjálparstarfs kirkjunnar. Við erum hvött til að veita von, allt annað líf, með því að taka þátt í jólasöfnuninni. Vatnsskortur er víðsfjarri okkur hér á landi flesta daga ársins. Það hefur komið fyrir að sumri til að fáir dropar hafi komið úr krana og þá helst í dreifbýlinu en það heyrir til algerra undantekninga.
„Við ætlum líka að halda áfram að byggja hús og vatnstanka fyrir
munaðarlaus börn í Rakahéraði í Úganda. Þau hafa misst foreldrana úr
alnæmi og búa í hreisum við vonlausar aðstæður. Nýtt hús og
vatnstankur, ráðgjöf og stuðningur til skólagöngu gerbreytir aðstæðum.
Allt annað líf.“ segir framkvæmdastjóri Hjálparstarfsins í pistli um
leið og hann þakkar fyrir stuðninginn.
Börn heimsins búa við misjöfn kjör og misjafnar aðstæður. Því miður
virðist það líka eiga við hér á landi. Hjálparstarfið styður einnig börn
hér á landi sem alast upp við kröpp kjör með því að veita skólastyrki,
útvega skóladót, með því að valdefla mæður þeirra, veita ráðgjöf og
styrkja fjölskyldur fjárhagslega. Þetta allt er gert með þinni hjálp
sem svarar kalli Hjálparstarfsins þegar safnanir eru í gangi eins og nú á
aðventunni. Veitum von sem gefur allt annað líf.
Í dag á fyrsta sunnudegi nýs kirkjuárs hefjum við gönguna til hátíðar ljóss og friðar, jólahátíðarinnar. Á litlum ösnufola reið Jesús inn í borgina Jerúsalem. Hann kom ekki eins og valdsins herra, ekki á hesti eins og stríðsmanna er háttur. Hann hagar innreið sinni í Jerúsalem á þann hátt að sýna að hann kemur sem kóngur fullur mildi og auðmýktar. Hann hefur þá mynd af sjálfum sér að vera mildugur en samt máttugur, vera auðmjúkur en samt áhrifamikill. Þau sem honum fylgdu láta í ljós hugmyndir sínar um hann þegar þau hrópa og syngja. Þau segja, hann er spámaðurinn frá Nazaret í Galileu og hann er Sonur Davíðs sem kemur í nafni Drottins.
Hver er Jesús og hvaða erindi á hann við þig? Fleira er vitað um drenginn sem fæddist í Betlehem fyrir rúmum 2000 árum en flesta aðra samtímamenn hans. Saga hans, framkoma, verk og sjálfsmynd voru skráð og hafa lifað allt til dagsins í dag. Boðskapur hans og sagan um hann hefur borist mann fram af manni. Fólk hefur verið snert og snortið af honum og fengið að reyna að hann lifir og honum má treysta. Fólk hefur komið saman í hans nafni og það er hin eina sanna kirkja.
Kirkjan í heiminum hefur það hlutverk að koma boðskap Jesú til skila í
orðum og í verkum. Þess vegna tekur hún þátt í hjálparstarfi.
„Sérstaða Hjálparstarfs kirkjunnar er að vera kirkjutengd stofnun sem
byggir á grasrótarstarfi í nærsamfélaginu. Innanlands starfa
félagsráðgjafar Hjálparstarfsins með prestum og djáknum, félagsþjónustu
sveitarfélaga, öðrum hjálparsamtökum, stofnunum og ráðuneytum að úrlausn
verkefna en ekkert er skipulagt án þess að notendur þjónustunnar séu
hafðir með í ráðum,“ segir upplýsingafulltrúi Hjálparstarfsins í pistli.
„Í mannúðaraðstoð og þróunarsamvinnu liggur styrkur Hjálparstarfsins í samvinnu við hjálparstofnanir sem þekkja staðhætti á verkefnasvæðum. Þær þekkja söguna og menninguna en það auðveldar skipulagningu og útfærslu aðstoðar. Þær eru jafnframt áfram á svæðinu eftir að alþjóðlegri aðstoð lýkur og geta mælt árangur hennar. Þá er alþjóðlegt hjálparstarf kirkna unnið í náinni samvinnu við hjálparstofnanir Sameinuðu þjóðanna og eftir ströngustu stöðlum um faglegt hjálparstarf.
Hjálparstarf kirkjunnar á Íslandi er lítil stofnun í stóra samhenginu en hún nýtur þess að hennar helsti samstarfsaðili í þróunarsamvinnu er Lútherska heimssambandið, en fleiri en 2,7 milljónir jarðarbúa nutu aðstoðar þess á árinu 2016.“ Tengslanet kirkjunnar nær því um allan heim og virkar vel þegar koma þarf upplýsingum eða hjálpargögnum til þurfandi bræðra og systra.
Það er einnig styrkur Þjóðkirkjunnar að hafa þéttriðið net í kringum
landið okkar þar sem þjónustan er veitt í nærsamfélaginu, hvenær sem
kallað er, á degi sem nóttu.
Eins og við heyrðum í guðspjallinu fylgdu margir Jesú þegar hann reið
inn í Jerúsalem nokkrum dögum fyrir krossfestingu sína. Fólkið þekkti
spádómana um soninn hennar Maríu og hlutverk hans. Þau tengdu og voru
viss um að Jesús væri sá sem talað var um í Biblíu þeirra. Þau þekktu
sögurnar sem höfðu lifað mann fram af manni.
Ég hitti erlendan mann í haust sem er frá landi þar sem ekki mátti iðka
trúnna nema í felum. Hann þekkti ekki til Biblíunnar eða kristinnar
trúar. Hann er fulltrúi lands síns á Vesturlöndum og sagðist hafa lesið
alla Biblíuna þegar hann kom til Evrópu. Ég skildi ekki menninguna og
listina í ykkar heimshluta sagði hann fyrr en ég var búinn að lesa
Biblíuna. Þá skildi ég táknin og tilvísanirnar, formin og litina.
Hvað munu börn framtíðarinnar skilja ef þau mega ekki fræðast um það
lífsviðhorf sem mótað hefur vestræna menningu og íslenska þjóð?
„Konungur þinn kemur til þín“ segir í guðspjallinu og er þar átt við
Jesú. Það er boðskapur fyrsta sunnudags í aðventu. Hann kemur. Við
tökum á móti. Okkar er valið. Hann kemur til þín sem hefur allt til
alls og hefur ekki áhyggjur. Hann kemur til þín sem sem býrð í kuldanum
í Laugardalnum, til þín sem býrð við fátækt. Hann kemur til þín sem
gleðst yfir öllu því góða sem þú hefur og þakkar fyrir. Hann kemur til
þín sem ert reið/reiður, kvíðin/n, örvæntingarfull/ur, til þín sem ert í
prófatíð, til því sem vilt hjálpa öðrum og gefur þér ráð og styrk til
þess. Hann kemur en þú ræður hvort þú býður honum inn í hús þitt og
líf. Hann kemur ekki fram sem valdsins herra, heldur auðmjúkur og
miskunnsamur. Jesús veitir von og gefur annað líf.
Í upphafi kirkjuársins erum við minnt á að veita meðbræðrum okkar og systrum von með því að taka þátt í söfnun Hjálparstarfsins. Fólkið sem fylgdi Jesú inn í Jerúsalem tjáði gleði sína, frelsi og von með orðunum: „Hósanna syni Davíðs! Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins! Hósanna í hæstum hæðum!“
Megi aðventan færa okkur gleði og von, í Jesú nafni.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.