Kirkjugrið

Kirkjugrið

Hér á Íslandi hefur kirkjan öðlast dýrmæta reynslu eftir atburðina í Laugarneskirkju og af þeim getum við öll dregið lærdóm. Áfram þarf að sinna þeim sem standa höllum fæti og mæta fordómum. Um leið þurfum við að gæta þess að valda ekki skaða og hugleiða að kirkjugrið snúa ekki eingöngu að þeim sem standa utan kirkjudyranna og leita inngöngu. Þau eiga ekki síður við um okkur sem stöndum inni í hinu helga rými. Kirkjugrið gera ríkar kröfur um varkárni, alúð og vandvirkni sem á að einkenna allt kristið hjálparstarf.

Haustið 2009 vorum við hjónin á ferð í Berlín. Um það leyti minntust heimamenn þess að tuttugu ár voru frá því að múrinn féll og einræðisstjórnin hrökklaðist frá völdum. Myndir af þeirri atburðarrás voru á spjöldum um gjörvalla borgina og fór ekki á milli mála að kirkjur og prestar léku þar stórt hlutverk. Samfélagið austantjalds byggði á yfirlýstu trúleysi og hafði á sinni stefnuskrá efnis- og vísindahyggju. Staða kirknanna var á hinn bóginn svo sterk að innan veggja þeirra hófst í raun andófið sem átti svo eftir að ná út á göturnar í fjölmennum mótmælaaðgerðum. Bænastundir fóru fram í helgidómum Berlínar, Dresden og fleiri borga austantjalds. Þangað söfnuðust listamenn og andófsmenn sem ræddu málin og fundu hljómgrunn fyrir þeim samfélagsbreytingum sem fólkið kallaði eftir.

Kirkjugrið

Þessum samkomum var ekki í fyrstu ætlað að vekja mikla athygli. Sá var ekki tilgangurinn. Þetta var vettvangur fyrir fólk sem kom saman í öruggu skjóli kirkjunnar sem hafði frá fornu verið staður fyrir þá sem vildu flýja ofbeldi og órétt. Þarna gátu menn talað saman, beðið, sungið og smám saman vatt þetta upp á sig með slíkum hætti að þegar Þjóðverjar, tveimur áratugum síðar, minntist þess þegar múrinn hrundi birtu þeir myndir af þessum atburðum.

Nú er fjallað um kirkjugrið hér á Íslandi með vísan til þess að hið forna naut fólk friðar innan veggja helgidómsins. Allt á sér sögu og forsendur. Þegar prestar voru skikkaðir til einlífis á miðöldum, misstu þeir þá vernd sem ættarsamfélagið veitti, þar sem fjölskyldan hefndi þess sem beittur hafði verið órétti. Ókvæntir og barnlausir áttu þá í fá hús að venda. Fyrir vikið þurfti að efla varnir fyrir kirkjunnar þjóna og var þeim hótað bannsetningu sem sýndu klerkum ofbeldi. Helgidómurinn hafði sérstöðu. Allt miðaði þetta að því að viðhalda þeim frið sem nauðsynlegur var kirkjunni til framdráttar.

Heimildir eru vissulega um að kirkjugrið hafi verið rofin á miðöldum og sakamenn sóttir með vopnum inn í helgidóminn. En frá því er líka greint í annálum eins og þegar sagt er frá undrum og stórmerkjum sem voru frávik frá hinu hefðbundna. Lengi býr að fyrstu gerð og staða kirkjunnar sem friðarstaður og griðarstaður er sterk þrátt fyrir breyttar forsendur. Á erlendum málum er forkirkjan enn kölluð ,,vopnahús” því þar áttu kirkjugestir að leggja frá sér vopnin áður en haldið væri inn í kirkjuskipið. Þetta átti ekki aðeins við um sjálft húsnæðið. Í kringum kirkjur mynduðust markaðir, þar sem bændur og verslunarmenn töldu sig njóta öryggis í skjóli helgidómsins. Þangað hélt fólk með varninginn eftir messu þar sem fjöldinn var saman kominn og lífleg viðskipti áttu sér stað.

Griðin taka á sig nýja mynd með nýjum tímum. Tilvikin frá Austur-Þýskalandi eru fjarri því einsdæmi. Þau eiga sér hliðstæður í kirkjum blökkumanna í Bandaríkjunum á eftirstríðsárunum, í Suður Ameríku á dögum herforingjastjórna og í Suður Afríku á tíma aðskilnaðarstefnunnar. Þau umbótaöfl sem fundu kröftum sínum farveg í skjóli kirkna áttu það sameiginlegt að stefna að friðsamlegum breytingum og í flestum tilvikum nutu þau líka ákveðinna griða. Kirkjurnar stóðu á þann hátt ofan við átakalínur stjórnmála en reyndust búa yfir mætti sem nægði til að breyta ótrúlega miklu.

Laugarneskirkja

Og nú er kirkjan komin í sviðsljósið á Íslandi. Sjaldan er það af góðu. Stundum færist hún of hægt að mati róttækra, stundum göslast hún áfram að áliti hinna íhaldsamari. Kirkjugrið eru vissulega merkilegt fyrirbæri en kirkjan sem slík nýtur ekki mikilla griða fyrir kröfuhörðum samtímanum. Sú aðgerð að bjóða flóttafólk inn í Laugarneskirkju er á margan hátt í anda þeirrar hefðar sem hér er lýst. Þar reis fólk upp gegn því sem misbýður réttlætiskennd þess. Það er lofsvert. Samviska kristins manns byggir á boðskap Ritningarinnar þar sem okkur er boðið að ala önn fyrir okkar minnstu systkinum. Spámenn Gamla testamentisins minntu Ísraelsmenn á að eitt sinn voru þeir útlendingar og gestir í framandi landi og því bar þeim að sýna slíkum einstaklingum umhyggju og gestrisni. Já, það er ekkert að því að kirkjur séu slíkir griðarstaðir og kirkjugrið eru til staðar þótt það sé í mjög breyttri mynd .

Það sem vekur nú reiði margra er hvernig framkvæmdina bar að. Hún fór fram með þeim hætti að þar voru vandasöm störf laganna þjóna, eiðsvarinna að framfylgja lögum og reglum, dregin fram í sviðsljósið. Það hlýtur að vera ömurlegt að þurfa að handtaka fólk en lögreglan á engra annarra kosta völ. Fyrir vikið er það mjög skiljanlegt að það skuli fara fyrir brjóstið á þeim og starfssystkinum þeirra að kastljósi skyldi varpað á þá við sín störf. Sá friðsæli staður sem kirkjan er, varð vettvangur þar sem þeir voru úthrópaðir fyrir að sinna störfum sínum. Hugsunin var sannarlega kærleiksrík, að bjóða hröktum einstaklingum skjól, sálgæslu og fyrirbæn en í fjölmiðlum og á netinu virtist aðgerðin hafa verið hávaðasöm og særði marga sem töldu sig eiga annað skilið af hálfu kirkjunnar.

Starf kirkjunnar á að fara fram með ákveðnum hætti. Þar býr sú forysta og leiðsögn sem hún á að sinna. Sagan sýnir hversu miklu kristið samfélag hefur fengið áorkað með því að starfa í anda Krists þar sem unnið er að því að efla, græða, styrkja og hlúa að því sem þarf umhyggju og alúð. Þar býr sú sanna forysta sem fær svo miklu áorkað. Kirkjugrið gera miklar kröfur til þeirra sem vilja njóta þess friðar. Þar þarf að gæta þess að rjúfa ekki griðin með fyrirferð og hávaða.

Getum við sent þau heim? Guðspjall dagsins er eitt af þessum velþekktu og það talar inn í þá stöðu sem við stöndum frammi fyrir á öllum tímum. Oftast höfum við lesið textann með hugann við Krist sem var þar í meginhlutverki. Þarna er lýst hungri og illum aðstæðum úti í auðninni, rétt eins og við stöndum frammi fyrir á öllum tímum í mannlegu samfélagi. Kristur orðar þetta vel: Er hægt er að senda fólk heim til sín, hrakið og hungrað eða hvort rétt sé að bregðast við og bæta úr neyð þess? Það er að sönnu kunnuglegt siðferðilegt álitamál.

Jesús mætti ekki neyð fólksins í fyrstu. Nei, hann spurði lærisveinana hvað þeir teldu rétt að gera. Allt eru þetta sterk skilaboð. Það er fjarri því kristilegt og að leggja hendur í skaut þegar á móti blæs og láta Guð um að bjarga öllu saman. Hérna eru mennirnir ekki strengjabrúður almáttugs afls, heldur er ábyrgðin á þeirra höndum.

Sagan af því þegar Jesús mettar fjöldann er frásögn af einstaklingum sem breyttu aðstæðunum til hins betra – rétt eins og dæmin sýna að kristið fólk hefur gert í gegnum tíðina. Þeir lögðu fram það litla sem þeir áttu - örlítið af fiski og smábrauði – sem dugði engan veginn til að mæta þessari miklu neyð. Í framhaldinu varð kraftaverkið. Fjöldinn fékk fyllingu sína.

Svona getum getum við sjálf starfað ef viljum bæta þennan heim sem við erum hluti af. Og það er köllun okkar og skylda. Hún á að fara fram með þeim hætti að það særi ekki eða meiði. Ef athyglin kann að valda skaða þeim sem síst skyldi, er rétt að halda henni í lágmarki. Það þarf ekki að draga aðgerðir okkar fram í sviðsljósið. Sagan um þetta litla framlag sýnir hversu miklu við getum breytt er við leggjum okkar af mörkum.

Ekki valda skaða Þetta er í raun andlag allrar siðfræði. Læknaeiðurinn sem kenndur er við hinn gríska Hippókrates hefst á þessum orðum: ,,Umfram allt, ekki valda skaða”. Og þar er gefinn tónninn til framtíðar í læknislistinni. Henni er augljóslega ætlað að bæta líf fólks og sinna þeim sem ekki geta staðið á eigin fótum. Einmitt þess vegna er þessi skýra krafa sett fram um að læknirinn þurfi að gæta hófs í störfum sínum og þjónustu. Fyrst og fremst þarf hann að hugleiða það að hann má ekki skaða aðra. Þetta á við um allt okkar starf sem miðar að því að auka farsæld og vellíðan. Taumhaldsskyldan er ríkari verknaðarskyldunni. Sú afstaða gengur í gegnum alla réttlætishugsun allt til okkar daga.

Þjónusta kirkjunnar við hælisleitendur á að vera unnin með sama hætti og önnur störf þar sem leitast er við að hlúa að, sinna og mæta þörfum fólks. Allt skal það vera innan þeirra siðferðilegu marka sem, til að mynda, læknaeiðurinn hvílir á. Með þeim hætti getum við orðið eins og lærisveinarnir í guðspjallinu. Við leggjum fram okkar takmarkaða skerf til réttlætis og bætts samfélag í þeirri trú að gjafir okkar muni margfaldast í höndum Krists. Það er fullkomlega í anda þeirrar köllunar kristinna manna, að ala önn fyrir systkinum okkar utan úr heimi sem leita hér skjóls undan átökum og skorti. Eftir þessum sjónarmiðum unnu þeir í Austur-Þýskalandi þegar kirkjur stóðu þeim opnar sem vildu ræða málefni samfélags og kölluðu á umbætur. Þetta var ekki fjölmennt í fyrstu - en eins og brauðin og fiskarnir fjölgaði óðum á kirkjubekkjum og svo leitaði fólkið út á torgin.

Hér á Íslandi hefur kirkjan öðlast dýrmæta reynslu eftir atburðina í Laugarneskirkju og af þeim getum við öll dregið lærdóm. Áfram þarf að sinna þeim sem standa höllum fæti og mæta fordómum. Um leið þurfum við að gæta þess að valda ekki skaða og hugleiða að kirkjugrið snúa ekki eingöngu að þeim sem standa utan kirkjudyranna og leita inngöngu. Þau eiga ekki síður við um okkur sem stöndum inni í hinu helga rými. Kirkjugrið gera ríkar kröfur um varkárni, alúð og vandvirkni sem á að einkenna allt kristið hjálparstarf.