Miskunn og mannúð

Miskunn og mannúð

Það eru jól að sýna þeim kærleika sem á þurfa að halda hvort sem það er flóttafólk með veik börn eða öryrkjar og aldraðir Íslendingar. Við verðum að standa vörð um að landið okkar haldi áfram að vera kristið svo við kunnum að sýna kærleika. Ef við gleymum boðskap Jesú Krists, gleymum við líka að við erum kölluð til að sýna miskunn og mannúð.

Náð sé með yður og friður frá Guði og Drottni Jesú Kristi og gleðilega jólahátíð, kæru nágrannar og vinir!

Já, gleðileg jól! Falleg er hún kveðjan sem við berum hvert öðru á aðventunni og enn fegur hljómar hún þegar jólin sjálf hafa gengið í garð. Gleðileg jól! Segjum við með öðrum blæ strax á aðfangadagskvöld og svo kemur enn annar blær í röddina þegar við óskum hverju öðru gleðilegra jóla a sjálfan jóladaginn. Það er hátíðlegt að koma til kirkju og fá að heyra jólaguðspjallið um barnið í jötunni. Við fengum reyndar að heyra það hér í þessari kirkju strax í upphafi aðventu þegar börnin úr Grunnskólanum hér á Hólum sýndu helgileik og léku öll hlutverk bæði í tali og í tónum af miklum snilldarbrag. Já, boðskapur jólanna hefur heyrst á aðventunni þó ýmislegt annað hafi líka glumið í eyrum eins og auglýsingar og jólasveinasöngvar.

En elskum við ekki jólasálmana og alla fallegu jólasöngvana sem ganga langflestir út á það að vera heima um jólin og að vera saman um jólin. Já, hún er undarleg þessi hátíð sem við tökum svo langan tíma í að undirbúa, hátíð þar sem hver er heima hjá sér. Enginn stórviðburður sem við förum á eins og þjóðhátíðina eða útihátíðir um verslunarmannhelgi eða landsmót hestamanna. Nei, þetta er hátíð sem allir halda heima hjá sér eða heima hjá pabba og mömmu eða heima hjá börnunum sínum og hver fjölskylda hefur sína siði, siði sem breytast lítið frá einu ári til annars.

En það eru þó viðburðir sem tengjast þessari hátíð sem ekki fara fram heima, nema ef við hlustum á í útvarpi. Það eru hátíðaguðsþjónusturnar í öllum kirkjum um allt land. Á Íslandi er ótölulegur fjöldi af kirkjum með stuttu millibili, en það er messað nánast á þeim öllum um jól.

Ég heimsótti yfir 20 kirkjur í Húnavatnssýslum í haust og þar var það jólamessan sem skipti öllu, alveg sama hve fáir bjuggu í sóknunum. Það er ótrúlega mikill fjöldi fólks sem sækir kirkju um jól. Það er ekki aðeins í stóru kirkjunum á höfuðborgarsvæðinu heldur í öllum kirkjum um allt land. Og ennþá fleira fólk hlustar á útvarpsguðsþjónustur kl. sex á aðfangadagskvöld og kl. 11:00 í morgun þó aldrei sé hlustað annars og horfa á sjónvarpsguðsþjónstuna kl. tíu á aðfangadagskvöld. Hátíðaguðsþjónustur um jól sameina okkur sem þjóð nefnilega miklu meira en við höldum. Þær eru samofnar sálarlífi þjóðarinnar á afar sterkan hátt. Ef við horfum til baka til ársins 2015 þá hafa þau sem glöggt hafa fylgst með fréttum og fréttamiðlum eflaust tekið eftir því að árásir á kirkjuna hafa verið harðar.

Margir af hinum frjálsu vefmiðlum hafa lagst á eitt með að gera kirkjuna tortryggilega og ósamkvæma sjálfri sér. Ég tek undir með biskupi Íslands sem sagði það í blaðaviðtali nú rétt fyrir jólin að þau sem þekkja kirkjustarf af eigin raun eru að alla jafna mjög ánægð með það og treysta kirkjunni vel. Það eru hins vegar þau sem ekki þekkja hið fjölbreytta starf kirkjunnar sem hafa sem hæstar gagnrýnisraddir á lofti. Það er annars ótrúlegt hve margir geta verið á móti kristnum boðskap, þessum milda og ljúfa kærleiksboðskap, en áróðurinn er sterkur og fólki er jafnvel talið trú um að boðskapurinn sé hættulegur. Þessu þurfum við öll sem unnum kristnum boðskap að vinna gegn og upplýsa fólk um hver kjarni kristinnar trúar er. Annars er það mín skoðun að við þurfum ekkert að óttast. Þetta hefur oft gerst áður í áranna rás.

Kristinn boðskapur var bannaður fyrst um sinn í Rómaveldi og austantjaldaríkin bönnuðu kristinn boðskap meðan kommúnisminn var þar við lýði. Í Póllandi, Sovétríkjunum og Kína var allt gert til að drepa niður boðun kristinnar trúar, en boðskapurinn lifði þrátt fyrir það. Kristinn boðskapur hefur staðið af sér allar ofsóknir og mun standa af sér þær mótbárur sem við nú verðum fyrir. Kristinn boðskapur mun lifa -af því að Kristur lifir. Kristur er upprisinn og lifir hér mitt á meðal okkar og gefur okkur kraft til að lifa og starfa í hans anda.

Það er annars undarlega mikill samhljómur í jólaguðspjallinu og páskaguðspjallinu. Í jólaguðspjallinu segir eftir að engillinn hefur birst hirðunum: Þegar englarnir voru farnir frá þeim til himins sögðu hirðarnir sín á milli: “Förum beint til Betlehem að sjá það sem gerst hefur og Drottinn hefur kunngjört okkur. Og þeir fóru með skyndi og fundu Maríu og Jósef og barnið í jötunni. En í páskaguðspjallinu segir þegar engillinn hefur kunngjört konunum við gröfina frá upprisunni: Og þær fóru með skyndi frá gröfinni með ótta og mikilli gleði og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin. Við báða þessa atburði koma englar við sögu sem tala við venjulegt fólk. Í báðum sögum fyllist fólk ótta og lotningu. Og í báðum sögum hleypur fólk af stað til að segja frá.

Enn þann dag í dag fær fólk köllun til að segja frá. Enn þanna dag í dag vilja fleiri fá að verða prestar hér á landi en þau sem fá prestsstarf. Kristinn boðskapur brennur á okkur og við megum aldrei gleyma því hversu mikilvægur hann er.

Engum hefur hingað til tekist að þagga hann niður og engum mun takast að þagga hann niður vegna þess að hann boðar það sem er mikilvægast af öllu í þessu lífi sem er kærleikurinn.

Inntak jólanna er: Frelsari er fæddur. Jesús frelsar okkur frá öllu illu. Og hvað er þetta illa sem hann frelsar okkur frá? Það eru ill verk okkar sem við sjáum daglega í fréttatímum sjónvarpsins. Það eru ill verk okkar sem við hvert og eitt okkar erum alltaf að glíma við viljandi eða óviljandi.

Jesús hjálpar okkur til að vinna gegn öllu því erfiða sem við erum að fást við innra með okkur á hverjum degi. Hann hjálpar okkur að lifa í kærleika. Getur þetta verið hættulegur boðskapur? Árið 2015 hefur verið sérstakt ár. Á mánudaginn var kom milljónasti flótamaðurinn til Evrópu.

Við höfum fylgst með straumnum á sjónavarpsskjánum dag eftir dag. Yfir 6000 manns konur og börn hafa drukknað í Miðjarðarhafinu á þessari leið og enn fleiri hafa bæst við nú allra síðustu daga. Hörmungarnar sem fólkið er að flýja eru ólýsanlegar og sú mannlega grimmd sem skapað hefur þetta ástand. Jólin tala beint inn í þessar aðstæður.

Það var stærsta og mesta andstæða jólaboðskaparins sem var viðhöfð þegar tvær albanskar fjölskyldur með langveik börn voru flutt úr landi um miðja nótt.

En það var síðan jólaboðskapurinn í hnotskurn sem var raungerður þegar þeim bauðst íslenskur ríkisboragarréttur korteri fyrir jól. Það eru jól að opna faðm sinn fyrir þeim sem eru þurfandi.

Það eru jól að sýna þeim kærleika sem á þurfa að halda hvort sem það er flóttafólk með veik börn eða öryrkjar og aldraðir Íslendingar. Við verðum að standa vörð um að landið okkar haldi áfram að vera kristið svo við kunnum að sýna kærleika. Ef við gleymum boðskap Jesú Krists, gleymum við líka að við erum kölluð til að sýna miskunn og mannúð.

Ég er stolt af því að við hér heima á Hólum höfum lýst okkur tilbúin til að taka á móti flóttafólki og ég bið góðan Guð að það megi verða að veruleika. Jólin boða: Jesús er hér. Guð með okkur. Immanúel. Það er svo gott að finna fyrir þessari nærveru sem hvetur til alls góðs.

Mig langar til að enda þessi orð mín hér á þessum jólum á fallegu ljóði sem góðvinur minn Sigurbjörn Þorkelsson hefur gefið mér leyfi til að lesa hér í dag og ber yfirskriftina: Burt með hann

Þeir fjarlægðu frelsarann úr skólunum. Og reyna nú að plokka hann burt úr páskunum og jólunum.

En hann finnur sér ávallt farveg sem lækur hjá liljunum og fjólunum, frá hjarta til hjarta til að hugga, veita von og þeim sem vilja, framtíð bjarta. Við þurfum því ekkert að óttast, og höfum engu að tapa.

Því hann ávallt er að skapa ný tækifæri og laga sig að breyttum tíma og aðstæðum. Þótt hann ætíð hinn sami sé og orð hans, andi og máttur, kærleikur og friður, vari að eilífu. (Sigurbjörn Þorkelsson)

Guð gefi okkur öllum gleðileg jól.