Bæn: Drottinn, algóður Guð réttlætis og fyrirgefninnar. Blessaðu íslensku þjóðina. Leið okkur ekki í freistni, heldur frelsa okkur frá illu.
Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi.
Kæri söfnuður! Ég segi söfnuður því Strandarkirkja á stóran söfnuð. Fólk um allt land hugsar hingað, nefnir þessa kirkju og það sem hún stendur fyrir, í bænum sínum og sendir kirkjunni áheit og kemur hingað þegar messur eru auglýstar, já ekki aðeins þá - heldur alla daga ársins og hér verður að halda kirkjuvörð á sumrin til að sjá um húsið og svara spurningum ferðamanna. Söfnuður þessarar kirkju vill eiga hlutdeild í helgisögunni um það sem gerðist hér á sjávarbakkanum og á hafinu útifyrir í aftakaveðri þegar ekki var annað sýnt en að skip mundi farast. Þá var útlitið dökkt og álagið mikið skipshöfninni. Verkefni hennar var að flytja farminn heim, en það var skipverjum ofviða, verkefni sem þeir kláruðu ekki og hugur þeirra var í uppnámi. En þá báðu þeir til Guðs, sem þeir trúðu á og treystu að væri bjargið eilífa, trúðu því að hann gæti jafnað vegi hins réttláta og gert braut hans beina. Í bæn sinni nefndu þeir nafn stjörnu hafins, máttugasta dýrling trúar sinnar, Maríu guðsmóður, tákn kirkjunnar. Þeir voru bænheyrðir . Þeir sáu leiðarljós og sigldu skipinu ósködduðu inn í Engilsvík hér rétt fyrir neðan kirkjuna. Þeir stóðu við áheit sitt og byggðu fyrstu kirkjuna hér, kirkju sem var þeim eins og hin nýja Jerúsalem, borgin helga sem steig niður af himni. Sjálfsagt hafa þeir líka farið með Faðirvorið. Við þekkjum öll bænina: „Leið oss ekki í freistni“. Í sálminum segir einnig: „Við freistingum gæt þín og falli þig ver.“ Hugtakið freisting í Biblíunni hefur dýpri og víðtækari merkingu en í daglegu tali. Við tölum um freistingu sem afmakaða syndsamlega athöfn, en orðið merkir það að reyna, að reyna á krafta einhvers og freisting verður þá sama sem raun eða reynsla. Freistingarnar eru prófsteinn á vilja okkar og getu. Ef við stöndumst ekki prófið þá er talað um freistingu sem synd. Við viljum forðast að lenda í aðstæðum þar sem svo mikið reynir á okkur að við gefumst upp og missum vonina, hættum að trúa á og treysta Guði.
„Leið oss ekki í freistni“, biðja þeir sem leggja út á hafið með dýrmætan farm. Er ekki eins og íslenska þjóðin sé stödd í stórsjó og óttist um velferð sína og tilveru - þjóð sem sér ekki til lands og skimar eftir leiðarljósi? Það er talað um þjóðargjaldþrot og missi sjálfstæðis og þjóðfrelsis. Íslensk þjóð biður: „Leið oss ekki í freistni heldur frelsa oss frá illu.“ Freistingarnar geta verið margvíslegar og þær birtast okkur í mörgum myndum og aðdráttarafl þeirra verður því sterkara sem við fjarlægjumst trúna á kærleiksríkan og réttlátan Guð. Þegar við biðjum þannig erum við ekki að tala um einhvern hégóma eða smásyndir. Þessi bæn skírskotar til lífsreynslu kynslóðanna og reynslu sem getur heltekið okkur öll sem einstaklinga. Í freistingunum blindast augu okkar á forsjón Guðs og við missum tengslin við frelsunarsöguna, sem er hulin í veraldarsögunni, hinni ytri sögu heimsviðburðanna, stjórnmálasögunni, efnahagssögunni. Guð kristinna manna er skapari himins og jarðar og sköpunarverkið, náttúran í öllum hennar hrikalegu og dásamlegu myndum, ber vitni um vald hans og hátign, um gæsku hans og örlæti. Það er traustið til Guðs og þekking hans á verkum hans sem gefur spámanninum kraftinn og vissuna.
Við höfum fundið það síðustu misserin að ritningartextarnir sem tilheyra hinum ólíku dögum kirkjuársins tala til okkar með sérstökum hætti sem þjóðar og einstaklinga. Það er eins og þeir lifni við. Þeir nálgast veruleika okkar, eru ekki lengur eins og fjarlæg tvö eða þrjú þúsund ára bókmenntaverk, helgisögur sem koma okkur ekki við. Nei það er bókstaflega eins og við séum stödd mitt í veruleika biblíunnar. Spámaður dagsins er einn mesti spámaður sem Ísraelsþjóðin eignaðist í hörmungum sínum og örvæntingu gagnvart ógnum erlends valds, herleiðinga og hallæra vegna plága. Það er ljóst að hann er að tala til þjóðar upplifað hrun, misrétti og skort. Jesajaritið er samsett af fleiri en einu spámannariti og skrifað á löngum tíma, öldum fyrir Krists burð. Um leið og spámaðurinn útmálar þjáningar þjóðarinnar og bendir á leiðina út úr ógöngunum vaknar hjá honum vitundin um Messías, um frelsarann, sem hann nefnir hinn líðandi þjón, þjáningarmanninn, sem tekur á sig syndir mannanna. Jesú frá Nasaret þekkti þetta rit og fann lífi sínu, dauða og upprisu stað í messíasarhugmyndinni. Fagnaðarerindið er eins og framhaldsaga spádómsbókar Jesaja. Kristnir menn sjá þar spádóminn um komu Krists í ófullkominn heim, fallinn heim, heim þar sem stórveldin rísa og hrynja.
Á stórum stundum í lífi íslensku þjóðarinnar hefur hún verið minnt á frelsunarsöguna og þar hefur hún leitað huggunar og þar hefur hún glaðst á hátíða- og sigurstundum. Biskup landsins fagnaði lýðveldistökunni á Lögbergi í pedikun í guðsþjónustu sem þar var haldin 17. júní 1944. Hann minnti á þá gæfu þjóðarinnar að geta nú fagnað lýðveldi á tímum þegar aðrar þjóðir fórnuðu hjartablóði sín fyrir frelsið í báli heimsstyrjaldarinnar, og segir: „Lýðveldishugsjóninni er ekki náð fyrr en þjóðin er frjáls hið innra jafnt sem hið ytra. Fyrr en hún er göfug og andlega sterk þjóð. Fyrr en hún hefir skrýðst skrúða þess frelsis, sem skapar henni farsæld og innri frið.“ Einn af stjórmálamönnum og skólamönnum landsins skrifar nýlega í leiðara eins dagblaðanna, áhyggjufullur út af því álagi sem hvílir á þjóðlífinu og einstaklingunum um þessar mundir: „Þjóðrækni, samvinna og kristni hafa ekki verið í tísku um langt skeið. Þau gleymast í græðginni og efnishyggjunni. En í þeim eru ómetanleg verðmæti. Þau eru bjarghringir. Einmitt núna er þörf á að brýna þessar hugsjónir fyrir Íslendingum.“ Það er ekki nokkrum vafa undirorpið að þjóð sem á sér slíka börgunarhringi og grípur fast í þá - hún á framtíðina fyrir sér. Spámaðurinn sem boðar komu Messíasar og talar kjark í þjóð sína sér lengra en aðrir, hefur yfirlit yfir söguna og hefur ekki misst sjónar af máttarverkum Drottins og hann veit hvert stefnir. Á sigurdegi þeirrar þjóðar sem treystir Guði verður sungið: „Vér eigum rammgera borg, múrar og virki voru reist henni til varnar. Ljúkið upp hliðum svo að réttlát þjóð, sem varðveitir trúnað, megi inn ganga, þjóð sem hefur stöðugt hugarfar. Þú varðveitir heill hennar því að hún treystir þér. Treystið Drottni um aldur og ævi því að Drottinn er eilíft bjarg.“
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda, amen.
Takið postullegri blessun:
Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með okkur öllum. Amen.