Við fjösum stundum um það, við kirkjunnar fólk, hversu lítið nútíminn þekkir til frásaga Biblíunnar og þess annars sem þar stendur.
Góði hirðirinn
Ég ætla svo sem ekki lengra út í þá sálma en orna mér við þá tilhugsun að allir viti hvað átt er við þegar talað er um Góða hirðinn. Já, þetta er sú líking sem við getum sagt að skipti höfuðmáli í samtali Jesú við lærisveina sína: „Ég er góði hirðirinn“ segir hann af ýmsu tilefni og heldur svo áfram með þessa samlíkingu, ber hana gjarnan saman við andstæðu sína, leiguliðann sem lætur sér ekki annt um hjörðina.
Sennilega kemur þó upp önnur mynd í huga Íslendingsins þegar Góða hirðinn ber á góma. Það er staðurin þar sem hlutirnirnir okkar hafa viðkomu áður en þeir vonandi enda í höndum einhverra annarra. Í Góða hirðinum má jafnvel finna alls kyns muni, allt frá fánýtu dóti sem ætti fremur heima í ruslagámi og yfir í hönnunarvörur sem fólk flaggar í húsbúnaðarþáttum.
Já, Góði hirðirinn ber nafn með rentu. Á þessum undratímum sem við lifum er hefur verðmætamat fólk snúist upp í andhverfu sína. Allt fram á síðustu tíma hafa veraldlegar eignir verið fágæt verðmæti sem fólk hefur haldið upp á, kynslóð af kynslóð, en í dag er ofgnóttin slík að við köllum það kærleiksverk að losa okkur undan fargi munanna.
Það fór að sama skapi vel á því að páskaleikrit útvarpsins skyldi vera helgað þessari verslun. Það hafði reyndar ólíkan titil – Vondi hirðirinn var það kallað og ég gat ekki látið það framhjá mér fara. Illskan hefur jú eitthvert aðdráttarafl fyrir utan það, að ég beið spenntur eftir hinni trúarlegu tilvísun. Auðvitað hlýddi ég á þessa þætti alla sem einn.
En meinið var þó ekki slíkt að Vondi hirðirinn fengi hárin á mér til að rísa. Frásögnin snerist um að hann eignaðist eitthvert dót í fyrrnefndri verslun, fyrir smáaura og hafði svo fyrir því að finna upphaflegu eigendurna. Eigurnar voru verðlausar og gagnslausar fyrir aðra en þá sem höfðu glatað þeim úr fórum sínum. Þarna var til að mynda postulínsvasi sem dyggum starfsmanni sveitarfélags hafði verið afhentur og var nafn hans letrað á gripinn. Filma var sett í framköllun og þar mátti sjá hópmynd af fólki á ferðalagi um landið.
Vondi hirðirinn skilaði þessu aftur til sinna fyrir eiganda. Hann fór þveröfuga leið, leysti fólk ekki undan því oki að halda utan um allt þetta dót, heldur einmitt þvert á móti. Þar var nú öll illskan getum við sagt.
Jesús talar um hirða í þessu guðspjalli og varar við þeim sem hann segir vera þjófa og ræningja. Satt að segja hafa ýmsir gagnrýnt þessa líkingu í gegnum tíðina. Hvaða hlutskipti bíður annars hjarðarinnar? Fer hann ekki með hana í slátrun? Einhvern tíma gerði slíkt hret síðsumars að lömbin fennti í kaf og þá fóru röskir björgunarsveitarmenn út um sveitir og björguðu þeim. En þó ekki lengra en svo að lömbunum var ekið beina leið í sláturhúsið.
Já, hvers eigum við að gjalda ef þetta er samlíkingin sem dregin er upp af okkur? Er einhver munur á góðum hirði og vondum ef örlög fjárins eru þau sömu?
Og hjálpi mér – hversu viðeigandi er þessi líking ekki þegar við rennum í huganum í gegnum mannkynssöguna, nú eða alla hirðana sem við eltum í hugsunarleysi á okkar dögum. Það eru einmitt þeir sem selja okkur meðal annars varninginn sem við ráðum ekki við að farga. Í úthöfum flýtur plastið í risastórum flekum og það er bæði djúpt og breitt. Við kunnum engin ráð til að farga því en eltum gylliboðin eins og sauðir.
Samlíkingin við hirði og hjarðir var þó alþekkt hið forna. Við hlýddum hér á félaga úr Háskólakórnum lesa ádeilu Jeremía spámanns á hirði sem bregðast hlutverki sínu. Þessi orð eru hluti þeirrar trúarpólitísku ádeilu sem við lesum í ritum hinna svokölluðu spámanna. Hann líkir ráðamönnum við afleita hirða, já vonda, og væntanlega vísar hann til þess þegar þjóðin varð herleidd í kjölfar mikils ósigurs.
En góður hirðir setur sig í spor þeirra sem hann leiðir áfram. Hann þekkir þau sem hann leiðir og orðið ,,að þekkja" er á frummálinu einnig notað yfir farsælt samband hjóna. Þar tekur hann á sig hlutskipti fylgjenda sinna, þjónar þeim af ástúð og leiðir þau á farsælan stað. Um þetta sungum við í sálminum fallega hér áðan. Hann er því eitt með sinni hjörð og boðskapur þess átti eftir að ljúkast upp fyrir fylgjendum hans þegar hann gekk inn í dauðann. Við sem kristinn söfnuður erum því ekki kölluð til að fylgja í blindni, láta leiða okkur út á háskabrautir eða til tortímimingar. Nei, traustið sem Jesús kallar okkur til ef af öðrum toga. Það byggir á því að við fylgjum honum af þeirri löngun að sú fylgd leiði okkur til farsældar.
Þannig verður textinn eitt dæmið enn um þá trúargagnrýni sem við lesum í Biblíunni. Vondu hirðarnir í því sambandi eru þeir sem nota nafn Jesú til að aflvegaleiða. Það eru loddararnir sem hafa unnið boðskap kristninnar meira ógagn en yfirlýstir andstæðingar hennar hafa nokkurn tíma gert.
Já, og svo er það auðvitað sú vitund að hlutskipti hirða hefur aldrei þótt vera eftirsóknarvert, í sinni upprunalegu mynd. Hirðar voru ungir menn af litlum ættum sem þurftu að taka þetta hlutskipti á sig, rétt eins og þeir sem hér voru nefndir.
Á Íslandi í gamla daga, voru þeir kallaðir smalar og frásagnir lýsa óblíðri meðferð á þessum börnum, því oftar en ekki voru þeir kornungir. Það var ekki lítil byrði á herðum þeirra að fylgjast með því að hver einasta kind kæmist klakklaust ofan af heiðum og í túnið heima áður en rökkvaði. Ella voru þau sendir aftur frá bænum og út í nóttina til að finna sauðina týndu.
Enn í dag syngjum við um ófarir eins af nafntogaðasta smala Íslands, hans Sigga sem var úti með ærnar í haga. Það var ekki lítið á drenginn lagt og hætturnar voru ýmist af þessum heimi eða öðrum. Hvert erindi endar á þeim orðum að aumingja Siggi hafi farið grátandi heim. Honum hefur verið meinuð innganga í bæinn ef búsmalinn var uppi á heiði. Líklegra er að barninu hafi verið ætlað að bjóða hættunni byrginn og halda upp á fjöll til móts við ærnar.
Óvenjulegur hirðir
Það er engin ástæða til að ætla að annað hafi gilt um þann hirði sem Jesús líkir sér við. Hann talar ekki um að hlutskipti sitt sem eftirsóknarvert. Þvert á móti setur hann sig í spor þessarar undirokuðu starfsstéttar sem mátti þola hættur, kulda og einangrun í verkefnum sínum. Með þessari lýsingu er kveðið við gamalkunnan tón í ritningunni, þar sem hið ákjósanlega líf er ekki endilega það sem felur í sér mest þægindi og munað. Þar er miklu fremur átt við tilveru sem er rík að innihaldi og merkingu. Þar erum við með fyrirmyndina sem gengur veginn á undan, sýnir hvers virði það er að eiga sér brennandi hugsjón, starfa í anda frelsis og sannfæringar.
Vondi hirðirinn í útvarpsþáttunum vann vissulega engin fólskuverk. Eigendur hlutanna höfðu í einhverri fljótfærni losað sig við þá og voru fremur sáttir við að fá þá aftur í hendurnar. Ádeilan beinist ekki að honum sjálfum, heldur snýr vonskan í titlinum fremur að því samfélagi sem flýr ábyrgð sína og ákvarðanir.