Andstæður jólanna

Andstæður jólanna

Jólin bera líka með sér andstæður góðs og ills. Það þekkjum við vel úr íslenskum þjóðsögum þar sem fyrir koma jólasveinar, tröll og grýlur og hvernig ljós jólanna rekur á brott alla illa vætti.

Jólin eru full af andstæðum.

Fyrst er til að nefna andstæður ljóss og myrkurs, en á þessum dimmu skammdegisdögum sjáum við ekki sólina hér á Hólastað í tvo mánuð frá 20. nóvember til 20. janúar, en nú er daginn farið að lengja og við vitum af sólinni á bakvið fjöllin og njótum birtu hennar þó hún sé ósýnileg. Þannig er það líka með nærveru Guðs. Við finnum fyrir nálægð hans þó við sjáum hann ekki berum augum.

Jólin bera líka með sér andstæður góðs og ills. Það þekkjum við vel úr íslenskum þjóðsögum þar sem fyrir koma jólasveinar, tröll og grýlur og hvernig ljós jólanna rekur á brott alla illa vætti.

Jólin bera með sér andstæður gleði og sorgar því aldrei er sorgin eins sár og á jólum og við söknum á jólum ennþá meira en aðra daga þeirra sem við syrgjum og eru ekki lengur á meðal okkar.

Það er stórkostleg upplifun fyrir mig að vera hér á Hólum í Hjaltadal á jólum og heyra kirkjuklukkunum hringt. Lítil frænka mín spurði pabba sinn um daginn:

Er það Lalla frænka (en ég er kölluð Lalla) sem bjargaði honum Andrési? Þetta fannst mér gaman að heyra því barnið skynjaði að sá sem hringir kirkjuklukkunum hér á Hólum bægir burtu tröllunum sem eru vond og bjarga Andrési, sem sennilega er góði kallinn í þessu gamla jólasveinalagi.

Það hafa annars verið undarlegir dagar núna fyrir jólin fyrir okkur sem fylgst höfum með fréttum að fylgjast með örlögum strokufangans frá Litla-Hrauni. Sjálfsagt hefur fólk fylgst misjafnlega vel með, en á okkar heimili var fylgst með fréttum á klukkutíma fresti til að fregna af fanganum. Þetta hefur næstum verið eins og í bíómynd, en ef við hugsum grant út í þessar fréttir, þá eru þær fyrst og fremst um ógæfusaman dreng, sem gæti verið sonur okkar, bróðir okkar eða barnabarn. Það var því mikil gleði og léttir þegar fréttir bárust af því á aðfangadagsmorgunn, að drengurinn var kominn fram. En svo skall á andstæða gleðinnar þegar fretter bárust af því að ungi maðurinn var settur í einagrun. Og svo var það í fréttum í hádeginu í dag að hann hafi verið hræddur við samfanga sína. Hræddur.

Það er mikið talað um ótta og hræðslu í jólaboðskapnum. Í báðum sálmunum sem við erum búin að syngja í dag er sungið um ótta og hræðslu, bæði í sálminum: Í dag er glatt í döprum hjörtum og sálminum: Sjá himins opnast hlið.

Og í jólaguðspjallinu er líka talað um hræðslu. Engillinn segir: Verið óhrædd.

Við þurfum ekki að vera hrædd af því Jesús er kominn í heiminn. Jesús er fæddur í Betlehem. Jesús er alltaf með okkur.

Já, andstæðurnar birtast svo sannarlega líka í jóaguðspjalinu sjálfu:

Þar er fátækt fólk á ferð. Ekkert pláss er fyrir þau neins staðar og þau eiga hvergi höfði sínu að halla. Þau eignast barn við ömurlegar aðstæður innan um dýr í fjárhúsi. Þó dýrðarljómi sé yfir þessu í huga okkar þá hafa þetta ekki verið skemmtilegar aðstæður til að eignast sitt fyrsta barn. Andstæðan við þessar ömurlegu aðstæður er englakórinn sem birtist hirðunum á Betlehemsvöllum. Hirðarnir fá að upplifa himneskan söng, fá að upplifa nærveru Guðs á sérstakan hátt og fá að boða hinum nýbökuðu foreldrum gleðitíðindi. Andstæðurnar sem birtast í þessu öllu saman sameinast í Jesú Kristi. Fyrir mér er jólaboðskapurinn fyrst og fremst boðskapur Jesú Krists.

Boðskapur Jesú um frið og kærleika. Allt sem Jesús sagði. Allt sem Jesús gerði. Allt sem Jesús var og er ennþá.

Við þurfum öll á Jesú að halda. Við höfum öll gengið í gegnum einhverja erfiðleika. Spyrjum okkur: Hvað hjálpaði þá?

Við eigum öll eftir að glíma við einhvern vanda. Við skulum undirbúa okkur undir þann vanda með því að rækta samfélag okkar við Jesú. Þannig gerum við okkur viðbúin undir þann vanda og tilbúnari til að takast á við hann.

Það kann að vera að við séum einmitt núna að glíma við eitthvað sem virðist óleysanlegt. Þá skulum við hugsa til þess að Jesús er með okkur tilbúinn til að senda okkur hjálp, styrk og kraft.

Jólin boða okkur andstæður myrkurs og ljóss. Því skulum við alltaf hafa það í huga að í þeirri baráttu sigrar myrkrið ekki því eitt af því sem Jesús sagði er:

Ég er ljós heimsins. Hver sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífisins. Í þessum orðum er Jesús ekki að tala um skammdegismyrkrið hér úti, heldur myrkrið sem stundum er innra með okkur. Myrkrið sem lætur okkur líða illa innra með okkur. Inn í þetta myrkur kemur Jesús með ljósið sit tog hjálpar okkur til að líða betur.

Jólin boða okkur að hið illa sigrar ekki hið góða því tröllin og Grýla flýja þegar kirkjuklukkunum er hringt. Því skulum við koma til kirkju í hvert sinn sem við heyrum í kirkjuklukkum.

Jólin boða okkur að sorgin sigrar ekki gleðina. Þær eru systur þessar tvær, sorgin og gleðin og haldast í hendur því við syrgjum það sem var gleði okkar.

Í Betlehem gerðist Guð maður. Guð vildi sýna okkur hver hann er og það sýndi hann okkur í Jesú Kristi. Það sem var ósýnilegt varð sýnilegt. Og Jesús Kristur kom í þennan heim til að sigra dauðann og gefa okkur eilíft líf með sér.

Það eru gleðifréttir jólanna.