Framtíðarbarn kirkjunnar: um djáknaþjónustu í söfnuðum Þjóðkirkjunnar

Framtíðarbarn kirkjunnar: um djáknaþjónustu í söfnuðum Þjóðkirkjunnar

Mig dreymdi um að byggja upp nærsamfélag í söfnuði í gegnum samtal og samveru fullorðinsfræðslu. Mig dreymdi um að hlúa að trúarlífsþroska fullorðins fólks á öllum aldri og efla söfnuði sem málsvara félagslegs réttlætis með skapandi hópastarfi sem smitar út í þjóðfélag okkar.

„Börnin eru framtíð kirkjunnar“ hefur hljómað sem endurtekið stef á yfirstandandi sparnaðartímum Þjóðkirkjunnar. Að hlúa að kirkjuvenju og trúarlífi barna er gott, þarft og verðugt verkefni sem á alltaf að sinna. Ég lít þó ekki á börnin sem framtíð kirkjunnar heldur nútíð. Börn vaxa fljótt úr grasi og foreldrar eru aldrei ofminntir á að njóta og nota æsku barna sinna sem best því þetta eru árin sem koma aldrei aftur. Þess vegna þarf að leggja alúð við barnastarfið núna. En hvað tekur svo við þegar barna- og æskulýðsskeiðinu í lífi fólks lýkur innan kirkjunnar?

Einu sinni var ég framtíð kirkjunnar. Ég sótti barnastarf kirkjunnar. Í dag er ég fullorðin. Það er löng og viðburðarík saga þar á milli, þroskandi reynsla og vöxtur. Af einlægri þrá skapandi köllunar, og kannski guðfræðilegri rómantík í bland, valdi ég seint og um síðir að mennta mig til þjónustu á kirkjulegum vettvangi. Ekki langaði mig að verða prestur því mér fannst það starf þrengra skilgreint, ef svo má að orði komast, en sú þjónusta sem hugur minn stóð til. Kærleiksþjónustan lýsti mínum hugðarefnum betur og því valdi ég þriggja ára nám í djáknafræðum við HÍ og starfsþjálfun Þjóðkirkjunnar. Að því loknu lauk ég tveggja ára meistaragráðu í guðfræði erlendis með áherslu á sálgæslu og list því ég vildi víkka enn frekar sýn mína og burði. Jafnframt því lauk ég einnig vottuðu réttindanámi í verklegri sálgæslu á sjúkrahúsi (CPE, Clinical Pastoral Education). Þetta kostaði tíma, vinnu, álag, fjarveru frá fjölskyldu og himinháa námslánaskuld.

Draumurinn

Ég spyr því eðlilega í dag: hver er framtíð mín í kirkjunni? Ég vissi að ég gæti ekki gengið að því gefnu að fá vinnu í Þjóðkirkjusöfnuði eða á stofnun að námi loknu. En ég veit heldur ekki hvernig ég get farið að því að finna eða fá þar vettvang til að iðka það sem ég lærði og kann. Ekki einasta er samdráttur viðvarandi en líka, er ég hrædd um, viss skammsýni gagnvart möguleikum framtíðarbarna kirkjunnar, kirkju sem þarf að gera svo margt öðruvísi en tíðkast hefur. Mig dreymdi um að sinna húsvitjunum til fólks sem á ekki heimangengt í eftirfylgd áfalla og missis. Mig dreymdi um að byggja upp nærsamfélag í söfnuði í gegnum samtal og samveru fullorðinsfræðslu. Mig dreymdi um að hlúa að trúarlífsþroska fullorðins fólks á öllum aldri og efla söfnuði sem málsvara félagslegs réttlætis með skapandi hópastarfi sem smitar út í þjóðfélag okkar.

Óraunsætt? Kannski. Barnalegt? Kannski. Öll börn dreymir um hvað þau vilja verða þegar þau verða stór. Svo mikið er víst að þau verða ekki í barna- og æskulýðsstarfi fram eftir öllu. Ef Þjóðkirkjusöfnuðir leggja ekki rækt við fullorðinsstarf líka munu framtíðarbörnin hafa að litlu að hverfa þegar þau leita í kirkjunnar rann á fullorðinsárum. Ég hef af fullri alvöru velt þeim möguleika fyrir mér að athuga hvort ég kæmist að sem sjálfboðaliði í einhverjum velviljuðum söfnuði til að sinna þessum hjartans málum mínum. Það er víst að þetta eru þörf verkefni og verkamenn vantar sárlega.

En þá fer ég að hugsa hvort það sé sanngjart gagnvart mér að ég sinni slíku án endurgjalds þegar stöku hljóðfæraleikarar fá borgað fyrir að spila stólvers í messu eða tvítugt aðstoðarfólk í æskulýðsstarfi fær borgað fyrir tveggja tíma viðveru. Er það sanngjarnt að ég með margra ára sérhæft háskólanám fái ekki greitt fyrir sérþekkingu mína sem gerir mér kleift að sinna verkefnum af fagmennsku? Það grefur undan trúverðugleika menntunarinnar. Yrði ég tekin alvarlega sem sjálfboðaliði, yrði ég fullgild í starfsmannahópi kirkjunnar og meðal skjólstæðinga, með áhrif og umboð til góðra verka? Mér finnst frekar hæpið að safnaðarprestur geti boðið skjólstæðingi sínum í sorg að fá voða góða konu úr söfnuðinum í heimsókn til að spjalla. Það er einfaldlega ófaglegt og ekki á þeim forsendum sem ég get hugsað mér að vinna eftir með fólki á ögurstundu. Á meðan ég er sjálfboðaliði ávinn ég mér ekki réttindi til lífeyrissjóðs, veikindadaga, sumarleyfis né viðurkenndrar starfsreynslu í ferilsskrá. Ég borga ekki af námslánunum með því. Ég hef enga framfærslu af sjálfboðastarfi. Ég get ekki séð að ég byggi undir framtíð mína með slíkri góðmennsku. Í stað þess að vera framtíðarbarn kirkjunnar verð ég að fortíðardraug.

Hindrunarhlaupið

Kærleiksþjónusta kirkjunnar er erindi hennar við samtímann á hverri stundu og á þann vettvang er djákninn sendur. Djáknum hefur verið sagt upp, stöður þeirra lagðar niður og ekki ráðið í þær stöður sem losna. Í ofanálag gerist þetta því miður oft framhjá settum reglum Þjóðkirkjunnar um djáknaþjónustuna. Þegar ég hóf að skrifa þennan pistil í sumar vissi ég að níu djáknar væru starfandi við söfnuði á landinu. Við prófaarkalestur komst ég að því að þeir væru komnir niður í átta. Eftir það hætti einn að eigin frumkvæði og var ráðinn guðfræðingur í staðinn. Einn djákni til viðbótar missti vinnuna og annar djákni sem áður var sagt upp var endurráðinn til að sinna molum sem eftir stóðu af hans fyrra starfi í samlegð við störf þess sem missti vinnuna á hinum staðnum. Þar var tveimur störfum steypt saman í eitt. Einn söfnuður stofnaði til nýs djáknaembættis svo þar bættist djákni í hópinn. Eftir allar þessar sviptingar á stuttum tíma eru starfandi djáknar í söfnuðum enn átta ef tölfræði mín er rétt. Starfsöryggi djákna er mjög tæpt og óboðlegt. Er líklegt að fólk sem ráðið er og svo sagt upp eftir því hvernig fjárhagsvindar blása frá ári til árs vilji skuldbinda sig til að stökkva aftur á næsta kirkjulega starf sem býðst? Þetta er líka særandi fyrir þau sem fyrir því verða. Með slíkri hentistefnu í ráðningum djákna kallar kirkjan yfir sig spekileka og mannauðstjón auk þess sem verkefni falla milli skips og bryggju. Það tekur minnst þrjú ár að staðfesta nýja þjónustu/verkefni og því er það einfaldlega fúsk og söfnuðum til vansa að haga djáknaþjónustu með þessum hætti.

Til að bæta salti í sárin þá hefur því miður komið fyrir að djáknar séu ekki ráðnir á jafnræðisgrundvelli. Stundum hafa stöður ekki verið auglýstar heldur fólk ráðið eftir að hafa, jafnvel árum saman, puðað sem sjálfboðaliðar eða verktakar til að sanna sig og einurð sína. Þetta á við um fleiri en djákna. Ég samgleðst fólki sem fengið hefur vinnu eftir slíkt basl en verð að viðurkenna að ég dæsi innra með mér að svona gerist kaupin á eyrinni. Vildarvinavæðing á ekki heima í kirkjunni. Hún ræktar upp kúltúr girðinga og útilokunar. Kirkjuleg þjónusta á ekki að vera hindrunarhlaup fyrir þau sem eiga ekki hauk í horni. Framtíðarbörn kirkjunnar eiga ekki öll samfellda sögu innan hennar og koma til hennar eftir ólíkum leiðum. Eiga þau að vera framandi förumenn í fordyrinu?

Ef ég ætti eina ósk

Er þessi pistill þá eftir allt saman bara svona bú-hú væl yfir því að kannski verði ég aldrei djákni? Alls ekki. Draumur minn er ekki aðeins að verða djákni. Draumur minn í dag er mjög hófsamur, 20% staða við að sinna húsvitjunum í eftirfylgd áfalla og missis, á faglegum grunni í formlegum farvegi teymisvinnu. Hvort ég eigi einhvern tíma eftir að verða djákni er allt annað mál. Það eru jú aðeins sárafáir djáknar í söfnuðum á öllu landinu. Svo þarf líka að hafa í huga reglur Þjóðkirkjunnar um að vígja ekki til þjónustu sem er minna en 40% stöðugildi. Með því útilokar kirkjan frá þjónustu þau sem hafa skerta starfsgetu. Hvað segir það um kirkjuna? Það er efni í annan pistil. En eins og er langar mig bara að geta gert það sem ég kann. Ég veit að við erum fleiri í þessum sporum. Þetta er ekki fortíðarþrá, þetta eru ekki framtíðarórar. Þetta er raunhæft og aðkallandi nútíðarverkefni og ég er viss um að það er fólk þarna úti sem bíður eftir mér. Vill einhver senda mig?