Biblíumyndirnar hennar Sossu

Biblíumyndirnar hennar Sossu

Biblíumyndirnar fylgdu börnunum út úr kirkjunni og inn í þetta umhverfi. Svo þegar æskan birtist í afturskininu fá þessi tengsl nýja merkingu og nýja vídd.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
03. september 2007

Hugleiðing við lok málverkasýningar Sossu í Keflavíkurkirkju 2. september kl. 17:00  

Nú sígur á seinni hluta ljósanætur og hér komum við saman í Kirkjulundi við svolítið óvenjulega uppákomu sé litið til annarra viðburða þessa helgi. Hér erum við ekki að opna málverkasýningu eins og svo margir hafa gert undanfarið heldur bindum við enda á glæsilega sýningu sem hefur verið uppi í sumar eða frá uppstigningardegi í maí síðastliðnum. Við höfum því haft næði til þess að velta fyrir okkur málverkunum hennar Sossu og leiða hugann að merkingu þeirra.  

Myndlist og trú En áður en lengra er haldið er rétt að staldra við þessi tengsl myndlistar og trúar sem hafa verið talsvert í umræðunni undanfarið og það ekki af góðu. Deilurnar vegna teikninganna af Múhameð kunna að virka fjarstæðukenndar fyrir okkur Vesturlandabúa en rétt er þó að hafa í huga að rætur þeirra liggja í þeim sameiginlega grunni sem er að baki gyðingdómi, kristinni trú og Íslam. Allar sækja þessar hefðir uppruna sinn til Gamla testamentisins en þar er að finna gagnrýni á það þegar fólk gerir eftirmyndir af sköpunarverkinu og jafnvel bann við slíku athæfi eins og kemur fram í annarri Mósebók. Þetta eru trúarbrögð hins ritaða máls. Myndlist og málverk voru þar framanaf hornreka ólíkt ritlistinni og tónlistinni sem skipuðu þar stóran sess. Listþörfinni fengu menn gjarnan fullnægt með nostursamlegum skreytingum á bókstöfum og texta.   Þessi hugsun hefur skotið upp kollinum af og til í gegnum tíðina. Eitt af einkennum gyðinga og síðar kristinna manna í Rómaveldi birtist í því hversu mótfallnir þeir voru því að tilbiðja afsteypur af keisurum og dauðum hlutum. Á siðbreytingartímanum unnu sumir hópar mótmælenda tjón á helgidómum er þeir fjarlægðu þaðan myndir og máluðu yfir altaristöflur og skreytingar. Sú afstaða átti þó ekki upp á pallborðið hjá Marteini Lúther sem var jákvæður í garð myndlistar og studdist gjarnan við hana í ritum sínum og predikunum. Þessi fyrirvari gagnvart myndlist sem ríkt hefur í hinum gyðingkristna heimi hefur ekki haft mótandi áhrif á kirkjuna í þessum heimshluta.  

Skyld tjáningarform Sem tjáningarform á myndlistin líka margt sameiginlegt með trúnni. Listamaðurinn horfir á viðfangsefni sitt og túlkar það með skapandi hætti og opnar augu okkar fyrir því sem við sundurgreiningin og flokkunin færir okkur ekki aukinn skilning á. Þvert á móti þá kallar listin fram ný atriði og nýja sýn. Þannig er því einnig háttað með trúna sem túlkar umhverfi mannsins með annars konar hætti: Þar er náttúran sköpunarverk, hæfileikarnir eru gjöf, verkefnin eru köllun, markmiðin eru æðri tilgangur, þjónustan er vettvangur lífsins og í okkar minnsta bróður mætum við sjálfum Kristi Jesú, eins og hann orðar það sjálfur. Þetta má að sönnu kalla aðra sýn á veruleikann og tilraun til þess að rjúfa hlekki hins fábrotna og hefðbundna.  

Og rétt eins og kristindómurinn sækir í hjálpræðissöguna er myndlistamaðurinn ríkulega nestaður af myndmáli og hefð sem hann getur sótt í með skírskotun til viðurkenndra viðmiða. Hann getur speglað tímalaus gildi í hversdagslegu umhverfi og viðfangi og notað til þess túlkunarheim lita og forma og frásagna sem hefja hið fábreytta upp í aðrar hæðir.  

Maddonnan á Miðnesheiði  Þannig skynja ég Biblíumyndirnar hennar Sossu. Þær hafa þann styrkleika að tala mjög skýrt til okkar við fyrstu sýn – formin eru afgerandi og skýr. Ekki fer heldur á milli mála hvaða frásagnir liggja til grundvallar í hverju tilviki. En styrkileiki þeirra að mínu mati er ekki síst fólginn í því að undir hinu tvívíða formi sem penslarnir hennar Sossu draga upp er að finna dýpri merkingu og tilvísanir.   Verkin eru umfangsmikil. Þau sverja sig í ætt við önnur málverk listamannsins ekki síst hvernig persónurnar sem málaðar eru hafa bæði einfalda andlitsfleti en um leið persónueinkenni sem draga fram í þeim sérstöðuna. Þannig veita smávægileg sérkenni innsýn í tilfinningar þeirra og hugsun.   Yfirskriftin að þessari dagskrá er Madonnan á Miðnesheiði. Heiti það á að ramma inn þessa tvennu sem birtist í verkunum – hið tímalausa og algilda táknmál trúarinnar sem virðist hafið yfir mörk tíma og rúms og svo hið persónlega og nálæga umhverfi sem listamaðurinn ólst upp í og þekkir.  

Biblíumyndirnar hennar Sossu  Í lýsingu á verkunum rifjar Sossa upp heimsóknir sínar í sunnudagaskólann hjá sr. Birni föður sínum. Af frásögninni að dæma hefur þetta verið nokkurs konar listviðburður fyrir verðandi listakonu. Börnin fengu fágæti í hendur – litprentaða mynd upp úr einhverri frásögn Biblíunnar sem hafði þá verið til grundvallar þann daginn. Með myndina í höndunum og frásögnina lifandi í huganum hafa þau svo haldið út úr helgidómnum þar sem ævintýraland bernskunnar beið.  

Í heiðinni hér sunnan við kirkjuna voru kálgarðar og órækt og svo ögn lengra í burtu, flugvöllur og herstöð með framandlegu yfirbragði. Fjaran og bergið voru á hina höndina, beitningaskúrar, net og freyðandi öldurnar. Í fjarska Reykjanesfjallgarðurinn og í norðrinu tróndi Snæfellsjökull eins og dyr að ókunnum heimi. Himinninn speglar sig í jökulhettunni líkt skáldið orti svo eftirminnilega um.   Biblíumyndirnar fylgdu börnunum út úr kirkjunni og inn í þetta umhverfi. Svo þegar æskan birtist í afturskininu fá þessi tengsl nýja merkingu og nýja vídd. Biblíumyndirnar eru ekki bara frásagnir og litir heldur líka vegarnesti sem átti eftir að móta og skapa einstakling, einstaklinga og samfélag með miklu ríkari hætti en nokkur gerði sér grein fyrir á þeim tíma. Þetta var hinn andlegi kompás sem átti eftir að veita leiðsögn og stóð fyrir sínu þegar landakort og leiðarvísar misstu gildi sitt og urðu úreld. Þarna gengur Maddonan inn á sjónarsviðið – inn á MiðnesBiblíumyndirnar hennar Sossuheiðina. Básana, fjöruna eða aðra þá staði sem eru umgjörð bernskunnar.  

Kristur barnatrúarinnar Málverkið af Kristi þar sem hann les fyrir börnin talar sérstaklega inn í þær aðstæður. Þau feðgninin Sossa og sr. Björn hafa ritningarstaðinn úr Markúsarguðspjalli, 10. kafla, sem yfirskrift yfir því verki. Það er textinn sem við lesum þegar börn eru færð til skírnar:   Menn færðu börn til Jesú, að hann snerti þau, en lærisveinarnir átöldu þá. Þegar Jesús sá það, sárnaði honum, og hann mælti við þá: Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki. Sannlega segi ég yður: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma. Og hann tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau.   Kristur barnatrúarinnar birtist þarna á málverkinu. Kristur er svo yfirmáta blíðlegur að það er nánast eins og yfir honum séu kvenlegir drættir. Hárið fellur sítt niður á axlir, vanginn er skegglaus, axlirnar grannar og kyrtillinn hvíti minnir helst á kjól. Þarna er hann sannarlega ekki í því hlutverki sem lærisveinar hans sáu hann í – eins og greinir í frásögninni – fjarlægur og upphafinn fræðari sem hafði síst af öllu tíma fyrir börnin. Nei, hann er hinn mildi Kristur, sá sem gefur sér tíma og miðlar dýrmætum boðskap á næman og blíðlegan hátt. Nánast eins og kvennaguðfræðingur drægi fram hina móðurlegu hlið guðdómsins sem hlúir að hinu smáa.   Ólafur bóndi Sossu benti mér á í samtali að fyrirmyndin að þessari uppstillingu er styttan af Jóni Þorkelssyni sem stendur skammt frá Njarðvíkurkirkju. Tengingin við Thorchillius er skemmtileg. Þarna renna saman biblíusagan, kirkjusagan og bernskusagan. Njarðvíkingurinn sem ferðaðist um landið með Ludvig Harboe og vann þrekvirki að málefnum kirkju og mennta um miðja 18. öld. Fyrir hans tilhlutan lærðu börn að lesa og draga til stafs og beitti hann sér fyrir því að kirkjan á Íslandi gengi í gegnum nýja siðbót og skerpti á köllun sinni og boðun.  

Litirnir í málverkinu  Litirnir eru að sama skapi áberandi í þessu umhverfi. Grasið er þar í forgrunni og áhorfandinn stendur sjálfur á flötinni þar sem hann virðir fyrir sér myndina. Græni liturinn á myndinni er djúpur og ráðandi á myndfletinum. Hann er algengastur í litrófi kirkjuársins. Flesta sunnudaga erum við með grænt á altari og messuklæði prestsins eru einnig í þeim lit. Grænn er litur þroska og vaxtar. Það er gróandinn sjálfur og það sem bætist og eflist. Grænn er litur vonarinnar sem er einkenni þess sem ekki er orðið, þess sem á svo stutta fortíð en svo langa framtíð. Og svo eru börnin, íklædd jarðarlitunum, eins og jurtir sem vaxa upp úr grasinu sem Kristur situr á. Sjálfur er Kristur íklæddur hvítum lit sem í kirkjunni er litur hreinleika og gleði. Hvítt er ráðandi í kirkjunni á hátíðsdögum. Og af honum geislar hvítum bjarma sem kemur fram á andliti eins barnsins sem þarna situr. Órætt djúpið og hafið hafa yfir sér svipaða tóna. Þau renna saman í eitt ef frá er talið bergið norðan við Keflavík sem var svo fagurlega upplýst í gærkvöldi gengur inn í hafið. Svo sést móta fyrir Snæfellsnesinu þar fyrir handan. Sjálfur jökullinn blasir við í heiðríkjunni. Í minningunni eru góðir dagar jú oft sólardagar hvernig svo sem viðraði!  

Eins og barn Loks er það hugsunin sem birtist í orðum Krists sem nær vel að fanga þau tengsl listar og trúar sem hér voru til umræðu í upphafi: „Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma,“ segir Kristur. Að taka við Guðs ríki eins og barn er að taka við því sem gjöf, taka við því af auðmýkt þess sem veit að sumt verður ekki metið til fjár eða vegið út frá framlagi vinnu og verka.

Að taka við einhverju eins og barn er að leyfa sér að verða fyrir hughrifum, fyllast furðu á því sem fyrir skilningarvitin ber í stað þess að mæta því af hversdagslegum vana og hugsunarleysi. Grísku heimspekingarnir töluðu gjarnan um það að furðan og undrunin væri lykilinn að aukinni þekkingu og með sanni má segja að það sé hlutverk listamannsins að vekja okkur til umhugsunar og upplifunar á því sem vaninn hefur rænt öllum lit og öllu lífi. Það barnslega hugarfar er vafalítið rótin að baki þessum orðum Krists. Þar liggja enn ein stefnumót listarinnar og trúarinnar.

Þetta málverk hæfir vel til umfjöllunar við upphaf þessarar samveru vegna þess að í því eru þættirnir svo skýrir sem einkenna sýninguna. Barnæskan og umhverfi hennar og svo biblíusagan – og ef til vill sú mynd sem hún hefur kallað fram í huga lítillar stúlku sem á hana hlýddi: Styttan af manninum sem las fyrir börnin við hlið gömlu kirkjunnar í Njarðvík.

Sossa hefur boðið okkur upp á einstaka túlkun á biblíufrásögnum sem hefur yfir sér persónulega og staðbundna sýn á algildan boðskap Biblíunnar. Ég vil fyrir hönd okkar sem hér þjónum þakka henni fyrir að hafa auðgað umhverfi okkar með verkum þessum og hvet ykkur öll hér að lokinni dagskrá að gera verkunum góð skil.