Að vera – eða vera ekki - með Guði

Að vera – eða vera ekki - með Guði

Það er eins og við séum stödd í miðri bíómynd. Undur og stórmerki eiga sér stað, Jesús Kristur kominn aftur með mætti og mikilli dýrð (Mt 24.30), sem konungur í hásæti og englarnir allt um kring. Allar þjóðir heims samankomnar, sem mikill árstraumur, fólkið flæðir að, ys og þys – tónmálið voldugt, trommur og lúðrar. Eftirvænting í loftinu. Hvað verður?

Frétt dagsins

“Vilja banna umskurð” er yfirskrift fréttar dagsins í gær (forsíða Morgunblaðsins 25.11.06). “Hópur íslamskra fræðimanna hefur lýst því yfir að umskurður kvenna gangi gegn boðum íslams og sé að auki árás á konur”. Fram kemur að meðal fræðimannanna séu “Mohammed Sayed Tantawi, einn helsti kennimaður súnníta, og Sjeik Ali Gomaa, einn virtasti sérfræðingur um íslam í heiminum í dag”. Lagt er til að umskurður kvenna verði bannaður með öllu að viðurlögðum refsingum og mun úrskurðurinn bindandi.

Nái þessi kjarkmikla ályktun íslömsku fræðimannanna fram að ganga er stigið afar mikilvægt skref í baráttunni gegn limlestingu kvenna, sem hlýtur að teljast eitt helsta baráttumál þeirra sem hlú vilja að mannréttindum og hafna ofbeldi. Í því sambandi má líka minna á að í gær var hrundið af stað alþjóðlegu sextán daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi sem stendur fram til alþjóðlega mannréttindadagsins 10. desember.

Við sem kristnir einstaklingar og sem kirkja, hendur og fætur Krists í þessum heimi, hljótum að fagnað þessum fréttum og leggja okkar að mörkum, beint eða óbeint, með því að beita áhrifum okkar á stjórnvöld, með því að sýna fórnarlömbum ofbeldis stuðning í verki, með því að endurskoða viðhorf okkar sjálfra og framkomu alla.

Leysum fjötra rangsleitninnar

Nú er jólafastan framundan – síðasti sunnudagur kirkjuársins í dag og sunnudagarnir framundan helgaðir undirbúningi komu Krists með tilheyrandi tónlist og ljósadýrð. Sú hlið aðventunnar sem fastan er gleymist þá gjarnan, en orð Drottins hjá Jesaja spámanni (58.6-8) geta verið okkur veganesti:

Nei, sú fasta, sem mér líkar, er að leysa fjötra rangsleitninnar, láta rakna bönd oksins, gefa frjálsa hina hrjáðu og sundurbrjóta sérhvert ok, það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu, hýsir bágstadda, hælislausa menn, og ef þú sér klæðlausan mann, að þú þá klæðir hann og firrist eigi þann, sem er hold þitt og blóð.

Þá skal ljós þitt bruna fram sem morgunroði og sár þitt gróa bráðlega, þá mun réttlæti þitt fara fyrir þér, dýrð Drottins fylgja á eftir þér.

Guðspjall dagsins

Og þá að guðspjalli dagins. Það er eins og við séum stödd í miðri bíómynd. Undur og stórmerki eiga sér stað, Jesús Kristur kominn aftur með mætti og mikilli dýrð (Mt 24.30), sem konungur í hásæti og englarnir allt um kring. Allar þjóðir heims samankomnar, sem mikill árstraumur, fólkið flæðir að, ys og þys – tónmálið voldugt, trommur og lúðrar. Eftirvænting í loftinu. Hvað verður? Hvað gerir hann, hvað segir hann? Og eftirvæntingin snýst í undrun og háreisti, ringlulreið, óhljóð og læti þegar gríðarlegur fólksfjöldinn skilst að í tvo hópa. Meiri trommur, strengirnir þandir til hins ýtrasta í ómstríðu máli tónanna.

Svo ekkert. Algjör þögn meðan beðið er úrskurðar konungs.

Lína tímans

Í lexíunni og pistlinum er líka dregin upp mynd. Það er mynd hinnar nýju sköpunar: Sjá, ég skapa nýjan himin og nýja jörð... Það var bjargföst trú Ísraelsmanna að Guð myndi endurreisa sköpun sína sem var undirorpin fallvaltleikanum, eins og segir í pistlinum. Þar er líka talað um þjáningar þessa tíma og ánauð forgengileikans og lexían minnist á gráthljóð og kveinstafi.

Tími pistilsins er tími þrárinnar, vonarinnar, biðtíminn, og þann tíma lifum við enn. Tími lexíunnar er framtíðin, tími gleði og fögnuðar. Tími guðspjallsins er þarna mitt á milli, þegar Mannsonurinn kemur aftur eins og elding sem leiftrar frá austri til vesturs (Mt 24.27) og veldur algjörri umbreytingu, frá hinu fyrra til hins nýja, lausn úr ánauð til dýrðarfrelsis Guðs barna. Kristin trú skilur tímann ekki sem hringlaga endurtekningu heldur sem línu, feril sem á sér upphaf – og endi.

Biðtíminn í Bagdad

Við þekkjum okkur sjálf í biðtímanum. Um það þarf ekki að fara mörgum orðum. Vísindamenn segja okkur að sjálft vistkerfið líkt og stynji af kvöl yfir þeim skaða sem manneskjan hefur valdið því í stað þess að reynast hlutverki sínu trú, ráðsmennskuhlutverkinu sem skaparinn fól henni í upphafi vega. Og þjáningar fólks um allan heim eru ómælanlegar, hvort sem það er í Bagdad, Dafur eða á einhverju heimilinu hér í sókninni þar sem missir, sjúkdómar, skortur eða ofbeldi af einhverju tagi setur mark sitt á daglegt líf.

Samt er veröldin ekki tómur táradalur, langt í frá. Við fáum oft að skyggnast inn í tíma guðsríkisins og gleðin sanna og fögnuðurinn er – Guði sé lof! – alls ekki langt undan á venjulegum degi. Kraftaverkin eiga sér stað allt um kring, í litlu barni sem lúrir í fangi pabba síns og á allt sitt undir vernd hans og mömmu; í fegurð sólaruppkomu og sólarlags, sem við höfum fengið að njóta hér syðra í stillum undanfarinna daga; í ástinni sem kviknar í hjörtunum hvað sem öllu amstri líður.

Kraftaverk trúarinnar

Trúin er eitt slíkt kraftaverk. Við höfum næsta litla haldbæra vissu um tilvist Guðs, fáar vísindalegar sannanir. Samt erum við mörg svo lánsöm að geta ekki annað en trúað og fáum að leggja rækt við trúna í samfélagi við Guð og fólkið í kring um okkur.

Hvernig trúin verður til verður fátt um fullyrt. Reyndar las ég um daginn að trúargenið hefði fundist – að hæfileikinn til að trúa væri erfðafræðilega skilyrtur! Ég sel það ekki dýrara en ég keypti, ekki frekar en fréttina um að efnishyggjufólk væri ekki jafn hamingjusamt og fólk sem minna legði upp úr veraldlegum gæðum – eða könnunina sem sýndi fram á að auðugt fólk gæfi hlutfallslega minna af fjármunum sínum en fólk sem minna hefði handanna á milli. Allt er þetta þó vel hugsanlegt og rímar reyndar vel við hugsun kristninnar um að safna sér fjársjóðum á himnum (Mt 6.19-21).

Að leggja fólki lið

Eitt af því sem kristin trú lítur á sem aðalsmerki sitt er hvatningin til að leggja fólki lið. Þetta var inntak lífs og boðunar Jesú og þessu hefur kristin kirkja, hverju nafni sem hún annars nefnist í trjálundi trúfélaganna, leitast við að miðla í orði og verki gegn um aldirnar.

Kristið fólk hefur frá upphafi hlúð að sjúkum, gefið fátækum af eigum sínum, stuðlað að læsi og menntun og jafnvel haft forystu um vöggustofur, eins og Hjálpræðisherinn, okkar góði nágranni hér í Dómkirkjunni, hafði á Íslandi og víðar í heiminum. Orð Jesú í guðspjalli dagsins eru eitt af því sem hefur verið leiðarljós í því starfi (Mt 25.35-36,40): Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín... Sannlega segi ég yður, það allt sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.

Og þá erum við komin aftur að myndinni miklu, mynd efsta dags, umbreytingartímans, dómsins, þar sem sauðirnir eru skildir frá höfrunum, hinir blessuðu frá hinum bölvuðu, þar sem sumir ganga inn til gleðinnar og fagnaðarins en aðrir ekki.

Verkin og vanrækslan

Tökum eftir því að báðir hópar verða mjög hissa yfir þeim mælikvarða sem Jesús leggur til grundvallar úrskurðinum: “Herra, hvenær sáum við þig í þessum aðstæðum?” Þetta sýnir okkur að það er hugarfarið sem gildir – hugurinn að baki góðu verkunum og vanrækslunni. Góðverk spretta fram af góðum huga, af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá (Mt 7.20) - og vanrækslan stafar af vöntun á kærleika og kjarki til að framkvæma. Kjarkur íslömsku fræðimannanna sem vilja banna umskurn kvenna getur verið okkur hvatning til góðra verka, þar sem það á við í okkar lífi.

Mælikvarðinn er hvernig komið er fram við náungann – hvort við reynumst Jesú trú í lífsmáta okkar. Þarna fléttast saman trú og verk (sbr. Jk 2.14-26). Trúin er hvatinn til góðu verkanna, sem aftur sýna væntumþykjuna til Jesú á virkan hátt. Hugurinn að baki góðu verkunum er trúin á Frelsarann. Og þessi verk eru hvorki mikil né flókin, krefjast ekki mikilla fjárútláta eða fínnar menntunar. Þau standa öllum opin, öllum sem hafa augu til að sjá neyðina allt um kring og hjarta til að þjóna í hinu smáa.

Það er ægilegt til þess að hugsa hve vanrækslan vegur þungt á vogarskálum lífs og dauða. Hér eru ekki talin upp nein fólskuverk, heldur bent á þá harðúð hjartans sem ekki kemur til hjálpar í neyð. Það merkir auðvitað ekki að gefið sé grænt ljós á gróusögur og þjófnað og tryggðarof og ofbeldi og morð. Það er svo augljóslega rangt og í hróplegu ósamræmi við boðorðin. En hugarfarið er hér í brennidepli og það sem gæti farið fram hjá jafnvel trúrækinni sál: Það sem þú gerir ekki getur verið jafn alvarlegt og það sem þú gerir rangt.

Dómurinn

Það er eins og fólk dæmi sig sjálft. Oft tökum við út dóminn hér, í þessu lífi, með einum og öðrum hætti. Röng breytni veldur vanlíðan. Ástleysið dæmir sig frá ástinni. Það er ekki endilega Guð sem dæmir okkur. Við gerum það líka sjálf. Líf sem gefur ekki af sér til annarra dæmir sig sjálft, útskúfar sig sjálft frá elskuríki Guðs, þar sem fyrirgefningin býður hverjum sem þiggja vill opinn faðm sinn.

Áminning guðspjallsins er því þessi: Gáum að því hvernig innræti okkar speglast hið ytra, í verkum eða vanrækslu. Það dæmir okkur annað hvort til veruleika með Guði - eða án Guðs.

Lokaorðin á Jesaja spámaður (58.9.b-11):

Ef þú hættir allri undirokun, hæðnisbendingum og illmælum, ef þú réttir hinum hungraða brauð þitt og seður þann, sem bágt á, þá mun ljós þitt renna upp í myrkrinu og niðdimman í kringum þig verða sem hábjartur dagur.

Þá mun Drottinn stöðugt leiða þig og seðja þig, þótt þú sért staddur á vatnslausum stöðum, og styrkja bein þín, og þá munt þú verða sem vökvaður aldingarður og sem uppsprettulind, er aldrei þrýtur.