Skjól við altarið

Skjól við altarið

Jesús biður okkur ekki að leysa hungur heimsins. Hann biður okkur ekki að koma í veg fyrir stríð og styrjaldir. Hann spyr aðeins: Hvað hafið þið að gefa? Hann krefst ekki meira af okkur. Og fólkið í Laugarneskirkju, sem sá neyð vina sinna, ótta og angist yfir því að þurfa að fara aftur í óbærilegar aðstæður, það gat gefið þeim þetta: Samstöðu, stuðning, skjól. Atburðurinn í Laugarneskirkju var vanmáttug tilraun til að benda á ömurlega framkomu íslenskra stjórnvalda við hælisleitendur, tilraun til að verja vini sína fyrir armi laganna, sem var vissulega í lagalegum rétti, en, að því er við teljum mörg: í siðferðilegum órétti.

Mig langar að tala um það hér í dag, sem gerðist í Laugarneskirkju fyrir stuttu þegar lögreglan sótti tvo hælisleitendur sem þar höfðu leitað griða. Þið hafið örugglega öll fylgst með þeirri umræðu og hversu skiptar skoðanir eru. Og hér inni eru örugglega sumir sem styðja þessa aðgerð og aðrir ekki. Og sumum sárnar það að kirkjan skuli hafa komið lögreglunni í þá aðstöðu að þurfa að beita ofbeldi við altarið.

Jesús er úti í óbyggðum með mannfjöldann. Og allt í einu átta menn sig á einu meiriháttar vandamáli. Fólkið er svangt. Og enginn matur til handa öllu þessu fólki. Mig langar að draga fram þrjá punkta:

Jesús segir: Ég kenni í brjósti um mannfjöldann. Jesús ber umhyggju fyrir fólkinu, hann sér þörf þeirra og finnur hjá sér ábyrgð til að leysa hana. Hann segir ekki: Þau geta bara sjálfum sér um kennt! Þetta er fullorðið fólk, það ber ábyrgð á sjálfu sér.

Lærisveinarnir sjá vandamálið: Hvar ættum við eiginlega að fá mat handa öllu þessu fólki? Þetta er óyfirstíganlegt vandamál. Jesús hefði alveg eins getað beðið þá að leysa allt hungur heimsins!

Jesús spyr: Hvað hafið þið mörg brauð? Hann ætlast ekki til meira af lærisveinum sínum en að þeir gefi það sem þeir hafa, hann biður þá ekki að gera kraftaverk.

Ef við heimfærum þetta upp á aðstæðurnar í Laugarneskirkju:

Jesús ber umhyggju fyrir þeim sem hingað leita í neyð. Hann segir ekki: ,,þau geta sjálfum sér um kennt!” Vissulega getur það verið að sum sem hingað koma séu ekki aleg heiðarleg. Kannski var drengurinn sem sagðist vera 16 ára í raun og veru 19 ára. Skiptir það virkilega einhverju máli? Og kannski er sumt af þessu fólki ekki í bráðri lífshættu, heldur að leita að betra lífi. Eða kannski bara lífi, eins og afgönsku mæðgurnar sem bíða þess núna að vera sendar úr landi. Og kannski er það bara að leita að lífi fyrir börnin sín, eins og nígeríska konan sem sér fram á að vera send til Nígeríu með börnin sín tvö, sem hafa ekki einu sinni komið þangað.

Oft sjáum við bara vandamálin: Við getum ekki tekið á móti öllum flóttamönnum sem hingað leita. (Er það virkilega rétt?) Er ekki nóg pláss hérna? Vantar okkur ekki vinnuafl? Það fylgja þessu fólki svo mikil vandamál. Já, örugglega, oft er þetta fólk sem hefur hrakist úr einu landi í annað og er haldið áfallastreituröskun, kvíða og alls kyns öðrum kvillum.

Og við segjum líka gjanan. Það væri nær að hjálpa þessu fólki heima hjá sér! Koma í veg fyrir stríð, til að það þurfi ekki að flýja. Já, svo satt! En við gætum alveg eins sagt: Það væri nær að koma í veg fyrir hungur heimsins, heldur en að ég þurfi að gefa nágranna mínum sem sveltur mat.

Jesús biður okkur ekki að leysa hungur heimsins. Hann biður okkur ekki að koma í veg fyrir stríð og styrjaldir. Hann spyr aðeins: Hvað hafið þið að gefa? Hann krefst ekki meira af okkur. Og fólkið í Laugarneskirkju, sem sá neyð vina sinna, ótta og angist yfir því að þurfa að fara aftur í óbærilegar aðstæður, það gat gefið þeim þetta: Samstöðu, stuðning, skjól. Atburðurinn í Laugarneskirkju var vanmáttug tilraun til að benda á ömurlega framkomu íslenskra stjórnvalda við hælisleitendur, tilraun til að verja vini sína fyrir armi laganna, sem var vissulega í lagalegum rétti, en, að því er við teljum mörg: í siðferðilegum órétti. Aðgerðirnar í Laugarneskirkju eru aldeilis ekki yfir gagnrýni hafnar. Það má vel vera að það hefði verið hægt að gera eitthvað öðruvísi. En þær voru leið aðstandendanna til að sýna samstöðu þeim sem hefur alltaf upplifað einsemd og varnarleysi. Þetta var það sem þau gátu gert, og þau tóku áhættu, buðu valdinu byrginn og buðu fram það litla sem þau höfðu, skjól við altarið.

Þegar við færum Jesú það sem við eigum, hvort sem það eru sjö brauð af borðum okkar, eða altarisborðið sjálft sem skjól hinna varnarlausu, þá gerast kraftaverk. Ég veit ekki hvert kraftaverkið var í Laugarneskirkju. Það á kannski eftir að koma í ljós. Málefni hælisleitenda urðu alla vega mjög áberandi í umræðunni og það er vel. Og kannski kveikti þetta vonarneista hjá mönnunum sem voru fluttir úr landi, neista sem er nógu öflugur til að halda þeim á lífi í ömurlegum aðstæðum. Það eitt og sér væri kraftaverk.

Við lifum á viðsjárverðum tímum. Kirkjan hefur um langa hríð búið í þægilegri sambúð með ríkinu á Íslandi. Kannski verður sú sambúð ekki eins þægileg í framtíðinni. Því að kirkja sem lendir aldrei upp á kant við valdið, er þæg kirkja. Hlýðin kirkja, kirkja sem hægt er að misnota í þágu valdsins. Þannig kirkja er ekki kirkja Krists.

Að þegja andspænis illskunni er illska í sjálfu sér. Dietrich Bonhoeffer

Dýrð sé Guði, amen.