Besti dagur ársins

Besti dagur ársins

Það er auðvitað engin ástæða til þess að taka þennan dag svona hátíðlega. Sumardagurinn fyrsti getur líka verið eitt dæmið af mörgum um sérvisku þessarar skrýtnu þjóðar.

Biðjum: Þú Guð, sem sumar gefur jörð og gleði barna þinna, gef allri þinni eignarhjörð þá elsku' og gleði' að finna og lúta þér í lotning, trú, að lífi öllu hlúa, sem systkin saman búa. (Karl Sigurbjörnsson)

Kæru vinir, er þetta besti dagur ársins? Hver á ekki frábærar minningar frá þessum tiltekna degi? Hver man ekki eftir því að hafa á hinum fyrsta sumardegi horft fram á veginn og fundið það á skinni sínu og beini að eitthvað dásamlegt er í vændum.

Eða ekki?

Sumarið er auðvitað tíminn eins og Bubbi söng hér um árið. Það er tími töfra og fyrirheita. Það er tíminn þar sem náttúran verður okkur aðgengileg og við getum reynt á krafta okkar og útsjónarsemi í gróandi hlíðum og uppi á háum tindum þar sem útsýnið er yfir alla sköpunina. Já, það er nánast eins og að standa við rætur grænnar hlíðar að vakna að morgni hins fyrsta sumardags – stíga út, draga djúpt andann, draga fána að húni og heilsa þessari árstíð sem nú er sannarlega gengin í garð.

Eða ekki?

Það er auðvitað engin ástæða til þess að taka þennan dag svona hátíðlega. Sumardagurinn fyrsti getur líka verið eitt dæmið af mörgum um sérvisku þessarar skrýtnu þjóðar. Hér er allra veðra von, jafnvel um hásumar getur himinninn verið þakinn gráum skýjum og vart líður það ár að ekki rísi eimyrja upp úr jörðinni svo að dæmi eru um að allir jarðarbúar hafi fundið fyrir þeirri ókyrrð sem hér á sér rætur. Hverjum datt í hug að byrja sumarið um miðjan aprílmánuð? Var þetta hugsað sem brandari?

Hlýja eða kaldhæðni?

Svona er nú hægt að líta lífið ólíkum augum. Við getum litið á tækifærin. Haft húmor fyrir því sem ekki stenst væntingar og rúmast ekki innan áætlunar. Við getum litið á mótlæti sem krefjandi áskorun og fundið í brjósti okkar kraft þegar hindranir birtast á vegi okkar. Við getum líka verið kaldhæðin, jafnvel um hásumar, og séð allt það sem miður fer í kringum okkur. Það hvernig við lítum á lífið okkar hefur alveg ótrúlega mikið að segja um það hvernig við lifum því.

Sumardagurinn fyrsti er nokkurs konar áminning um það hversu mikilvægur hugsunarhátturinn okkar er. Þetta er dagurinn sem við fögnum sumri. Í dag er hann bjartur og skýr. Þetta er einn af þessum dögum sem við eigum eftir að minnast í framtíðinni. Dagur þar sem skátar klæðast einkennisbúningum og marséra í fylkingu hingað í helgidóminn. Þetta er dagur eftirvæntingar. Hvað ber sumarið í skauti sér?

Takk!

Hérna áðan heyrðum við frásögn af nokkrum mönnum sem allir gengu í gegnum sömu reynsluna. Þeir voru holdsveikir – ekki þeir einu í guðspjöllunum. Holdsveiki er skelfilegur sjúkdómur og í umhverfi þar sem fáfræði er ríkjandi voru hinir holdsveiku brottrækir, útlagir enda olli fötlun þeirra hryllingi meðal fólksins. Kristur sýndi þeim allt aðra framkomu. Þessi fyrirmynd okkar kristinna manna sýndi gerólíka hegðun. Hann átti samfélag við þá og hann læknaði mein þeirra. Sú var einmitt raunin í sögunni sem við hlýddum á hér áðan. Og hann sendi þá í burtu, sagði þeim að sýna sig kennilýðnum. Já, allir upplifðu þeir það sama en hegðun þeirra var svo ólík. Níu þeirra héldu bara áfram sína leið en einn þeirra sneri aftur til þess að þakka. Og það að hann skyldi kunna að þakka gerði hann svo ólíkan hinum.

Það er ekki að ástæðulausu að við hlýðum á þessa frásögn á hinum fyrsta sumardegi. Sagan segir frá mönnum sem fengu miklar gjafir rétt eins og við fáum að njóta í lífi okkar og erum aldrei minnt eins rækilega á og hinn fyrsta sumardag. Sumir láta sér það í léttu rúmi liggja en þessi eini fylltist þeirri kennd sem skiptir okkur svo miklu máli – það er þakklætið.

Boðskapur sögunnar er sá að við eigum að vera þakklát. Lífið geymir góðar gjafir. Sumarið er yfirfullt af gjöfum. Það eru gjafir uppskerunnar sem við sjáum að kemur upp úr moldinni. Það eru gjafir ævintýra sem sumarinu fylgja þar sem birtan leikur við okkur jafnvel allan sólarhringinn og endalaust má upplifa ný tækifæri. Það eru gjafir minninga sem við eignumst ef við nýtum tímann okkar vel og kunnum að fanga þau augnarblik sem líf okkar er samansett úr.

Þakklætið

Það sem skilur þarna á milli er í raun þakklætið. Og það er ekki bara Kristur sem bendir á það. Það er löngu ljóst að þakklætið er einn af stærstu og mikilvægustu lyklunum að sjálfri lífshamingjunni. Þakklátt fólk er hamingjusamara, heilbrigðara og nýtur meiri velfernaðar en þeir sem ekki færa þakkir. Það að mæta hverjum degi í þökk opnar augu okkar fyrir öllu því góða sem við eigum. Já, kæru vinir, er þetta ekki besti dagur ársins? Alveg örugglega. En þetta er ekki sá eini. Við ættum að leyfa þessari hugsun að leika um hugann í hvert sinn er við opnum augun á nýjum degi. Ekki bara í heiðríkju og langþráðum fuglasöng á fyrsta degi sumars. Heldur líka í myrkri skammdegis. Ekki bara þegar fer að hylla í sumarfrí, ferðalög og ævintýri með hækkandi sól. Heldur líka á tímum mótlætis, veikinda, prófrauna. Þeir dagar geta jafnvel haft meiri áhrif á líf okkar en aðrir. „Er þetta ekki besti dagur ársins?“ Jú, svo sannarlega. Því hver dagur sem Guð gefur okkur er að sönnu góður dagur.