Um kristniboð og safnaðatengsl

Um kristniboð og safnaðatengsl

Nýafstaðið kirkjuþing gerði merka samþykkt um kristniboð sem er í raun útfærsla á áður gerðri samþykkt um innri má kirkjunnar þar sem segir.
fullname - andlitsmynd Jakob Ágúst Hjálmarsson
28. nóvember 2011

Nýafstaðið kirkjuþing gerði merka samþykkt um kristniboð sem er í raun útfærsla á áður gerðri samþykkt um innri má kirkjunnar þar sem segir:

Sóknin hlynni að samfélagi umhyggju og kærleika, láti sér annt um að vernda mannslífið á ólíkum skeiðum þess, og bera þannig vitni um hina kristnu von og kærleika með líknarþjónustu, svo og með aðild að hjálparstarfi og kristniboði kirkjunnar. (Samþykktir um innri mál kirkjunnar, II. kafli)

Í samþykktinni er þetta ítrekað með þessu hætti:

Þjóðkirkjan í sveit og borg er hluti af þessari sendiför, þáttur í alheimssamfélagi kristninnar. Hennar meginhlutverk er í nærsamfélaginu en hún ber líka skyldur og ábyrgð gagnvart þeim stóra heimi sem Guð skapar og elskar og gaf son sinn til að frelsa...

Þjóðkirkjan lítur á kristniboðið sem málefni kirkjunnar allrar, hjartans mál og hugsjón í sérhverjum söfnuði sínum.

Þessu ber að fagna og vona að með þessu sé markaður ásetningur sem verði með tímanum allra safnaða. Þjóðkirkjan hefur brugðist að þessu leyti allt of lengi og látið full tómlega yfir viðleitni áhugamanna um að gegna þessari skyldu sérhvers kristins safnaðar. En dveljum ekki við það sem að baki er en seilumst fram til hins ókomna með hollum ásetningi, og ekki er eins og það sé neinum ofverkið að sinna þessu í einhverju mæli. Þetta er spurning um hugarfar, hugarfar hlýðni við boð Drottins, skilning á alvarleika þess að setja ljós okkar undir mæliker.

Ég hlýt að fagna sérstaklega þessum lið ályktunar kirkjuþingsins:

...koma á formlegum vinatengslum við söfnuði á kristniboðsakrinum, taka að sér einstök verkefni, t.d. framlag til skólastarfs eða til að launa prests eða kennara.

Þess vegna hvet ég til þess að kirkjufólkið kynni sér það tilboð Kristniboðssambandsins að veita atbeina að tengslamyndun af þessu tagi og býð á þeim vettvangi aðstoð mína við presta og söfnuði. Nú þegar eru í gangi á annan tug safnaðatengsla við Mekane Yesu kirkjuna í Eþíópíu og systur/dóttur kirkju okkar í Pókot í Keníu og fleiri í athugun.

Ekki gera ekki neitt!

Frekari upplýsingar:

http://www.sik.is/safnadartengsl-vid-afrikukirkjur