Svarthöfði

Svarthöfði

Ein spurning sem vaknar varðar til dæmis friðhelgi, öryggi og trúfrelsi einstaklingsins. Hingað til hefur trúað fólk getað gengið til kirkju hér á landi án þess að að því sé vegið með ógnunum eða hæðni fyrir trú sína.

Yfirskrift þessarar hugleiðingar minnar í dag ber nafnið Svarthöfði. Mörgum kann án efa að þykja það undarlegt hugleiðingarefni  í kirkju, en aðra býður þó án efa í grun hvers vegna nafn þessarar kvikmyndapersónu er til umræði hér og nú. Fyrir þá fáu sem ekki vita, þá er Svarthöfði ævintýrapersóna úr Stjörnustríðskvikmyndunum svokölluðu sem gerðu garðinn frægan fyrir nokkrum árum. Svarthöfði var forystusauður illu aflana í ævintýrinu, hafði  upphaflega verið góður en seldi sálu sína myrkrinu og barðist fyrir brautargengi þess allt til hins síðasta. Í þeirri baráttu beitti hann öllum hernaðarmætti hins illa gegn fámennu og illa búnu liði ljóssins. En eins í í öllum sönnum bandarískum ævintýramyndum þá sigraði ljósið að lokum. Og þótt hið myrka afl Svarthöfði hafi verið mikið þá var ekki laust við að kvikmyndaáhorfendur hálfpartinn vorkenndu karl anganum. Hann var í raun fangi myrkursins, haldinn illum anda, hálfur maður og hálf vél, brá aldrei grímu sinni, hafði ekkert að markmiði nema að eyða ljósinu og efla mátt og vald hins illa, kærleikslaus og vinalaus.

En meira að segja Svarthöfði snerist til ljóssins á banabeði og afneitaði hinu illa valdi sem  hafði fangað hann í net sitt.

Já, eins og margan efalaust grunar þá kom þessi kvikmyndapersóna og aumleg örlög hennar upp í huga mér nú vegna þess að í liðinni viku setti Svarthöfði óvæntan svip á upphaf prestastefnunnar sem haldin var í Reykjavík.

Ja, kannski ekki Svarthöfði sjálfur, heldur nafnlaus persóna sem brá yfir sig grímu hans og gerfi – og komst fyrir tilstilli ljósmyndara Morgunblaðsins í fréttirnar fyrir vikið. Prestastefna hófst með messu í Dómkirkjunni og helgigöngu presta eins og hún hefur gert frá alda öðli. Þegar prestar gengu í helgigöngunni til kirkju frá safnaðarheimili Dómkirkjunnar, svartklæddir prestar í hempum fremstir, biskupar skrautbúnir rekandi lestina,  þá brá svo við að mönnum virtist sem Svarthöfði sjálfur hefði skellt sér í gönguna þarna í sólskininu–eða reynt það allavega.

Reyndar var það svo að hinn grímuklæddi hljóp í fyrstu fram fyrir alla prestana og þar með krossinn líka sem borinn var í fylkingarbrjósti. Tók hinn grímuklæddi sér sem sagt stöðu fremstur í flokki og brá á loft sverði sínu í veg fyrir krossinn og hæddist þannig að helgasta tákni kristinna manna.

Morgunblaðið sýndi ekki mynd af þessu sverðaglamri Svarthöfða. Þótti mönnum sem fremstir gengu í helgigöngunni nóg um og einhverjir viku hinum grímuklædda vinsamlega, en af festu, til hliðar, þar sem hann síðan stóð kauðslegur á meðan prestar gengu hjá brosandi að honum og vinkandi . Öllum fannst þetta sem sagt bara broslegt þarna í góðviðrinu enda höfðu fæstir séð hvernig hinn grímuklæddi hagaði sér við krossinn.

Þegar gangan var farin hjá hélt sá grímuklæddi í humátt á eftir. Við dyr Dómkirkjunnar var honum aftur á móti endanlega snúið frá. Auðvitað var hann velkominn í kirkjuna, en grímulaus. Ef hann hefði gengið til kirkju hefði hann þurft að taka grímuna ofan og því þorði vinurinn greinilega ekki.

Enda kom síðar í ljós að hér var ekki á ferð kankvís menntaskólanemi í grímubúning, heldur fulltrúi hóps sem kallar sig Vantrú - þeir Vantrúarmenn játuðu alla vega á sig uppátækið í fjölmiðlum og lýstu verknaðinum á hendur sér.

Svo einkennilega vill til að ýmsir þeir sem telja sig vantrúaða kjósa að vega úr launsátri að kirkjunni og öðrum trúarbrögðum, og skríða síðan í felur í skjóli nafnleysis, rétt eins og Svarthöfðinn þarna við Dómkirkjuna í blíðviðrinu. Auðvitað er þetta ekki algilt um alla trúleysingja og vantrúaða. En að þessu sinni kaus fulltrúi Vantrúar einmitt þá aðferð - að sögn talsmanns þeirra.

Enn hefur grímuberinn ekki gefið sig fram.

Þó prestum hafi þótt þetta brosleg uppákoma og þó enginn hafi vitað hvað fulltrúa Vantrúar gekk til, enda þorði hann ekki að standa fyrir máli sínu undir nafni, þá skilur þessi atburður eftir nokkrar spurningar í hugskotinu sem vert er að íhuga.

Ein spurning sem vaknar varðar til dæmis friðhelgi, öryggi og trúfrelsi einstaklingsins. Hingað til hefur trúað fólk getað gengið til kirkju hér á landi án þess að að því sé vegið með ógnunum eða hæðni fyrir trú sína. Það sama á við um alla aðra trúarhópa – almennt virða menn rétt fólks til að stunda trú sína í friði. Nú er slík friðhelgi rofin. Þó tilburðir Vantrúarmannsin í gerfi Svarthöfða hafi verið hlægilegir, þá réðst hann að friðhelgi og trú yfir 90% landsmanna þegar hann hæddist að krossinum og brá fyrir hann sverði sínu. Og geta menn treyst því að næst verði ekki vegið að prestum og kirkjufólki með alvarlegri hætti? Eða fólki úr öðrum söfnuðum? Eiga múslímar á hættu aðkast við föstudagsbænir sínar? Verður sumarblóti ásatrúarmanna hleypt upp?

Er á það hættandi að senda börnin ein í sunnudagaskólann næsta haust?

Verður setið fyrir þeim?

Og við hljótum öll að spyrja okkur eftir uppákomu hins grímuklædda fulltrúa Vantrúar við upphaf prestastefnu hvort það sé þannig þjóðfélag sem við viljum, þar sem öfgar og fordómar einstefnumanna meina fólki að lifa eðlilegu lífi og iðka trú sína – eða trúleysi - í friði?

Hinn broslegi Svarthöfði, skokkandi á eftir prestunum, var ágætis áminning um þetta. Hann minnti líka táknrænt á hin myrku öfl tilverunnar sem eru á ferð mitt á meðal okkar og reyna stöðugt að tefja fyrir ljósinu og hinu góða. Besta ráðið gegn þeim er að gera eins og prestarnir í helgigöngunni- hlæja að þeim, víkja þeim til hliðar í vinsemd en af fullri festu og halda síðan sínu striki án þess að láta þau hafa nokkur áhrif á sig.

Þá er þeim líka komið fyrir þar sem þau eiga best heima og engn skaða – utangátta og hjáróma.

En sterkasta táknið sem Svarthöfði minnti á er ótti afla myrkursins við hús Guðs - kirkjuna. Hinn grímuklæddi þorði ekki að taka ofan grímuna, sýna sitt rétta andlit og ganga í eigin nafni inn í Dómkirkjuna þegar helgigangan kom þangað, heldur stóð hann eftir sneyptur og lúpulegurur.

Í kirkjunni hefði hans sanna andlit komið í ljós.

Þar hefði sannleikurinn um hann komið í ljós.

Og það óttaðist hann. Rétt eins og nátttröllin í þjóðsögunum sem urðu að steini þegar sólin skein á þau, eða þegar kirkjuklukkurnar hringdu, þannig varð Svarthöfði að engu við kirkjudyrnar. Alla vega mundi enginn eftir honum stundinni lengur þegar hin dýrðlega messa var hafin í Dómkirkjunni og allir kirkjugestir sungu hinn 800 ára gamla sálm „Heyr himna smiður“..

Þannig eru Svarthöfðar samtímans þegar öllu er á botnin hvolft lítið annað en nátttröll og þeim er í raun vorkunn, rétt eins og aumlegum Svarthöfða Stjörnustríðsmyndanna.

Stattu og vertu að steini en engum þó að meini, ári minn Kári, og korriró. Slík eru þeirra döpru örlög.

Guðspjall dagsins um bjálkann og flísina sem allir þekkja, minnir kristna menn síðan á að dæma ekki Svarthöfða þessa heims – heldur biðja fyrir þeim, biðja þess að þeir nái áttum og að biðja um vernd gegn ofstopa þeirra, árásum, fáfræði og fordómum. Kirkjan sjálf hefur í gegnum aldirnar átt sína Svarthöfða, sína myrku fursta. Og oft hafa hin myrku öfl reynt að taka völdin í kirkjunni. Fyrir þeirri hættu þurfum við í kirkjunni alltaf að vera vakandi og sjálfsgagnrýnin.

Og þessi er þá boðskapur dagsins sem guðspjallið undirstrikar. Umfram allt: Skoðum verkin okkar – felum þau Guði í bæn – og framgöngum í ljósinu – óttalaus. Og verum miskunnsöm eins og Faðir okkar himneskur er miskunnsamur. Amen.

Verið miskunnsöm eins og faðir yðar er miskunnsamur.

Dæmið ekki og þér munuð eigi verða dæmd. Sakfellið eigi og þér munuð eigi verða sakfelld. Fyrirgefið öðrum og Guð mun fyrirgefa yður. Gefið og yður mun gefið verða. Góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur mun lagður í skaut yðar. Því með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða." Þá sagði Jesús þeim og líkingu: „Hvort fær blindur leitt blindan? Munu ekki báðir falla í gryfju? Ekki er lærisveinn meistaranum fremri en hver sem er fullnuma verður eins og meistari hans. Hví sérð þú flísina í auga bróður þíns en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu? Hvernig færð þú sagt við bróður þinn: Bróðir, lát mig draga flísina úr auga þér, en sérð ekki bjálkann í þínu auga? Hræsnari, drag fyrst bjálkann úr auga þér og þá sérðu glöggt til að draga flísina úr auga bróður þíns.