Gefum kölska frí í kosningunum

Gefum kölska frí í kosningunum

Einhver okkar geta kosið biskup, fleiri geta kosið forseta en öll getum við kosið að vanda okkur í því hvernig við tölum um náungann, um þau sem gefa kost á sér. Öll getum við kosið að sjá að við erum greinar á sama tré, þiggjum næringu af sama stofni. Við getum öll kosið að sjá Krist í þeim sem við mætum og þeim sem við tölum við og um, í raunheimum sem í netheimum.

Þetta er mikið kosningavor. Í kirkjunni eru biskupskosningar i þremur atrennum - ja, reyndar fjórum vegna tæknilegra mistaka Advania - og ég skynja þegar dálitla kosningaþreytu í kollegahópnum. Og svo er það forsetavalið sem við köllum lýðræðishátíð þegar við erum jákvæð en skömmumst annars yfir fjölda framboða og eða einhverjum kandídatanna.

Ég fylgist svolítið með auglýsingum um framboð á netinu, svona eftir því sem algrími þóknast að ljá mér sýn - reyni jafnvel að plata algríminn með því að leita uppifólk sem ekki er úr mínum kjarna - fólk sem er ósammála mér - og gera athugasemdir hjá þeim. Þá næ ég að sjá meira frá þeim. Það er gott að vera ekki bara í sínum bergmálshelli. En það sem hefur vakið athygli mína - og reyndar fyllt mig nokkurri skelfingu - er hve illvíg samræðan er - hvað það er mikið um illmælgi og hreinlega níð. Frá fólki sem er ósköp venjulegt fólk en finnst í lagi að deila alls kyns ljótum póstum, ryðja út úr sér óhróðri um aðra og ætla þeim að vera handbendi djöfulsins. 

Nú vil ég taka fram að ég er alls ekki á móti samræðu og rökræðu og heldur ekki því að fólki líki við aðra frambjóðendur en ég kýs sjálf. Sem betur fer ríkir lýðræði hér og skoðanafrelsi. En frelsi fylgir ábyrgð. Höldum okkur við málefnin og gefum kölska frí. Þess vegna var svo gott að lesa lexíu dagsins frá spámanninum Sakaría, sem var uppi á fimmtu og sjöttu öld fyrir Krist, 

Þetta er það sem ykkur ber að gera:
Segið sannleikann hver við annan
og fellið dóma af sanngirni
og velvilja í hliðum yðar.
Enginn yðar ætli öðrum illt í hjarta sínu
og fellið yður ekki við meinsæri.

Og á öðrum stað segir hann: 

Fellið réttláta dóma 
og sýnið hver öðrum miskunnsemi og samúð. 
Níðist hvorki á ekkjum, munaðarleysingjum, 
aðkomumönnum né fátæklingum 
og hyggið ekki á ill ráð 
hver gegn öðrum í hjarta yðar.

 

Þegar Sakaría talar um að fella dóma af sanngirni og velvilja í borgarhliðunum er það af því að þar, í borgarhliðunum, má segja að yfirvaldið hafi unnið sitt starf. Þar fóru líka viðskipti fram, þar var dæmt og svo framvegis. Og dómarnir vörðuðu oft stöðu þeirra sem minna máttu sín, sem gátu ekki séð fyrir sér, ekki greitt skuld, sem voru fátæk, ekkjur, munaðarlausir og aðkomumenn. Þetta er alltaf fólkið sem spámennirnir nefna, fólkið sem við eigum að styðja og sýna miskunn. Ekki að byrja á að ætla þeim allt illt sem lítur út öðru vísi en við sjálf.

Þessi orðræða sem ég er að gagnrýna á samfélagsmiðlum er engin nýjung. Ranglátir dómar eru ekkert nýtt - eða það að ætla öðrum illt. Gýfuryrði eru það ekki heldur og ef ég á að vera alveg hreinskilin þá gat upphafsmaður okkar kirkjudeildar, sjálfur Lúter, verið afar orðljótur í deilum. Hann sendi til dæmis frá sér rit þar sem hann fann páfa og hans pótintátum allt til foráttu og notaði þá gjarnan samlíkingar úr meltingarveginum - prump, kúkur og rass - þetta var eitthvað sem iðulega kom fyrir í bæklingum hans. Þegar við lesum það núna þykir okkur þetta ekki það besta eða gáfulegasta sem herrann sagði, langt frá því. En það sem er svolítið áhugavert við tíma Lúthers annars vegar og okkar tíma hins vegar er að í báðum tilvikum er um að ræða tíma þar sem ný tækni hafði rutt sér til rúms. Á tíma Lúters var það prenttæknin, á okkar tímum netið og samfélagsmiðlarnir. Prenttæknin á 16. öld þýddi að í stað þess að handskrifa blöð og bækur sem náðu örfáum var allt í einu hægt að prenta blöðunga og bæklinga í þúsundavís og dreifa. Vinsælir pennar voru lesnir - og lesnir fyrir þá sem ekki gátu lesið - og ræddir. Þeir voru skreyttir sláandi myndum og eins og við vitum er það gjarnan þeir sem eru mest krassandi sem fá mestan lestur. Þetta var alveg bylting á borð við netbyltinguna á okkar tímum. Í dag nýta fjölmiðlar sömu tækni með fyrirsögnum frétta sem kallaðar eru smellbeitur eða click baits, þ.e. eitthvað sem hljómar svo svakalega að maður verður að smella á linkinn. Og á okkar tímum getur hver einstaklingur hér í okkar heimshluta átt sinn eigin litla fjölmiðmiðil - starað í tölvuskjáinn og sent straum af fréttum um eigið líf, líðan eða skoðanir. Og deilt alls kyns hugsunum frá öðrum og rætt við fólk sem hann þekkir ekki og mun líklega aldrei hitta. 

Hvort tveggja hefur mikla og góða möguleika í tengslum við miðlun og fræðslu og auðvitað samskipti. En það sem miðlarnir eiga sameiginlegt er að við þurfum ekki að horfast í augu við þá sem lesa boðskap okkar - þá sem við erum að tala við - eða tala um. Og þegar við sjáum ekki fólkið þá er léttara að afmennska það. 

Orðræða í guðfræðilegum deilum lúterskra og kaþólskra hefur breyst heilmikið síðan á dögum Lúters og þau rit sem eru gefin út eru mun hófstilltari en fyrr. Það er vissulega léttir! Kannski þurftu menn tíma til að læra á þessa nýju tækni. Og kannski þurfum við tíma til að læra á nýja tækni líka. 

Textar dagsins í dag hvetja okkur í þá átt. Bein og skýr ræða Sakaríasar spámanns í Lexíunni, orð Páls um anda Krists í pistlinum og svo orð Jesú um að við séum greinar á vínviðnum sem er hann. Og að við eigum að bera ávöxt. Fermingarmessur vorsins eru nýliðnar. Þegar börn eru fermd í kirkjunni okkar spyrjum við þau: Vilt þau leitast við að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins? Mér þykir mjög vænt um þessa spurningu - og alveg sérstaklega um orðin "leitast við" sem við þurfum iðulega að útskýra fyrir fermingarbörnunum. Það er að reyna - og þetta er eilífðarverkefni. Alla daga erum við, sem greinar á sama vínvið, að leitast við að þiggja næringu okkar frá orðum Krists og láta það birtast í orðum okkar og verkum. Og þar með talið að sjá Krist í samferðarfólki okkar, í ekkjunni, í munaðarleysingjanum, í útlendingnum.

Ég segi stundum stutta sögu í fermingum af því hvað það þýðir að sjá Krist í náunganum. Hún er um klaustur sem var frekar afskekkt. Það hafði verið vinsæll staður ferðalanga til að koma og íhuga og dvelja um tíma enda staðsett á kyrrlátum og fallegum stað. En ferðamönnum hafði fækkað og allt virtist vera á niðurleið. Munkarnir voru oft að pirra sig hver út í annan, kvörtuðu hver undan öðrum við ábótann, baktöluðu hver annan og kannski var það ein af ástæðum þess að færri komu. Það var eitthvað að andrúmsloftinu. Það var spennuþrungið og einkenndist af öfund og pirringi. 

Ábótinn, sá sem var leiðtogi í klaustrinu, hafði miklar áhyggjur af þessu. Einn daginn sat hann og stundi yfir ástandinu við vin sinn sem var reyndar rabbíi, það er að segja gyðingaprestur. „Áttu einhver ráð handa mér“, spurði ábótinn.

Þau átti rabbíinn ekki. En þegar þeir kvöddust sagði hann. „Ég verð samt að segja að mig dreymdi merkilegan draum í nótt. Það var eiginlega vitrun. Mig dreymdi að einn ykkar væri Kristur.“

Ábótinn gekk af stað til baka og hugsaði um þessi orð. Einn þeirra Kristur? Nei, það gæti bara ekki verið. En hvað ef það væri nú satt? Hver ætli það væri þá? Hann vissi að það gat ekki verið hann sjálfur. Og varla var það príorinn, sá geðvondi fauskur. Eða hvað? Kannski hefði Kristur bara falið sig svona vel og væri að kenna hinum munkunum umburðarlyndi. Eða bróðir Jeremías, sem var alltaf veikur – gæti þetta verið hann? Var Kristur að æfa þau í umhyggju? Og svona hélt hann áfram að fara yfir alla í klaustrinu og allir voru gallagripir – en samt gat hann ekki útilokað neinn. Þegar hann kom í klaustrið kallaði hann munkana á sinn fund og sagði þeim frá draumi rabbíans. Næstu daga breyttist ýmislegt því að munkarnir voru stöðugt að velta fyrir sér hver þeirra væri Kristur. Og enginn gat útilokað neitt en auðvitað vildu þeir ekki koma illa fram við neinn, hann gæti verið Kristur. Svo að þeir fóru að biðja hver annan fyrirgefningar á misgjörðum, sættast, gæta þess að sýna öllum virðingu. Og smám saman breyttist andrúmsloftið í klaustrinu og ferðamenn sem slæddust þangað fundu að þar ríkti kærleikur og virðing. Og þeim fór að fjölga á ný sem komu þangað til að sækja sér hvíld í amstri dagsins, og andlega næringu. Og staðurinn fór að blómstra.

Það eru kosningar framundan og við getum kosið. Einhver okkar geta kosið biskup, fleiri geta kosið forseta en öll getum við kosið að vanda okkur í því hvernig við tölum um náungann, um þau sem gefa kost á sér. Öll getum við kosið að sjá að við erum greinar á sama tré, þiggjum næringu af sama stofni. Við getum öll kosið að sjá Krist í þeim sem við mætum og þeim sem við tölum við og um, í raunheimum sem í netheimum.