Hyggindi, heimska og hús

Hyggindi, heimska og hús

Hefði Jesús haft gaman af húsa- og hýbíla-blöðum samtíðar? Já, alveg örugglega, en hann hefur alltaf haft mestan áhuga á lífsbótum fólks, að tryggja að það búi svo heimili sitt að það hafi lífsmátt í öllum aðstæðum. Fegurð heimilis er mikilvæg en sálarkraftur þó enn mikilvægari. Prédikun í Neskirkju 17. júlí 2005 fjallaði um hús, innviði og mannfólk og fer hér á eftir.

Ætli Jesús Kristur hefði haft gaman af tímaritunum Bo Bedre eða Hús og hýbýli eða kannski Casa? Ætli hann hljóti ekki að hafa haft áhuga á húsbúnaði og innréttingum? Hann var jú alinn upp á smiðsheimili, hefur örugglega hjálpað til við að smíða stóla, borð, skápa, tól og tæki. Myndlistarmenn hafa um aldir gert myndir, sem sýna Jesú handlangara í smiðjunni hjá Jósep. Kvikmyndagerðarmennirnir hafa einni sýnt ungan Jesú í smiðju Jóseps, eins og Mel Gibson í Passion of the Christ. Hann hefur hlustað á rabb um gerð stóla og húsgagna. Við hefðum því sjálfsagt ekki komið að tómum kofunum hjá honum, ef við hefðum spurt um innréttingar.

En undarlegt er það, að í því safni ræðuhluta og ræðubrota Jesú, sem varðveist hafa er ekkert um borð og stóla og húsmuni. Ég man ekki eftir neinu húsgagnafyrirtæki, sem hefur gert eitthvert Jesúorð að sínu slagorði eins og Silli og Valdi gátu notað Jesúsetninguna: “Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá.” Vissulega er afar oft sagt frá því í guðspjöllunum að Jesús hafi setið við borð, sest til borðs og jafnvel velt um borðum. En aldrei gerði hann stóla og borð að sérstöku umræðuefni. En hann skildi samhengi þeirra og gerði borðhald að miðju samfélags kristinnar kirkju.

Hús og umhverfi

Af hverju að velta vöngum yfir húsamálum og búnaði í dag? Jú guðspjallstextinn, úr þeirri frægu Fjallræðu , er um hús, húsagerð og fólk. Það er dæmisaga Jesú um mennina tvo, sem byggðu hús. Annar var heimskur en hinn vitur. Hinn heimski hugði ekki að grundvelli, byggði hús sitt á ótraustum grunni og þegar veður versnaði og flóð skall á húsinu skolaði vatnsaginn undirstöðunni burtu og húsið féll. Hinn vitri reisti sitt hús á traustum grunni og vandaði til verka. Þegar flaumurinn skall á hans húsi stóð það veðrið af sér og ekkert hreyfði undirstöður. Húsið stóð því. Hér er það húsasmiðurinn sem talar. Jesús hafði sem sé ekki aðeins verið í skápum og innbúi, heldur líka lært eða heyrt hvernig menn byggðu til að vel færi.

Aðstæður í Ísrael eru slíkar að rignt getur hressilega, rétt eins og á Íslandi þessa helgi. Farvegir fyllast. Einu sinni var ég á ferðalagi niður í Jórdandal og á leið suður til Dauðahafsins. Þá rigndi svo að mórauður flaumurinn sópaði burtu vegi og öllu sem fyrir varð. Þá skildi maður það samhengi sem Jesús vísaði til. Hygginn byggingarmaður varð að muna eftir öllum hugsanlegum álagsaðstæðum. Í því hafa margir brugðist. Við þekkjum hve víða illa hefur verið byggt, ekki verið hugað að verstu landsskjálftum, sem riðið geta yfir, ekki verið nægilega járnað, ekki verið lesin flóðasaga svæðis. Svo dynja ósköpin yfir, heilu þorpin hafa farið í flóðum eða leirveltu, gosi eða öðrum hamförum.

Vandað - til að standa

Jesús minnir okkur á að huga vel að grunni og undirstöðum. Við sjáum sjaldnast það sem þar er, en það skiptir svo sannarlega máli hvaða járn er notað, hvernig sökklarnir eru og hver grunnurinn er.

Sigurður Bjarni vandar verk

Ég var að hjálpa frænda mínum að ganga frá húsgrunni norður í landi fyrir tveimur vikum og þá rifjaðist enn einu sinni upp fyrir mér hversu mikilvægt bindingsverkið er þótt það hverfi í steypu og verði ósýnilegt. Ég dáðist að hversu nákvæmur hann var við frágang járna, hversu natinn hann var að þjappa möl í grunni vel, hversu nákvæmlega hann mældi til að allt væri sem réttast, hversu lagnir voru lagðar til að rennsli yrði rétt, hversu vel hann fór yfir teikningar til að tryggja að K-stuðull járna væri réttur og járnastyrkurinn yrði í samræmi við þarfir. Hann ræddi við arkitektinn til að plötuþykktin yrði nægileg að styrk. Allt skyldi vel gert og standast öll átök, beljanda og flóð. Það skal vanda sem lengi skal standa er viska kynslóðanna. Hvað eru hyggindi og hvað heimska?

Skálholtsjárnið

Skálholtshátíð er í dag. Á hverju sumri er hún haldinn á þeim sunnudegi sem næstur er Þorláksmessu á sumri sem er 20 júlí. Hátíðin er kennd við hinn sæla Þorlák sem Þorláksmessa á vetri er líka kennd við. Fyrir siðbreytingu var sumarhátíðin meginviðburður og fjöldi fólks lagði leið sína í Skálholt til að minnast dýrlingsins góða og halda hátíð. Hornsteinn Skálholtskirkju var lagður á Skálholtshátíð 1956 og sömuleiðis var hún vígð á Skálholtshátíð, sem bar reyndar upp á 21. júlí á vígsluárinu 1963.

Skemmtisaga frá byggingu kirkjunnar hefur gengið milli manna austur í Biskupstungum í hálfa öld. Ókjör af járni var flutt í Skálholt. Þá kom í ljós, að járnið var mikið ryðgað og leist mörgum svo á, að það væri illnýtanlegt. Dugmiklir einkaframtaksmenn voru fljótir til og buðu fram hóp af fólki til að pússa járnið með vírburstum. Smiðirnir gerðu sér grein fyrir að slíkt vinnulag myndi tefja verk og kosta mikið fé. Járnahreinsunarmennirnir fóru heim, en smiðirnir voru eftir og íhuguðu hvað gera skyldi. Þeim datt það snjallræði í hug að binda knippi af steypujárni aftan í jeppa, aka með það í eftirdragi út að Spóastöðum, sem er í nágrenninu, og síðan til baka. Þetta gerðu þeir og járnið slóst saman, mölin og sandurinn á veginum slípaði og nagaði ryðið af járninu. Þegar komið var úr ökuferðinni var járnið dregna orðið skínandi og slípað. Svona héldu þeir áfram um kvöldið og fram á nótt þar til allt járnið hafði verið dregið og hreinsað. Þegar vírburstarnir og eigendur þeirra mættu að morgni komu þeir að stæðunum skínandi björtum eins og þær hefðu komið beint úr aflinum. Það var eins og kraftaverk hefði orðið um nóttina. “Það var nú gaman að sjá á þeim upplitin þá,” sagði sögumaðurinn við mig áratugum seinna og hló. Svo fór járnið í kirkjuna. Ég hef séð marga jarðskjálftana sveifla til Skálholtinu öllu og mikil veður skella á staðnum. En kirkjan er vel grundvölluð á bjargi, hún er vel járnuð og vel byggð, alveg eins og meistarinn og byggingastjóri kirkjunnar í heiminum minnti á í Fjallræðunni forðum.

Hyggindin

Hver sem heyrir þessi orð mín og breytir eftir þeim, sá er líkur hyggnum manni, er byggði hús sitt á bjargi. Nú skall á steypiregn, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi, en það féll eigi, því það var grundvallað á bjargi.

Af hverju talar Jesús ekki um húsbúnað? Af hverju talar hann eins og byggingaverkfræðingur, um burðarþol, undirstöðu og vindþol? Jú auðvitað er þetta líkingasaga. En hún fjallar um grunnatriðin, um skipulagið og umhverfi lífsins. Er þar eitthvað sem varðar okkur í nútímanum? Getur verið að við þurfum að staldra við og spyrja okkur um grunn okkar og forsendur tilveru okkar? Fyrir nokkrum árum var talað um að ekki væri lengur hægt að halda fram grunnforsendum í siðferði, hugmyndum og þjóðfélagi. Allt væri á floti í flaumi tímans, sem kenndur var við póst-módernisma. Allt væri afstætt og ekkert algildi til eða alla vega væri ekki ljóslega hægt að færa rök að þessi gildarammi væri betri en hinn. Hvort sem fólk hefur lagt sig eftir þessum kenningum eða lesið eitthvað um þær hafa þær síast inn í lífstraum samfélagsins. Margir lifa svo sem ekkert sé heilagt, ekkert sé ómögulegt og ekkert sé raunverulega bannað. Einstaklingshyggjan, sjálfsmiðlægnin, neysluafstaðan og sjálfsdekrið er grímulaust í líferni margra - alltof margra.

Það sem stenst

Svo kemur stórviðrið, skjálftinn í lífinu eða beljandi hörmungar og skella á fólki. Þá kemur í ljós hvort innviðirnir eru einhverjir, þetta byggingaverkfræðilega mikilvæga í lífi einstaklinganna. Gildi fólks skipta máli, reyndar bæði í meðlæti en ekki síst í mótlæti. Stóru viðmiðin, trúarefnin, haldreipin, vonarefnin, trúartraustið skipta máli á góðu dögunum en ekki síður á dögum sorga og hörmunga, í áföllum og árásum. Þegar allt virðist fljóta burt, allt fer á versta veg, þegar þú ert alein eða aleinn skiptir máli hvernig burðarþol sálar þinnar er, hvernig byggt hefur verið í áratugi upp innra traust, sem þolir ágjafir og áraun.

Þetta er það sem Jesús spyr þig um. Hvernig ertu hið innra? Er í þér sálarstyrkur sem þolir sveigju og áraun? Hugsaðu um það?

Hefði Jesús haft gaman af Bo bedre og húsbótablöðum samtíðar? Já, alveg örugglega, en hann hefur alltaf haft mestan áhuga á lífsbótum fólks, að tryggja að það búi svo heimili sitt að það hafi lífsmátt í öllum aðstæðum. Fegurð heimilis er mikilvæg en sálarkraftur þó enn mikilvægari. Húsbætur eru ákjósanlegar en þó er mikið burðarþol sálar forgangsmál.

Ertu hyggin eða heimskur? Ertu hyggin eða heimsk? Hvernig er þitt hús? Við þurfum að tengja okkur við hinn himneska byggingaverkfræðing og tryggja þar með skínandi sálarstyrk og dugandi burðarþol í lífi og eilífð.

Amen